Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Forn eiðstafur sem enn hefur gildi

Forn eiðstafur sem enn hefur gildi

Forn eiðstafur sem enn hefur gildi

GRÍSKI læknirinn Hippókrates, oft nefndur faðir læknislistarinnar, samdi læknaeiðinn, sem við hann er kenndur, um árið 400 fyrir okkar tímatal. Þessi göfugi eiðstafur er leiðarljós læknastéttarinnar enn þann dag í dag. Hefur þér verið kennt þetta? Þá ertu ekki einn á báti. En er þetta að öllu leyti rétt?

Ýmislegt bendir til þess að Hippókrates sé ekki höfundur eiðsins sem kenndur er við hann. Og læknastéttin tekur ekki að öllu leyti undir eiðstafinn í upprunalegri mynd hans.

Vitum við hver samdi þennan eiðstaf og hefur hann eitthvert gildi fyrir okkur sem nú lifum?

Samdi Hippókrates eiðinn?

Margt vekur efasemdir um að Hippókrates sé höfundur læknaeiðsins. Má þar meðal annars nefna að eiðurinn hefst með ákalli til margra guða og gyðja. Hippókrates er hins vegar talinn hafa verið fyrstur manna til að aðskilja læknislistina frá trúnni og leita náttúrlegra frekar en yfirnáttúrlegra orsaka fyrir sjúkdómum.

Þá má nefna að eiðurinn leggur bann við sumu sem braut þó ekki í bága við þær læknisaðferðir sem stundaðar voru á dögum Hippókratesar. (Sjá rammagrein á bls. 21.) Fóstureyðingar og sjálfsvíg voru til dæmis ekki fordæmd í lögum á hans tímum og yfirleitt ekki heldur samkvæmt trúarlegum viðmiðum. Og sá sem fer með eiðstafinn heitir því að láta skurðlækna um skurðaðgerðir. Skurðaðferðum er þó lýst í ritsafni Hippókratesar en í því eru rit um læknisfræði sem eignuð eru honum og fleiri fornum höfundum.

Þó að enn sé um það deilt meðal fræðimanna virðast talsverðar líkur á því að læknaeiðurinn sé ranglega eignaður Hippókratesi. Sú lífsspeki, sem birtist í eiðstafnum, virðist einna helst koma heim og saman við skoðanir Pýþagórista á fjórðu öld f.o.t. en þeir aðhylltust hugsjónir um heilagleika lífsins og voru andvígir skurðaðgerðum.

Í náð og ónáð

Hver sem höfundur læknaeiðsins er verður því ekki móti mælt að hann hefur haft víðtæk áhrif á læknisfræði Vesturlanda, einkum siðfræði lækna. Eiðstafurinn hefur verið nefndur „hátindurinn í framþróun nákvæmra siðfræðihugtaka í læknisfræði“, „grundvöllurinn að sambandi læknis og sjúklings í þróuðu löndunum“ og „hástig starfsgreinasiðfræði“. Sir William Osler, víðkunnur kanadískur læknir, sagði árið 1913: „Litlu skiptir hvort þessi eiðstafur er frá tímum Hippókratesar eða ekki . . . Hann hefur verið ‚trúarjátning‘ stéttarinnar í 25 aldir og í fjölda háskóla er hann enn sá formáli sem notaður er þegar mönnum er veittur aðgangur að læknastéttinni.“

Snemma á 20. öld féll læknaeiðurinn hins vegar í ónáð ef svo má að orði komast, hugsanlega vegna vísindaframfara sem áttu sér stað á þeim tíma. Eiðstafurinn kann að hafa virst úreltur eða lítils verður andspænis vaxandi skynsemishyggju. En þrátt fyrir framfarir í vísindum er eftir sem áður þörf fyrir siðareglur. Það kann að vera ástæðan fyrir því að eiðurinn hefur hlotið uppreisn æru á síðustu áratugum.

Í mörgum læknaskólum er eiðstafur aftur orðinn mikilvægur þáttur í inngöngu eða útskrift nemenda. Árið 1993 var gerð könnun í Bandaríkjunum og Kanada sem leiddi í ljós að 98 prósent þeirra læknaskóla, sem könnunin náði til, viðhafði einhvers konar eiðstaf. Árið 1928 var hlutfallið aðeins 24 prósent. Í áþekkri könnun, sem gerð var í Bretlandi, kom í ljós að um það bil helmingur skóla lætur nemendur sverja eið eða gefa yfirlýsingu. Hlutfallið er svipað í Ástralíu og á Nýja-Sjálandi.

Tímarnir breytast og eiðurinn með

Læknaeiðurinn hefur þó ekki haldist óbreyttur frá upphafi heldur hefur hann í aldanna rás verið lagaður að trúarviðhorfum kristna heimsins á hverjum tíma. Stundum hafa verið gerðar breytingar á honum til að bregðast við ýmsum öðrum málum, svo sem meðferð sjúklinga í plágum. Á síðustu árum og áratugum hefur hann svo verið aðlagaður nýjum viðhorfum.

Í mörgum útgáfum læknaeiðsins er búið að fella niður hugtök og hugmyndir sem endurspegla ekki nútímaaðferðir læknavísindanna og bætt hefur verið við öðru sem álitið er mikilvægt í þjóðfélagi nútímans. Til dæmis er meginreglan um sjálfræði sjúklinga ofarlega á baugi nú um stundir en hún á sér enga hliðstæðu í læknislist Grikkja til forna og er ekki nefnd í Hippókratesareiðnum. Réttindi sjúklinga eru hins vegar mikilvægur þáttur í mörgum þeim yfirlýsingum og siðareglum sem nú eru í notkun.

Samband læknis og sjúklings hefur breyst frá því sem áður var og nú er lögð mikil áhersla á upplýst samþykki, svo eitthvað sé nefnt. Einungis fáeinir læknaskólar nota því læknaeiðinn í sinni fornu mynd.

Aðrar breytingar á læknaeiðnum koma þó heldur meira á óvart. Af þeim eiðstöfum, sem notaðir voru í Bandaríkjunum og Kanada árið 1993, voru aðeins 43 prósent með ákvæði þess efnis að læknar þyrftu að svara til ábyrgðar á gerðum sínum, og fæstar nýlegar útgáfur eiðsins kveða á um refsingu, séu ákvæði hans brotin. Ákvæði gegn líknardrápi og fóstureyðingu og ákall til einhvers guðdóms eru enn sjaldgæfari, og aðeins 3 prósent þeirra skóla, sem könnunin náði til, notuðu eiðstaf þar sem var ákvæði gegn kynferðissambandi við sjúklinga.

Gildi læknaeiðs

Þrátt fyrir allar þær breytingar, sem gerðar hafa verið á læknaeiðnum, er eiðstafur oft talinn mikilvægur hjá starfsstétt sem er helguð háleitum og göfugum hugsjónum. Könnunin frá 1993, sem vitnað er til hér á undan, leiddi í ljós að eiðurinn beinist yfirleitt að skuldbindingum lækna gagnvart sjúklingum þar sem verðandi læknir heitir því að gera sitt besta til að annast sjúklinga sína. Slík yfirlýsing beinir athyglinni að þeirri göfugu siðfræði sem er grundvöllur læknislistarinnar.

Edmund Pellegrino, prófessor, segir í ritstjórnargrein í The Medical Journal of Australia: „Í hugum margra er læknaeiðurinn ef til vill brot af fornri ímynd í molum. Nóg er þó eftir af þessari ímynd í vitund stéttarinnar til að minna okkur á að ef við gleymdum henni alveg myndi læknislistin breytast í kaupsýslu, iðnað eða brauðstrit.“

Fræðimenn halda eflaust áfram að deila um það hvort Hippókratesareiðurinn eða þær yfirlýsingar okkar tíma, sem eru afsprengi hans, skipti máli nú á dögum. En hvað sem þeirri umræðu líður eiga læknar mikla virðingu skilda fyrir að helga sig því að annast sjúka.

[Rammagrein á blaðsíðu 21]

Hippókratesareiðurinn

Í ÞÝÐINGU VALDEMARS STEFFENSENS

Ég sver við Apollo, heilsugjafann, við Asklepios, Hygieiu og Panakeia, og nefni alla guði og gyðjur þar til vitnis, að ég ætla mér alveg að halda þennan eið minn og skuldbindingu, eftir því sem mér frekast er unnt og dómgreind mín nær.

Ég vil virða læknisfræðikennara minn sem foreldra mína, taka þátt í lífskjörum hans og, ef nauðsyn krefur, ala önn fyrir honum; ennfremur vil eg virða afkvæmi hans sem bræður, og kenna þeim læknisfræði, ef þeir æskja þess, endurgjaldslaust. Fræði mín vil ég kenna sonum mínum, sonum kennara míns, svo og þeim lærisveinum mínum sem bundnir eru læknalögum og lækniseiði, engum öðrum.

Þær einar fyrirskipanir mun ég gjöra er séu sjúklingum mínum til gagns og nytsemdar, eftir því sem þekking mín og dómgreind frekast fær ráðið. Forðast mun ég að aðhafast nokkuð illt eða óréttlátt gegn þeim.

Engum mun ég gefa lyf, svo honum verði að aldurtila, þótt farið sé þess á leit við mig, og engum ráð gefa til að stytta sér aldur; enn fremur engri konu fá lyf til fóstureyðingar.

Ég vil lifa hreinu, flekklausu lífi og rækja svo list mína. Skera til steins vil ég ekki; það gjöra þeir, sem þar til eru kallaðir.

Hvar sem ég kann í hús að koma, þá vil ég vera hinum sjúku til gagns og hjálpar, en fjarri mér sé ósanngjarn og vítaverður ásetningur; sérstaklega vil ég forðast allt daður við konur og smásveina, frjálsa og þræla. Á allt það, sem mér kanna að bera fyrir augu og að eyrum, þá er ég er að starfi mínu, mun ég líta sem leyndarmál og þegja yfir; sama máli gegnir um það, er ég kann að frétta um lifnað annarra, þá er ég er utan starfs, ef eigi varðar alþjóðarheill.

Haldi ég nú þennan eið minn alveg, og bregði hvergi af, þá ætti mér að hlotnast bæði gæfa og gengi, og ég hafa virðingu allra góðra manna. Skyldi það henda mig að ganga á eiðinn og gerast meinsærismaður, þá á ég að hitta fyrir hið andstæða.

[Mynd á blaðsíðu 20]

Blaðsíða úr ritsafninu sem eignað er Hippókratesi.

[Credit line]

Hippókrates og blaðsíða úr ritsafni: Með góðfúslegu leyfi National Library of Medicine.