Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Þúsund stjörnu hótelið“

„Þúsund stjörnu hótelið“

„Þúsund stjörnu hótelið“

EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Í FRAKKLANDI

MARGIR myndu, líkt og ég, vilja verja einu kvöldi í eyðimörkinni og virða fyrir sér stjörnubjartan himininn í stað þess að gista á fjögurra stjörnu hóteli. Þannig var mér innanbrjósts eftir að hafa heimsótt suðurhluta Túnis í Norður-Afríku. Þar naut ég þæginda hins svokallaða þúsund stjörnu hótels sem er tjald hirðingja í eyðimörkinni.

Frá því að sögur hófust hafa milljónir manna, á gresjum Asíu, í Sahara-eyðimörkinni og Norður-Ameríku, búið á slíkum „þúsund stjörnu hótelum“. En þótt fjölmargir þjóðflokkar hafi neyðst til að yfirgefa tjöld sín á síðustu öld flakka enn þá þúsundir hirðingja um eyðimörkina. Þeir eru rómaðir fyrir mikla gestrisni sem gerir heimsókn til þeirra ógleymanlega.

„Hús úr hári“

Ég keyri með leiðsögumanninum um eyðimörkina á gömlum Land Rover. Við ætlum að heimsækja hirðingjabúðir eða dúar, eins og þær eru kallaðar í Norður-Afríku. Eftir að hafa spurt nokkra fjárhirða til vegar komum við loks auga á dökkar þústir í fjarska. Þetta eru tjöldin. Við stígum út úr jeppanum og heillumst af kyrrð eyðimerkurinnar. Bedúínar segja að kyrrðin skerpi hugsunina. Það er vel tekið á móti okkur. Gestgjafinn býður okkur inn í tjaldið sitt sem er um 12 metrar á lengd, 5 metrar á breidd og 2 metrar á hæð. Við göngum inn í þann hluta tjaldsins sem aðallega er ætlaður karlmönnum og gestum og setjumst á fallegar mottur. Hinn hluti tjaldsins er fyrir heimilisfólkið og eldamennskuna og er dregið fyrir hann á meðan gestir eru í heimsókn. Á meðan við tölum saman færir húsfreyjan okkur hefðbundið myntute og dæturnar, sem hafa haldið sig í ‚eldhúsinu‘, hnoða deig í hveitikökur. Þessar gómsætu kökur eru bakaðar á leirpönnu á hlóðum.

Ég spyr gestgjafann hvernig þakið og veggirnir á tjaldinu séu gerðir. Hann vill ólmur fræða okkur um það. Í rauninni er tjalddúkurinn ekki ein dúklengja heldur er hann saumaður saman úr nokkrum lengjum. Hver lengja er um 15 metra löng og 50 sentímetra breið. Sum stærri tjöldin eru sett saman úr 12 til 13 lengjum. En hvernig eru þessar dúklengjur búnar til?

Á þessu sólbjarta síðdegi sé ég eina af dætrum gestgjafans sitja í sandinum fyrir framan tjaldið. Hún heldur á snældu og spinnur fimlega garn úr dýrahári. Garnið er síðan notað til að vefa langa dúklengju á einfalda vefgrind sem liggur á jörðinni. Lausofin dúklengja verður til þess að loftræstingin er góð. En þegar rignir þrútna þræðirnir og gera hana vatnsþétta. Arabíska nafnið fyrir tjald, beit es-sjar, þýðir „hús úr hári“ og á svo sannarlega vel við.

Viðhald

Hversu endingargóð eru tjöldin? Hirðingjar hugsa vel um heimili sín í eyðimörkinni. Gestgjafinn segir að kvenfólkið á heimilinu vefi að minnsta kosti eina dúklengju á ári. Á ári hverju er venja að ný lengja sé sett í staðinn fyrir þá sem er slitnust. Tjalddúkur, sem er settur saman úr átta dúklengjum, er því endurnýjaður að fullu á jafnmörgum árum. Sums staðar eru lengjurnar losaðar sundur og þeim snúið við þannig að óslitnari hliðin snúi út.

Hvernig helst tjaldið uppi? Í miðju tjaldinu eru fjórar súlur úr apríkósuviði en stundum er líka annars konar viður notaður. Miðsúlurnar eru tvær og eru um 2,5 metrar á lengd. Súlurnar eru reknar niður í jörðina og mænisúla fest ofan á. Hún er úr skreyttum harðviði og er um 45-60 sentímetra löng. Hún sveigist örlítið þannig að tjaldþakið verður eins og úlfaldahnúður í laginu. Til beggja handa og aftan til er tjaldþakinu haldið uppi með nokkrum minni súlum. Við förum út úr tjaldinu til að sjá hvernig það er fest niður og kemur þá í ljós að tjaldstög úr geitahári eru notuð til að festa tjalddúkinn við jörðina.

Bak við tjaldið er þétt og þurrt kjarr sem veitir vörn gegn villtum dýrum. Skammt frá tjaldinu er asni bundinn við staur og örlítið lengra frá er hringlaga girðing. Innan hennar er sauða- og geitahjörð sem dæturnar hugsa vel um.

Einfaldur lífsstíll

Hveitikökurnar eru tilbúnar. Þær eru ljúffengar á bragðið þegar þeim er dýft í ólífuolíu með ávaxtakeim. Ég lít í kringum mig og heillast af einföldum lífsstíl hirðingjanna. Húsgögnin eru aðeins viðarkista, nokkrir ofnir pokar, mottur og ábreiður. Dæturnar sýna mér stoltar í bragði tóvinnuáhöldin sem eru einföld í sniðinu. Að þessu frátöldu er fátt um efnislega hluti. Þetta minnir mig á hin vitru orð ljóðskáldsins Davíðs sem var eitt sinn fjárhirðir og bjó um tíma í tjöldum. Hann sagði: „Hann safnar í hrúgur, en veit eigi hver þær hlýtur.“ — Sálmur 39:⁠7.

Margir hirðingjar eru ljóðskáld og hafa unun af því að kveðast á, en þeir sækja líklega innblástur í umhverfi sitt. Þeir eru líka mjög hrifnir af sögum og spakmælum. Ég vitna gjarnan í spakmæli Heilagrar ritningar sem er rík af fullkominni visku hans „sem þenur út himininn eins og þunna voð og slær honum sundur eins og tjaldi til þess að búa í“. (Jesaja 40:22) En nú er kominn tími til að kveðja. Ég þakka gestgjöfum mínum kærlega fyrir gestrisnina. Hvenær skyldi ég fá tækifæri aftur til að dveljast í einu af þessum heillandi „þúsund stjörnu hótelum“?

[Mynd á blaðsíðu 26]

Hveitikökur bakast á hlóðum.

[Mynd credit lines á blaðsíðu 26]

◀ Musée du Sahara à Douz, avec l’aimable autorisation de l’Agence de mise en valeur du patrimoine et de promotion culturelle de Tunisie. Úlfaldar: ZEFA/ROBERTSTOCK.COM