Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Gimsteinar hafsins“

„Gimsteinar hafsins“

„Gimsteinar hafsins“

Höfin eru full af smásæjum þörungum, svonefndum kísilþörungum. Þetta eru einfrumungar sem búa sér til glerskeljar með fögru og fíngerðu mynstri. Kísilþörungarnir hafa heillað vísindamenn um aldaraðir, allt frá því að smásjáin var fundin upp og menn gátu gert uppdrætti af fínlegri fegurð þeirra. Það er ekki að ófyrirsynju að kísilþörungarnir skuli vera kallaðir gimsteinar hafsins.

Kísilþörungar komu við sögu á sjöunda áratug nítjándu aldar þegar Alfred Nobel fann upp dínamítið, en honum hugkvæmdist að binda nítróglýserín í kísilgúr sem er einmitt unninn úr skeljum kísilþörunga. Þannig gat hann búið til handhægar túpur með sprengiefninu. Steingerðar skeljar þeirra hafa ýmiss konar notagildi, svo sem í endurskinsmálningu fyrir vegi, til að hreinsa vín og til að sía vatn í sundlaugum.

Mikilvægasta hlutverk þessara örsmáu einfrumuplantna er samt það að þær standa fyrir fjórðungi allrar ljóstillífunar á jörðinni. Allen Milligan og Francois Morel, vísindamenn við Princeton-háskóla í Bandaríkjunum, hafa uppgötvað að kíslið í glerskel kísilþörunganna veldur efnabreytingu í vatninu sem er inni í þeim, þannig að það skapast kjörskilyrði fyrir ljóstillífun. Vísindamenn telja að skrautmynstur glerskeljanna gegni því hlutverki að stækka snertiflötinn við vatnið inni í þeim og gera ljóstillífunina skilvirkari. Mönnum er það hulin ráðgáta enn þá hvernig þessar fögru skeljar myndast úr kísli sem er uppleystur í sjónum. Hitt vita vísindamenn að kísilþörungar eiga mikilvægan þátt í því að viðhalda lífi á jörðinni með því að taka til sín koldíoxíð og losa súrefni. Hugsanlega er þáttur þeirra enn mikilvægari en þáttur plantna sem vaxa á þurru landi.

Morel segir að kísilþörungarnir „spjari sig hvað best af lífverum jarðar“. Milligan bætir við að „gróðurhúsaáhrifin gætu verið mun meiri“ ef kísilþörungarnir væru ekki svona sólgnir í koldíoxíð.

Kísilþörungar sökkva til botns þegar þeir deyja og þar steingerist kolefnið sem eftir er í þeim. Sumir vísindamenn telja að olíuforði jarðar eigi að hluta til uppruna sinn í steingerðum leifum kísilþörunga sem hafi ummyndast undir miklum þrýstingi. Margir óttast að hnattverming og hækkandi sjávarhiti verði til þess að gerlar nái að brjóta niður leifar kísilþörunganna áður en þeir sökkva og losi við það kolefni út í efsta lag sjávarins. Þessir smásæju „gimsteinar hafsins“ eru hluti af snilldarlega gerðri lífkeðju sem nú er hugsanlega stefnt í voða.

[Mynd credit line á blaðsíðu 31]

© Dr. Stanley Flegler/Visuals Unlimited