Við þurfum öll á vinum að halda
Við þurfum öll á vinum að halda
„Vinur er sá sem hægt er að tala frjálslega við um allt og hringja í hvenær sem er.“ — Yaël frá Frakklandi.
„Vinur skilur þegar þér líður illa og finnur til með þér.“ — Gaëlle frá Frakklandi.
„TIL er ástvinur, sem er tryggari en bróðir.“ (Orðskviðirnir 18:24) Mannlegt eðli hefur ekki breyst síðan þessi orð voru rituð í Biblíuna fyrir um 3000 árum. Það er jafnmikilvægt fyrir fólk að eiga vini og fyrir líkamann að fá mat og vatn. Margir eiga samt sem áður erfitt með að svala þörfinni fyrir vináttu og það er algengt að fólk sé einmana. „Það er ekki erfitt að sjá hverjar ástæðurnar eru,“ segja Carin Rubenstein og Phillip Shaver í bókinni In Search of Intimacy. Þau nefna meðal annars „tíða búferlaflutninga, . . . ópersónulegar borgir þar sem glæpatíðni er há“ og „sjónvarps- og myndbandsgláp sem kemur í staðinn fyrir mannleg samskipti“.
Nútímalífsstíll tekur einnig frá okkur mikinn tíma og orku. „Borgarbúi nútímans hittir fleira fólk á viku en þorpsbúi á sautjándu öld gerði á ári eða jafnvel allri ævinni,“ skrifar Letty Pogrebin í bókinni Among Friends. Ef við eigum fjöldann allan af kunningjum getur verið erfitt að veita einum þeirra nógu mikla athygli til að mynda náin vináttutengsl við hann.
Aðstæður eru að breytast mjög hratt jafnvel á svæðum þar sem hraðinn í þjóðfélaginu var ekki eins mikill áður. „Við vorum einu sinni mjög náin vinum okkar,“ segir Ulla sem býr í Austur-Evrópu. „En núna sökkva margir sér niður í vinnu eða persónuleg metnaðarmál. Allir eru sífellt uppteknir og við finnum að gömul vináttubönd eru smám saman að flosna upp.“ Í hraða nútímans er hætta á að fólk meti ekki vináttu eins mikils og það gerði áður.
Við höfum enn þá jafnmikla þörf fyrir vini. Þetta á sérstaklega við um ungt fólk. Yaël, sem vitnað var í hér að ofan, segir: „Ungt fólk þráir að njóta viðurkenningar og tilheyra einhverjum hópi, vera nátengt öðru fólki.“ Við þurfum öll á nánum og ánægjulegum vináttuböndum að halda hvort sem við erum ung eða aldin. Þrátt fyrir erfiðleika er margt sem við getum gert til að eignast góð vináttubönd og viðhalda þeim. Í næstu grein verður rætt nánar um það.