Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvar er gott siðferði að finna?

Hvar er gott siðferði að finna?

Hvar er gott siðferði að finna?

VIÐ búum í heimi þar sem siðferðisgildi eru að breytast. Núna er oft litið fram hjá óheiðarlegum verkum sem áður voru fordæmd. Í fjölmiðlum er þjófum og fjársvikurum oft hampað og talað um þá sem einhvers konar hetjur. Margir samræmast því þessari lýsingu Biblíunnar: „Sjáir þú þjóf, leggur þú lag þitt við hann.“ — Sálmur 50:18.

En fólk ætti ekki að líta upp til fjársvikara. Rithöfundur nokkur sagði: „Blekkingameistarar hafa meðfædda hæfileika til að stjórna fólki í kringum sig með kænskubrögðum og þessir hæfileikar koma oft fram á unga aldri. Auk þess sýna þeir ekkert merki um samviskubit né iðrun eftir að hafa blekkt fólk. Þeir fá mikið út úr því og það veitir þeim sérstaka vellíðan sem hvetur þá til þess að halda áfram að blekkja fólk til að fá vilja sínum framgengt, hvað sem það kostar fórnarlambið.“

Auðvitað finnur almenningur til með ekkjunni sem er svikin og tapar öllu sparifé sínu en fæstir gráta það þótt einhver svíki peninga af stóru fyrirtæki eða svindli á tryggingafélagi. Margir nota þau rök að fyrirtækin eigi nóga peninga hvort sem er. En fjársvikin bitna ekki bara á fyrirtækjunum sjálfum heldur líka á neytandanum. Í Bandaríkjunum greiðir meðalfjölskylda aukalega sem svarar um 70.000 krónum á ári í tryggingariðgjöld vegna fjársvika.

Margir nýta sér líka tækifæri til að kaupa ódýrar eftirlíkingar af merkjavörum — til dæmis föt, úr, ilmvötn, snyrtivörur og handtöskur. Þeir gera sér kannski grein fyrir því að slíkar eftirlíkingar kosta fyrirtæki hundruð milljarða króna á ári en halda að það hafi ekki áhrif á þá. Þetta verður þó að lokum til þess að neytendur verða að borga meira fyrir löglegar vörur og þjónustu. Auk þess setjum við peninga í vasa glæpamanna ef við kaupum eftirlíkingar.

Rithöfundur sem berst gegn fjársvikum sagði: „Ég er sannfærður um að meginástæðan fyrir því að fjársvik eru svona algeng nú á dögum er sú að við búum í mjög siðblindu þjóðfélagi. Siðferðinu hefur hrakað stórlega og það ýtir undir svikamenningu. . . . Við búum í þjóðfélagi þar sem siðferði er ekki kennt á heimilinu. Siðferði er ekki heldur kennt í skólum því að þá yrðu kennarar sakaðir um að setja börnunum siðferðisstaðla.“

Vottar Jehóva kenna hins vegar siðferðisstaðlana sem finna má í orði Guðs. Þeir reyna líka eftir bestu getu að lifa eftir þeim. Hér eru nokkrar meginreglur sem þeir hafa að leiðarljósi:

● „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ — Matteus 22:39.

● „Þú skalt ekki pretta.“ — Markús 10:19.

● „Hinn stelvísi hætti að stela, en leggi hart að sér og gjöri það sem gagnlegt er með höndum sínum, svo að hann hafi eitthvað að miðla þeim, sem þurfandi er.“ — Efesusbréfið 4:28.

● „[Við] viljum í öllum greinum breyta vel.“ — Hebreabréfið 13:18.

Vottar Jehóva eru hvorki sjálfumglaðir né góðir með sig en þeir trúa því að ef allir fylgdu þessum meginreglum væri lífið á jörðinni mun betra en það er núna. Þeir trúa einnig loforðum Guðs um að svo verði í náinni framtíð. — 2. Pétursbréf 3:13.

[Innskot á blaðsíðu 11]

Ef allir lifðu eftir siðferðisstöðlunum, sem finna má í orði Guðs, væri lífið á jörðinni mun betra en það er núna.

[Mynd á blaðsíðu 10]

Sannkristnir menn fylgja biblíulegum meginreglum eins og þessari: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“