Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hversu „veik“ er jörðin?

Hversu „veik“ er jörðin?

Hversu „veik“ er jörðin?

Eftir fréttaritara Vaknið! á Filippseyjum

Sjúklingurinn er alvarlega veikur. Einkennin eru margvísleg. Andardráttur hans er eitraður og hann er með hita, hærri en nokkru sinni fyrr. Allar tilraunir til að ná hitanum niður hafa brugðist. Eitur hefur fundist í líkamsvessum. Þegar reynt er að draga úr vissum sjúkdómseinkennum koma fleiri upp í öðrum líkamshlutum. Ef þetta væri venjulegur sjúklingur kæmust læknarnir líklega að þeirri niðurstöðu að þessir margþættu kvillar væru ólæknandi og myndu að lokum draga hann til dauða. Þeir hefðu sennilega um fátt annað að velja en að sjá til þess að sjúklingurinn hefði það sem best, þar til að lokum liði.

EN ÞETTA er ekki venjulegur sjúklingur. Þetta er heimili okkar — jörðin. Dæmið hér að ofan lýsir vel ástandi jarðarinnar. Loftmengun, hitnun jarðar, vatnsmengun og eiturefnaúrgangur eru aðeins fáeinir af alvarlegum kvillum hennar. Sérfræðingar standa ráðþrota frammi fyrir öllum þessum vandamálum.

Með reglulegu millibili vekja fjölmiðlar athygli á slæmri heilsu jarðarinnar með fyrirsögnum sem þessum: „Sprengjuveiðar breyta sjávarbotni í drápsvöll.“ „Milljarður Asíubúa gæti dáið úr þorsta á næstu 24 árum.“ „Fjörutíu milljónir tonna af eiturefnaúrgangi ganga kaupum og sölum á hverju ári.“ „Nálega tveir þriðju hinna 1800 vatnsbóla í Japan eru eiturmengaðir.“ „Gatið á ósónlaginu yfir suðurskautinu er orðið enn þá stærra.“

Margir verða samdauna tíðum fréttum af umhverfisvandamálum og hugsa jafnvel: ‚Ég þarf ekki að hafa neinar áhyggjur svo framarlega sem þetta snertir mig ekki.‘ En þessi allsherjarumhverfisspilling hefur áhrif á mikinn meiri hluta mannkyns hvort sem við gerum okkur grein fyrir því eða ekki. Mengunin er orðin svo útbreidd að hún hefur líklega nú þegar áhrif á okkur á margan hátt. Öllum ætti því að vera umhugað um heilsu og varðveislu jarðarinnar þar sem hún er nú heimili okkar.

En hversu víðtækt er þetta vandamál? Hversu „veik“ er jörðin? Og hvaða áhrif hefur þetta á líf manna? Við skulum nú skoða nokkur atriði sem benda okkur skýrt á að jörðin er ekki bara með smáflensu — hún er alvarlega veik.

HÖFIN: Ofveiði er vandamál mjög víða. Í skýrslu frá Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna segir að „slík ofveiði sé stunduð á sjötíu prósentum fiskimiða að fiskistofnarnir nái annaðhvort ekki að viðhalda sér eða geri það með naumindum“. Til dæmis minnkuðu stofnar þorsks, lýsings, ýsu og kola í Norður-Atlantshafi um 95 prósent á árunum 1989 til 1994. Hvaða áhrif gæti þetta haft á þær milljónir sem lifa á sjávarútvegi ef þetta heldur svona áfram?

Þar að auki er talið að brottkast sjávardýra sé um 20 til 40 milljónir tonna á ári. Af hverju er fiski kastað fyrir borð? Af því að ákveðinn fiskur er eftirsóttur og öllu öðru hent.

SKÓGAR: Eyðing skóga getur verið mjög skaðleg. Þegar trjám fækkar er erfiðara fyrir jörðina að breyta koltvísýringi í súrefni og það er talið orsaka hitnun jarðar. Þetta veldur því einnig að vissar plöntutegundir hverfa, en sumar þeirra mætti annars nota til að búa til lyf við lífshættulegum sjúkdómum. Eyðingin heldur samt áfram næstum óhindrað og hún hefur meira að segja aukist á síðastliðnum árum. Sumir telja að ef þetta haldi svona áfram geti regnskógarnir horfið á næstu 20 árum.

EITUREFNAÚRGANGUR: Þegar skaðleg efni eru losuð hvort heldur í sjó eða á landi getur það valdið mjög alvarlegum vandamálum og skaðað milljónir manna. Geislavirkur úrgangur, þungmálmar og úrgangsefni, sem myndast við plastframleiðslu, eru dæmi um efni sem geta valdið afbrigðileika, veikindum eða dauða hjá mönnum og dýrum.

EFNASAMBÖND: Á síðustu öld voru næstum 100.000 ný efnasambönd tekin í notkun. Þessi efni smitast síðan út í loftið og finnast að lokum í jarðveginum, vatninu og matnum okkar. Tiltölulega fá þessara efna hafa verið rannsökuð til að sjá hvaða áhrif þau hafa á heilsu manna. En stór hluti þeirra sem rannsökuð hafa verið reyndust krabbameinsvaldandi eða skaðleg á einhvern annan hátt.

Það er margt annað sem ógnar umhverfi okkar, til dæmis loftmengun, óhreinsað skolp, súrt regn, skortur á hreinu vatni og fleira. Þau fáu atriði sem nefnd hafa verið sýna greinilega fram á að jörðin er fárveik. Er hægt að bjarga þessum sjúklingi eða er það um seinan?