Hið árlega undur í Namaqualandi
Hið árlega undur í Namaqualandi
EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Í SUÐUR-AFRÍKU
Litríkt blómaskrúð breiðir úr sér um víðáttumikla sléttuna eins langt og augað eygir. Oft geta ferðamenn vart haldið aftur af eftirvæntingunni þegar hið árlega undur í Namaqualandi gerist, beint fyrir augum þeirra. Frá sér numin segir kona nokkur sem var þar á ferð: „Við fyrstu sýn eru blómin á litinn eins og glóandi hrauneðja sem vellur upp úr sprungum og fyllir hvern krók og kima.“
Hvað er svona hrífandi við þessi hamskipti gróðurríkisins á vorin? Namaqualand er víðlent og úrkomusnautt landsvæði í norðvesturhluta Suður-Afríku. Handan við fjöllin í norðri markar Orange-áin norðurlandamærin. Namaqualand, sem er á við hálft Ísland (um það bil 50.000 ferkílómetrar að stærð), teygir sig um 200 kílómetra til suðurs, hálfa leiðina til Höfðaborgar. Lengstan tíma ársins fer hitinn á þessu hrjóstruga landi upp í 40 stig á Celsíus á daginn en hrapar niður í átta stiga frost á næturnar. Þar sem yfirborðsvatn er næstum ekkert og ísalt jarðvatn takmarkað getur virst að Namaqualand hafi ekki mikið upp á að bjóða — þangað til hið árlega undur gerist.
Á hverju ári, stuttu eftir vetrarrigningarnar frá því snemma í ágúst þar til um miðjan september, breytast hinar þurru sléttur Namaqualands skyndilega í blómskrýdda litadýrð. Heilu flæmin verða að blómguðum bölum með rauðgulum, gulum, bleikum, hvítum, fagurrauðum, bláum og fjólubláum blómum. Þar sem litadýrðin varir ekki nema fáeinar vikur hvert ár er mikil eftirvænting í lofti þegar gestir frá öllum heimshornum búa sig undir augnayndi þessarar stórkostlegu blómaskreytingar.
Hæfileg úrkoma með ríkulegu sólskini í kjölfarið kemur þessu tilkomumikla sjónarspili af stað. Síðan vona allir að skrælandi austanvindarnir haldi sig fjarri, því að annars myndu líf og litir viðkvæmu krónublaðanna fljótlega sölna.
Undur Namaqualands má einnig þakka frjórri fræmyndun. Margar blómategundanna skjóta samt ekki frjóöngum á hverju ári — þær sýna ekki fegurð sína nema við sérstök veðurskilyrði. Sum fræin spíra aðeins eftir eitt ár en önnur liggja í dvala yfir nokkrar árstíðir og bíða eftir nákvæmlega réttu vaxtarskilyrðunum. „Nokkrar frætegundir,“ segir einn gestanna, „hafa varnarkerfi sem
kemur í veg fyrir ótímabæra spírun. Í staðinn fyrir að skjóta frjóöngum þegar ein hitaskúr fellur spíra þessi fræ aðeins þegar fer saman svalt og rakt loft — nákvæmlega það sem þarf til þess að vöxtur og viðgangur eigi sér stað í þessu harðneskjulega umhverfi.“Blómadýrðin er breytileg frá ári til árs og sum árin er hún tilkomumeiri en önnur en það er háð nákvæmu jafnvægi milli úrkomu og þess að skrælandi vindar láti ekki á sér kræla. Í bókinni Namaqualand — South African Wild Flower Guide segir: „Vegna þess að hver tegund skýtur frjóöngum við sérstök hitaskilyrði og fyrstu regnskúrirnar geta fallið allt frá apríl til júlí (en hitastigið er ólíkt í þessum mánuðum) spíra mismunandi tegundir frá ári til árs eftir því hvenær fyrstu rigningarnar byrja.“
Hvílík fjölbreytni! Þarna eru yfir 4000 blómategundir, hver með eigin lögun, lit og spírunaraðferð. Á sumum svæðum er hægt að sjá 10 til 20 mismunandi blómategundir á aðeins eins fermetra svæði. Litaspjald listmálarans verður algerlega litlaust í samanburði við þessa tilkomumiklu sýn. Jafnvel háfleygustu orð megna ekki að lýsa þeirri hrífandi blómadýrð sem Namaqualand býr yfir.
Samt sem áður hefur þetta mikilfenglega blómaskrúð orðið yrkishvöt listamönnum, skáldum og rithöfundum. „Á hinum mikla sáðdegi jarðar . . . rann dýrmætt innihald út um gat á úrvalsfræpoka Drottins,“ segir suður-afríska skáldið D. J. Opperman fullur andríkis. Hugfanginn aðdáandi skrifaði: „Það var engu líkara en regnboginn hafi svifið yfir auðnina og dreift litapjötlum yfir allt.“ Gesti nokkrum varð að orði: „Slík endalaus fegurð verður til þess að maður fyllist þakklæti fyrir ríkulega gjafmildi og visku Jehóva, skaparans.“
Og það sem meira er, sumardýrð árlega undursins í Namaqualandi fullvissar okkur um að skaparinn getur notað slíkan líffræðilegan tæknibúnað til að skapa paradísarástand út um alla jörðina — til eilífrar gleði fyrir trúfasta og þakkláta þjóna sína. (Sálmur 37:10, 11, 29) Og „eyðimörkin og hið þurra landið skulu gleðjast“ í ríkum mæli og „öræfin skulu fagna og blómgast sem lilja“. — Jesaja 35:1.
[Mynd á blaðsíðu 16, 17]
Blómskrúðið brýst fram á 50.000 ferkílómetra flæmi.