Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Gláka — sjúkdómur sem stelur sjóninni

Gláka — sjúkdómur sem stelur sjóninni

Gláka — sjúkdómur sem stelur sjóninni

HORFÐU smástund á síðasta orðið í þessari málsgrein. Sérðu eitthvað af svæðinu kringum blaðið án þess að hreyfa augun? Að öllum líkindum gerirðu það, þökk sé hliðarsjóninni. Vegna hliðarsjónarinnar sérðu hindranir sem verða á vegi þínum og gengur ekki utan í veggi. Með henni sérðu út undan þér hvernig grunsamleg manneskja nálgast þig frá hlið. Og ef þú ekur bíl er það með hliðarsjóninni sem þú sérð gangandi vegfaranda stíga af gangstéttinni út á akbrautina.

En þó að þú eigir ekki í neinum vandræðum með að lesa þessa blaðsíðu gætirðu samt sem áður verið að missa hliðarsjónina hægt og hægt án þess að gera þér grein fyrir því. Talið er að 66 milljónir manna í heiminum séu með einhverja tegund augnsjúkdóms sem gengur almennt undir heitinu gláka. Þar af eru um fimm milljónir algerlega blindar þannig að gláka er þriðja algengasta orsök varanlegrar blindu. Læknatímaritið The Lancet bendir á að „jafnvel í þróuðustu löndum heims, þar sem leitast er við að fræða almenning um gláku, hefur helmingur þeirra sem er með sjúkdóminn ekki verið greindur“.

Hverjir eiga helst á hættu að fá gláku? Hvernig er sjúkdómurinn greindur og meðhöndlaður?

Hvað er gláka?

Við skulum byrja á því að glöggva okkur aðeins á gerð augans. Glaucoma Foundation of Australia er stofnun sem beitir sér fyrir fræðslu um sjúkdóminn og rannsóknum á honum. Í bæklingi frá stofnuninni segir: „Lögun augans er stjórnað af þrýstingi. Mjúkir vefir augans eru ‚blásnir upp‘ eins og bíldekk eða blaðra.“ Svonefndur brárkleggi inni í auganu dælir augnvökva frá æðunum inn í augað. „Augnvökvinn er á hringrás inni í auganu og nærir hina lifandi vefi þess. Hann fer svo aftur út í blóðrásina gegnum svonefndan síuvef.“

Ef þessi síuvefur þrengist eða stíflast af einhverjum orsökum eykst þrýstingurinn inni í auganu með þeim afleiðingum að viðkvæmir taugaþræðir í augnbotninum byrja að skemmast. Þetta sjúkdómsástand er kallað hægfara gláka (einnig nefnt gleiðhornsgláka) og veldur um 90 prósentum allra tilfella.

Innri þrýstingur augans (augnþrýstingurinn) getur verið breytilegur yfir daginn. Ýmislegt hefur áhrif á hann, svo sem hjartsláttur, líkamsstelling og það magn vökva sem maður drekkur. Þetta eru eðlilegar sveiflur og gera augunum ekkert illt. Hár augnþrýstingur einn sér sannar ekki að maður sé með gláku því að það er misjafnt eftir mönnum hvað er „eðlilegur“ þrýstingur. Hár augnþrýstingur er þó ein vísbending um að maður sé með gláku.

Bráðagláka (einnig nefnd þrönghornsgláka) er mun sjaldgæfari. Þessi tegund sjúkdómsins kemur til af skyndilegri þrýstingsaukningu í auganu, ólíkt hægfara gláku. Helstu einkennin eru sárir verkir í auganu, óskýr sjón og uppköst. Bráðagláka getur valdið blindu ef hún er ekki meðhöndluð innan nokkurra klukkustunda frá því að einkennin gera vart við sig. Þriðja útgáfa sjúkdómsins er nefnd fylgigláka. Eins og nafnið bendir til er hún fylgikvilli annarra augnkvilla, svo sem æxlis, drers eða meiðsla á auga. Að síðustu er að nefna barnagláku, sjaldgæfa tegund sjúkdómsins sem er annaðhvort til staðar við fæðingu eða kemur fram skömmu eftir fæðingu. Einkennin eru þau að barnið er með stækkaða augnknetti og er mjög viðkvæmt fyrir ljósi.

Hvernig gláka „stelur“ sjóninni

Gláka getur „stolið“ allt að 90 prósentum sjónarinnar á öðru auganu án þess að maður taki eftir því. Hvernig stendur á því? Öll erum við með svokallaðan blindblett í sjónhimnunni þar sem taugaþræðirnir renna saman og mynda sjóntaugina. Þar eru engar sjónskynfrumur. Maður tekur hins vegar ekki eftir blindblettinum vegna þess að heilinn bætir inn því sem vantar í myndina. Svo undarlegt sem það virðist er það þessi hæfni heilans sem veldur því að glákan er jafnlúmsk og raun ber vitni.

Kunnur ástralskur augnlæknir, Ivan Goldberg að nafni, sagði í viðtali við Vaknið!: „Gláku er oft líkt við lúmskan þjóf vegna þess að hún stelur sjóninni án þess að maður taki eftir nokkrum einkennum. Algengasta tegund gláku er hægfara en vægðarlaus og veldur, án nokkurrar viðvörunar, skemmdum á taugaþráðunum sem tengja augun við heilann. Gláka er óháð því hvort maður er voteygur eða ekki, er með augnþurrk eða ekki og sér nógu skýrt til að lesa og skrifa eða ekki. Augun geta virst fullkomlega eðlileg þó að maður sé með gláku á háu stigi.“

Að góma þjófinn

Því miður er ekki til neitt alhliða glákupróf. Augnlæknir byrjar gjarnan á því að mæla vökvaþrýstinginn í augunum með svokölluðum spennumæli. Tækið er látið þrýsta á hornhimnuna framan á auganu og mælt hve mikið afl þarf til að fletja hornhimnuna lítillega og þannig er hægt að mæla innri þrýsting augnknattarins. Augnlæknirinn getur einnig leitað að merkjum um gláku með því að skoða augnbotninn með augnspegli og kanna hvort hann sjái merki um skemmdir á taugaþráðunum sem tengja augað við heilann. Goldberg segir: „Við athugum hvort lögun taugaþráðanna eða æðanna í augnbotninum sé óeðlileg því að það getur verið vísbending um að taugar séu að skemmast.“

Gláku má einnig finna með sjónsviðsprófun. „Fólk er látið horfa inn í kúlu sem er upplýst með hvítu ljósi,“ segir Goldberg, „og skærara hvítt ljós er látið lýsa upp lítinn blett inni í kúlunni. Fólk ýtir svo á hnapp þegar það sér litla hvíta ljósblettinn.“ Sjái maður ekki ljósblettinn í útjaðri sjónsviðsins getur það verið merki um gláku. Þessi aðferð er fremur seinleg og verið er að þróa ný tæki sem vonir standa til að einfaldi prófunina.

Hverjir eru í hættu?

Páll er hraustur maður á fimmtugsaldri. „Ég fór til sjóntækjafræðings til að fá ný gleraugu,“ segir hann, „og þá spurði hann mig hvort það væri gláka í ættinni.  Ég kannaði málið og komst að raun um að tvö af móðursystkinum mínum voru með gláku. Mér var þá vísað til augnlæknis sem staðfesti að ég væri með gláku.“ Goldberg segir: „Ef annað hvort foreldra manns er með gláku eru þrefalt til fimmfalt meiri líkur á að maður fái hana en fimm- til sjöfalt meiri ef eitthvert systkina manns er með gláku.“

Kevin Greenidge er augnlæknir sem starfar hjá The Glaucoma Foundation, bandarískri stofnun sem beitir sér fyrir glákurannsóknum. Hann bendir á fleiri áhættuþætti: „Þeir sem eru eldri en 45 ára og eru af afrískum ættum eða hafa einhvern af eftirfarandi áhættuþáttum — gláku í ættinni, eru nærsýnir eða sykursjúkir, hafa einhvern tíma meiðst á auga eða notað kortísón eða stera að staðaldri — ættu að fara í augnskoðun árlega.“ Stofnunin hvetur einnig þá sem eru yngri en 45 ára og hafa enga áhættuþætti til að fara í glákuprófun á fjögurra ára fresti. Þeir sem eru eldri en 45 ára ættu að fara í augnskoðun á tveggja ára fresti.

Að stöðva sjúkdóminn

Páll þarf að nota sérstaka augndropa einu sinni á dag gegn glákunni. „Droparnir draga úr framleiðslu augnvökva inni í augnknettinum,“ segir hann. Hann fór einnig í meðferð þar sem „boruð“ voru með leysigeisla hér um bil tíu örsmá göt í framhlið augnanna nálægt hinum eðlilegu frárennslisgöngum. „Ég var trekktur og taugaspenntur þegar ég fór í leysiaðgerð á fyrra auganu, og það magnaði óþægindin,“ segir hann. „Þegar aðgerðin var gerð á seinna auganu nokkrum dögum síðar vissi ég við hverju var að búast. Ég var miklu afslappaðri og læknirinn var búinn að ljúka aðgerðinni áður en ég vissi af.“ Þessi meðferð hefur komið jafnvægi á þrýstinginn í augum Páls.

Hann er því bjartsýnn. „Það urðu bara smáskemmdir á nethimnunum,“ segir hann, „og sem betur fer er ég enn með hliðarsjónina. Það er líklegt að ég haldi henni ef ég man eftir að nota augndropana daglega.“

Er „þjófurinn“ lúmski að stela sjóninni frá þér? Ef þú hefur aldrei látið skoða augun með tilliti til þess hvort þú sért með gláku — og ekki síst ef þú ert í einhverjum áhættuhópnum — ættirðu að láta rannsaka augun. Eins og Goldberg segir er „að miklu leyti hægt að koma í veg fyrir tjón af völdum gláku með viðeigandi meðferð í tæka tíð“. Já, þú getur gómað þjófinn.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 26]

Helstu áhættuþættir gláku

● Afrískur uppruni

● Gláka í fjölskyldunni

● Sykursýki

● Nærsýni

● Regluleg og langvarandi notkun kortísóns/stera — eru í sumum lyfjakremum og úðalyfjum gegn asma

● Gömul meiðsli á auga

● Lágur blóðþrýstingur

● Eldri en 45 ára

[Mynd]

Reglubundin augnskoðun getur forðað þér frá alvarlegum sjónmissi.

[Skýringarmynd/myndir á blaðsíðu 25]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)

HÆGFARA GLÁKA

Sjónhimna

Lithimna

Hornhimna

Augasteinn

Sjóntaugardoppan (blindbletturinn) er staðurinn þar sem taugaþræðirnir sameinast og mynda sjóntaugina.

Sjóntaugin flytur sjónboð til heilans.

Brárklegginn dælir vökvanum.

1 Augnvökvinn er tær vökvi sem nærir augasteininn, lithimnuna og innanverða hornhimnuna. Þetta er ekki sami vökvi og tárin en þau vökva augun að utanverðu.

2 Síuvefurinn veitir vökvanum út.

3 Ef síuvefurinn þrengist eða stíflast hækkar innri þrýstingur augans.

4 Ef þrýstingurinn eykst skemmast viðkvæmar taugar í augnbotninum og veldur það gláku eða sjónmissi.

[Myndir á blaðsíðu 25]

Sjóntaugardoppa

Þetta ættirðu að sjá.

EÐLILEG SJÓN

GLÁKA Á BYRJUNARSTIGI

GLÁKA Á HÁU STIGI

[Credit line]

Myndir af sjóntaugardoppu: Með góðfúslegu leyfi Atlas of Ophthalmology.