Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er nokkuð að því að drekka?

Er nokkuð að því að drekka?

Sjónarmið Biblíunnar

Er nokkuð að því að drekka?

GÓÐLYNDA fyllibyttan hefur árum saman verið sígilt skemmtiefni á leiksviði og á hvíta tjaldinu. Enda þótt skemmtikraftarnir séu bara að leika ber gamansemi þeirra glöggt vitni um algengan tvískinnung gagnvart drykkjuskap sem er álitinn löstur en samt frekar meinlaus.

En raunveruleikinn er vitanlega ekkert grín. Misnotkun áfengis er eitt helsta heilbrigðisvandamálið í heiminum að sögn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Sagt er að sé tóbaksfíknin undanskilin valdi misnotkun áfengis fleiri dauðsföllum og sjúkdómum en misnotkun nokkurra annarra vanabindandi efna og kosti árlega bandaríska hagkerfið rúmlega 184 milljarða dollara (um 13 billjónir ÍSK).

Þó að þetta liggi ljóst fyrir gera margir lítið úr skaðsemi þess að drekka of mikið. Þótt þeir viðurkenni að langvarandi ofneysla geti verið skaðleg finnst þeim ekkert athugavert við að fara á fyllirí annað slagið. Sums staðar í heiminum finnst ungu fólki það komast í fullorðinna manna tölu með því að verða ofurölvi. Þrátt fyrir strangar viðvaranir heilbrigðisstofnana eru fyllirí æ algengari meðal allra aldurshópa. Margir velta þess vegna fyrir sér hvort það sé nokkuð svo slæmt að „detta í það“ af og til. Hvað segir Biblían?

Vín er Guðs gjöf

Vín og áfengur drykkur er oft nefnt í Biblíunni. Salómon konungur skrifaði: „Far því og et brauð þitt með ánægju og drekk vín þitt með glöðu hjarta, því að Guð hefir þegar lengi haft velþóknun á verkum þínum.“ (Prédikarinn 9:7) Sálmaritarinn tekur fram að Jehóva Guð hafi gefið okkur „vín, sem gleður hjarta mannsins“. (Sálmur 104:14, 15) Greinilegt er að vínið er ein af þeim gjöfum sem Jehóva hefur gefið mönnunum.

Jesú fannst greinilega ekkert athugavert við að drekka vín. Reyndar var það hans fyrsta kraftaverk að breyta vatni í eðalvín í brúðkaupsveislu. (Jóhannes 2:3-10) Hann notaði líka vín sem viðeigandi tákn fyrir blóð sitt þegar hann innleiddi kvöldmáltíð Drottins. (Matteus 26:27-29) Lækningamáttur víns er jafnvel nefndur í Biblíunni því að Páll postuli hvatti Tímóteus til að „neyta lítils eins af víni vegna magans“. — 1. Tímóteusarbréf 5:23; Lúkas 10:34.

Aðalatriðið er hófsemi

Taktu eftir að Páll mælti með því að neyta einungis „lítils eins af víni“. Óhófleg áfengisneysla af öllu tagi er ótvírætt fordæmd í Biblíunni. Lögin, sem Guð gaf Ísrael, kváðu á um að grýta skyldi þrjóskan, ódælan son sem væri svallari og drykkjurútur. (5. Mósebók 21:18-21) Prestar Gyðinga máttu neyta áfengis í hófi þegar þeir voru ekki við skyldustörf. En þeim var bannað að drekka áfengi á meðan þeir gegndu prestskyldum, að viðlagðri dauðarefsingu. (3. Mósebók 10:8-11) Löngu seinna voru hinir frumkristnu varaðir við því að drykkjumenn myndu ekki „Guðs ríki erfa“. — 1. Korintubréf 6:9, 10.

Páll tekur enn fremur fram í fyrirmælum sínum til Tímóteusar að þeir sem fari með forystuna í söfnuðinum megi hvorki vera ‚drykkfelldir‘ né „sólgnir í vín“. * (1. Tímóteusarbréf 3:3, 8) Biblían fyrirskipar raunar að iðrunarlausum drykkjumönnum skuli vísað úr kristna söfnuðinum. (1. Korintubréf 5:11-13) „Vínið er spottari“ eins og komist er svo vel að orði í Ritningunni. (Orðskviðirnir 20:1) Ofneysla áfengis getur dregið úr hömlun og sljóvgað dómgreindina.

Ástæða þess að orð Guðs fordæmir ofneyslu áfengis

Jehóva kennir okkur ‚að gera það sem okkur er gagnlegt‘ og veit að þegar við misnotum eitthvað veldur það sjálfum okkur og öðrum tjóni fyrr eða síðar. (Jesaja 48:17, 18) Þetta á vissulega við um áfengi. Í orði Guðs er spurt: „Hver æjar? hver veinar? hver á í deilum? hver kvartar? hver fær sár að þarflausu? hver rauð augu?“ Svarið er: „Þeir sem sitja við vín fram á nætur, þeir sem koma saman til að bergja á krydduðum drykkjum.“ — Orðskviðirnir 23:29, 30.

Fólk hefur gert ýmislegt vanhugsað og hættulegt undir áhrifum of mikils áfengis, svo sem ekið bíl og stofnað sér og öðrum í hættu, sýnt maka einhvers annars of mikinn áhuga og valdið þar með vinaslitum eða erfiðleikum í hjónabandi sínu eða talað og hegðað sér heimskulega eða jafnvel á siðspilltan hátt. (Orðskviðirnir 23:33) Misnotkun áfengis er réttilega kölluð eitt versta þjóðfélagsböl sem nú hrjáir mannkynið. Því er engin furða að Guð skuli hvetja: „Ver þú ekki með drykkjurútum.“ — Orðskviðirnir 23:20.

Páll segir í Galatabréfinu 5:19-21 að ofdrykkja og svall séu „holdsins verk“ í andstöðu við ávöxt anda Guðs. Ofneysla áfengis spillir sambandi okkar við Guð. Því er ljóst að kristnir menn eiga að varast óhóflega neyslu áfengis.

[Neðanmáls]

^ Umsjónarmenn og safnaðarþjónar eiga að vera hjörðinni fyrirmynd í dómgreind og hegðun og fylgja háleitum siðferðisreglum Jehóva eftir fremsta megni. Ekki er nema eðlilegt að gera sömu kröfu til annarra kristinna manna.