Hvernig get ég gefið mér meiri tíma til að læra heima?
Ungt fólk spyr. . .
Hvernig get ég gefið mér meiri tíma til að læra heima?
„Ég er í framhaldsskóla og álagið er að fara með mig. . . . Það er ekkert eðlilegt hvað ég þarf að skila mörgum verkefnum. Ég hef engan tíma til að ljúka þeim.“ — 18 ára stúlka.
FINNST þér þú stundum vera að sligast undan öllum verkefnunum sem þú þarft að burðast með heim úr skólanum á hverjum degi? Ef svo er ertu ekki ein(n) um það. Í frétt nokkurri frá Bandaríkjunum segir: „Þar sem verið er að gera meiri kröfur í skólum um land allt og kröfur til einkunna á stöðluðum prófum aukast er heimavinnu hlaðið á nemendur. Sums staðar segjast framhaldsskólanemendur læra heima í meira en þrjár klukkustundir á hverju kvöldi. Í rannsókn, sem gerð var við Michiganháskóla, kemur fram að ungum börnum sé sett fyrir allt að þrefalt meiri heimavinna núna en fyrir 20 árum.“
Það er ekki eingöngu í Bandaríkjunum sem nemendum er sett fyrir mikil heimavinna. Þar segjast 30 prósent 13 ára unglinga læra heima í meira en tvo klukkutíma á dag. En á Taívan og í Kóreu er talan 40 prósent og í Frakklandi yfir 50 prósent. „Ég verð stundum svo taugaspennt þegar heimaverkefnin fara að hlaðast upp,“ segir Katie mæðulega en hún er við nám í bandarískum háskóla. Marilyn og Belinda, sem sækja skóla í Marseilles í Frakklandi, taka í sama streng. „Við eyðum oft tveimur klukkustundum eða meira á hverju kvöldi í heimanám,“ segir Marilyn. „Og þegar maður hefur öðrum skyldum að gegna er oft erfitt að gefa sér tíma til að læra heima.“
Hvernig get ég gefið mér meiri tíma?
Væri ekki gott að geta bætt nokkrum klukkustundum við daginn þegar á þarf að halda til þess að geta lokið við heimavinnuna og séð um allt hitt sem maður hefur á sinni könnu? Þér gæti tekist það ef þú færir eftir meginreglunni í Efesusbréfinu 5:15, 16: „Hafið því nákvæma gát á, hvernig þér breytið, ekki sem fávísir, heldur sem vísir. Notið hverja stund [„kaupið upp hentugan tíma“, NW ], því að dagarnir eru vondir.“ Þótt biblíuritarinn hafi ekki haft heimavinnu í huga þegar hann skrifaði þessi orð er samt hægt að heimfæra meginregluna upp á daglegt líf. Þegar við kaupum eitthvað verðum við að láta eitthvað annað af hendi í skiptum fyrir það. Hugmyndin er sú að maður verði að fórna einhverju til að kaupa sér tíma til að læra heima. En hverju?
„Gerðu lista yfir það sem þú þarft að gera fyrst,“ ráðleggur stúlka sem heitir Jillian. Þú þarft sem sagt að forgangsraða. Safnaðarsamkomur og andleg mál ættu að vera ofarlega á listanum. Og gleymdu ekki skyldum þínum á heimilinu og svo auðvitað heimanáminu.
Því næst skaltu skrifa hjá þér í dagbókina hvernig þú notar tímann í vikunni í raun og veru. Það kemur þér líklega á óvart hvers þú verður vísari. Hversu mikill tími fer til dæmis í að horfa á sjónvarpið? Vafra um Netið? Fara í bíó? Tala í símann? Heimsækja vini? Hvernig kemur dagbókin út í samanburði við forgangslistann? Kannski þarftu ekki annað en að kanna hve mikill tími fer í að horfa á sjónvarpið, tala í símann eða vafra um Netið til að sjá að þú getur keypt mikinn tíma.
Ljúktu fyrst við skylduverkin
Þetta þýðir samt ekki að þú þurfir að pakka niður sjónvarpinu og loka þig algerlega inni. Þú þarft kannski bara að setja þér þá reglu að ljúka fyrst við skylduverkin. Á einum stað í Biblíunni erum við hvött til að ‚meta þá hluti rétt sem máli skipta‘. (Filippíbréfið 1:10) Þar sem skólinn er mikilvægur gætirðu til dæmis sett þér þá reglu að kveikja ekki á sjónvarpinu fyrr en þú hefur gert það sem þú átt að gera á heimilinu, undirbúið þig fyrir samkomurnar og lokið við heimavinnuna. Auðvitað getur stundum verið leiðinlegt að missa af uppáhaldsþættinum í sjónvarpinu. En hversu oft hefurðu sest niður til að horfa bara á uppáhaldsþáttinn og setið síðan fyrir framan sjónvarpið allt kvöldið án þess að koma nokkru öðru í verk?
Samkomusókn verður að vera ofarlega á forgangslistanum. Ef þú veist að þú átt að fara í próf á næstunni eða skila heimaverkefni ættirðu að byrja nógu tímanlega að undirbúa þig svo að samkomurnar verði ekki útundan. Þú gætir jafnvel rætt málið við kennarana og sagt þeim að gott væri að fá að vita fyrir fram um öll heimaverkefnin sem gæti þurft að vinna á samkomukvöldi. Sumir kennaranna gætu reynst samvinnuþýðir.
Aðra meginreglu er að finna í frásögu Biblíunnar af Mörtu en þau Jesús voru vinir. Marta var mjög dugleg kona en hún hafði ekki rétta forgangsröð á hlutunum. Einu sinni var hún orðin yfir sig þreytt við að matreiða handa Jesú. Hún virðist hafa lagt mikið í matreiðsluna. María, systir hennar, sat hins vegar og hlustaði á Jesú í stað þess að hjálpa henni. Þegar Marta kvartaði yfir þessu sagði hann við hana: „Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu, en eitt er nauðsynlegt. María valdi góða hlutskiptið. Það verður ekki frá henni tekið.“ — Lúkas 10:41, 42.
Hvað má læra af þessu? Að allt sé best í hófi. Hvernig geturðu farið eftir þessari reglu? Ertu ‚áhyggjufull(ur) og mæðist í mörgu‘, kannski af því að þú reynir að sinna bæði heimanámi og hlutastarfi? Segjum að þú vinnir úti. Þarf fjölskyldan virkilega á peningunum að halda? Eða finnst þér bara gaman að eiga peninga til að kaupa hluti sem þig langar í en þarft ekki nauðsynlega?
Í sumum löndum er það ungu fólki mikið kappsmál að kaupa sér bíl. Karen Turner er námsráðgjafi í framhaldsskóla og segir að núna sé „gífurlegur þrýstingur á ungt fólk að eignast eða vinna sér inn peninga vegna þess hversu dýrt það sé að reka bíl“. En hún segir síðan: „Róðurinn verður þungur þegar maður ætlar sér um of, til dæmis að stunda fjölbreytt félagslíf og vera í aukavinnu samhliða miklu námsálagi. Það verður til þess að nemandinn ofgerir sér.“ Hvers vegna að ofgera sér að óþörfu? Þú ættir kannski að fækka vinnustundunum eða jafnvel segja upp vinnunni ef heimavinnan er farin að sitja á hakanum.
Nýttu tímann vel í skólanum
Auk þess að vinna að því að hafa meiri tíma aflögu utan skólatíma skaltu velta því fyrir þér hvernig þú getir nýtt tímann betur í skólanum. „Ég reyni að ljúka við sem flest heimaverkefni á meðan ég er í skólanum,“ segir Josue. „Þá get ég spurt kennarann ef ég hef ekki skilið eitthvað í tímanum þann daginn.“
Annað sem þú gætir gert er að fækka valfögunum. Þú gætir líka dregið úr þátttöku þinni í félagslífi skólans. Með því að hagræða tímanum lítillega á þessum sviðum hefurðu meiri tíma aflögu til að læra heima.
Notaðu tímann betur
Gott og vel, þú hefur fært ýmsar fórnir, hagrætt málum hér og þar og tekist að skapa þér smátíma til viðbótar fyrir heimanámið. Hversu vel notarðu tímann? Ef þú getur unnið helmingi fleiri heimaverkefni á sama tíma og áður er eins og þú hafir helmingi lengri tíma til umráða. Hér á eftir koma nokkrar tillögur um hvernig þú getur aukið afköstin.
✔ Gerðu áætlun. Áður en þú byrjar að læra heima skaltu velta eftirfarandi fyrir þér: Hvaða námsgrein þarf ég að ráðast í fyrst? Hversu mikill tími ætti að fara í að leysa verkefnið? Hvaða hjálpargögn — bækur, blöð, penna eða reiknivél — þarf ég til að ljúka við verkefnið?
✔ Finndu hentugan stað. Ákjósanlegast er að engin truflun sé þar sem þú vinnur heimaverkefnin. „Ef þú átt skrifborð skaltu nota það,“ segir stúlka sem heitir Elyse. „Það er auðveldara að einbeita sér þegar maður situr uppréttur en þegar legið er í rúminu.“ Ef þú hefur ekki herbergi út af fyrir þig getur verið að systkini þín séu tilbúin að gefa þér ró og næði á meðan þú ert að læra heima. Þú gætir líka nýtt þér lesstofu í skólanum eða farið á bókasafn. Ef þú átt hins vegar þitt eigið herbergi skaltu ekki gera þér erfiðara fyrir með því að kveikja á sjónvarpinu eða spila truflandi tónlist á meðan þú ert að læra.
✔ Taktu þér smáhlé. Ef þú finnur að farið er að draga úr einbeitingunni getur stutt hlé gert gæfumuninn.
✔ Frestaðu ekki hlutunum. „Ég fresta alltaf öllu,“ segir Katie sem nefnd er fyrr í greininni. „Ég virðist ekki geta byrjað á verkefnunum fyrr en á síðustu stundu.“ En með því að búa til ákveðna heimavinnuáætlun og halda sig við hana er hægt að forðast að slá hlutunum á frest.
Skólanámið er þýðingarmikið en eins og Jesús benti Mörtu á er mikilvægast að sækjast eftir því sem andlegt er, það er að segja ‚góða hlutskiptinu‘. Sjáðu til þess að heimavinnan komi ekki í veg fyrir mikilvæg verk eins og biblíulestur, þátttöku í boðunarstarfinu og samkomusókn því þau auðga líf þitt að eilífu. — Sálmur 1:1, 2; Hebreabréfið 10:24, 25.
[Myndir á blaðsíðu 15]
Það getur verið erfitt að gefa sér tíma til að læra heima þegar maður reynir að fást við of margt í einu.
[Mynd á blaðsíðu 15]
Góð skipulagning getur gefið þér meiri tíma fyrir heimanámið.