Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig verður jörðinni bjargað?

Hvernig verður jörðinni bjargað?

Hvernig verður jörðinni bjargað?

ÞRÁTT fyrir umhverfisvandamálin sem þjaka jörðina viljum við halda í þá von að hún lifi af. Jörðin er heimili okkar — og verður vonandi heimili barna okkar og barnabarna. En hvað getum við gert til að stuðla að því að þetta verði að veruleika?

Sannleikurinn er sá að þótt flestir hafi áhyggjur af umhverfinu finnst mörgum ekkert tiltökumál að henda rusli á götuna eða í ár eða hafa kveikt á ljósum að óþörfu. Slíkt gæti virst smávægilegt en það hefði sitt að segja ef allir þeir milljarðar sem byggja jörðina gengju vel um hana. Við getum lagt okkar að mörkum til að bjarga jörðinni með því að spara orku, flokka sorp til endurvinnslu og losa okkur við það á réttan hátt. Með venjum okkar getum við sýnt að okkur sé annt um jörðina núna.

En við getum samt ekki stjórnað því sem aðrir í kringum okkur gera. Þýðir það að ástandið sé vonlaust?

Betri lausn í nánd

Fulltrúi Grænfriðunga, Thilo Bode, komst vel að orði þegar hann sagði í tímaritinu Time: „Markmið okkar er að fá stjórnendur fyrirtækja til að hugleiða hvernig eigi að losa sig við vörurnar eftir að þær hafa verið notaðar. Þau verða að hugsa um þetta þrennt: Framleiðslu, notkun og losun. Menn geta framleitt vörur og vita hvernig á að nota þær en kunna því miður ekki að losa sig við þær á viðunandi hátt. Stundum vita menn einfaldlega ekki hvernig þeir geta gert það á réttan hátt.

Mönnunum eru takmörk sett, en skaparanum ekki. Framúrskarandi viska hans sést vel af því sem hann hefur skapað á jörðinni. Hann veit hvernig á að framleiða, nota og eyða hlutum á réttan hátt. Mörg þeirra kerfa sem hann hefur hannað eru sjálfvirk. Frjókorn spírar og planta vex og ber ávöxt. Þegar plantan deyr brotna öll frumefni hennar niður á fullkomlega vistvænan hátt. Þetta er endurvinnsla eins og hún gerist best. Engin eiturefnamengun.

Það var ekki ætlun skaparans að jörðin yrði óbyggilegur ruslahaugur. Við lesum í Biblíunni í Jesaja 45:18: „Svo segir Drottinn, . . . hann einn er Guð, sá er jörðina hefir myndað og hana til búið, hann, sem hefir grundvallað hana og hefir eigi skapað hana til þess, að hún væri auðn, heldur myndað hana svo, að hún væri byggileg.“

En fyrst Guð myndaði jörðina svo að hún væri byggileg hvers vegna hefur hann þá leyft henni að verða svona á sig komna? Biblían segir að maðurinn hafi upphaflega verið settur í paradísargarð. Fyrirætlun Guðs var sú að paradísin næði allt til endimarka jarðar og að hún yrði uppfull af fólki. (1. Mósebók 1:28) En uppreisn braust út. Fyrsti maðurinn og konan vildu ekki lúta stjórn Guðs.

Guð leyfði mönnunum að prófa að stjórna sér sjálfir. Við sjáum núna að útkoman er hörmuleg. Mennirnir hafa sýnt og sannað að þeir geta ekki leyst vandamál sín upp á eigin spýtur. Við getum ekki kennt Guði um það sem hefur gerst. Það sem Biblían segir á við um allt mannfélagið: „Synir hans eru spilltir orðnir, blettur er á þeim, rangsnúin og rammspillt kynslóð.“ — 5. Mósebók 32:5.

En Guð horfir ekki fram hjá eyðingu jarðarinnar. Hann tekur í taumana áður en það er um seinan — áður en jörðin verður að óbyggilegri auðn. Hvernig vitum við það? Opinberunarbókin 11:18 segir: „Heiðingjarnir reiddust, en reiði þín kom, sá tími . . . til að eyða þeim, sem jörðina eyða.“ Bundinn verður endi á eyðingu jarðarinnar.

Upprunaleg fyrirætlun Guðs var að jörðin yrði paradís og sú fyrirætlun verður að veruleika. Guð hefur margoft lýst því yfir. Hann sagði til dæmis: „Mitt orð, það er útgengur af mínum munni . . . hverfur ekki aftur til mín við svo búið, eigi fyrr en það hefir framkvæmt það, sem mér vel líkar.“ (Jesaja 55:11) Þú gætir haft gaman af því að lesa 35. kaflann í Jesaja þar sem Guð lýsir því þegar eyðilönd breytast í grasagarða og frjósamar ekrur.

Jafnvel núna, þegar mengun er stöðvuð á vissum svæðum, hefur jörðin sýnt að hún býr yfir ótrúlegri hæfni til að endurnýja sig. Guð hannaði hana þannig. Þegar hætt verður að yfirfylla jörðina mengandi efnum geta þær fjölmörgu örverur sem finnast í moldinni og vatninu bætt mestallan skaðann. Auk þess megum við gera ráð fyrir að endurnýjunin verði enn áhrifameiri þegar Guð grípur inn í og stjórnar aðgerðum. Hann getur veitt okkur mönnunum þá þjálfun og fullkomnu leiðsögn sem okkur skortir.

Framtíð jarðarinnar er því ekki vonlaus. Plöntum og dýrum verður bjargað. Engin dýr verða í útrýmingarhættu. Loftið og vatnið verður ferskt á ný. Og hlýðnir menn fá að njóta þess. Vilt þú fá að sjá þetta verða að veruleika? Þú getur gert það. En hvernig? Biblían segir hvað við þurfum að gera. Af hverju ekki að rannsaka Biblíuna og komast að því? Þú getur beðið útgefendur þessa blaðs að koma þér í samband við einhvern sem getur aðstoðað þig. Þú vilt ekki missa af því að fá að vita hvernig þú og fjölskylda þín geta notið þess að búa í óspilltu umhverfi að eilífu.