Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig get ég forðast kynlíf fyrir hjónaband?

Hvernig get ég forðast kynlíf fyrir hjónaband?

Ungt fólk spyr . . .

Hvernig get ég forðast kynlíf fyrir hjónaband?

„Þegar ég var 19 ára svaf ég hjá strák sem var með mér í skóla. Mér leið alveg hræðilega eftir á. Mér fannst ég einskis virði.“ — Laci. *

„FLÝIÐ saurlifnaðinn!“ segir í Biblíunni. (1. Korintubréf 6:18) Fátt ungt fólk er hins vegar tilbúið til að hlýða boði Biblíunnar og halda sig frá kynlífi þar til það hefur gengið í hjónaband. Sumir hafa látið í minni pokann fyrir löngunum sínum eins og Laci og uppskorið hugarangur og slæma samvisku.

Að vísu er ekki auðvelt að hafa hemil á kynhvötinni. Eins og fram kemur í kennslubókinni Adolescent Development „eykst kynhvötin“ á gelgjuskeiðinu vegna hormónabreytinga. Páll nokkur viðurkennir: „Stundum fer ég að hugsa um kynlíf út af engu að því er virðist.“

Howard Kulin, prófessor í barnalækningum, segir samt: „Það er mikil einföldun að kenna eingöngu hormónum um það hvernig [unglingar] hegða sér.“ Hann segir að félagslegi þátturinn eigi einnig mikinn hlut að máli og hafa jafnaldrarnir þar sterk áhrif.

Rithöfundurinn Patricia Hersch segir í bók sinni A Tribe Apart að „ungt fólk hafi myndað sitt eigið samfélag. . . . Ekki aðeins samfélag jafnaldra heldur einangrað samfélag [frá fullorðnum] sem hefur eigin gildi, siðferði og reglur“. En „siðferði“ og „reglur“ unga fólksins hvetja oft til þess að látið sé undan kynhvötinni í stað þess að hemja hana. Margir finna því fyrir þrýstingi til að prófa sig áfram með kynlíf fyrir hjónaband.

Engu að síður eru kristnir unglingar hvattir til að vera vitrir og forðast alls kyns saurlifnað því að þeir vita að Guð fordæmir saurlifnað og segir hann vera „holdsins verk“. * (Galatabréfið 5:19) En hvernig er hægt að halda sér skírlífum þrátt fyrir þrýstinginn allt í kringum okkur?

Veldu þér vitra félaga

Þar sem slæmir félagar geta haft óæskileg áhrif á okkur er skynsamlegt að ætla að góðir félagar geti haft góð áhrif. Í Biblíunni segir: „Haf umgengni við vitra menn, þá verður þú vitur.“ (Orðskviðirnir 13:20; 1. Korintubréf 15:33) Í skýrslu frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni segir að unglingar „séu ólíklegri til að taka frumkvæði í kynferðismálum“ ef þeir „eiga gott samband við foreldra sína, aðra umhyggjusama fullorðna og jafnaldra“ og „búa við stöðugleika og aðhald“.

Það getur verið einstaklega gefandi að eiga gott samband við foreldra sína. Jósef segir: „Foreldrar mínir hjálpuðu mér að standa gegn þrýstingnum til að prófa mig áfram með kynlíf.“ Já, guðhræddir foreldrar veita börnum sínum stöðugleika og aðhald byggt á orði Guðs. (Efesusbréfið 6:2, 3) Þeir geta stutt við bakið á ykkur þegar þið reynið að halda ykkur skírlífum.

Að vísu getur í fyrstu verið vandræðalegt að tala við foreldrana um kynlíf en það gæti komið þér á óvart hversu vel þeir skilja það sem þú ert að ganga í gegnum. Þeir voru líka eitt sinn ungir. Sonja ráðleggur því ungu fólki: „Leitið til foreldra ykkar og verið ekki feimin eða vandræðaleg að tala við þau um kynlíf.“

En hvað nú ef foreldrar þínir fylgja ekki siðferðisreglum Biblíunnar? Þótt þú virðir foreldra þína gætirðu þurft að leita ráða annars staðar. Páll, sem vitnað var í fyrr í greininni, segir: „Ég fæ góð ráð á þessu sviði frá þroskuðum hjónum í söfnuðinum.“ Kenji er ung stúlka og á mömmu sem er ekki vottur. Hún tekur í svipaðan streng: „Ef mig vantar ráð leita ég til þroskaðra einstaklinga sem eru andlega uppbyggjandi.“ En hún segir í viðvörunarskyni: „Ég leita ekki til þeirra sem hafa lága siðferðisstaðla, jafnvel þótt þau segist hafa sömu trú og ég.“

Það gæti stundum reynst nauðsynlegt að hugsa vel um það hverja í söfnuðinum maður umgengst. Biblían minnir á að fólk, sem hagar sér ekki siðsamlega, geti leynst innan hvaða hóps sem er. (2. Tímóteusarbréf 2:20) Hvað ættirðu að gera ef þú kemst að því að sumir unglingar í söfnuðinum eru ‚fláráðir‘ eða undirförlir? (Sálmur 26:4) Forðastu náinn félagsskap við þá og leitaðu heldur vina sem styðja þig í að lifa siðferðilega hreinu lífi.

Hafnaðu skaðlegum áróðri

Þú ættir líka að vinna að því að vernda sjálfan þig gegn öllum kynlífsáróðrinum sem er að finna í bókum, tímaritum, tónlistarmyndböndum, tölvuleikjum, kvikmyndum og á Netinu. Fjölmiðlar draga upp þá mynd að kynlíf fyrir hjónaband sé heillandi, skemmtilegt og áhættulaust. Hverjar eru afleiðingarnar? Kenji, sem vitnað var í hér á undan, viðurkennir: „Ég horfði á þátt þar sem fram kom kæruleysislegt viðhorf til kynlífs og jafnvel gagnvart samkynhneigð. Það varð til þess að ég gleymdi hversu alvarlegum augum Jehóva lítur á þessi mál.“

Sannleikurinn er sá að vinsælt skemmtiefni breiðir oft snilldarlega yfir það sem raunverulega fylgir kynlífi fyrir hjónabandi — óæskilegar þunganir, ótímabær hjónabönd og kynsjúkdómar. Láttu þá sem „kalla hið illa gott og hið góða illt“ ekki plata þig. — Jesaja 5:20.

Mundu eftir orðunum í Orðskviðunum 14:15: „Einfaldur maður trúir öllu, en kænn maður athugar fótmál sín.“ Taktu strax í taumana ef þú rekst á tvírætt eða kynferðislega örvandi efni þegar þú ert að lesa, vafra um Netið eða horfa á sjónvarpið. Lokaðu bókinni, slökktu á tölvunni eða skiptu um rás. Beindu huganum síðan að einhverju öðru, einhverju uppbyggilegu. (Filippíbréfið 4:8) Ef þú gerir það geturðu komið í veg fyrir að rangar langanir nái að skjóta rótum. — Jakobsbréfið 1:14, 15.

Varastu vafasamar aðstæður

Ertu í föstu sambandi? Þá þarf að vera vel á verði. Biblían segir í viðvörunartón: „Svikult er hjartað fremur öllu öðru, og spillt er það.“ (Jeremía 17:9) Ástleitni getur auðveldlega leiðst út í siðleysi. Sýnið fyrirhyggju til dæmis með því að hittast í hópi uppbyggilegra félaga eða biðja einhvern um að vera siðgæðisvörður ykkar. Forðist að vera ein þar sem þið gætuð leiðst út í siðleysi.

Kannski eruð þið trúlofuð og teljið að viss ástleitni sé viðeigandi. Samt sem áður er gott að hafa varann á, því að eins og fram kemur í skýrslu frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni virðist „meirihluti kvenna byrja að stunda kynlíf þegar gifting er á næsta leiti, jafnvel í löndum þar sem íhaldssemi ríkir“. * Takmarkið því ástleitnina til að komast hjá óþarfa hugarangri.

Það er sorgleg staðreynd að margir unglingar, sér í lagi ungar stúlkur, eru þvingaðir til að hafa kynmök. Í könnun einni kom fram að „60 prósent unglingsstúlkna í Bandaríkjunum, sem höfðu haft kynmök fyrir 15 ára aldur, höfðu gert það gegn eigin vilja“. Þeir sem þvinga aðra til samræðis nota oft ofbeldi til að yfirbuga fórnarlömb sín. (Prédikarinn 4:1) Biblían segir til dæmis að Amnon, sonur Davíðs konungs, hafi orðið ástfanginn af Tamar, hálfsystur sinni, og nauðgað henni. — 2. Samúelsbók 13:1, 10-16.

Þetta þýðir samt ekki að það sé ómögulegt að koma í veg fyrir nauðgun eða kynlíf án samþykkis. Með því að vera vakandi fyrir hættunum, forðast vafasamar aðstæður og bregðast skjótt við þegar hætta steðjar að er hægt að vernda sjálfan sig. *

Haltu hjarta þínu ‚heilu‘

Við vonum að það sem hefur verið rætt í þessari grein hjálpi þér að forðast kynlíf fyrir hjónaband. En þegar til lengdar lætur er það hjartalagið sem sker úr um hvernig þú bregst við. Jesús sagði: „Frá hjartanu [kemur] . . . saurlifnaður.“ (Matteus 15:19) Það er því mikilvægt að þú berjist gegn þeirri tilhneigingu að „haltra til beggja hliða“ (sýna hálfvelgju) eða hafa ‚tvískipt hjarta‘ (hræsnisfullt hugarfar). — Sálmur 12:3; 119:113.

Ef þér finnst einhvern tíma að afstaða þín sé farin að veikjast eða þú eigir í baráttu innra með þér skaltu biðja eins og Davíð þegar hann sagði: „Gef mér heilt hjarta, að ég tigni nafn þitt.“ (Sálmur 86:11) Síðan skaltu breyta í samræmi við bæn þína með því að lesa vandlega efni Biblíunnar og biblíutengd rit og fara eftir því sem þú lærir. (Jakobsbréfið 1:22) Lydia segir: „Það sem hjálpar mér að standast kynferðislegar freistingar er að muna alltaf eftir því að ‚enginn frillulífismaður eða saurugur á sér arfsvon í ríki Guðs‘.“ — Efesusbréfið 5:5.

Það getur verið þrautin þyngri að forðast kynlíf fyrir hjónaband en með hjálp Jehóva er hægt að lifa siðferðilega hreinu lífi og komast þannig hjá því að valda sjálfum sér og öðrum hugarangri og erfiðleikum. — Orðskviðirnir 5:8-12.

[Neðanmáls]

^ gr. 3 Sumum nöfnum hefur verið breytt.

^ gr. 8 Sjá greinina „Ungt fólk spyr . . . Er eitthvað að því að stunda kynlíf fyrir hjónaband?“ sem birtist í Vaknið! október-desember 2004.

^ gr. 21 Sjá 29. kaflann í bókinni Spurningar unga fólksins — svör sem duga, gefin út af Vottum Jehóva.

^ gr. 23 Ráðleggingar sem þessar voru veittar í greinunum „Sexual Harassment — How Can I Protect Myself?“ og „How Can I Stop My Boyfriend From Mistreating Me?“ sem birtust í greinaröðinni „Ungt fólk spyr . . .“ á ensku, 22. ágúst 1995 og 22. júní 2004.

[Mynd á blaðsíðu 19]

Ef þú segir foreldrum þínum hvernig þér líður getur það hjálpað þér að lifa siðferðilega hreinu lífi.

[Mynd á blaðsíðu 20]

Ef þú ert í föstu sambandi getur verið vernd í því að hittast í hópi uppbyggilegra félaga.