Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þegar ástvinur á við geðræn vandamál að stríða

Þegar ástvinur á við geðræn vandamál að stríða

Þegar ástvinur á við geðræn vandamál að stríða

DAGURINN byrjaði eins og hver annar virkur dagur á heimilinu. Friðrik, Guðrún og börnin tvö voru komin á fætur og voru að búa sig undir verkefni dagsins. * Guðrún benti Matta, sem var 14 ára, á að hann væri að missa af skólarútunni. Framhaldið kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Á næsta hálftíma sprautaði Matti málningu á vegg í einu svefnherberginu og reyndi að kveikja í bílskúrnum og hengja sig uppi á háalofti.

Meðan Guðrún og Friðrik óku á eftir sjúkrabílnum, sem flutti Matta á spítalann, reyndu þau árangurslaust að botna í því sem gerst hafði. En því miður var þetta aðeins í fyrsta skiptið af mörgum sem alvarlegar geðtruflanir gerðu vart við sig hjá Matta. Á næstu fimm árum reyndi hann nokkrum sinnum að fyrirfara sér, var handtekinn tvisvar, lagður sjö sinnum inn á geðdeild og heimsótti geðlækna ótal sinnum. Ráðvilltir vinir og ættingjar vissu oft ekki sitt rjúkandi ráð.

Áætlað er að 1 af hverjum 4 í heiminum eigi við geðræn vandamál að stríða einhvern tíma á ævinni. Þetta er gríðarlega hátt hlutfall svo að það eru töluverðar líkur á að foreldri manns, barn, systkin eða vinur eigi við einhvers konar geðræna truflun að stríða einhvern tíma á lífsleiðinni. Hvað er til ráða ef geðtruflanir gera vart við sig hjá ástvini manns?

Komdu auga á einkennin. Það er engan veginn gefið að fólk átti sig á því að ástvinur eigi við geðræn vandamál að stríða. Vinir og ættingjar halda kannski að einkennin stafi af hormónabreytingum, líkamlegum sjúkdómum eða skapgerðargalla, eða þá að það megi rekja þau til erfiðra aðstæðna viðkomandi. Móðir Matta var búin að taka eftir vissum einkennum hjá honum en þau hjónin töldu að um væri að ræða tímabundnar skapsveiflur unglings. Verulegar breytingar á svefnvenjum, mataræði eða hegðun geta verið vísbending um að eitthvað alvarlegra búi að baki. Læknisrannsókn getur leitt til árangursríkrar meðferðar og bætt lífsgæði þess sem í hlut á.

Lestu þér til. Þeir sem haldnir eru geðtruflunum eru yfirleitt ekki færir um að lesa sér til um ástand sitt að nokkru gagni. Þess vegna er æskilegt að þú viðir að þér og lesir nýlegt og áreiðanlegt efni til að glöggva þig á því sem er að gerast hjá ástvini þínum. Það getur einnig auðveldað þér að ræða málið opinskátt og af þekkingu við aðra. Guðrún gaf afa og ömmu Matta bæklinga um geðsjúkdóma þannig að þau væru betur upplýst og fyndu að þau væru með í ráðum.

Leitaðu meðferðar. Þó að sumar geðtruflanir séu langvinnar geta margir sjúklingar búið við þokkalegt jafnvægi og lifað eðlilegu lífi ef þeir fá viðeigandi meðferð. Því miður þjást margir árum saman án þess að fá hjálp. Það þarf fagmenntað fólk til að meðhöndla geðræna sjúkdóma, rétt eins og það þarf hjartasérfræðing til að meðhöndla hjartasjúkdóma. Geðlæknar geta til dæmis ávísað lyfjum sem geta dregið úr geðsveiflum, kvíða og ruglingslegum hugsunum, ef þau eru tekin reglulega. *

Hvettu hinn sjúka til að leita hjálpar. Þeir sem haldnir eru geðtruflunum gera sér ekki alltaf grein fyrir að þeir séu hjálparþurfi. Þú gætir hvatt viðkomandi til að leita til ákveðins læknis, lesa gagnlegar greinar eða rabba við einhvern sem hefur tekist að ráða við svipaðan kvilla. Það er ekki víst að ástvinur þinn vilji taka ráðleggingum þínum. En gerðu fyrir alla muni eitthvað ef hætta er á að hann vinni sjálfum sér eða öðrum mein.

Forðastu ásakanir. Vísindamönnum hefur ekki tekist að henda reiður á hið flókna samspil erfða, umhverfis og þjóðfélagsaðstæðna sem geta stuðlað að röskun á heilastarfsemi og geðtruflunum. Margt getur átt þar hlut að máli, svo sem heilaskaði, neysla fíkniefna, ofneysla áfengis, streituvaldar í umhverfinu, lífefnafræðileg röskun og arfgeng tilhneiging. Það er til lítils að ásaka aðra fyrir eitthvað sem þú heldur að þeir hafi gert til að stuðla að sjúkdómi. Það er miklu betra að einbeita sér að því að styðja hinn sjúka og uppörva hann.

Gerðu þér raunhæfar vonir. Þú gætir gert hinn sjúka niðurdreginn ef þú ætlast til meira af honum en hann ræður við. Hins vegar getur það valdið vanmáttarkennd hjá honum ef þú gerir of mikið úr takmörkum hans. Gerðu þér ekki óraunhæfar vonir. Að sjálfsögðu ætti ekki að umbera rangt hátterni. Geðsjúkir geta lært af afleiðingum gerða sinna rétt eins og aðrir. Ofbeldishegðun getur útheimt að gripið sé til lagalegra úrræða eða settar séu hömlur til að vernda hinn sjúka og aðra.

Haltu góðu sambandi. Tjáskipti eru ákaflega mikilvæg. Einu gildir þó að þér virðist stundum sem orð þín séu mistúlkuð. Viðbrögð fólks, sem á við geðræn vandamál að stríða, eru oft óútreiknanleg, og tilfinningar þess geta virst óviðeigandi miðað við aðstæður. Það gerir hins vegar illt verra að finna að því sem hinn sjúki segir því að það getur valdið sektarkennd sem leggst svo ofan á allt annað. Þegar orð þín virðast ekki hafa nein áhrif er best að sitja hljóður og hlusta. Viðurkenndu tilfinningar og hugsanir hins þjáða án þess að dæma þær. Reyndu að halda stillingu þinni. Það er bæði þér og ástvini þínum til góðs ef þú sýnir staðfastlega að þér sé annt um hann. Matti er dæmi um það. Nokkrum árum seinna lýsti hann hve þakklátur hann var þeim sem ‚hjálpuðu honum þegar hann vildi ekki fá hjálp‘, eins og hann orðaði það.

Hugaðu að þörfum annarra í fjölskyldunni. Þegar fjölskylda þarf að einbeita sér að þeim sem á í erfiðleikum er hætta á að hinir verði út undan. Önnu, systur Matta, leið um tíma eins og hún „stæði í skugga sjúkdómsins“. Hún gerði sem minnst úr sjálfri sér til að vekja ekki athygli á sér en samtímis virtist sem foreldrarnir vildu að hún áorkaði enn meiru, rétt eins og hún ætti að bæta upp það sem vantaði hjá bróður hennar. Systkini hins sjúka, sem lenda í þessari aðstöðu, reyna stundum að draga að sér athygli með því að valda vandræðum. Þegar fjölskylda á í erfiðleikum af þessu tagi þarf hún á aðstoð að halda til að sinna þörfum allra. Meðan Guðrún og Friðrik voru upptekin af veikindum Matta hlupu vinir í söfnuði votta Jehóva undir bagga og sinntu Önnu sérstaklega.

Stuðlaðu að góðri geðheilsu. Til að stuðla að góðri geðheilsu er gott að gera heildstæða áætlun þar sem meðal annars er hugað að mataræði, hreyfingu, svefni og félagslífi. Ef félagslífið er tengt frekar fámennum hópum vina og er einfalt í sniðum er síður hætta á að það virki ógnvekjandi. Hafðu líka hugfast að áfengi getur aukið á einkenni sjúkdómsins og truflað áhrif lyfja. Friðrik og Guðrún reyna að halda uppi venjum sem stuðla að góðri geðheilsu allra en ekki þó síst sonar þeirra.

Hugsaðu um sjálfan þig. Það fylgir því verulegt álag að annast ástvin með geðrænar truflanir, og þetta álag getur komið niður á manni. Þess vegna er mikilvægt að hugsa um líkamlegar, tilfinningalegar og andlegar þarfir sjálfs sín. Friðrik og Guðrún eru vottar Jehóva. Guðrún segir að trúin hafi veitt sér ómetanlegan styrk til að takast á við erfiðleikana í fjölskyldunni. „Safnaðarsamkomurnar hjálpuðu mér að draga úr spennunni,“ segir hún. „Þá gat ég ýtt áhyggjum augnabliksins til hliðar og einbeitt mér að því sem mestu máli skiptir og voninni fram undan. Oft bað ég Jehóva í örvæntingu minni að hjálpa mér og alltaf varð einhver breyting sem dró úr sársaukanum. Með hjálp hans fékk ég ótrúlegan hugarfrið miðað við aðstæður.“

Matti er ungur maður núna og sér lífið öðrum augum en áður. „Mér finnst ég betri maður eftir að hafa gengið í gegnum þetta,“ segir hann. Anna, systir hans, telur að þessi lífsreynsla hafi líka verið sér til góðs. „Ég er ekki eins gagnrýnin á aðra,“ segir hún. „Maður veit aldrei hvað býr undir niðri hjá fólki. Það veit enginn nema Jehóva Guð.“

Ef ástvinur á við geðræn vandamál að stríða skaltu alltaf vera tilbúinn að hlusta á hann, rétta honum hjálparhönd og vera jákvæður gagnvart honum. Það getur fleytt honum yfir erfiðleikana og jafnvel hjálpað honum að dafna.

[Neðanmáls]

^ Nöfnum er breytt.

^ Rétt er að kynna sér bæði þá heilsubót sem hafa má af lyfjunum og hugsanlegar aukaverkanir þeirra. Vaknið! er ekki talsmaður einnar læknismeðferðar umfram aðra. Kristnir menn ættu að fullvissa sig um að sú læknismeðferð, sem þeir velja, stangist ekki á við meginreglur Biblíunnar.

[Rammi á blaðsíðu 21]

Ýmsar vísbendingar um geðræn vandamál

Ef ástvinur sýnir einhver af eftirfarandi einkennum gæti hann þurft að leita til heimilislæknis eða geðlæknis:

• Langvarandi depurð eða skapstyggð.

• Félagsleg einangrun.

• Miklar geðsveiflur.

• Ofsareiði.

• Ofbeldishneigð.

• Neysla vímuefna.

• Sjúklegur ótti, áhyggjur og kvíði.

• Óeðlilegur ótti við að þyngjast.

• Veruleg breyting á matar- eða svefnvenjum.

• Þrálátar martraðir.

• Ruglingslegar hugsanir.

• Ranghugmyndir eða skynvillur.

• Dauða- eða sjálfsvígshugleiðingar.

• Erfiðleikar að takast á við vandamál og dagleg störf.

• Augljósum vandamálum afneitað.

• Margir líkamlegir kvillar sem eiga sér enga skýringu.

[Mynd á blaðsíðu 22]

Þegar orð þín virðast ekki hafa nein áhrif er best að sitja hljóður og hlusta.