Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fjársvik — alþjóðlegt vandamál

Fjársvik — alþjóðlegt vandamál

Fjársvik — alþjóðlegt vandamál

WAYNE var töfrandi og blíðmáll og virtist hafa allt til að bera sem Karen leitaði að í fari eiginmanns. „Hann var maðurinn sem ég hafði vonast eftir og beðið um í bænum mínum,“ sagði Karen. „Allir, sem sáu okkur saman, sögðu að við værum sniðin hvort fyrir annað. Hann lét eins og hann sæi ekki sólina fyrir mér.“

En það var eitt sem stóð í veginum. Wayne sagði Karen að hann gegndi þriðju hæstu stöðu í áströlsku leyniþjónustunni. Hann vildi segja af sér en þeir leyfðu honum það ekki. Hann vissi of mikið. Þeir myndu drepa hann. Karen og Wayne báru saman ráð sín. Þau ákváðu að giftast, sameina eignir sínar og flýja til Kanada. Karen seldi íbúðina og allt sem hún átti og lét Wayne fá peningana.

Þau giftu sig eins og til stóð. Wayne flúði af landi brott en skildi Karen eftir, eina og yfirgefna með jafnvirði 300 króna á bankabók. Hún komst fljótt að raun um að hún hafði flækst í margbrotinn lygavef sem var aðeins spunninn í þeim tilgangi að svíkja út úr henni peninga. Wayne var eins og leikari. Hann hafði leikið persónu sem átti sérstaklega að höfða til hennar. Bakgrunnur hans, áhugamál, persónuleiki og ástin sem hann sagðist bera til hennar var allt uppspuni til að ávinna traust hennar — traust sem kostaði hana sem svarar rúmlega 15 milljónum króna. Lögreglumaður komst svo að orði: „Þetta er eins og tilfinningaleg nauðgun. Auk þess að hafa peninga af fólki er hægt að valda því ótrúlegum sársauka.“

„Ég er í algeru uppnámi,“ sagði Karen. „Maðurinn, sem hann þóttist vera, er ekki til.“

Karen er aðeins eitt af fjölmörgum fórnarlömbum fjársvika út um allan heim. Ekki er vitað hve mikið fé er haft út úr fólki en áætlað er að það séu þúsundir milljarða króna og fari hækkandi með hverju ári. Og fórnarlömb eins og Karen verða ekki aðeins fyrir fjárhagstjóni heldur ganga þau einnig í gegnum mikinn tilfinningalegan sársauka vegna þess að einhver — oft einhver sem þau treystu — misnotaði þau.

Fyrirhyggja er besta vörnin

Fjársvik hafa verið skilgreind sem bragð eða vísvitandi blekking til að komast yfir peninga á fölskum forsendum, undir röngu yfirskyni eða með sviknum loforðum. Því miður komast flestir fjársvikarar hjá refsingu vegna þess að oft er erfitt að sanna að um vísvitandi svik hafi verið að ræða. Auk þess þekkja margir þeirra lagakerfið vel og nýta sér ýmsar smugur sem þar eru. Þeir vita hvernig þeir geta svikið peninga út úr fólki á þann hátt að erfitt eða ómögulegt er að kæra þá. Það kostar einnig töluverðan tíma og peninga að fara í mál við fjársvikara. Þeir sem hafa verið sakfelldir fyrir fjársvik hafa yfirleitt stolið milljörðum króna eða gert eitthvað sem er svo hneykslanlegt að það vekur mikla athygli. En jafnvel þegar fjársvikari næst og honum er refsað hefur hann sennilega eytt peningunum eða falið þá. Fórnarlömbin fá því peningatapið sjaldnast bætt.

Í stuttu máli sagt er sennilega lítið hægt að gera ef einhver svíkur út úr manni peninga. Það er því mun betra að koma í veg fyrir að verða fórnarlamb fjársvikara en reyna að endurheimta peningana eftir að skaðinn er skeður. Hygginn maður skrifaði fyrir mörgum öldum: „Vitur maður sér ógæfuna og felur sig, en einfeldningarnir halda áfram og fá að kenna á því.“ (Orðskviðirnir 22:3) Í næstu grein verður fjallað um það hvernig þú getur gætt þín á fjársvikurum.