Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig geturðu gætt þín á fjársvikurum?

Hvernig geturðu gætt þín á fjársvikurum?

Hvernig geturðu gætt þín á fjársvikurum?

SAGT hefur verið að ekki sé hægt að svíkja heiðarlegan mann. En þetta á ekki við rök að styðjast eins og svo margt annað. Á hverjum degi er heiðarlegt fólk svikið, heiðarleikinn einn sér bjargar því ekki. Sumir af snjöllustu mönnum heims brugga ráð til að hafa peninga af fólki. Fyrir meira en hundarð árum sagði rithöfundur: „Sum svikabrögð eru svo vel útfærð að það væri heimskulegt að láta ekki blekkjast af þeim.“

Svik og blekkingar eiga sér langa sögu sem rekja má aftur til Eden. (1. Mósebók 3:1-5) Gömul svikabrögð eru til í ýmsum myndum og alltaf er verið að finna upp nýjar aðferðir til að blekkja fólk. En hvernig er hægt að verja sig? Þú þarft ekki að læra allar aðferðir sem glæpamenn nota til að svíkja fólk. Þú getur að miklu leyti komið í veg fyrir að verða fórnarlamb fjársvikara með því að gera nokkrar einfaldar varúðarráðstafanir.

Farðu gætilega með persónuupplýsingar

Ef einhver stelur af þér ávísanahefti eða greiðslukortum getur hann notað þau sjálfur. Ef hann stelur upplýsingum um bankareikning þinn getur hann pantað ávísanahefti í þínu nafni og notað það í eigin þágu. Ef hann kemst yfir nægar persónuupplýsingar getur hann þóst vera þú. Þá getur hann tekið út peninga af bankareikningum þínum, látið skuldfæra á kreditkortareikningana og tekið lán í þínu nafni. * Þú gætir jafnvel verið handtekinn fyrir glæp sem þú framdir ekki.

Til að gæta þín á þess konar fjársvikurum skaltu fara gætilega með allar persónuupplýsingar svo sem ávísanahefti, reikningsyfirlit, ökuskírteini og önnur persónuskilríki. Ekki gefa öðrum persónuupplýsingar eða upplýsingar um fjármál þín nema þeir hafi gilda ástæðu til að fá þær. Þetta á sérstaklega við um kreditkortanúmer og upplýsingar um bankareikninga. Þú ættir aldrei að gefa upp kreditkortanúmerið nema þú ætlir að greiða með kortinu.

Sumir glæpamenn, kallaðir sorptunnurótarar, gramsa í ruslinu til að leita að slíkum upplýsingum. Því er viturlegt að brenna eða tæta pappíra með persónuupplýsingum en ekki henda þeim beint í ruslið. Þetta á við um ógildar ávísanir, yfirlit frá bönkum og verðbréfasölum, gömul greiðslukort, ökuskírteini og vegabréf. Það væri einnig viturlegt að eyða óumbeðnum greiðslukortaumsóknum sem þú færð í pósti því að þar er að finna ýmsar upplýsingar sem aðrir gætu notfært sér.

Notaðu heilbrigða skynsemi

Í mörgum fjársvikum felst fyrirheit um óraunhæfan hagnað af fjárfestingu. Algegnt dæmi um slík áhættuviðskipti, sem eiga að skila skjótum gróða, er pýramídinn. Þótt til séu margar útgáfur af þessu fyrirkomulagi snýst það yfirleitt um að fjárfestar fái umboðslaun fyrir að safna öðrum fjárfestum í lið með sér. * Keðjubréf byggjast á því sama því að þar ertu beðinn um að senda þeim peninga sem eru efstir á listanum. Þér er síðan lofað hárri fjárupphæð þegar nafn þitt er orðið efst.

Pýramídar hrynja alltaf því að ekki er hægt að halda endalaust áfram að safna nýliðum. Lítum á dæmi. Ef fimm manns koma af stað pýramída og hver þeirra safnar fimm nýliðum eru nýliðarnir orðnir 25. Ef þeir safna síðan fimm nýliðum hver bætast 125 í hópinn. Komist þetta ferli á níunda þrep þurfa um tvær milljónir manna að safna yfir níu milljónum nýliða. Þeir sem koma pýramída af stað vita vel að þetta nær ákveðnu hámarki. Þegar þá grunar að hámarkið sé nærri taka þeir peningana og láta sig hverfa. Þú átt að öllum líkindum eftir að tapa peningunum og nýliðarnar, sem þú safnaðir, munu krefja þig um peningana sem þeir töpuðu. Mundu að aðrir þurfa að tapa til þess að þú getir grætt á pýramída.

Hefur þér verið boðið auðfengið fé eða gríðarmikill hagnaður af fjárfestingu? Taktu til þín þessi varnaðarorð: Ef eitthvað virðist of gott til að vera satt er það oftast raunin. Ekki vera auðtrúa á auglýsingar eða meðmæli annarra og hugsa sem svo að þetta sé nú undantekning frá reglunni. Mundu að fólk fer ekki út í viðskipti til að gefa frá sér peninga eða upplýsa hvernig aðrir geti orðið ríkir. Ef einhver segist vita hvernig þú getir grætt á tá og fingri skaltu spyrja sjálfan þig af hverju hann noti þetta ekki sjálfur. Af hverju er hann að eyða tíma í að selja þér hugmyndina?

En hvað ættirðu að gera ef þér er sagt að þú hafir unnið keppni eða verðlaun? Ekki verða of ákafur því að þetta gæti verið svikabragð sem margir hafa fallið fyrir. Kona á Englandi fékk til dæmis bréf frá Kanada þar sem sagt var að hún hefði unnið verðlaun en þyrfti að senda upphæð sem svaraði til 2000 króna svo að málið fengi framgang. Þegar hún hafði sent peningana var hringt í hana frá Kanada og sagt að hún hefði unnið þriðju verðlaun í útdrætti að andvirði 18 milljóna króna en hún þyrfti að borga ákveðna prósentu af upphæðinni í kostnað við umsýslu. Hún sendi jafnvirði 180.000 króna til Kanada en fékk ekkert í staðinn. Ef þú þarft að borga fyrir „ókeypis gjöf“ eða verðlaun máttu gera ráð fyrir að um svik sé að ræða. Spyrðu sjálfan þig hversu líklegt sé að þú hafir unnið verðlaun í keppni sem þú skráðir þig ekki í.

Eigðu aðeins viðskipti við fólk með góðan orðstír

Telurðu þig geta séð út hvort fólk sé að ljúga að þér? Gættu samt að þér. Blekkingarmeistarar vita hvernig þeir eiga að ávinna sér traust annarra. Þeir eru mjög færir í að láta fórnarlömbin treysta sér. Hvort sem sölumenn eru heiðarlegir eða ekki vita þeir að þeir geta ekki selt ákveðna vöru nema ávinna sér traust kaupandans. Þetta þýðir auðvitað ekki að þú þurfir að vantreysta öllum en viss tortryggni getur verið nauðsynleg til að vernda þig gegn fjársvikurum. Í stað þess að treysta því að þú getir greint hvort sölumaður sé heiðarlegur eða ekki skaltu vera á varðbergi gagnvart tvennu sem einkennir mörg fjársvik. Í fyrsta lagi skaltu spyrja þig hvort tilboðið sé of gott til að vera satt og í öðru lagi hvort sölumaðurinn sé að fá þig til að taka skyndiákvörðun?

Á Netinu er aragrúi af tilboðum sem eru of góð til að vera sönn. Þó að Netið bjóði upp á margt gagnlegt gerir það glæpamönnum líka kleift að fara huldu höfði og svindla á fólki fyrirvaralaust. Ert þú með netfang? Ef svo er færðu sennilega einhvern ruslpóst, það er að segja óumbeðinn auglýsingapóst. Boðið er upp á alls kyns vörur og þjónustu með þessum hætti og í mörgum tilfellum er um svik að ræða. Ef þú svarar óumbeðnum tölvupósti með því að senda peninga fyrir einhverri vöru eða þjónustu er ólíklegt að þú fáir nokkuð til baka. Og ef þú færð eitthvað er það örugglega ekki peninganna virði. Besta ráðið sem hægt er að gefa er þetta: Kauptu aldrei neitt sem auglýst er með ruslpósti.

Þetta á líka við um þá sem hringja og bjóða vöru eða þjónustu. Þó að margir sem hringi í þessu skyni séu heiðarlegir eru samt milljarðir króna sviknir út úr fólki með símasölu. Það er engin leið að vita hvort söluræða sé á rökum reist með því einu að hlusta á sölumann sem hringir í þig. Fjársvikari gæti þóst vera starfsmaður hjá banka eða greiðslukortafyrirtæki. Þú hefur gilda ástæðu til að vera tortrygginn ef einhver segist hringja úr banka sem þú ert með reikning hjá og biður um upplýsingar sem hann ætti þegar að hafa aðgang að. Ef þetta gerist geturðu spurt úr hvaða símanúmeri hann hringi og hringt síðan aftur eftir að hafa athugað hvort þetta sé örugglega símanúmerið hjá bankanum eða fyrirtækinu.

Það er góð regla að gefa aldrei upp kreditkortanúmer eða aðrar persónuupplýsingar þegar ókunnugt fólk hringir. Ef einhver hringir og ætlar að selja þér eitthvað sem þú vilt ekki geturðu sagt kurteislega: „Því miður, ég vil ekki eiga viðskipti við ókunnugt fólk símleiðis.“ Leggðu síðan á. Það er engin ástæða til að tala að óþörfu við ókunnugt fólk sem er kannski að reyna að hafa af þér peninga.

Eigðu aðeins viðskipti við fólk og fyrirtæki sem hafa góðan orðstír. Þú getur átt viðskipti við mörg þekkt fyrirtæki símleiðis eða á Netinu án þess að taka neina áhættu. Ef mögulegt er skaltu fá upplýsingar hjá óháðu fyrirtæki um sölumanninn, fyrirtækið og fjárfestinguna. Biddu um upplýsingar um fjárfestinguna og farðu vandlega yfir þær til að ganga úr skugga um að allt sé lögum samkvæmt. Ekki láta þrýsta á þig að taka skyndiákvörðun.

Hafðu það skriflegt

Fjársvik byrja ekki alltaf sem slík. Heiðarlegt fyrirtæki getur lent í fjárhagserfiðleikum. Þegar það gerist gætu yfirmenn orðið örvæntingarfullir og beitt brögðum til að endurheimta það sem þeir töpuðu. Þú hefur örugglega heyrt sögur af yfirmönnum sem sögðu rangt til um hagnað fyrirtækis og flúðu síðan með það sem eftir var af peningunum þegar fyrirtækið fór á hausinn.

Til að vernda þig gegn fjársvikum og misskilningi ættirðu að fá nákvæmar upplýsingar skriflegar áður en þú leggur út í mikla fjárfestingu. Ef þú skrifar undir samning ættu allir skilmálar og öll loforð að koma þar skýrt fram. Það er einnig gott að gera sér grein fyrir því að jafnvel þótt fjárfesting virðist örugg er engin trygging fyrir því að allt fari eins og áætlað var í fyrstu. (Prédikarinn 9:11) Mundu að allar fjárfestingar fela í sér ákveðna áhættu. Í samningnum ætti því að koma fram hvaða skyldur og ábyrgð hver og einn hefur ef illa fer.

Ef við erum meðvituð um þessar einföldu meginreglur sem við höfum skoðað og förum eftir þeim eru minni líkur á að við verðum fórnarlömb fjársvikara. Forn orðskviður í Biblíunni veitir þessi góðu ráð: „Einfaldur maður trúir öllu, en kænn maður athugar fótmál sín.“ (Orðskviðirnir 14:15) Fjársvikarar leita að auðveldum skotmörkum, fólki sem trúir öllu sem þeir segja. Því miður eru margir sem gæta sín ekki á þeim.

[Neðanmáls]

^ Pýramídi er skilgreindur sem „fjölþrepakerfi þar sem fólk borgar inntökugjald fyrir að safna nýliðum sem fara svo eins að.“ Yfirleitt er ekki um að ræða neinn söluvarning.

[Rammi á blaðsíðu 7]

Ef tilboð virðist of gott til að vera satt er það oftast raunin.

[Rammagrein/mynd á blaðsíðu 6]

Ráð handa fórnarlömbum fjársvikara

Fórnarlömb fjársvikara finna oft til mikillar smánar, hafa samviskubit og eru reiðir út í sjálfa sig. En kenndu ekki sjálfum þér um. Þú ert fórnarlambið, sá sem svindlaði á þér ber sökina. Ef þú gerðir einhver mistök skaltu viðurkenna það fyrir sjálfum þér og horfa síðan björtum augum fram á veginn. Ekki draga þá ályktun að þú sért heimskur. Mundu að fjársvikurum hefur tekist að blekkja mjög gáfað fólk eins og forsætisráðherra, bankastjóra, framkvæmdastjóra, fjármálastjóra og lögfræðinga.

Fórnarlamb fjársvikara glatar ekki aðeins fjármunum eða eignum heldur einnig sjálfsöryggi og sjálfsmati. Og þegar „vinur“ svíkur fórnarlambið brestur trúnaður. Það er sárt að vera svikinn. Gefðu þér tíma til að jafna þig. Oft er gagnlegt að tala um málið við einhvern sem þú getur treyst. Bænin getur líka veitt mikla hughreystingu. (Filippíbréfið 4:6-8) Gerðu þér samt grein fyrir því að þú verður að láta hið liðna vera gleymt og horfa fram á veginn. Af hverju að gera illt verra með því að velta sér upp úr þessu? Settu þér jákvæð markmið og leggðu þig fram um að ná þeim.

Vertu á verði gegn fjársvikurum sem þykjast ætla að bæta þér fjárhagstjónið. Þeir hringja stundum í fólk sem hefur verið svikið og bjóðast til að hjálpa því að endurheimta peningana. Markmið þeirra er að svíkja það aftur.

[Rammagrein/mynd á blaðsíðu 8, 9]

Tölvupóstur

Sex Algengar Aðferðir Fjársvikara

1. Pýramídar: Þeir eru oft auglýstir sem tækifæri til að græða miklar fjárupphæðir með lítilli fyrirhöfn og litlum stofnkostnaði. Þér gæti verið boðin tölva eða eitthvað annað raftæki ef þú borgar inntökugjald í klúbb og færð aðra til að gera slíkt hið sama. Önnur útgáfa eru keðjubréf. Oftast eru þessi bréf ólögleg og flestir sem reiða fram fé tapa því.

2. Tilboð um að vinna heima: Þér gæti til dæmis verið boðið að setja saman hluti eins og skartgripi, leikföng eða handíðakassa. Þú kaupir efniviðinn og notar tíma til að setja hlutina saman. Síðan kemstu að raun um að þeir sem buðu þér vinnuna vilja ekki kaupa hlutina af þér því að þeir standast ekki gæðakröfur þeirra.

3. Heilsu- og megrunarvörur: Á Netinu er sífellt verið að auglýsa lækningu við getuleysi, krem við skallamyndun, töflur sem eiga að hjálpa fólki að losna við aukakíló án þess að hreyfa sig eða breyta um mataræði og svipað í þeim dúr. Í auglýsingunum er stundum að finna umsagnir ánægðra viðskiptavina og lesa má orð eins og „vísindaleg bylting“, „kraftaverki líkast“, „leynileg uppskrift“ og „aldagömul aðferð“. Sannleikurinn er hins vegar sá að fæst af þessu virkar.

4. Fjárfestingar: Fjárfestingartilboð á Netinu lofa oft miklum gróða án áhættu. Algengt er að fólki sé boðið að fjárfesta í erlendum bönkum og því er talið trú um að þeir sem sjái um fjárfestinguna hafi góð sambönd innan fjármálaheimsins og búi yfir innherjaupplýsingum.

5. Breytt lánshæfi: Þér er boðið að láta breyta upplýsingum um lánshæfi þitt svo að þú getir sótt um kreditkort, bílalán eða atvinnu. En þetta fólk getur ekki staðið við loforð sín þótt það reyni að telja þér trú um það.

6. Ferðavinningar: Þú færð tölvupóst þar sem þér er óskað til hamingju með að hafa unnið utanlandsferð á algeru lágmarksverði. Sagt er að þú hafir sérstaklega orðið fyrir valinu. Hafðu í huga að milljónir annarra gætu hafa fengið sama tilboð og gistingin, sem þér er boðin, er örugglega lakari en auglýst var.

[Credit line]

Heimild: U.S. Federal Trade Commission.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Pýramídi hrynur alltaf að lokum.

[Mynd á blaðsíðu 9]

Ef þú skrifar undir samning ættu allir skilmálar og öll loforð að koma þar skýrt fram.