Stuðlum að friði á vinnustað
Stuðlum að friði á vinnustað
HVERS vegna leggja sumir aðra í einelti? Biblían veitir okkur innsýn í málið. Þar er sagt að við lifum „á síðustu dögum“ þessa heimskerfis og þess vegna mæti okkur „örðugar tíðir“. Margir eru „sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir, lastmælendur, foreldrum óhlýðnir, vanþakklátir, vanheilagir, kærleikslausir, ósáttfúsir, rógberandi, taumlausir, grimmir, ekki elskandi það sem gott er, sviksamir, framhleypnir, ofmetnaðarfullir“. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Á þessum umbrotatímum er slík hegðun útbreidd og einelti er ein af andstyggilegum afleiðingum hennar. En hvernig geturðu þá stuðlað að friði á vinnustaðnum?
Að jafna ágreining
Einelti byrjar oft þannig að ágreiningsmál eru óleyst milli vinnufélaga. Leystu því fljótt úr ágreiningi sem varðar þig persónulega án þess þó að hnýsast í mál annarra. Dragðu úr sárindum með háttvísi og tillitssemi. Hugsaðu um vinnufélagana sem einstaklinga en ekki hóp. Ef einhver virðist hafa eitthvað á móti þér skaltu reyna að greiða úr því. „Vertu skjótur til sátta við andstæðing þinn,“ ráðlagði Jesús. — Matteus 5:25.
Það er öllum í hag að halda samskiptaleiðum opnum. Reyndu því að hafa gott samband við yfirmanninn án þess að gefa í skyn að þú sért að reyna að koma þér í mjúkinn hjá honum. Mundu einnig að góð samskipti við jafningja þína og undirmenn draga úr spennu. Salómon konungur skrifaði: Orðskviðirnir 15:22.
„Áformin verða að engu, þar sem engin er ráðagerðin, en ef margir leggja á ráðin, fá þau framgang.“ —Leggðu þig allan fram um að hafa góð samskipti við vinnufélagana. Það er ekki þar með sagt að þú eigir að sitja og standa eins og hver vill og víkja frá lífsreglum þínum til þess eins að halda friðinn. En hlýlegt og vinalegt viðmót getur brætt ísinn. Gættu ekki aðeins að því hvað þú segir heldur einnig hvernig þú segir það. Og aftur kemur Biblían með hollráð: „Mjúklegt andsvar stöðvar bræði.“ (Orðskviðirnir 15:1) „Hógværð tungunnar er lífstré.“ (Orðskviðirnir 15:4) „Með þolinmæði verður höfðingja talið hughvarf.“ (Orðskviðirnir 25:15) „Mál yðar sé ætíð ljúflegt, en salti kryddað, til þess að þér vitið, hvernig þér eigið að svara hverjum manni.“ — Kólossubréfið 4:6.
Vertu skynsamur
Páll postuli ráðlagði kristnum mönnum að „vera ódeilugjarnir, sanngjarnir og sýna hvers konar hógværð við alla menn“. (Títusarbréfið 3:2) Settu þér skynsamlega hegðunarstaðla í samræmi við þessa meginreglu. Vertu hvorki of sjálfsöruggur né óframfærinn. Ef vinnufélagarnir stríða þér skaltu forðast að gjalda líku líkt. Það er ekkert fengið með því að gera skilin óljós á milli góðrar og slæmrar hegðunar. Komdu fram við aðra með viðeigandi virðingu og þá er líklegra að þeir komi eins fram við þig.
Hugsaðu ekki eingöngu um hegðun þína heldur einnig um klæðnaðinn. Spyrðu sjálfan þig: Hvaða skilaboð gef ég með klæðnaði mínum? Virka ég ögrandi eða lít ég ósnyrtilega út? Ætti ég að setja mér ákveðnar reglur um klæðnað á vinnustað?
Víðast hvar er dugnaður og samviskusemi virt og mikils metin. Reyndu því að vinna þig í álit með því að skila góðu verki. Vertu traustur og áreiðanlegur. Það er ekki þar með sagt að allt sem þú gerir þurfi að vera óaðfinnanlegt. Kona nokkur, sem varð fyrir einelti, viðurkenndi seinna að hún hafi stuðlað að því sjálf að það fór sem fór. „Mig langaði til að vera fullkomin,“ sagði hún. Síðar skildi hún að það væri óvinnandi vegur að skila fullkomnu verki. „Ég er góður starfskraftur en ég þarf ekki að gera allt óaðfinnanlega.“
Taktu ekki særandi athugasemdir of nærri þér. Ósanngjörn gagnrýni er ekki endilega það sama og einelti. Salómon konungur segir í Biblíunni: „Ver þú eigi fljótur til að láta þér gremjast . . . Gef þú heldur ekki gaum öllum þeim orðum sem töluð eru . . . því að þú ert þér þess meðvitandi, að þú hefir og sjálfur oftsinnis bölvað öðrum.“ — Prédikarinn 7:9, 21, 22.
Það er vissulega engin trygging fyrir því að þú verðir aldrei fórnalamb eineltis þó að þú fylgir þessum meginreglum. Þótt þú reynir allt þitt besta gæti samt farið svo að sumir vinnufélagarnir leggi þig í einelti. Hvað er þá til ráða?
Leitaðu aðstoðar
„Ég lenti í miklu sálarstríði þegar mér var sýnt kuldalegt viðmót í nokkra mánuði,“ segir Gregory. Reynsla hans er dæmigerð fyrir þolendur eineltis sem upplifa margs konar sárar tilfinningar eins og reiði, sektarkennd, skömm og uppnám eða finnst þeir vera einskis virði. Álagið, sem fylgir einelti, getur jafnvel hrakið manneskju í góðu jafnvægi út á barm örvæntingar. Í Biblíunni segir reyndar: „Kúgun gjörir vitran mann að heimskingja.“ (Prédikarinn 7:7) Hvað er þá hægt að gera?
Rannsóknir sýna að það sé ekki heppilegt að takast á við einelti einn og óstuddur. Hvar getur fórnarlambið leitað aðstoðar? Í nokkrum stórum fyrirtækjum hefur verið boðið upp á aðstoð handa þeim sem finnst þeir hafa orðið fyrir áreitni. Stjórnendur fyrirtækjanna vita að það er þeim í hag að útrýma einelti. Talið er að starfsmenn, sem leggja fórnarlamb í einelti, séu annars hugar allt að 10 prósent af vinnutímanum. Hvar sem slík aðstoð er í boði getur þolandinn leitað hjálpar. Hlutlaus ráðgjafi, hvort sem hann er á vegum fyrirtækisins eða utanaðkomandi, getur opnað leið til umræðna fyrir alla þá sem hlut eiga að máli og sett hegðunarreglur á vinnustað.
Engin óbrigðul lausn
Það verður auðvitað að segjast eins og er að það er engin óbrigðul leið til að uppræta einelti. Jafnvel þeir sem fara eftir meginreglum Biblíunnar, sem nefndar eru í þessari grein, mega búast við að áreitni á vinnustað haldi áfram. En þeir geta verið vissir um að Jehóva Guð tekur eftir þolgæði þeirra og viðleitni til að sýna kristilega eiginleika þrátt fyrir mótlæti. — 2. Kroníkubók 16:9; Jeremía 17:10.
Verði áreitnin alvarleg og tíð leita sumir sér að annarri vinnu. Aðrir eiga fárra kosta völ þar sem önnur störf liggja ekki á lausu og fá úrræði til bjargar málunum. Monika, sem minnst var á í greininni hér á undan, sá fyrir endann á vandamálinu þegar forsprakkinn hætti í vinnunni. Það varð til þess að um tíma ríkti tiltölulega góður friður á vinnustaðnum og henni tókst að ljúka þjálfuninni áður en hún fór að leita sér að vinnu annars staðar.
Peter, sem getið er um í fyrstu greininni, fór snemma á eftirlaun og þannig voru mál hans endanlega leyst. En á meðan hann var lagður í einelti naut hann góðs af stuðningi eiginkonu sinnar. Hann segir: „Hún vissi hvað ég mátti þola og hún var stoð mín og stytta.“ Monika og Peter eru vottar Jehóva og meðan þau urðu fyrir þessu andstreymi sóttu þau einkum styrk í trúna. Það styrkti sjálfsvirðingu þeirra að boða trú sína, og samkomusókn treysti vináttuböndin við trúsystkinin.
Gerðu allt sem þú getur til að stuðla að góðum samskiptum á vinnustaðnum, hvernig svo sem högum þínum er háttað. Ef þú verður fyrir áreitni skaltu leggja þig allan fram um að fara eftir áminningum Páls postula: „Gjaldið engum illt fyrir illt. . . . Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á yðar valdi. . . . Lát ekki hið vonda yfirbuga þig, heldur sigra þú illt með góðu.“ — Rómverjabréfið 12:17-21.
[Rammi á blaðsíðu 8]
Vingjarnlegt viðmót bræðir ísinn.
[Rammi á blaðsíðu 9]
„Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á yðar valdi.“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 12:18.
[Mynd á blaðsíðu 8]
Leystu fljótt úr ágreiningi við vinnufélaga.