Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvers vegna á að líta á hjónabandið sem heilagt?

Hvers vegna á að líta á hjónabandið sem heilagt?

Sjónarmið Biblíunnar

Hvers vegna á að líta á hjónabandið sem heilagt?

SENNILEGA eru margir þeirrar skoðunar að hjónabandið sé heilagt. Hvers vegna enda þá svona mörg hjónabönd með skilnaði? Sumum finnst hjónabandið lítið annað en rómantískt loforð og löggerningur. En loforð eru stundum lítils virt. Þess háttar viðhorf leiðir til þess að fólk gefur hjónabandið auðveldlega upp á bátinn þegar eitthvað bjátar á.

Hvernig lítur Guð á hjónabandið? Svarið er að finna í orði hans Biblíunni, í Hebreabréfinu 13:4: „Hjúskapurinn sé í heiðri hafður í öllum greinum.“ Gríska orðið, sem er þýtt „í heiðri hafður“, gefur til kynna að eitthvað sé verðmætt og mikils metið. Þegar okkur finnst eitthvað vera verðmætt gætum við þess mjög vel að glata því ekki, jafnvel ekki óviljandi. Sama ætti að gilda um hjónabandið. Kristnir menn eiga að halda hjónabandið í heiðri og varðveita það eins og um mikil verðmæti væri að ræða.

Það var Jehóva Guð sem gerði hjónabandið að heilögum sáttmála á milli eiginmanns og eiginkonu. Hvernig getum við sýnt að við höfum sömu afstöðu og hann til hjónabandsins?

Ást og virðing

Til að virða hjónabandið þurfa hjónin að virða hvort annað. (Rómverjabréfið 12:10) Páll postuli skrifaði kristnum mönnum á fyrstu öld: „Þér skuluð hver og einn elska eiginkonu sína eins og sjálfan sig, en konan beri lotningu fyrir manni sínum.“ — Efesusbréfið 5:⁠33.

Auðvitað getur komið fyrir að maki sé ekki alltaf sérlega elskulegur eða virðingarverður. Engu að síður á kristið fólk að sýna kærleika og virðingu. Páll skrifaði: „Umberið hver annan og fyrirgefið hver öðrum, ef einhver hefur sök á hendur öðrum. Eins og Drottinn hefur fyrirgefið yður, svo skuluð þér og gjöra.“ — Kólossubréfið 3:⁠13.

Gefðu þér tíma fyrir maka þinn

Hjón, sem virða heilagleika hjónabandsins, taka sér tíma til að sinna efnislegum og tilfinningalegum þörfum hvort annars. Það nær einnig til kynlífsins. Biblían segir: „Maðurinn gæti skyldu sinnar gagnvart konunni og sömuleiðis konan gagnvart manninum.“ — 1. Korintubréf 7:⁠3.

Sum hjón hafa þó talið nauðsynlegt að eiginmaðurinn flytti tímabundið í burtu til að auka tekjurnar. Stundum hefur þessi aðskilnaður óvænt orðið lengri en til stóð. Slíkur aðskilnaður reynir oft verulega á hjónabandið og hefur stundum leitt til hjúskaparbrota og hjónaskilnaðar. (1. Korintubréf 7:​2, 5) Þess vegna hafa mörg kristin hjón ákveðið að neita sér frekar um einhver efnisleg gæði en að stofna hjónabandinu, sem er þeim heilagt, í voða.

Þegar erfiðleikar steðja að

Kristið fólk, sem heiðrar hjónabandið, rýkur ekki til og slítur samvistum eða sækir um lögskilnað þótt erfiðleikar geri vart við sig. (Malakí 2:16; 1. Korintubréf 7:​10, 11) Jesús sagði: „Hver sem skilur við konu sína, nema fyrir hórsök, verður til þess, að hún drýgir hór. Og sá sem gengur að eiga fráskilda konu, drýgir hór.“ (Matteus 5:32) Það er vanvirðing við hjónabandið að skilja eða slíta samvistum þegar hjónin hafa ekki biblíulega ástæðu til þess.

Viðhorf okkar til hjónabandsins birtast líka í því hvað við ráðleggjum fólki sem á við alvarlega erfiðleika að glíma í hjónabandinu. Erum við fljót að mæla með hjúskaparslitum eða skilnaði? Vissulega geta verið gildar ástæður fyrir hjúskaparslitum, svo sem alvarlegar líkamsmeiðingar eða að framfærsluskylda sé vísvitandi vanrækt. * Eins og fram kemur hér að ofan heimilar Biblían einungis hjónaskilnað ef makinn gerist sekur um hjúskaparbrot. Kristnir menn ættu ekki að hafa of mikil áhrif á ákvörðun annarra í slíkum málum. Þegar öllu er á botninn hvolft er það sá sem býr við hjónabandserfiðleikana — ekki sá sem gefur ráðin — sem þarf að taka afleiðingunum. —  Galatabréfið 6:​5, 7.

Vanvirtu ekki hjónabandið

Sums staðar er orðið algengt að fólk notfæri sér hjónbandið til að fá dvalarleyfi í öðru landi. Yfirleitt semur fólk þá við ríkisborgara í viðkomandi landi um að giftast sér gegn greiðslu. Oft búa slík pör ekki saman og þekkjast varla þótt þau séu gift. Þau skilja síðan fljótlega eftir að dvalarleyfið er fengið. Hjónabandið er einungis viðskiptasamningur í þeirra augum.

Slíkt virðingarleysi samræmist ekki sjónarmiði Biblíunnar. Hjónaband er heilagt og bindandi í augum Guðs, hvert svo sem tilefni hjónaefnanna er þegar þau giftast. Hjónabandsáttmálinn bindur þau hvort öðru sem eiginmann og eiginkonu og þau gangast undir skilyrði Biblíunnar fyrir því að mega skilja og giftast öðrum. — Matteus 19:​5, 6, 9.

Eins og með allt annað eftirsóknarvert þá þarf að leggja eitthvað á sig og sýna þolgæði til að hjónabandið verði farsælt. Þeim sem virða ekki heilagleika hjónabandsins hættir frekar til að gefast upp eða sætta sig við að búa í óhamingjusömu hjónabandi. En hjón sem virða heilagleika hjónabandsins vita hins vegar að Guð ætlast til þess að þau haldi saman. (1. Mósebók 2:24) Þau vita líka að gott hjónaband heiðrar höfund þess. (1. Korintubréf 10:31) Þetta viðhorf hvetur hjónin til að gefast ekki upp og leggja sig fram við að gera hjónaband sitt farsælt.

[Neðanmáls]

^ gr. 14 Sjá Varðturninn, 1. september 1989, bls. 24-26.