Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Atlantshafslaxinn — „konungur“ í vanda

Atlantshafslaxinn — „konungur“ í vanda

Atlantshafslaxinn — „konungur“ í vanda

EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Á ÍRLANDI

LAXINN er þekktur fyrir að stökkva upp fossa þegar hann gengur upp í ár til að hrygna. Sagan segir að veiðimaður hafi tekið eftir því að „mörgum löxum tækist ekki að stökkva upp [fossinn]“ þar sem hann veiddi. Sumir lentu jafnvel á árbakkanum neðan við fossinn. Hann kveikti því eld á kletti fyrir neðan fossinn og setti steikarpönnu á hann. Sagt er að eftir misheppnaða tilraun til að komast upp fossinn hafi „ólánsamir laxar fyrir slysni fallið á steikarpönnuna“. Veiðimaðurinn gat þess vegna síðar stært sig af því að svo mikið væri af laxi í föðurlandi sínu að þeir „stykkju sjálfviljugir á steikarpönnuna án þess að veiðimenn þyrftu að fanga þá“.

Þessi saga er nú trúlega færð í stílinn. Engu að síður stekkur laxinn upp fossa. Í skýrslu frá rannsóknarstofnuninni Salmon Research Agency of Ireland kemur hins vegar fram að á undanförnum árum hefur „villtum laxi, sem gengur upp í ár til að hrygna, fækkað verulega“. Í könnun kom í ljós að á einu ári hafi aðeins 3 prósent af næstum 44.000 merktum laxaseiðum (um 1300) komið aftur upp ána.

Hver er ástæðan fyrir því að atlantshafslaxinum, „konungi fiskanna“, hefur fækkað svona mikið? Verður laxastofninn einhvern tíma jafnstór og áður? Við öðlumst betri skilning á orsök og hugsanlegri lausn vandans með því að fræðast um hið áhugaverða og óvenjulega lífsferli þessa glæsilega fisks.

Lífið hefst

Líf laxins hefst á botni ferskvatnsár einhvern tíma milli nóvember og febrúar. Hængurinn bægir óboðnum gestum frá á meðan hrygnan gerir nokkrar litlar holur sem geta verið allt að 30 sentímetra djúpar. Sameiginlega hrygna þau og frjóvga nokkur þúsund hrogn í hverja holu. Hrygnan hylur síðan hrognin með möl til að vernda þau.

Í mars eða apríl kemur sérkennilega útlítandi seiði út úr hrogninu. Það er aðeins þriggja sentímetra langt og kallast kviðpokaseiði því að framan á því hangir klunnalegur kviðpoki. Í fyrstu heldur seiðið kyrru fyrir undir mölinni og lifir á næringarforða sínum. Eftir fjórar eða fimm vikur er kviðpokinn uppurinn svo að smáseiðið, eins og það kallast þá, syndir upp úr mölinni og í ána. Það er um fimm sentímetra langt og lítur núna út eins og alvörufiskur. Það hugsar bara um tvennt, annars vegar að finna sér eitthvað að éta, eins og sjávarskordýr og svif, og hins vegar að finna öruggan dvalarstað. Um 90 prósent smáseiðanna deyja vegna plássleysis eða skorts á átu eða þá að þau eru étin af rándýrum eins og silungum, bláþyrlum, hegrum eða otrum.

„Eftir um það bil ár verður laxaseiðið milli átta og tíu sentímetra langt,“ segir Michael sem hefur lengi vel rannsakað lax og aðrar fiskitegundir. „Þá hefur seiðið auðkennandi dökka bletti (yfirleitt níu) á hvorri hlið. Þegar það verður um 15 sentímetrar hverfa dökku blettirnir og seiðið tekur á sig skínandi silfurlitaðan búning. Þá gerast nokkrar flóknar og undraverðar breytingar sem greina laxinn frá flestum öðrum fiskum.“

Michael heldur áfram: „Milli maí og júní knýr innri eðlisávísun fiskinn, sem nú kallast gönguseiði, til að synda ásamt þúsundum annarra niður ána að ósnum.“ En getur ferskvatnsfiskur lifað í sjónum? Aðspurður svarar Michael: „Yfirleitt ekki, en flóknar breytingar kringum tálknin gera honum kleift að sía frá saltið í sjónum. Að loknum þessum breytingum hefst leiðangurinn hjá gönguseiðinu sem er nógu lítið til að komast fyrir í lófa þínum.“

Lífið í sjónum

Hvers vegna yfirgefur svona lítill fiskur heimaá sína og hvert fer hann? Laxaseiðið þarf að komast þangað sem það finnur æti til að geta orðið að fullvöxnum laxi. Ef það kemst heilu og höldnu fram hjá rándýrum eins og skörfum, selum, höfrungum og háhyrningum nærist það á stórgerðu dýrasvifi, sílum, síld, loðnu og öðrum fiski. Að ári liðnu hefur þyngd laxins fimmtánfaldast eða aukist úr nokkur hundruð grömmum í næstum þrjú kíló. Ef hann heldur sig í sjónum í fimm ár getur hann orðið 20 kíló eða meira. Vitað er um fáeina laxa sem hafa orðið yfir 50 kíló.

Ekki var vitað nákvæmlega hvar laxinn nærðist fyrr en á sjötta áratug síðustu aldar þegar sjómenn fóru að veiða lax í stórum stíl við Grænlandsströnd. Seinna komust menn að því að laxinn hélt einnig til í kringum Færeyjar. Síðar hafa fundist fleiri staðir þar sem laxinn nærist. Jafnvel hefur verið greint frá því að laxinn sæki fæðu undir ísinn við norðurpólinn. Eftir að þessir staðir uppgötvuðust hófust vandræðin fyrir alvöru hjá atlantshafslaxinum. Stundaðar voru stórfelldar laxveiðar í sjó við strendur Grænlands og Færeyja. Sjómenn veiddu þúsundir tonna af laxi í sjónum og skyndilega fækkaði stórlega þeim laxi sem komst aftur upp árnar til að hrygna. Ríkisstjórnir gerðu sér grein fyrir alvarleika málsins og settu ýmsar hömlur og kvóta á veiðarnar. Þetta hefur hjálpað til við að vernda laxinn í sjónum.

Aftur í árnar

Um síðir fer fullvaxni laxinn aftur að ánni, sem hann kom úr, finnur sér maka og hringrásin hefst á ný. Michael segir: „Það er virkilega stórfenglegt að þessi merkilegi fiskur skuli rata rétta leið um þúsundir kílómetra í sjónum þó að hann hafi aldrei synt þar áður. Vísindamenn eiga erfitt með að útskýra hvernig hann fer að þessu. Sumir segja laxinn rata með því að nota segulsvið jarðar, hafstrauma eða jafnvel stjörnurnar. Talið er að laxinn þekki ána sína af ,lyktinni‘, það er að segja efnasamsetningunni, þegar hann kemur aftur að árósnum.“

„Hann aðlagast ferskvatninu aftur og syndir upp ána,“ segir Michael. „Laxinn er núna mun stærri og sterkari og honum er svo eðlislægt að komast á heimaslóðir sínar að hann þrjóskast við að sigrast á sérhverri hindrun, jafnvel þótt fossar og sterkir straumar séu í veginum.“

Fleiri vandamál bíða laxins á heimleiðinni þegar hann kemur að næstum ókleifum stíflum, virkjunum eða öðrum hindrunum af mannavöldum. Hvað gerir hann þá? „Þeir sem vilja vernda laxastofninn búa til hjáleið,“ segir Deirdre sem rannsakar laxa. „Búin er til auðveldari leið fram hjá hindruninni sem kallast fiskastigi. Hann gerir laxinum kleift að stökkva óhindrað hærra upp í ána á leið til hrygningarstaðarins.“

„Þetta virkar hins vegar ekki alltaf,“ heldur Deirdre áfram. „Ég hef séð suma laxa hunsa hjáleiðina. Þeir þekkja bara upphaflegu leiðina og reyna linnulaust að komast yfir þessa nýju hindrun. Margir örmagnast eða drepast á því að stökkva á hindrunina.“

Laxeldi

Lax er næringarríkur matur. Þar sem villtum atlantshafslaxi fer fækkandi hefur laxeldi víða verið komið á fót. Seiðunum er haldið í ferskvatnskerjum á landi þangað til þau verða á stærð við gönguseiði. Síðan eru seiðin færð yfir í kvíar þar sem þau eru alin þangað til þau verða að fullvöxnum laxi sem seldur er veitingarstöðum eða matvöruverslunum.

Eldislaxinn er líka í vanda staddur. Þar sem hann er alinn í kvíum og nærður á fiskafóðri er hann mjög viðkvæmur fyrir sjúkdómum og sníkjudýrum eins og krabbaflóm. Sum efnin, sem notuð eru til að vernda þá, geta verið mjög sterk. Kafari að nafni Ernest segir: „Ég synti oft fyrir neðan sumar eldiskvíarnar og það var mjög áberandi hve sjávarbotninn var lífvana í kringum mörg þessara svæða.“

„Konungur“ í vanda

Margir villtir laxar eru veiddir í net í sjónum áður en þeir komast í árnar. Þar sem gott verð fæst fyrir þá veiða sumir sjómenn þá ólöglega. Þeir fáu laxar, sem komast í ána, þurfa einnig að komast fram hjá löglegum stangaveiðimönnum. Ýmislegt hefur verið gert til að vernda laxastofninn. Veiðarnar hafa til dæmis verið takmarkaðar við ákveðin veiðisvæði og veiðitímabil, auk þess sem seld eru dýr veiðileyfi. Þrátt fyrir það er talið að einn af hverjum fimm löxum sé veiddur á leið sinni upp ána.

Þar að auki fær villti laxinn ýmsa sjúkdóma og það hefur mikil áhrif á stofninn. Einn þessara sjúkdóma veldur sárum á roðinu og dregur þá að lokum til dauða. Iðnaðarmengun og meindýraeitur, sem kemst í árnar, getur einnig drepið laxinn og önnur sjávardýr.

Það er ekki að undra að „konungur fiskanna“ skuli vera í vanda staddur þegar tekið er mið af öllum þeim hættum sem að honum steðja. Þrátt fyrir góða viðleitni margra manna halda erfiðleikarnir áfram hjá laxinum. Jafnvægi í náttúrunni verður ekki komið á fót fyrr en skapari jarðarinnar, alvaldur Guð, bindur enda á eyðileggingu jarðarinnar af mannavöldum. — Jesaja 11:9; 65:25.

[Skýringarmynd/kort á blaðsíðu 14, 15 ]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)

Atlantshafslaxinn syndir úr ám í Bandaríkjunum, Íslandi, Spáni og Rússlandi alla leið til Grænlands og Færeyja til að nærast áður en hann heldur til baka til að hrygna.

[Kort]

Bandaríkin

Grænland

Ísland

Færeyjar

Rússland

Frakkland

Spánn

[Skýringarmynd/myndir á blaðsíðu 15]

LÍFSFERLI LAXINS

Hrogn

Augnaseiði

Kviðpokaseiði

Smáseiði

Seiði

Gönguseiði

Fullvaxinn lax

Hrygning

[Myndir]

Kviðpokaseiði

Seiði

[Credit lines]

Lífsferli: © Atlantic Salmon Federation/J.O. Pennanen. Kviðpokaseiði: U.S. Fish & Wildlife Service, Washington, D.C. Seiði: © Manu Esteve 2003

[Caption on page 16]

[Myndir á blaðsíðu 16, 17]

Laxinn getur stokkið upp fossinn eða farið auðveldu leiðina með því að nota fiskastigann (stækkuð mynd til hægri).

[Myndir á blaðsíðu 16, 17]

Laxinum stafar til dæmis ógn af ofveiði og sjúkdómum í laxeldi.

[Credit lines]

Mynd: Vidar Vassvik

UWPHOTO © Erling Svensen

[Mynd credit line á blaðsíðu 14]

© Joanna McCarthy/SuperStock