Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Bók gegn bókum

Bók gegn bókum

Bók gegn bókum

Eftir fréttaritara Vaknið! á Ítalíu

HVERS vegna eru margir á móti Biblíunni? Í sumum löndum má ef til vill rekja svarið til þess ráðs sem menn notuðu til að hafa hemil á „villutrú“ — skrárinnar yfir bannaðar bækur. Hvernig má það vera?

Kaþólska kirkjan tók prentlistinni með fögnuði. Nokkrir páfar lofsungu hana jafnvel og sumir í klerkastéttinni kölluðu hana „guðdómlega list“. En brátt rann upp fyrir klerkaveldinu að prentverkið var notað til að útbreiða hugmyndir gegn kaþólskri trú. Þess vegna lögðu nokkur biskupsdæmi í Evrópu hömlur á prentun í lok 15. aldar. Prentleyfið (einkum það sem rómversk-kaþólska kirkjan veitti) var innleitt og árið 1515 gaf fimmta Lateranþingið út leiðbeiningar til að hafa taumhald á prentun. Lögbrjóta var hægt að bannfæra. En kirkjunni reyndist erfitt, einkum eftir siðaskiptin, að hindra dreifingu prentaðra rita og bóka sem hún taldi hættuleg fyrir trú og siðferði. Í lok 16. aldar vonuðust menn innan Páfagarðs til þess „að prentun yrði lögð af til margra ára“.

Það er ekki lengra síðan en 1951 að ítalskur jesúíti sagði að til þess að hindra „þetta gríðarlega og ógeðfellda flóð sýktra bóka“ þyrfti kirkjan skrá yfir bannfærðar bækur sem gilti fyrir alla kaþólska menn. Rómverski rannsóknarrétturinn var stofnaður árið 1542. Fyrsta opinbera verkefnið var að gefa út tilskipun gegn ritfrelsi á sviði trúarbragða. Þegar Gian Pietro Carafa, fyrrverandi yfirrannsóknardómari, varð Páll páfi fjórði árið 1555 skipaði hann umsvifalaust nefnd til að taka saman lista yfir bannaðar bækur. Fyrsta algilda skráin yfir bannfærðar bækur var síðan prentuð árið 1559.

Hvers konar bækur voru bannaðar?

Skránni var skipt niður í þrjá flokka. Í þeim fyrsta voru höfundar bóka sem allar voru bannaðar óháð efni. Í öðrum flokki voru heiti einstakra bannaðra verka eftir höfunda sem annars voru ekki dæmdir úr leik. Og í þeim þriðja var langur listi af ónafngreindum verkum sem voru bönnuð. Þessi skrá innihélt 1107 áfellisdóma og fordæmdi ekki eingöngu rithöfunda sem skrifuðu um trúarleg efni heldur einnig þá sem skrifuðu annars konar bókmenntir. Í viðauka var listi yfir bannaðar útgáfur af Biblíunni og tekið var sérstaklega fram að allar þýðingar á þjóðtungum væru bannaðar.

Enda þótt staðbundin bönn hefðu áður verið í gildi segir Gigliola Fragnito, kennari í nútímasögu við Parmaháskólann á Ítalíu, að „þessi ákvæði, er höfðu áhrif á alla kaþólska menn, hefðu verið fyrsta opinbera yfirlýsingin sem kirkjan gerði gegn því að prenta, lesa og eiga bókina helgu á þjóðtungunum“. Skránni var andmælt jafnheiftarlega af bóksölum, útgefendum og ríkisstjórnum sem höfðu hag af prentverki. Af þessum og ýmsum öðrum ástæðum var ný útgáfa fyrirskipuð og gefin út árið 1564, eftir kirkjuþingið í Trent.

Bókaskrárráð var stofnað 1571 til að sjá um endurskoðun á skránni. Um tíma voru allt að þrír aðilar sem höfðu umboð til að ákveða hvaða verk ætti að banna — páfaráðið, bókaskrárráðið og guðfræðingur páfastóls. Útgáfa þriðju bókaskrárinnar dróst nokkuð, meðal annars vegna þess að ábyrgðin skaraðist og skoðanamunur var á því hvort biskupar eða rannsóknardómarar á staðnum ættu að hafa meiri völd. Bókaskrárráðið hafði séð um undirbúning skrárinnar og Klement áttundi um birtingu hennar í mars 1596, en dreifingin var stöðvuð að beiðni páfaráðs þangað til skráin yrði þannig úr garði gerð að hægt væri að banna allan biblíulestur á máli almennings.

Með þessari útgáfu tók skráin á sig meira eða minna varanlega mynd þrátt fyrir stöðuga endurskoðun fram eftir öldum. Margir mótmælendur, sem sáu verk sín á listanum, töldu skrána vera „bestu handbókina yfir áhugaverðustu bækurnar“. Samt verður að segjast að á þessum tíma voru hugmyndir mótmælenda að mestu leyti þær sömu og kaþólskra þegar kom til kasta ritskoðunar á bókum.

Skráin hafði mjög skaðleg áhrif á menningu sem „einangraðist algerlega“ í löndum eins og Ítalíu, segir sagnfræðingurinn Antonio Rotondò. Annar sagnfræðingur, Guido Dall’Olio, segir að í samanburði við flest önnur svæði í Evrópu hafi skráin átt „einna mestan þátt í stöðnun ítalskrar menningar“. Þótt kaldhæðnislegt sé varðveittust sumar bækur vegna þess að þær voru settar á sérstakan stað, svokallað víti, sem var í mörgum kirkjubókasöfnum ætlaður til að geyma bannað lesefni bak við lás og slá.

Þegar almenningsálitið fór að hafa meiri áhrif samhliða upplýsingastefnunni varð „mesta kúgunartæki, sem nokkurn tíma hefur verið notað gegn ritfrelsi“, að láta undan. Árið 1766 skrifaði ítalskur ritstjóri: „Bann rómversk-kaþólsku kirkjunnar ákveður ekki gæði bóka. Fólkið ákveður þau.“ Mikilvægi skrárinnar dvínaði og árið 1917 var bókaskrárráðið, sem sá um endurskoðun hennar, lagt niður. Frá 1966 er skráin „ekki lengur ígildi kirkjulaga með þeim áfellisdómi sem fylgdi henni“.

Biblían á þjóðtungum

Saga skrárinnar leiðir í ljós að af öllum „sýktum bókum“ hafði kirkjuveldið sérstaklega áhyggjur af einni bók — Biblíunni á máli almennings. Á 16. öld voru „um það bil 210 heildarútgáfur af Biblíunni eða Nýja testamentinu“ skráðar á listann, segir sérfræðingurinn Jesús Martinez de Bajunda. Á þeim tíma voru Ítalir kunnir fyrir að vera ákafir biblíulesendur. En ströng bönn skrárinnar við Biblíunni á þjóðtungunum gerbreyttu tengslum þjóðarinnar við orð Guðs. Fragnito segir: „Heilög ritning var bönnuð og tekin úr umferð þar sem hún var talin uppspretta trúvillu, og því fór svo að Ítalir rugluðu henni saman við skrif trúvillinga.“ Og hann bætir við: „Barnalærdómurinn var leiðin til sáluhjálpar fyrir kaþólska í Suður-Evrópu“ og „trúarleg fáfræði var tekin fram yfir trúarlega þekkingu.“

Það var ekki fyrr en árið 1757 að Benedikt páfi fjórtándi heimilaði lestur á ‚Biblíunni þýddri á þjóðtungunum með samþykki páfastóls‘. Ný ítölsk þýðing, byggð á latnesku Vulgataþýðingunni, var því loks gerð. Kaþólikkar á Ítalíu urðu reyndar að bíða til ársins 1958 þar til þeir fengu fyrstu heildarbiblíuþýðinguna sem var algerlega byggð á frummálunum.

Fragnito segir að nú á tímum séu það helst aðrir en kaþólikkar sem eru önnum kafnir við að „dreifa Ritningunni alls staðar“. Virkastir eru án efa Vottar Jehóva en þeir hafa dreift meira en fjórum milljónum eintaka af Nýheimsþýðingu Heilagrar ritningar á ítölsku. Þeir hafa þannig glætt kærleika til orðs Guðs í hjörtum hundruð þúsunda fólks. (Sálmur 119:97) Hvers vegna ekki að kynnast nánar þessari framúrskarandi bók?

[Mynd á blaðsíðu 12, 13]

Blaðsíður úr skránni yfir bannaðar bækur.

[Credit line]

Su concessione del Ministero per i Beni e le Attività Culturali.

[Mynd á blaðsíðu 14]

Ítölsk biblía frá 16. öld sem kirkjan bannaði.

[Mynd á blaðsíðu 14]

„Nýheimsþýðingin“ hefur glætt kærleika margra til orðs Guðs.