Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig hefur okkur gengið að bjarga jörðinni?

Hvernig hefur okkur gengið að bjarga jörðinni?

Hvernig hefur okkur gengið að bjarga jörðinni?

TSJERNOBYL, Bhopal, Valdez og Þriggja mílna eyjan. Þessi nöfn kalla líklega fram í hugann myndir af umhverfisslysum sem hafa orðið víðsvegar í heiminum. Þau minna okkur einnig á að jörðin á í vök að verjast.

Ýmis yfirvöld og einstaklingar hafa varað við hættunum. Sumir hafa gripið opinberlega til aðgerða til að koma skoðunum sínum á framfæri: Breskur bókasafnsfræðingur hlekkjaði sig við jarðýtu til að mótmæla vegagerð á vistfræðilega viðkvæmu svæði; tvær frumbyggjakonur í Ástralíu komu af stað herferð til að mótmæla úranvinnslu í þjóðgarði — vinnslan var lögð niður. En þó að fólk vilji vel er verkum þeirra ekki alltaf vel tekið. Til dæmis hafði sovéskur flotaforingi áhyggjur af því að geislavirk efni færu að leka úr kjarnaofnum sokkinna kjarnorkukafbáta. Hann gaf því upp staðsetningu bátanna og var handtekinn fyrir vikið.

Ýmsar stofnanir og samtök hafa einnig varað við umhverfisógnum. Þar á meðal eru Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna og Grænfriðungar. Sumar þessara stofnana fjalla aðeins um umhverfisvandamál þegar þau tengjast starfi þeirra. Aðrar helga sig því að vekja athygli á umhverfismálum. Grænfriðungar eru þekktir fyrir að senda mótmælendur á „átakasvæði“ og vekja almenning til umhugsunar um málefni eins og hitnun jarðar, dýrategundir í útrýmingarhættu og skaðsemi erfðabreyttra dýra og plantna.

Sumir umhverfisverndarsinnar segjast nota „óhefðbundnar aðferðir til að vekja athygli á alþjóðlegum umhverfisvandamálum“. Þess vegna grípa þeir til aðgerða eins og að hlekkja sig við inngang sögunarverksmiðju til að mótmæla eyðingu fornra skóga. Annar hópur umhverfisverndarsinna mótmælti því að ákveðið land skyldi hunsa hvalveiðibann. Þeir gerðu það með því að standa fyrir utan sendiráð landsins með höfuðbúnað sem líktist stóru auga til að minna á að allur heimurinn væri að fylgjast með.

Það er af nógu að taka í umhverfismálum. Einstaklingar og stofnanir hafa til dæmis margoft varað við hættum vatnsmengunar. Samt sem áður er ástandið mjög slæmt. Einn milljarður jarðarbúa hefur ekki aðgang að hreinu drykkjarvatni. Samkvæmt tímaritinu Time „deyja 3,4 milljónir á hverju ári af sjúkdómum sem tengjast vatnsskorti eða menguðu vatni“. Loftmengun er álíka mikið vandamál. Í skýrslunni The State of World Population 2001 er sagt að „loftmengun verði 2,7 til 3 milljónum manna að bana á hverju ári“. Skýrslan bætir við að „loftmengun skaði meira en 1,1 milljarð manna“. Þar kemur einnig fram að „10 prósent öndunarfærasýkinga hjá börnum í Evrópu orsakist af svifryksmengun“. Já, vandamál sem tengjast grundvallarskilyrðum lífsins hafa farið versnandi þrátt fyrir viðvaranir og það sem gert hefur verið fram að þessu.

Mörgum finnst ástandið þverstæðukennt. Aldrei fyrr hefur slíkt magn upplýsinga um umhverfismál verið aðgengilegt. Fleiri einstaklingar og stofnanir en nokkru sinni áður vilja að tekið sé til hendinni í umhverfismálum. Ríkisstjórnir hafa komið á fót ráðuneytum sem eiga að vinna að því að leysa vandamálin. Og við höfum aðgang að meiri tækni en nokkru sinni fyrr til að hjálpa okkur að vinna á vandanum. En þrátt fyrir allt þetta virðist ástandið aðeins versna. Af hverju?

Eitt skref áfram, tvö aftur á bak

Tækniframfarir áttu að einfalda lífið og að sumu leyti hafa þær gert það. En á hinn bóginn eru það einmitt þessar „framfarir“ sem hafa ýtt undir umhverfisvandamál. Við kunnum að meta uppfinningar og umbætur sem iðnaðurinn hefur fært okkur en framleiðsla og notkun þessara uppfinninga stuðlar oft að umhverfisspillingu.

Bifreiðin er gott dæmi um það. Hún hefur gert ferðalög auðveldari og fljótlegri. Sennilega vilja fáir hverfa aftur til þess tíma þegar menn ferðuðust um á hestum og hestvögnum. En ferðamáti nútímans hefur líka valdið fjölmörgum vandamálum. Eitt af þeim er hitnun jarðar. Mennirnir hafa breytt efnasamsetningu andrúmsloftsins með því að nota uppfinningar sem gefa frá sér milljónir tonna af gastegundum. Þessar gastegundir eru sagðar valda gróðurhúsaáhrifum sem lýsa sér í hækkandi lofthita. Á síðustu öld hækkaði hitastig jarðar. Bandaríska umhverfisstofnunin sagði frá því að „10 heitustu ár 20. aldarinnar hafi öll verið á síðustu 15 árum hennar“. Sumir vísindamenn halda því fram að á 21. öldinni geti hiti jarðarinnar hækkað að meðaltali um 1,4 til 5,8 gráður á Celsíus.

Hækkandi hitastig getur einnig valdið öðrum vandamálum. Jöklar á norðurheimskautinu eru til dæmis að bráðna. Snemma árs 2002 hrundi 3250 ferkílómetra íshella á suðurskautinu. Yfirborð sjávar gæti hækkað töluvert á þessari öld. Þar sem þriðjungur jarðarbúa býr við sjóinn gæti fólk misst heimili sín og ræktarlönd af þessum sökum. Þetta gæti einnig valdið miklum vandræðum í borgum sem liggja við sjávarströndina.

Vísindamenn telja að hærra hitastig eigi eftir að stuðla að aukinni úrkomu og tíðari veðurfarsöfgum. Sumir halda því fram að fárviðri, eins og það sem gekk yfir Frakkland árið 1999, þegar 90 manns fórust og 270 milljónir trjáa eyðilögðust, sé aðeins mynd af því sem koma skal. Aðrir sérfræðingar telja að loftslagsbreytingar geti orðið til þess að sjúkdómar eins og malaría, beinbrunasótt og kólera breiðist út.

Dæmið um bifreiðina sýnir okkur hversu flóknar afleiðingar tæknin getur haft. Þó að uppfinningar einfaldi líf margra valda þær einnig fjölmörgum vandamálum sem hafa áhrif á líf fólks á margan hátt. Eins og fram kom í skýrslunni Human Development Report 2001 geta „öllum tækniframförum fylgt bæði kostir og áhætta sem ekki er auðvelt að sjá fyrir“.

Oft eru bundnar vonir við að tæknin leysi umhverfisvandamál. Umhverfisverndarsinnar hafa til dæmis lengi verið á móti skordýraeitri. Það leit því út fyrir að tæknin hefði komið sér vel þegar hannaðar voru erfðabreyttar plöntur sem áttu að minnka þörf á skordýraeitri. Maís var erfðabreytt til að ráða niðurlögum vissra lirfa án skordýraeiturs. Rannsóknir leiddu hins vegar í ljós að maísinn gat líka drepið kóngafiðrildi. Því má segja að „lausnirnar“ geri stundum meira ógagn en gagn og geti jafnvel valdið auknum skaða.

Geta stjórnvöld hjálpað?

Eyðing umhverfisins er stórt vandamál og stjórnir heims þurfa að vinna saman ef finna á lausn sem virkar. Það er hrósvert að sumir fulltrúar stjórnvalda hafa sýnt það hugrekki að koma með tillögur um betrumbætur. En raunverulegir sigrar í umhverfismálum eru sjaldséðir.

Dæmi um þetta er alþjóðlega ráðstefnan sem haldin var í Japan árið 1997. Þjóðir deildu um einstök atriði í milliríkjasamningi en hann kvað á um að draga ætti úr losun úrgangsefna sem eru sögð valda hitnun jarðar. Að lokum náðu þjóðirnar samkomulagi en það kom mörgum á óvart. Samningurinn var kallaður Kýótó-bókunin. Þróuð lönd eins og Japan og Bandaríkin og lönd innan Evrópusambandsins áttu að minnka losun úrgangsefna að meðaltali um 5,2 prósent fyrir árið 2012. Þetta hljómaði mjög vel. En snemma árs 2001 tilkynnti Bandaríkjastjórn að hún ætlaði að víkja frá Kýótó-bókuninni. Þetta vakti undrun margra því að Bandaríkjamenn, sem eru aðeins um 5 prósent allra jarðabúa, eru samt ábyrgir fyrir um fjórðungi allra úrgangsefna sem losuð eru. Öðrum stjórnum hefur einnig gengið seinlega að framfylgja samningnum.

Dæmið hér að ofan sýnir hversu erfitt er fyrir stjórnir að finna lausnir sem virka. Það er erfitt að fá fulltrúa ríkisstjórna til að koma saman og komast að samkomulagi um hvernig eigi að taka á umhverfismálum. Jafnvel þegar skrifað er undir sáttmála víkja sumir aðilar síðar frá skuldbindingunum. Öðrum finnst erfitt að framfylgja því sem ákveðið var. Stundum finnst stjórnvöldum eða fyrirtækjum þau ekki geta staðið undir kostnaðinum af því að hreinsa umhverfið. Græðgin getur líka spilað inn í. Áhrifamikil stórfyrirtæki reyna að koma í veg fyrir að stjórnvöld grípi til aðgerða sem gætu dregið úr hagnaði fyrirtækja. Oft hefur það sýnt sig að fyrirtæki vilja gjörnýta landið án tillits til langtímaafleiðinga.

Það sem flækir málið enn frekar er að vísindamenn eru ekki allir á eitt sáttir um hversu alvarleg áhrif mengun jarðar muni hafa. Stjórnvöld vita ekki hve mikið þau eigi að draga úr efnahagsvexti til að glíma við vandamál sem er kannski ekki eins alvarlegt og sumir halda.

Mannkynið er í vanda statt. Allir vita að vandamálin eru til staðar og að eitthvað verður að gera í málinu. Sumar þjóðir leggja sig samviskusamlega fram en flest umhverfisvandamál fara samt versnandi. Á jörðin eftir að verða óbyggileg? Við skulum athuga þessa spurningu aðeins nánar.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 7]

HLJÓÐMENGUN

Ein tegund mengunar heyrist aðeins en sést ekki, það er hljóðmengun. Sérfræðingar telja þetta áhyggjuefni því að hljóðmengun getur valdið heyrnarskaða, streitu, háum blóðþrýstingi, svefnleysi og minni afköstum. Börn sem sækja skóla í hávaðasömu umhverfi geta átt í lestrarörðugleikum.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 7]

EYÐING SKÓGA VELDUR ROTTUPLÁGU

Þegar rottuplága gekk yfir 15 þorp á eynni Samar á Filippseyjum sagði heimildarmaður yfirvalda að ástæðuna mætti rekja til mikils skógarhöggs á svæðinu. Með skógunum hurfu dýr sem veiða rottur og rotturnar sjálfar höfðu ekkert æti. Nagdýrin færðu sig því nær mannabyggðum í ætisleit.

[Mynd credit line]

© Michael Harvey/Panos Pictures

[Rammi/mynd á blaðsíðu 7]

ERU ÞAU FÓRNARLÖMB EITUREFNAMENGUNAR?

Þegar Michael var þriggja og hálfs mánaða gamall greindist hann með taugakímfrumuæxli, sem er krabbameinstegund. Ef aðeins hefði verið um eitt tilfelli að ræða hefði það kannski ekki vakið eftirtekt. Hins vegar kom í ljós að um hundrað önnur börn á svæðinu voru einnig með krabbamein. Þetta olli mörgum foreldrum áhyggjum. Suma grunaði að þessi háa krabbameinstíðni gæti tengst efnaverksmiðjum sem voru þar. Rannsókn leiddi í ljós að verktaki, sem vann við sorphirðu, hafði áður losað efnaverksmiðju á svæðinu við tunnur af eiturefnavökva. Hann kom tunnunum síðan fyrir í gömlu kjúklingabúi þar sem innihaldinu var stundum hellt niður. Sérfræðingar fundu vott af eiturefninu í vatnsbólum þar í kring. Foreldrarnir geta ekki annað en leitt hugann að því hvort eiturefnalosunin hafi átt þátt í því að börnin þeirra fengu krabbamein.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 8]

EITUREFNI

Eftir seinni heimsstyrjöldina var 120.000 tonnum af eiturefnum komið fyrir í skipum og þeim sökkt norðaustur af Norður-Írlandi. Þetta var aðallega fosgen og sinnepsgas. Rússneskir vísindamenn telja að hætta sé á að þessi efni fari að leka í sjóinn.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 8]

LOFTMENGUN LEIÐIR TIL DAUÐA

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir að um 5 til 6 prósent dauðsfalla á hverju ári megi rekja til loftmengunar. Íbúar í Ontario í Kanada eru sagðir eyða meira en 1 milljarði dollara á ári í veikindafjarveru og heilsugæslukostnað sem rekja má til loftmengunar.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 8]

KÓRALRIFUM FER FÆKKANDI

Sumir veiðimenn í Suðaustur-Asíu setja blásýrulausn út í sjóinn til að fiskurinn verði vankaður og auðvelt sé að veiða hann. Eitrið skolast síðan úr fiskinum og hann verður ætur. En efnið situr eftir í sjónum og drepur kóralrifin.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 8]

ÆTTIRÐU AÐ NOTA LÆKNAGRÍMU?

Tímaritið Asiaweek segir að loftmengun í stórborgum Asíu stafi að miklu leyti af útblæstri bifreiða. Dísil- og tvígengisvélar valda oftast mestri mengun og mynda mikið af örsmáu svifryki. Þetta svifryk ýtir síðan undir mörg heilsufarsvandamál. Í tímaritinu segir „dr. Chan Chang-chuan, einn helsti sérfræðingur í Taívan um áhrif mengunar, að dísilútblástur sé krabbameinsvaldandi“.

Sumir í stórborgum Asíu ganga með læknagrímur til að reyna að vernda sig. Koma þessar grímur að gagni? Dr. Chan segir: „Grímurnar gera lítið sem ekkert gagn því að þær ná ekki að sía nema hluta af gastegundunum og fíngerðu ögnunum. Þar að auki . . . eru þær ekki loftþéttar. Þær gefa fólki falska öryggiskennd.“

[Mynd á blaðsíðu 7]

Skógar ræktaðir á ný til að bjarga umhverfinu.

[Mynd credit line á blaðsíðu 8]

AFP/Getty Images. Efri mynd til vinstri: Birt með leyfi The Trustees of the Imperial War Museum, London (IWM H 42208). Efri mynd til hægri: Howard Hall/howardhall.com.