Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað merkir það að vera höfuð fjölskyldunnar?

Hvað merkir það að vera höfuð fjölskyldunnar?

Sjónarmið Biblíunnar

Hvað merkir það að vera höfuð fjölskyldunnar?

SAMKVÆMT Biblíunni er ‚maðurinn höfuð konunnar‘. (1. Korintubréf 11:3; Efesusbréfið 5:23) En margir, sem segjast virða Biblíuna, telja meginregluna um forystuhlutverk eiginmanns vera bæði gamaldags og hættulega. Hjón nokkur sögðu að „sé farið út í öfgar með kenninguna um að konur ‚eigi að vera undirgefnar [mönnum sínum] í öllu‘ geti það leitt til líkamlegrar og andlegrar misnotkunar“. Því miður er algengt að karlmaður misbeiti valdi sínu. Rithöfundur nokkur segir að „í mörgum löndum sé litið á það sem eðlilegt að maður berji konu sína, að það sé einkaréttur karlmanns sem lofsunginn er í ljóðum, málsháttum og við giftingarathafnir“.

Sumir telja að meginregla Biblíunnar um forystu hafi leitt til þessa hrottaskapar. Eru konurnar vanvirtar samkvæmt þessari meginreglu og er þar hvatt til heimilisofbeldis? Hvað merkir eiginlega að vera höfuð fjölskyldunnar? *

Forysta er ekki harðstjórn

Forysta, eins og henni er lýst í Biblíunni, er kærleiksrík ráðstöfun og er engan veginn það sama og harðstjórn. Það er lítilsvirðing fyrir lögum Guðs um forystu sem hefur leitt til þess að yfirráð yfir konum einkennast oft af hrottaskap. (1. Mósebók 3:16) Frá því í Edengarðinum hafa menn oft á tíðum misbeitt valdi sínu og notfært sér aðra á grimmilegan hátt, þar á meðal konur og börn.

Það var samt aldrei það sem Jehóva Guð ætlaðist til. Hann hefur andstyggð á þeim sem misbeita valdi. Hann fordæmdi Ísraelsmenn sem höfðu „brugðið trúnaði við“ eiginkonur sínar. (Malakí 2:13-16) Guð segir enn fremur að þann ‚er elskar ofríki, hati hann‘. (Sálmur 11:5) Þeir sem misþyrma með einhverjum hætti konum og öðrum geta þess vegna ekki á nokkurn hátt notað Biblíuna til að réttlæta ofbeldisverk sín.

Að fara rétt með forystuhlutverkið

Forysta er grundvallarráðstöfun sem Guð notar til að viðhalda reglu í alheiminum. Allir nema Guð eru ábyrgir gagnvart einhverjum öðrum. Karlmenn eru undirgefnir Kristi, börn eru undirgefin foreldrum sínum og allir kristnir menn eru undirgefnir ríkisstjórnum. Jesús er jafnvel undirgefinn Guði. — Rómverjabréfið 13:1; 1. Korintubréf 11:3; 15:28; Efesusbréfið 6:1.

Til að halda uppi skipulögðu og traustu þjóðfélagi er nauðsynlegt að sýna undirgefni þeim sem gegna forystuhlutverki. Eins er nauðsynlegt að vera undirgefinn fjölskylduföðurnum til að skapa trausta, ánægða og friðsama fjölskyldu. Það breytir engu þótt eiginmaður eða fjölskyldufaðir sé ekki á staðnum. Móðirin tekur að sér forystuna í fjölskyldunni þegar svo stendur á. Þegar báðir foreldrarnir eru fjarverandi getur elsta barnið eða annar ættingi tekið að sér hlutverk fjölskylduföðurins. Fjölskyldan hefur alltaf gagn af að sýna tilhlýðilega virðingu þeim sem er ætlað að fara með forystu.

Það er því mikilvægt að hafna ekki meginreglunni um forystu heldur læra að fara eftir henni og skilja hana á réttan hátt. Páll postuli hvetur kristna eiginmenn til að vera höfuð fjölskyldunnar „eins og Kristur er höfuð kirkjunnar“ eða safnaðarins. (Efesusbréfið 5:21-23) Páll bendir þannig á að samskipti Jesú við söfnuðinn séu fullkominn mælikvarði á forystu. Hvaða fordæmi setti Jesús?

Þó að Jesús væri Messías og framtíðarkonungur, fengi vald sitt frá Guði og væri miklu snjallari og lífsreyndari en lærisveinarnir, var hann samt ástúðlegur, hlýr og samúðarfullur. Hann var ekki hranalegur, ósveigjanlegur eða fram úr hófi kröfuharður. Hann var ekki ráðríkur né yfirgangssamur og var ekki sífellt að minna alla á að hann væri sonur Guðs. Jesús var hógvær og lítillátur. Þar af leiðandi var ‚ok hans ljúft og byrði hans létt‘. (Matteus 11:28-30) Því var auðvelt að nálgast hann og viðmót hans var þægilegt. Páll segir að Jesús hafi elskað söfnuðinn svo mikið að hann ‚lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hann‘. — Efesusbréfið 5:25.

Hvernig er hægt að líkja eftir forystu Jesú?

Hvernig getur fjölskyldufaðir líkt eftir eiginleikum Jesú Krists? Ábyrgum fjölskylduföður er annt um líkamlega og andlega velferð fjölskyldunnar. Hann leggur sig í líma við að sinna bæði þörfum fjölskyldunnar allrar og hvers og eins innan hennar. Hann lætur hag maka síns og barna ganga fyrir eigin hagsmunum. * (1. Korintubréf 10:24; Filippíbréfið 2:4) Með því að fara eftir meginreglum og kenningum Biblíunnar í daglegu lífi ávinnur eiginmaðurinn sér virðingu og stuðning konu sinnar og barna. Undir kærleiksríkri forystu hans getur þeim lánast með sameiginlegu átaki að takast á við hvers konar vandamál. Með því að sinna þannig forystuhlutverkinu samkvæmt Biblíunni byggir fjölskyldufaðirinn upp hamingjusama fjölskyldu, Guði til lofs og dýrðar.

Skynsamur fjölskyldufaðir er líka hógvær. Þegar nauðsyn ber til er hann fús til að biðjast afsökunar jafnvel þótt hann eigi erfitt með að viðurkenna að hann hafi haft rangt fyrir sér. Í Biblíunni er sagt að allt fari vel „þar sem margir ráðgjafar eru“. (Orðskviðirnir 24:6) Hógværð getur einnig hvatt fjölskylduföðurinn til að hlusta á eiginkonuna og börnin og leita álits hjá þeim þegar það á við. Með því að líkja eftir Jesú getur kristinn fjölskyldufaðir treyst því að forysta hans færi bæði fjölskyldunni hamingju og öryggi og Jehóva Guði, höfundi hennar, heiður og lof. — Efesusbréfið 3:14, 15.

[Neðanmáls]

^ Þótt þessi grein fjalli fyrst og fremst um hlutverk eiginmanns og fjölskylduföður geta einstæðar mæður og munaðarleysingjar, sem verða að annast systkini sín, einnig haft gagn af meginreglunum sem fjölskylduföður eru settar.

^ Í bókinni The Secret of Family Happiness (Lykillinn að hamingjusömu fjölskyldulífi), gefin út af Vottum Jehóva, er hægt að finna hagnýtar tillögur um hvernig hægt sé að annast fjölskylduna á kærleiksríkan hátt.

[Mynd á blaðsíðu 18]

Skynsamur eiginmaður tekur tillit til skoðana konu sinnar og barna.