Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er í lagi að fara á skemmtistaði?

Er í lagi að fara á skemmtistaði?

Ungt fólk spyr . . .

Er í lagi að fara á skemmtistaði?

„Ég fór til þess að skemmta mér.“ — Shawn.

„Ef ég á að segja alveg eins og er, þá var gaman — það var ótrúlega gaman! Við dönsuðum alla nóttina.“ — Ernest.

DANS- og skemmtistaðir njóta mikilla vinsælda nú orðið. Margir unglingar víða um lönd stunda slíka staði í leit að góðri skemmtun.

Við viljum auðvitað öll njóta lífsins og hafa gaman af því, enda segir Biblían að það hafi sinn tíma að „hlæja“ og „dansa“. (Prédikarinn 3:4) En er heilnæma skemmtun að finna á skemmtistöðum eða er ástæða til að hugsa sig tvisvar um áður en maður fer á slíka staði?

„Taumlaus teiti“

Biblían fordæmir ekki allar skemmtanir en hún varar við ‚svalli‘ eða ‚taumlausum teitum‘. (Galatabréfið 5:19-21, Byington) Biblían segir frá dæmum um svallveislur sem ýttu undir taumlausa hegðun. Spámaðurinn Jesaja skrifaði: „Vei þeim, sem rísa árla morguns til þess að sækjast eftir áfengum drykk, sem sitja fram á nótt eldrauðir af víni. Gígjur, hörpur, bumbur og hljóðpípur kveða við, og vínið flóir við samdrykkjur þeirra, en gjörðum Drottins gefa þeir eigi gaum.“ — Jesaja 5:11, 12.

Á þessum skemmtunum voru ‚áfengir drykkir‘ á boðstólum og tryllt tónlist var spiluð. Þær hófust snemma og stóðu fram á rauðanótt. En taktu eftir viðhorfi fólksins. Það hagaði sér eins og Guð væri ekki til. Það er því ekkert skrýtið að Guð skuli hafa fordæmt skemmtanir sem þessar. En hvað finnst honum um það sem á sér stað á mörgum skemmtistöðum nú á dögum?

Lítum á nokkrar staðreyndir. Á sumum skemmtistöðum er dansaður trylltur dans sem kallaður er moshing. Hann er sagður hafa „átt upptök í Bandaríkjunum á miðjum níunda áratugnum, eftir pönktímann. Hann er sprottinn . . . af öðrum dansi (nefndur slam-dancing) sem er þannig að dansarar slengja sér hver utan í annan. Þegar fólk dansar þennan dans hoppar það, kastar höfðinu ákaft til og frá, stangar aðra dansara og skellir sér jafnvel utan í þá. Það er ekki óalgengt að fólk beinbrotni og skerist. Dansinn hefur einnig leitt til hryggjar- og höfuðmeiðsla og jafnvel dauða. Á sumum skemmtistöðum tíðkast líka að lyfta fólki upp og láta það líða áfram á uppréttum höndum fjöldans. Margir hafa meiðst við að falla á gólfið úr þessari hæð. Það er líka algengt að káfað sé á stelpum við þessar aðstæður.

Hegðun af þessu tagi er Guði vanþóknanleg, á því leikur enginn vafi. Við vitum að í orði hans er sagt að kristnir menn eigi „að afneita óguðleik og veraldlegum girndum og lifa hóglátlega“. — Títusarbréfið 2:12.

Tónlist og fíkniefni

Þá er að nefna tónlistina sem er spiluð á flestum dans- og skemmtistöðum. Sumir staðir spila aðallega rokktónlist og þungarokk, tónlist sem einkennist af þungum takti og grófum textum. Sums staðar er hins vegar rapp eða hip hop vinsælt. Sú tónlist lofsyngur kynlíf, ofbeldi og uppreisnaranda á svipaðan hátt og rokkið. Gæti það haft óheilnæm áhrif á þig að hlusta á þess konar tónlist í slíku umhverfi? David Hollingworth hefur kynnt sér málið og segir: „Tónlist hefur mjög sterk sálræn áhrif á fólk. Og þar sem margir eru samankomnir getur hún jafnvel ýtt undir árásagirni.“ Það kemur því ekki á óvart að ofbeldi skuli hafa brotist út á skemmtistöðum í mörgum borgum Bandaríkjanna. Margir segja að þetta sé bein afleiðing af tónlist sem lofsyngur gróft hátterni og hrottalega hegðun. *

Á síðari árum hefur fíkniefnaneysla fylgt skemmtistöðum. Rannsóknarmaður segir að „framboð, úrval og neysla fíkniefna . . . tengist vinsældum dans- og skemmtistaða“. Meira að segja eru til fíkniefni sem kölluð eru „danslyf“. Sumir, sem stunda dansstaði, blanda jafnvel saman nokkrum tegundum vímugjafa. Þeirra á meðal er ketamín sem getur valdið hugrofi, óráði, öndunarerfiðleikum og taugaskaða. Metamfetamín getur valdið minnisleysi og leitt til árásarhneigðar og ofbeldis. Það getur líka valdið hjarta- og taugaskaða. En sér í lagi hefur e-taflan svonefnda verið vinsæl en hún er amfetamínafbrigði. Hún getur valdið ruglun, kvíða, hröðum hjartslætti, háum blóðþrýstingi og ofurhita. Þess eru dæmi að e-töflur hafi valdið dauða.

Fíkniefnaneysla gengur í berhögg við boð Biblíunnar um að ‚hreinsa okkur af allri saurgun á líkama og sál‘. (2. Korintubréf 7:1) Er viturlegt að fara á staði þar sem fíkniefnaneysla er algeng?

Vondur félagsskapur

Mundu eftir viðvöruninni: „Vondur félagsskapur spillir góðum siðum,“ sem svo oft er vitnað til. (1. Korintubréf 15:33) Flestir unglingar, sem sækja skemmtistaði, virðast hafa lítinn sem engan áhuga á að þóknast Guði, rétt eins og svallararnir á biblíutímanum. Reyndar má segja að flestir þeirra elski „munaðarlífið meira en Guð“. (2. Tímóteusarbréf 3:4) Langar þig virkilega að tengjast slíkum hópi?

Sumir telja sér kannski trú um að það sé ekki eins hættulegt að fara á skemmtistaði ef maður fer með öðrum unglingum í söfnuðinum. Það er hins vegar ekki líklegt að kristnir unglingar, sem eru „fyrirmynd trúaðra . . . í hegðun“, séu tilbúnir til að slást í hópinn. (1. Tímóteusarbréf 4:12) Jafnvel þótt hópur unglinga í söfnuðinum færi saman á skemmtistað og tækist að halda hópinn er óheilnæm tónlist og andrúmsloft engu að síður til staðar. Þeir gætu lent í vandræðalegri aðstöðu ef einhver annar utan hópsins býður þeim út á dansgólfið. Sumir hafa jafnvel dregist inn í slagsmál. Biblían reynist því sannorð þegar hún segir: „Haf umgengni við vitra menn, þá verður þú vitur, en illa fer þeim, sem leggur lag sitt við heimskingja.“ — Orðskviðirnir 13:20.

Ögrandi dans

Síðan er það dansinn. Nýtt dansfyrirbæri („freak dancing“) hefur upp á síðkastið orðið einstaklega vinsælt, einkum á meðal unglinga í Bandaríkjunum. Þessi dans er aðallega dansaður við klúra texta hip hop tónlistarinnar og hreyfingar dansaranna líkja eftir kynmökum. Honum hefur því verið lýst sem „kynlífi í fötum“.

Ætti kristinn ungling að langa til að taka þátt í þess konar dansi? Ekki ef hann vill þóknast Guði sem segir okkur að ‚flýja saurlifnaðinn‘. (1. Korintubréf 6:18) En sumir gætu sagt að fyrst allir aðrir geri það hljóti það að vera í lagi. Fjöldinn getur hins vegar haft rangt fyrir sér. (2. Mósebók 23:2) Sýndu að þú þorir að standa á móti jafnöldrunum og varðveita góða samvisku frammi fyrir Guði. — 1. Pétursbréf 4:3, 4.

Taktu skynsamlega ákvörðun

Þetta þýðir ekki að dans sé alslæmur. Í Biblíunni er sagt frá því að þegar Davíð konungur kom aftur til Jerúsalem með sáttmálsörkina hafi hann fyllst slíkri gleði að hann „dansaði af öllum mætti“. (2. Samúelsbók 6:14) ‚Hljóðfærasláttur og dans‘ var líka hluti af fögnuðinum sem varð þegar glataði sonurinn í dæmisögu Jesú sneri aftur heim. — Lúkas 15:25.

Á sama hátt getur ákveðinn dans í þínu menningarsamfélagi verið við hæfi kristins manns. En jafnvel þá er nauðsynlegt að leita jafnvægis og sýna góða dómgreind. Það er miklu öruggara að dansa og hlusta á tónlist þar sem trúbræður eru saman komnir og góð umsjón og eftirlit er með öllu er en að vera á dans- og skemmtistöðum. Í boðum innan safnaðarins, sem eru undir góðri umsjón, er unga fólkið ekki út af fyrir sig heldur á góðar og heilnæmar stundir með trúsystkinum á öllum aldri.

Vel má vera að til séu veitingastaðir í byggðarlaginu sem bjóða upp á viðeigandi dans og tónlist. En áður en farið er á slíka staði væri gott að spyrja sig eftirfarandi spurninga: Hvers konar orð fer af staðnum? Er hann aðeins fyrir unglinga? Ef svo er, er þá líklegt að andrúmsloftið sé heilnæmt? Hvers konar tónlist er spiluð? Hvers konar dans er dansaður? Hvað finnst foreldrum mínum um að ég fari? Með því að spyrja þig þessara spurninga geturðu forðast margs konar ógæfu.

Shawn, sem vitnað var í fyrr í greininni, stundaði skemmtistaði áður en hann varð vottur. Hann lýsir þessu í hnotskurn: „Það er mikið lauslæti á skemmtistöðum. Tónlistin er venjulega óviðeigandi, dansarnir ósiðsamlegir og langflestir sækja þessa staði með það fyrir augum að finna einhvern til að sofa hjá.“ Shawn hætti að sækja skemmtistaði eftir að hann byrjaði að kynna sér Biblíuna með aðstoð votta Jehóva. Hann hefur slæma reynslu af þeim. „Kristnir menn eiga ekkert erindi á þessa staði,“ segir hann.

[Neðanmáls]

^ Sjá greinina „Why Music Affects Us“, í Vaknið! (á ensku) 8. október 1999.

[Mynd á blaðsíðu 26]

Unglingar hafa stundum lent í vandræðalegum aðstæðum á skemmtistöðum.