Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Gómsæt gjöf frá norðurhjara

Gómsæt gjöf frá norðurhjara

Gómsæt gjöf frá norðurhjara

Eftir fréttaritara Vaknið! í Svíþjóð

‚Hvað getum við fært vinum að gjöf sem er einkennandi fyrir landið okkar?‘ Við hjónin vorum að velta þessu fyrir okkur skömmu áður en við héldum að heiman frá Svíþjóð til að heimsækja vini á Englandi. Við ákváðum að færa þeim heimatilbúna múltuberjasultu. En okkur langaði líka til að gera gjöfina fræðandi svo að við bjuggum til merkimiða með fróðleik úr ýmsum heimildum og frá eigin brjósti. Eftirfarandi upplýsingar söfnuðust í sarpinn.

Hvað eru múltuber?

Múltuber, Rubus chamaemorus á latínu, er lágvaxin planta, aldrei hærri en 30 sentímetrar. Hver planta ber aðeins eitt hvítt blóm og eitt ber. Óþroskað er berið rautt og hart en verður sterkgult eða gulbrúnt þegar það þroskast. Nafnið múltuber er dregið af því hve mjúkt og safaríkt berið er þegar það er fullþroskað. Það vex vel í votlendi, aðallega í mýrum og freðmýrum á norðlægum slóðum. Í Svíþjóð þroskast berin venjulega þegar hausta tekur í ágústmánuði.

Gullið úr mýrinni

Samar hafa um aldaraðir tínt múltuber og geymt til vetrarins. Berin eru auðug af C-vítamíni og öðrum vítamínum, og þar sem þau innihalda náttúrlegt geymsluefni getur sultan geymst árum saman við lágt hitastig. Frumbyggjar norðurslóðanna lifðu aðallega á kjöti og fiski þannig að múltuberin voru mikilvægur vítamíngjafi fyrir þá. Engin furða að þau skuli hafa verið kölluð gullið úr mýrinni!

Nú á dögum er mikið tínt af múltuberjum og þau síðan seld til sultugerðar eða til sölu í matvöruverslunum. Á dæmigerðu ári eru til dæmis seld rúmlega þúsund tonn af múltuberjum í Svíþjóð — og allt er handtínt. Þeir sem eru duglegir við berjatínsluna, til dæmis börn í skólafríum, geta nælt sér í kærkomna vasapeninga með þessum hætti. Finnar hafa meira að segja sýnt múltuberinu þann heiður að hafa mynd af því á nýrri tveggja evru mynt sem þeir hafa slegið.

Mikið lostæti

Múltuberin eru súrsæt á bragðið og hafa ferskan keim. Hægt er að fá berin niðursoðin eða sultuð í sælkeraverslunum og öðrum matvöruverslunum í helstu borgum Evrópu og Bandaríkjanna. Einnig eru framleiddir líkjörar með múltuberjabragði. Eftirréttur úr ís með múltuberjum hefur oft verið á matseðlinum á hinum árlega hátíðarkvöldverði nóbelsverðlaunahafa í Stokkhólmi. Á fínum veitingastöðum er gjarnan borin fram heit múltuberjasulta með vanilluís. Og sultan þykir lostæti með sænskri ostaköku eða djúpsteiktum camembertosti og sem fylling í ávaxtabökur. Finnar framleiða gulleitan múltuberjalíkjör, og múltuberjavín kom nýlega á markað í Svíþjóð.

Ef þú átt einhvern tíma leið um svæði þar sem múltuber vaxa skaltu endilega tína svolítið af þeim og borða þau nýtínd, helst með svolitlum flórsykri og vænni slettu af þeyttum rjóma. Sennilega finnst þér þau jafnvirði þyngdar sinnar í gulli og finnur þig knúinn til að þakka skapara þínum fyrir þessa gómsætu gjöf.