Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Það er gagnlegt að lesa fyrir börnin

Það er gagnlegt að lesa fyrir börnin

Það er gagnlegt að lesa fyrir börnin

EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Í PÓLLANDI

Forystumenn árlegs átaks í Póllandi, þar sem allir landsmenn eru hvattir til að lesa fyrir börn sín, segja: „Lestur er lykillinn að þekkingu og vitsmunaþroska. . . . Hann opnar dyrnar að fjársjóðum mannlegrar hugsunar og þekkingar.“ Ef svo er, hvers vegna álíta þá margir, bæði börn og fullorðnir, að lestur sé aðeins ill nauðsyn?

Forystumenn átaksins segja: „Ef fólk á að lesa að staðaldri og unna bókum verður að byrja í æsku.“ Þeir segja við foreldra: „Ef þið viljið að börnin ykkar verði greind og gangi vel í skóla og í lífinu skuluð þið lesa fyrir þau í 20 mínútur á dag.“

Foreldrar eru einnig hvattir til að fresta því ekki að lesa fyrir börnin heldur að „byrja eins snemma og hægt er“. Hvenær? Foreldrum er ráðlagt: „Lesum fyrir ungbarn, höldum á því, horfum blíðlega á það og vekjum athygli þess með röddinni. Þannig tengir barnið lestur við öryggiskennd, ánægju og hlýju. Auk þess örvar það andlegan þroska þess.“

Forystumennirnir leggja áherslu á að „það sé mikilvægara núna en nokkurn tíma áður að lesa fyrir börn“ og þeir benda á aðra gagnlega þætti. Að lesa upphátt fyrir börn kennir þeim að hugsa, „það hjálpar þeim að skilja annað fólk, umheiminn og sig sjálf, . . . það vekur áhuga þeirra, þroskar ímyndunaraflið, örvar tilfinningaþroska, glæðir með þeim næmni og hluttekningu, kennir þeim siðferðisgildi, . . . byggir upp sjálfsmatið.“ Það er án efa „mótefnið gegn ýmsum óæskilegum áhrifum . . . sem ógna hugum og hjörtum barna,“ segja forystumenn átaksins að lokum.

Ef lesturinn á að vera sérstaklega gagnlegur ætti að notast við rit sem hvetja börnin til að nálægja sig himneskum skapara sínum. Biblían er best til þess fallin að hjálpa okkur að styrkja sambandið við Guð. Þar er okkur sagt að Tímóteusi hafi verið kenndar ,heilagar ritningar frá blautu barnsbeini‘. (2. Tímóteusarbréf 3:15) Foreldrar geta notað biblíutengdar bækur í lestraráætlun sinni eins og Biblíusögubókina mína og Lærum af kennaranum mikla, sem gefnar eru út af Vottum Jehóva, en þær eru sérstaklega ætlaðar börnum.