Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Linnulaus barátta við vatnið

Linnulaus barátta við vatnið

Linnulaus barátta við vatnið

EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Í HOLLANDI

„Hafið streymir með ógnarhraða tvisvar sinnum á sólarhring yfir gríðarstórt landflæmi svo efast má um hvort það heyri til láði eða legi. Aumkunarvert fólk býr þar á háum hólum er það hefur reist fyrir ofan hæsta vatnsyfirborð sem því er kunnugt um.“

HÉR að ofan er lýsing Plíníusar eldri, rómversks rithöfundar á fyrstu öld, á baráttunni sem íbúar á láglendum svæðum meðfram Norðursjónum háðu við vatn. Baráttunni er haldið áfram enn þann dag í dag. Á svæðinu búa rúmlega 16 milljónir manna og um helmingur þeirra lifir og starfar fyrir neðan sjávarmál.

Íbúar Hollands, öðru nafni Niðurlanda, líta ekki á sig sem aumkunarverða þrátt fyrir stöðuga baráttu. Land þeirra er að vísu lítið og lágt * en þeir eru meðal auðugustu þjóða heims. Og það kemur kannski á óvart að Holland á að miklu leyti velgengni sína að þakka vatni og baráttunni við það.

Hollendingar sóttust einkum eftir að búa á þessu svæði vegna frjósemi landsins. Það hentar mjög vel til akuryrkju, garðyrkju og nautgriparæktar. Landið liggur einnig efnahagslega vel við þar sem helstu ár Evrópu falla þar til sjávar. Það er síst að undra að Holland ásamt höfninni í Rotterdam, stærstu hafnarborg í heimi, sé kallað hliðið að Evrópu!

Gerð flóðgarða á sér langa sögu

Velmegunin kom þó ekki af sjálfu sér. Hollendingar hafa verið að reisa varnargarða í 900 ár til að verjast ágangi sjávar og ánna sem renna um landið. Þess vegna er Holland varið gegn ágangi sjávar og vatnsfalla með margra kílómetra löngum flóðgörðum sem eru mikil stórvirki.

Flóðgarða er einnig að finna í öðrum löndum. En hæð lands yfir sjó skiptir samt sköpum í þessu tilfelli. Koos Groen, einn af höfundum bókarinnar Dijken (Flóðgarðar), segir: „Ef allir íbúar Sviss kysu að taka sér ársfrí og dvelja erlendis yrði land þeirra á sama stað þegar þeir sneru aftur. Gerðu Hollendingar það sama væri helmingur landsins og 75 prósent af húsunum horfið þegar þeir kæmu til baka.“ *

Milljónir Hollendinga, sem búa fyrir neðan sjávarmál, geta gengið þurrum fótum og sofið værum svefni af því að baráttunni er sífellt haldið áfram. Við skulum líta á hve mikil vinna liggur í því að viðhalda ströndinni og sandöldunum.

Viðhald strandlengjunnar

Strandir og sandöldur hafa orðið til á mörg þúsund ára tímabili og myndað vörn frá náttúrunnar hendi sem hefur skýlt þessu svæði fyrir ágangi sjávar. En landeyðing ógnar sífellt þessari varnarlínu. Sérútbúin skip eru notuð til að moka upp sandi af sjávarbotni 9 til 20 kílómetra frá landi og flytja hann að ströndinni eða á hana til að bæta upp skaðann. Meira en 85 milljónir rúmmetra af sandi hafa verið fluttar frá árinu 1970 til að viðhalda sandöldunum.

Varðveisla sandaldnanna kemur samt fleirum að gagni en mönnum. Í hollenska fréttablaðinu NRC Handelsblad segir: „Þrjá fjórðu hluta allra fuglategunda, sem lifa í landinu, og tvo þriðju hluta allra æðri plöntutegunda er að finna á þessu svæði þó að sandöldurnar nái ekki yfir nema eitt prósent af yfirborði Hollands.“

Varnarlínan styttist

Hollendingar reistu 32 kílómetra langan flóðvarnargarð, Afsluitdijk, árið 1932. Í einni svipan breytti hann flóanum Zuider Zee eða Suðursjó í stöðuvatnið IJsselmeer. Strandlengjan styttist um leið úr um það bil 1900 kílómetrum í rúma 1300 kílómetra.

Flóðgarðameistararnir hófust handa við enn stórvirkari framkvæmd um 20 árum síðar, árið 1953, eftir að 1835 manns höfðu farist í miklum flóðum. Markmið þeirra var að loka öllum fjörðum og sundum í suðvesturhluta landsins nema þeim sem lágu til hafnarborganna Rotterdam og Antwerpen. Með þessari framkvæmd, svokallaðri Deltaáætlun, styttist strandlengja landsins og varð 662 kílómetrar er framkvæmdum lauk.

Vörn gegn vatnsföllunum

Hollendingum stafar ekki aðeins ógn af sjónum heldur einnig af vatnsföllum sem renna um landið og falla í sjó fram. Eftir langt regntímabil í vetrarlok samtímis því að snjóa leysir úr fjöllum myndast geysilegur vatnselgur sem steypist inn í Holland með ánum frá Sviss, Þýskalandi, Frakklandi og Belgíu.

Alvarleg hætta getur einnig stafað af þessum gríðarlegu vatnavöxtum. Svo mikill vöxtur hljóp til dæmis í árnar um miðbik landsins í febrúar 1995 að óttast var að flóðvarnargarðarnir brystu undan þrýstingnum. Margra metra djúpt vatn hefði þakið landsvæðið innan varnargarðanna ef skarð hefði komið í einhvern þeirra. Groen, sem fyrr var vitnað í, segir: „Fáir gera sér ljóst hvað hefði getað gerst ef varnargarðarnir hefðu látið undan.“

„Baðker“ undir berum himni

Ekkert land er eins þekkt og Holland fyrir sælöndin, „ný lönd“ neðan sjávarmáls sem hafa verið þurrkuð upp og eru umlukt flóðgörðum. Fram að lokum 19. aldar voru notaðar vindmyllur til að stjórna vatnsyfirborði sælandanna. Tölvustýrðar dælustöðvar sinna því núna. Peter Nowak, sem sér um dælustöð í námunda við Amsterdam, lýsir ferlinu.

„Sælandi má líkja við baðker,“ segir Nowak. „Sæland liggur oft nokkrum metrum fyrir neðan sjávarmál. Flóðgarðurinn umhverfis hindrar að vatn flæði yfir það. En flóðgarður er ekki þak. Úrhellisrigning getur valdið því að svæðið fyrir innan, „baðkerið“, fyllist. Vatninu verður að dæla burt með vélarafli til þess að koma í veg fyrir alvarleg vandræði. En hvert á vatnið að fara?“

Á sælandinu eru skurðir sem veita vatni að dælustöðinni. Hver bóndi verður að hreinsa skurðina, sem eru á landareign hans, til að varna því að þeir stíflist. Dælustöðin dælir síðan umframvatni frá sælandinu í boezem en það er úthugsað kerfi stöðuvatna og skurða sem virka eins og miðlunarlón utan við sælandið. Umframvatninu í boezem er hleypt út í sjó á fjöru.

„Það er nauðsynlegt fyrir efnahagskerfi Hollendinga að halda vatnsborði sælandsins í réttri hæð,“ bætir Nowak við. „Á þurrkasumrum er hleypt inn vatni, þar sem bændur þurfa vatn í skurðina svo að hægt sé að rækta tún og akra. Á sumum sælöndum er ræktuð ein frægasta útflutningsvara landsins — blóm.

Mannlíf þar sem áður var sjór

Á tuttugustu öldinni var ekki lengur litið á sælöndin eingöngu sem viðbótarland til ræktunar heldur einnig aukið byggingasvæði. Hönnuðir borga höfðu litla reynslu af að skipuleggja ný samfélög þegar þeir hófu að hanna bæi á sælöndunum fyrir hálfri öld. Ef maður heimsækir sælöndin núna sést hins vegar að hönnuðunum hefur tekist að koma upp notalegum samfélögum á svæðum sem voru áður sjávarbotn. Þú ættir að koma og sjá það með eigin augum!

Ertu kannski smeykur við að rölta um fyrir neðan sjávarmál? Það er skiljanlegt en margir hafa samt gert það án þess að hafa hugmynd um það. Þeir sem fljúga til Schipholflugvallar skammt frá Amsterdam lenda á botni vatns sem hefur verið þurrkað upp, svo dæmi sé tekið. Flóðgarðarnir í Hollandi eru enn þá í góðu ástandi eins og sannast á því að þú tókst ekki einu sinni eftir því að þú værir fjórum metrum fyrir neðan sjávarmál!

[Neðanmáls]

^ gr. 5 Holland er 41.500 ferkílómetrar að stærð.

^ gr. 9 Tveir fimmtu hlutar Hollands eru sælönd, landsvæði sem eru fyrir neðan sjávarmál. Þessi sælönd væru undir vatni ef flóðgörðunum væri ekki sífellt haldið við. Fjöllótt lönd eins og Sviss liggja fyrir ofan sjávarmál og sama ógnin steðjar þess vegna ekki að þeim.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 26]

Samkoma NEÐAN SJÁVARMÁLS

Önnur af tveim mótshöllum Votta Jehóva í Hollandi er fimm metrum fyrir neðan sjávarmál. Vottur nokkur sagði: „Þegar við förum á svæðismótin tvisvar á ári minnumst við oft orða Guðs í Jobsbók 38:8 og 11 en þar segir: ‚Hver byrgði hafið inni með hurðum og mælti: „Hingað skaltu komast og ekki lengra, hér skulu þínar hreyknu hrannir brotna“?‘ Þessi orð minna okkur á að Jehóva kann margfalt betri leiðir en sérfræðingar manna til að hafa stjórn á hinu ógurlega afli vatnsins, þó að afrek þeirra séu oft merkileg.“

[Rammi á blaðsíðu 27]

Hver sér um FLÓÐGARÐANA?

Flóðgörðum og framræslukerfum þarf að halda við og stundum er viðgerðar þörf. Svæðisbundnir stjórnendur, svonefnd vatnaráð, hafa haft ábyrgðina á hendi allt frá miðöldum fram á þennan dag. Vatnaráðin höfðu þrennt að leiðarljósi: hagsmuni, greiðslu og áhrif. Þeir sem hafa hagsmuna að gæta verða að greiða fyrir rekstur og viðhald flóðgarðanna. Þeir hafa einnig áhrif á hvernig þessir hagsmunir eru verndaðir og hvernig rekstrarfénu er varið.

Vatnaráð hafa verið starfrækt í Hollandi frá því á 12. öld. Meira en 30 vatnaráð eru nú starfandi. Sveitastjórnir sjá um að stofna þessi ráð, leggja þau niður og stjórna þeim. Þær ákveða stærð og samsetningu „varnarliðsins“. Þeir sem eru í varnarliðinu búa á svæðinu sem þeir eiga að vernda. Það er þeirra hagur að framræslukerfum og flóðgörðum sé vel við haldið því að velferð og öryggi fjölskyldna þeirra og bæjarfélagsins er undir því komin. Þeir vakta varnargarðana þegar vatnið stendur hátt, tilbúnir að láta hendur standa fram úr ermum og hindra með sandpokum og öðrum útbúnaði að hvergi myndist skarð. Þetta aldagamla fyrirkomulag tryggir að vel er séð um flóðvarnargarðana.

[Kort á blaðsíðu 24]

(Sjá blaðið)

Þetta bláa svæði væri lengst af undir vatni ef landið væri ekki varið flóðgörðum og sandöldum.

[Mynd á blaðsíðu 25]

Gríðarmiklir flóðgarðar voru reistir til að verja láglendið innan þeirra.

[Mynd á blaðsíðu 25]

Á hverju ári þarf að dæla að landi milljónum rúmmetra af sandi.

[Mynd á blaðsíðu 26]

Það er algengt að siglingaleiðir liggi ofar vegum.

[Mynd á blaðsíðu 26]

Hamfarirnar árið 1953.

[Mynd credit line á blaðsíðu 25]

Báðar myndirnar: Met vriendelijke toestemming van het Nederlandse Ministerie van Verkeer en Waterstaat.

[Mynd credit line á blaðsíðu 26]

Tvær efstu myndirnar: Met vriendelijke toestemming van het Nederlandse Ministerie van Verkeer en Waterstaat.