Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er eitthvað að því að stunda kynlíf fyrir hjónaband?

Er eitthvað að því að stunda kynlíf fyrir hjónaband?

Ungt fólk spyr . . .

Er eitthvað að því að stunda kynlíf fyrir hjónaband?

„Ég hugsa stundum út í það hvort kynlíf fyrir hjónaband sé nokkuð svo slæmt, sérstaklega þegar mér finnst ég vera eitthvað skrýtinn fyrir að vera enn þá hreinn sveinn.“ — Jordon. *

„Mér finnst þrýst á mann að prófa sig áfram með kynlíf. Ég held að við höfum öll tilhneigingu til þess. Það er alveg sama hvert litið er, það snýst allt um kynlíf.“ — Kelly.

GETURÐU sett þig í spor Jordons og Kellyar? Hefðbundnir siðir og gildi, sem mæltu gegn því að fólk stundaði kynlíf fyrir hjónaband, hafa næstum fallið í gleymsku. (Hebreabréfið 13:⁠4) Í könnun, sem gerð var í Asíu, kom í ljós að flestum karlmönnum á aldrinum 15-24 ára fannst ekki aðeins gott og blessað að lifa kynlífi fyrir hjónaband heldur fannst þeim líka eins og til þess væri ætlast. Það er því ekki að undra að flestir unglingar um heim allan hafi haft kynmök fyrir 19 ára aldur.

Svo má ekki gleyma þeim unglingum sem vilja ekki hafa kynmök en stunda samt annars konar kynlífsathafnir, eins og það að þukla á kynfærum hver annars (stundum talað um að fróa hver öðrum). Í tímaritinu The New York Times, kom fram að „algengt væri að munnmök væru fyrsta kynlífsreynsla unglinga þar sem þau væru almennt talin ópersónulegri og áhættuminni en kynmök, . . . leið til að forðast þungun og varðveita svein- eða meydóminn.“ Þessi staðreynd veldur mörgum áhyggjum.

En hvernig ætti kristinn unglingur að líta á kynlíf fyrir hjónaband? Og hvað um kynlífsathafnir sem fela ekki í sér kynmök? Eru þær Guði þóknanlegar? Eru þær hættulausar? Er hægt að teljast skírlífur ef maður stundar þær?

Hvað er saurlifnaður?

Jehóva Guð, skapari okkar, er sá eini sem getur veitt okkur áreiðanleg svör við þessum spurningum, en hann segir okkur í orði sínu að ‚flýja saurlifnaðinn‘. (1. Korintubréf 6:18) Hvað þýðir það? Gríska orðið sem hér er þýtt ‚saurlifnaður‘ á ekki aðeins við um kynmök heldur einnig alls kyns ósæmilegar kynlífsathafnir. Ef því tveir ógiftir einstaklingar hafa munnmök eða þukla á kynfærum hvor annars, gera þeir sig seka um saurlifnað.

En lítur Guð á slíka einstaklinga sem skírlífa? Í Biblíunni eru orðin ‚hrein mey‘ (eða hreinn sveinn) notuð sem tákn um siðprýði, en þau eru einnig notuð um skírlífi. (2. Korintubréf 11:​2-6) Biblían segir frá ungri konu sem hét Rebekka. Hún segir að Rebekka hafi verið ‚mey og að enginn maður hafi kennt hennar‘, það er að segja haft kynmök við hana. (1. Mósebók 24:16) Athyglisvert er að frummálsorðið á hebresku, sem þýtt er ‚að kenna einhvers‘, nær ekki aðeins yfir eðlileg kynmök karls og konu heldur líka annars konar kynlífsathafnir. (1. Mósebók 19:⁠5) Samkvæmt Biblíunni getur því unglingur ekki talist skírlífur ef hann tekur á einhvern hátt þátt í saurlifnaði.

Biblían hvetur kristna menn ekki aðeins til að flýja saurlifnað heldur líka alls kyns óhreina hegðun sem gæti leitt til saurlifnaðar. * (Kólossubréfið 3:⁠5) Sumir gera kannski grín að þér fyrir að taka þessa afstöðu. Kelly, sem er vottur Jehóva, segir: „Öll framhaldsskólaárin heyrði ég krakkana segja: ‚Þú veist ekki af hverju þú ert að missa.‘ “ En kynlíf fyrir hjónaband er ekkert annað en ‚skammvinnur unaður af syndinni‘. (Hebreabréfið 11:25) Það getur valdið þér varanlegu tjóni bæði líkamlega, tilfinningalega og andlega.

Hverjar eru hætturnar?

Biblían segir frá því að Salómon konungur hafi eitt sinn orðið vitni að því þegar ungur maður lét tælast til að hafa kynmök fyrir hjónaband. Hann líkti unga manninum við „naut á leið til slátrunar“. Naut, sem er á leið til slátrunar, virðist ekki hafa neina hugmynd um hvað sé handan við hornið. Það má segja að það sé svipað með unglinga sem stunda kynlíf fyrir hjónaband — þeir virðast hafa litla sem enga hugmynd um að verk þeirra hafi alvarlegar afleiðingar í för með sér. Salómon sagði um unga manninn: „[Hann] veit ekki að líf hans er í veði.“ (Orðskviðirnir 7:​22, 23, Biblíurit, ný þýðing 1998) Já, líf þitt er í veði.

Sem dæmi má nefna að milljónir unglinga smitast af kynsjúkdómum á hverju ári. „Mig langaði til að láta mig hverfa þegar ég komst að því að ég var með kynfæraherpes,“ segir Lydia. Hún heldur áfram döpur í bragði: „Þetta er sársaukafullur sjúkdómur sem ég á aldrei eftir að losna við.“ Rúmlega helmingur allra þeirra, sem smitast af eyðniveirunni (6000 á dag), er fólk á aldrinum 15-24 ára.

Kvenfólk er sérstaklega berskjaldað gagnvart þeim vandamálum sem kynlíf fyrir hjónaband hefur í för með sér. Reyndar er kvenfólk í meiri hættu að smitast af kynsjúkdómum en karlmenn (þar með talinni eyðniveirunni). Ef ung stúlka verður síðan þunguð leggur hún bæði sjálfa sig og ófætt barn sitt í hættu. Hvernig þá? Líkami ungrar stúlku hefur líklega ekki náð þeim þroska sem þarf til að hún geti fætt barn hættulaust.

En jafnvel þótt unglingsmóðir fæði barn sitt án vandkvæða þarf hún samt sem áður að horfast í augu við þá alvarlegu ábyrgð sem fylgir því að verða foreldri. Margar stúlkur hafa komist að raun um að það er erfiðara en þær höfðu haldið að sjá sér og barninu farborða.

Þá eru ónefnd áhrifin sem kynlíf fyrir hjónaband hefur á trúna og tilfinningalífið. Þegar Davíð konungur framdi hjúskaparbrot lagði hann vinskap sinn við Guð í hættu sem varð til þess að hann beið næstum andlegt skipbrot. (Sálmur 51) Og þótt hann hafi síðar styrkst í trúnni þurfti hann samt sem áður að þola afleiðingarnar af syndinni það sem eftir var ævinnar.

Á svipaðan hátt geta unglingar þurft að þjást. Sem dæmi má nefna Cherie en hún átti í kynferðislegu sambandi við strák nokkurn þegar hún var aðeins 17 ára. Hún hélt að hann elskaði sig. Þó að mörg ár séu liðin sér hún enn eftir því sem hún gerði. Hún segir döpur í bragði: „Ég tók sannleika Biblíunnar ekki nógu alvarlega og þurfti að líða fyrir það. Ég missti velþóknun Jehóva sem var alveg hræðilegt.“ Ung kona að nafni Trish tekur í svipaðan streng: „Kynlíf fyrir hjónaband voru stærstu mistökin í lífi mínu. Ég myndi gera allt til að verða aftur hrein mey.“ Já, tilfinningalegur skaði getur varað svo árum skiptir og valdið streitu og hugarangri.

Lærðu að sýna sjálfstjórn

Ung stúlka, sem heitir Shanda, varpar fram mikilvægri spurningu: „Hvers vegna hefur Guð gefið unglingum kynhvöt fyrst hann veit að þeir geta ekkert gert til að svala henni fyrr en þeir hafa gengið í hjónaband?“ Kynhvötin getur vissulega verið mjög sterk í ‚æskublómanum‘. (1. Korintubréf 7:​36, NW  ) Unglingar geta jafnvel örvast kynferðislega, að því er virðist út af engu. En það er ekkert syndsamlegt við það. Þetta er aðeins eðlilegt ferli kynþroskans. *

Staðreyndin er líka sú að Jehóva ætlaðist til að kynmök veittu ánægju. Og það er í samræmi við upphaflega fyrirætlun hans um að mannkynið skyldi uppfylla jörðina. (1. Mósebók 1:28) En Guð ætlaðist samt aldrei til þess að við myndum misnota getnaðarmáttinn. „Sérhver yðar hafi vit á að halda líkama sínum í helgun og heiðri,“ stendur í Biblíunni. (1. Þessaloníkubréf 4:⁠4) Að svala kynhvötinni í hvert skipti sem hún gerir vart við sig er í rauninni jafn heimskulegt og að lemja einhvern í hvert skipti sem maður reiðist.

Kynlíf er gjöf frá Guði, gjöf sem á að njóta á réttum tíma, það er að segja eftir að maður hefur gengið í hjónaband. Hvað finnst honum um það ef við stundum kynlíf fyrir hjónaband? Segjum að þú hafir keypt gjöf handa vini þínum. En áður en þú nærð að gefa honum gjöfina stelur hann henni. Yrðirðu ekki sár? Þú getur rétt ímyndað þér hvað Guði finnst þegar einhver stundar kynlíf fyrir hjónaband og misnotar þannig gjöfina sem honum var gefin.

En hvað ættirðu að gera í sambandi við kynhvötina? Temdu þér að hafa hemil á henni. Minntu þig á að Jehóva „synjar þeim engra gæða, er ganga í grandvarleik“. (Sálmur 84:12) Unglingur, sem heitir Gordon, segir: „Þegar ég fer að gæla við þá tilhugsun að kynlíf fyrir hjónaband sé ekki svo slæmt, íhuga ég hvaða slæmu afleiðingar það gæti haft á trú mína og þá skil ég að engin synd er þess virði að leggja samband mitt við Jehóva í hættu.“ Það getur hins vegar verið erfitt að sýna sjálfstjórn. En eins og ungur maður að nafni Adrian segir „leiðir hún til þess að við höfum hreina samvisku og eigum gott samband við Jehóva og erum þar með frjáls til að einbeita okkur að því sem máli skiptir án þess að hafa samviskubit út af því liðna“. — Sálmur 16:⁠11.

Það eru margar góðar og gildar ástæður fyrir því að halda sér frá saurlifnaði í hvaða mynd sem er. (1. Þessaloníkubréf 4:⁠3) En auðvitað er það ekki alltaf auðvelt. Í næsta tölublaði verður fjallað um hvernig við getum ‚varðveitt sjálf okkur hrein‘. — 1. Tímóteusarbréf 5:⁠22.

[Neðanmáls]

^ gr. 3 Sumum nöfnum hefur verið breytt.

^ gr. 11 Umfjöllun um saurlifnað, óhreinleika og ósiðsamlega hegðun er að finna í greininni „Ungt fólk spyr . . . Hve langt er ‚of langt‘?“ í Vaknið! apríl-júní 1994.

^ gr. 20 Sjá greinina „Young People Ask . . . Why Is This Happening to My Body?“ í Vaknið! (enskri útgáfu), 8. febrúar 1990.

[Rammi á blaðsíðu 13]

Er hægt að líta svo á að unglingur sé skírlífur ef hann hefur tekið þátt í saurlifnaði í einhverri mynd?

[Mynd á blaðsíðu 13]

Kynlíf fyrir hjónaband getur skaðað samvisku guðhræddra unglinga.

[Mynd á blaðsíðu 14]

Þeir sem stunda kynlíf fyrir hjónaband eiga á hættu að smitast af kynsjúkdómum.