Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Naut í postulínsbúð

Hefurðu einhvern tíma velt því fyrir þér hvað myndi gerast ef naut kæmist inn í postulínsbúð eins og orðatiltækið segir? Enska sjónvarpsfréttastöðin BBC News greindi frá því að þetta hefði gerst í raun og veru. Naut slapp af dýrauppboði í Lancashire á Englandi og hljóp inn í fornmunabúð. „Búðin sérhæfir sig í fornum postulínsmunum og eins og við mátti búast traðkaði nautið á nokkrum verðmætum munum,“ stóð í dagblaði sem greindi frá fréttinni. Þegar rætt hafði verið við eiganda nautsins og tekið hafði verið með í reikninginn hvaða áhætta fylgdi því að ná skepnunni lifandi, var niðurstaðan sú að best væri að drepa nautið. Lögreglan lokaði síðan svæðið af og skaut nautið sem var fast inni í búðinni.

Njósnir með farsímum

Farsímar með innbyggðri myndavél stofna trúnaðarupplýsingum fyrirtækja í hættu að sögn dagblaðsins Frankfurter Allgemeine Zeitung. Fyrst um sinn voru myndavélarnar aðeins álitnar enn ein sölubrellan. En upplausn stafrænu myndanna, sem teknar eru með þessari nýju kynslóð farsíma, hefur aukist til muna og öryggisverðir margra fyrirtækja telja þá sívaxandi vandamál. Bæði eru myndavélasímarnir lítið áberandi og gefa líka kost á að senda mynd tafarlaust, ólíkt hefðbundnum myndavélum, og það gerir þá að hinu fullkomna tæki til iðnaðarnjósna. Þó að njósnarinn náist er skaðinn skeður. Af þeim sökum hefur fjöldi fyrirtækja bannað farsíma með innbyggðri myndavél á viðkvæmum svæðum, svo sem á hönnunardeildum og á stöðum þar sem nýjar frumgerðir eru prófaðar.

Vingjarnleg börn eru vinsælli

„Ekki er hægt að tryggja sér vinsældir með því að ganga í merkjavörum og eiga nýjustu og flottustu tæki. Meðal jafnaldranna skiptir miklu meira máli að vera vingjarnlegur heldur en að vera af ákveðinni þjóðfélagsstétt,“ segir þýska tímaritið Psychologie Heute. Sálfræðingarnir Judith Schrenk og Christine Gürtler vinna við Max Planck stofnunina í Berlín sem sérhæfir sig í atferlisfræði. Þær fylgdust með 234 börnum í þriðja og fimmta bekk í 10 mismunandi grunnskólum. Niðurstaða þeirra var sú að börn, sem vildu eiga betri samskipti við aðra og voru vingjarnleg og skrafhreifin, höfðu meiri áhrif á jafnaldra sína en börn sem lömdu aðra eða hlógu að þeim. „Jafnvel þótt börnin séu myndarleg eða fái mikla vasapeninga skiptir það skólafélagana litlu máli,“ segir í greininni.

Uppstökk ungmenni stofna hjartanu í hættu

„Vísindamenn hafa komist að því að efnaskiptavilla (metabolic syndrome) er þrefalt líklegri hjá börnum og unglingum sem eru uppstökk en jafnöldrum þeirra sem eru jafnlyndari, en þetta er oft hættulegur undanfari hjartasjúkdóma,“ segir í blaðinu The Gazette í Montreal í Kanada. Amerískir og finnskir vísindamenn rannsökuðu skapgerð 134 barna og unglinga og komust að því að bráðlynd ungmenni væru 22 prósentum líklegri til að mynda áhættuþætti hjartasjúkdóma en ungmenni sem væru rólyndari. „Fólk vaknar ekki einfaldlega einn góðan veðurdag um fimmtugt með hjartasjúkdóm,“ segir dr. Kristen Salomon, einn af rannsakendunum. „Hjarta- og æðasjúkdómar byrja snemma á ævinni.“