Prófraun á trúna
Prófraun á trúna
EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Á BRETLANDSEYJUM
RICHMOND er fallegur bær í Norður-Yorkshire á Englandi. Kastali bæjarins var byggður rétt eftir að Normannar hernámu Bretland árið 1066. Gott útsýni er úr kastalanum yfir dalinn þar sem áin Swale rennur innan úr Yorkshire Dales þjóðgarðinum.
Heimildarmyndin The Richmond Sixteen (Fangarnir sextán í Richmond) dró fram í dagsljósið mikilvægan kafla í nútímasögu kastalans, en hún segir frá örlögum 16 manna sem hafðir voru í haldi þar í fyrri heimsstyrjöldinni vegna þess að þeir neituðu að gegna herskyldu af samviskuástæðum. Hvað gengu þeir í gegnum?
Herkvaðning
Eftir að Bretar höfðu lýst yfir stríði árið 1914 greip um sig mikil þjóðernishyggja og 2,5 milljónir manna skráðu sig í herinn. En mannfall vegna stríðsins jókst og mönnum varð fljótlega ljóst að það myndi ekki enda eins skjótt og stjórnmálamenn höfðu lofað. Þá „var hætt að biðja menn að ganga í herinn og þvingunum beitt í staðinn“, segir Alan Lloyd sem er sérfræðingur í hernaðarsögu. Því var farið að skylda einhleypa karlmenn til að gegna herþjónustu í mars 1916, í fyrsta sinn í sögu Bretlands.
Tvö þúsund dómstólum var komið á fót til að taka fyrir mál þeirra sem neituðu að gegna herskyldu en fáir ef þá nokkrir af þeim sem neituðu af samviskuástæðum voru undanþegnir herskyldu að fullu. Flestum var skipað að vinna í sérdeildum sem tóku ekki beinan þátt í átökunum en studdu samt sem áður stríðsreksturinn. Þeir sem neituðu að þjóna í þessum deildum voru dregnir fyrir herrétt því að þeir töldust eftir sem áður vera skráðir í herinn. Þeir sættu harkalegri meðferð og voru hafðir í haldi, oft við hræðileg skilyrði.
Fangarnir sextán í Richmond
Á meðal fanganna sextán í Richmond voru fimm menn í Alþjóðasamtökum biblíunemenda eins og Vottar Jehóva voru nefndir í þá daga. Herbert Senior, sem gerðist biblíunemandi árið 1905, þá 15 ára að aldri, skrifaði um hálfri öld síðar: „Við vorum settir í klefa sem líktust einna helst dýflissum. Það virtist sem þeir hefðu ekki verið notaðir í mörg ár því gólfin voru þakin tveggja til þriggja tommu lagi af rusli og óhreinindum.“ Fangarnir teiknuðu myndir og skrifuðu orðsendingar á kalkaða fangelsisveggina og þær hafa nýlega verið opinberaðar almenningi. Áletranirnar hafa dofnað og eru sums staðar ógreinilegar en á veggjunum er að finna nöfn, skilaboð og teikningar af ástvinum, ásamt trúarorðum.
Einn fanginn skrifaði einfaldlega: „Ég vil frekar deyja fyrir að hafa sannfæringu heldur en deyja fyrir að hafa enga.“ Margar áletranir vísa til Jesú Krists og kenninga hans og þarna er líka að finna vandlega teiknaðar eftirmyndir af kross- og kórónutákninu sem var á þeim tíma notað af Alþjóðasamtökum biblíunemenda. Herbert Senior minnist þess að hafa teiknað á vegginn svonefnda „tímaáætlun Guðs“ sem birst hafði í biblíunámsritinu The Divine Plan of the Ages
(Aldaáætlun Guðs), en sú mynd hefur ekki fundist. Mögulegt er að hún hafi glatast ásamt fleiri verkum sem voru á veggjum í aðalrými fangelsisins eða annars staðar. Önnur áletrun hljóðar svo: ‚Clarence Hall, Leeds, I.B.S.A. [skammstöfun fyrir Alþjóðasamtök biblíunemenda] 29. maí 1916. Sendur til Frakklands.‘Til Frakklands og heim aftur
Mannfall vegna stríðsins jókst með ógnarhraða í Frakklandi og Belgíu. Horatio Herbert Kitchener, hernaðarmálaráðherra, og breski hershöfðinginn Douglas Haig þurftu nauðsynlega á fleiri hermönnum að halda. Upp úr maí 1916 var því farið að skylda gifta karlmenn til að ganga í herinn. Til að þrýsta á fleiri að ganga í herinn var ákveðið að láta þá sem neituðu að gegna herskyldu af samviskuástæðum vera öðrum víti til varnaðar. Richmond-föngunum var því ógnað með byssum og þeir reknir handjárnaðir upp í járnbrautarlest og fluttir eftir krókaleiðum til Frakklands. Þetta var gert með leynd, enda ólöglegt. Tímaritið Heritage segir að á strönd Boulogne hafi „mennirnir verið bundnir með gaddavír við staura, rétt eins og verið væri að krossfesta þá“, og þeir síðan neyddir til þess að horfa á aftökusveit taka breskan liðhlaupa af lífi. Þeim var sagt að ef þeir hlýddu ekki skipunum myndu þeir hljóta sömu örlög.
Um miðjan júnímánuð árið 1916 voru fangarnir leiddir fyrir 3000 hermanna sveit þar sem kveðinn var upp dauðadómur yfir þeim. En Kitchener hernaðarmálaráðherra var þá látinn og forsætisráðherra Breta hafði skorist í leikinn. Póstkort skrifað á dulmáli hafði náð til yfirvalda í Lundúnum og var skipun hersins afturkölluð. Haig hershöfðingi fékk skipun um að breyta öllum dauðadómum í hegningarvinnu til tíu ára.
Í opinberri skýrslu segir að þegar fangarnir sextán komu aftur til Bretlands hafi nokkrir þeirra verið fluttir í skoska granítnámu og látnir vinna þar við hræðileg skilyrði „í þágu þjóðarinnar“. Hinir, þeirra á meðal Herbert Senior, voru sendir í almennt fangelsi í stað herfangelsis.
Arfleifðin
Yfirgripsmikil sýning hefur verið sett upp í Richmondkastala en þar sem fangelsisveggirnir eru afar viðkvæmir er notaður sýndarveruleiki og snertiskjáir til að gestir geti grannskoðað bæði klefana og áletranirnar á veggjunum án þess að valda tjóni. Sýningin er í umsjá English Heritage stofnunarinnar sem sér um verndun söguminja. Námsmenn eru hvattir til að glöggva sig á því hvers vegna samviskufangar voru tilbúnir til að þola illa meðferð, fangelsun og hugsanlega aftöku fyrir einlæga trú sína.
Föngunum sextán tókst með góðum árangri „að vekja athygli almennings á samviskuneitun og afla henni fylgis og viðurkenningar“. Það varð til þess að yfirvöld sýndu þeim meiri skilning sem neituðu að gegna herskyldu af samviskuástæðum í seinni heimsstyrjöldinni.
Árið 2002 var hluti af fallegum garði á kastalalóðinni tileinkaður minningu fanganna sextán og minningunni um sannfæringu þeirra.
[Myndir á blaðsíðu 28, 29]
Frá vinstri til hægri: Turn á Richmondkastala frá 12. öld en þar voru fangarnir hafðir í haldi.
Herbert Senior, einn fanganna sextán í Richmond.
Einn fangaklefanna þar sem föngunum sextán var haldið.
Bakgrunnur á spássíum: Hluti af áletrunum á veggjum fangaklefanna.