Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Að svala þörfinni fyrir vináttu

Að svala þörfinni fyrir vináttu

Að svala þörfinni fyrir vináttu

„EINMANALEIKI er ekki sjúkdómur,“ segir í bókinni In Search of Intimacy. „Einmanaleiki er heilbrigð þrá . . . eðlilegt merki þess að okkur vanti félagsskap.“ Hann ætti að fá okkur til að svala þörfinni fyrir vinskap rétt eins og svengd fær okkur til að svala hungrinu með því að borða næringarríkan mat.

Yaël, ung kona frá Frakklandi, bendir á að „sumir komi sér undan öllum samskiptum við annað fólk“. Það leysir engin vandamál að einangra sig, sama hver ástæðan er. Það gerir okkur bara meira einmana en áður. Orðskviður í Biblíunni segir: „Sérlyndur maður [„sá sem einangrar sig,“ NW] fer að sínum munum, hann illskast við öllu, sem hyggilegt er.“ (Orðskviðirnir 18:1) Við verðum fyrst að gera okkur grein fyrir því að við þurfum á vinum að halda og síðan gera eitthvað í málinu.

Leggðu þig fram um að eignast vini

Í stað þess að vorkenna sjálfum sér eða öfunda þá sem virðast eiga fleiri og betri vini ættum við að tileinka okkur jákvætt viðhorf eins og Manuela frá Ítalíu gerði. Hún segir: „Sérstaklega á unglingsárunum fannst mér ég vera skilin útundan. Til að sigrast á þessu fylgdist ég með fólki sem átti góða vini. Ég reyndi síðan að tileinka mér góða eiginleika þeirra svo að ég yrði sjálf viðkunnanlegri manneskja.“

Eitt sem við getum gert er að hugsa vel um sjálf okkur bæði líkamlega og að öðru leyti. Heilsusamlegt mataræði, næg hvíld og hæfileg hreyfing stuðlar að því að við lítum vel út og okkur líði vel. Ef við erum hrein, snyrtileg og vel til fara verður bæði ánægjulegra að umgangast okkur og það gefur okkur einnig sjálfsvirðingu. Ekki falla samt í þá gryfju að hugsa of mikið um útlitið. „Það er ekkert auðveldara að eignast sanna vini þótt við göngum í tískuklæðnaði,“ segir Gaëlle frá Frakklandi. „Gott fólk hefur áhuga á hinum innra manni.“

Innstu hugsanir okkar og tilfinningar hafa áhrif á umræðuefni okkar og jafnvel útlit. Ef við höfum jákvætt viðhorf til lífsins sést það á andlitinu. Einlægt bros gerir okkur aðlaðandi í augum annarra. Roger E. Axtell, sem hefur rannsakað líkamstjáningu, bendir einnig á að það „sé alþjóðlegt“ og „sjaldnast misskilið“. * Ef þú hefur auk þess góða kímnigáfu mun fólk ósjálfrátt laðast að þér.

Mundu að þessir góðu eiginleikar koma innan frá. Leggðu þig því fram um að fylla hugann og hjartað af heilnæmum og jákvæðum hugsunum og tilfinningum. Lestu um áhugaverð mál, til dæmis innihaldsríkt efni um atburði líðandi stundar, framandi menningu eða náttúrufyrirbæri. Hlustaðu á uppbyggilega tónlist. Forðastu hins vegar að láta sjónvarpið, kvikmyndir og skáldsögur hafa áhrif á tilfinningar þínar og mata huga þinn á draumórum. Vináttuböndin, sem birtast á skjánum, eru yfirleitt ekki raunveruleg heldur hugarburður einhverrar manneskju.

Tjáðu tilfinningar þínar

Zuleica, sem býr á Ítalíu, segir: „Þegar ég var yngri var ég feimin og mér fannst erfitt að eignast vini. En ég vissi að ef maður vill eignast vini verður maður að eiga frumkvæðið, kynnast öðrum og leyfa þeim að kynnast sér.“ Já, til að eignast sanna vini verðum við að opna okkur fyrir öðrum og leyfa þeim að kynnast okkar innra manni. Ef við viljum eignast trausta vini er mun mikilvægara að eiga góð samskipti og segja hvað okkur býr í brjósti heldur en líta vel út eða hafa heillandi persónuleika. „Fólk, sem eignast góð og varanleg vináttubönd, getur verið hlédrægt, félagslynt, ungt, gamalt, lítið spennandi, gáfað, óaðlaðandi eða myndarlegt; en það hefur það alltaf sameiginlegt að vera opinskátt,“ segir ráðgjafinn dr. Alan Loy McGinnis. „Það er hreinskilið og leyfir öðrum að sjá hvað býr í brjósti þess.“

Þetta þýðir ekki að þú eigir að bera allar tilfinningar þínar á torg eða segja fólki, sem þú þekki ekki vel, innstu leyndarmál þín. Þú ættir hins vegar smátt og smátt að tjá öðrum hugsanir þínar og tilfinningar. Michela frá Ítalíu segir: „Í fyrstu átti ég til að fela tilfinningar mínar fyrir öðrum. Ég þurfti að breyta mér og vera opinskárri svo að vinir mínir gætu skilið hvernig mér liði og orðið nánari mér.“

En jafnvel þótt við séum félagslynd að eðlisfari þurfa tími og sameiginleg reynsla að koma til áður en vinir fara að treysta hver öðrum. Þangað til skaltu ekki hafa of miklar áhyggjur af því hvað aðrir halda um þig. Elisa frá Ítalíu segir: „Alltaf þegar mig langaði að segja eitthvað var ég hrædd um að það kæmi öfugt út úr mér. En síðan hugsaði ég: ‚Ef þetta fólk er virkilega vinir mínir mun það skilja mig.‘ Þegar ég sagði eitthvað vitlaust hló ég bara að sjálfri mér og allir hlógu með mér.“

Slakaðu því á. Vertu þú sjálfur. Það gerir ekkert gagn að vera með leikaraskap. „Við erum mest aðlaðandi ef við erum við sjálf,“ skrifaði fjölskylduráðgjafinn F. Alexander Magoun. Fólk, sem er hamingjusamt í raun og veru, þarf ekki að sýnast eða reyna að ganga í augun á öðrum. Við getum aðeins eignast sanna vini með því að vera við sjálf. En við þurfum líka að leyfa öðrum að vera þeir sjálfir. Ánægt fólk getur tekið öðrum eins og þeir eru og kvartar ekki undan minni háttar veikleikum. Það hefur ekki þörf fyrir að breyta vinum sínum í samræmi við eigin hugmyndir um vini. Leggjum okkur því fram um að vera þannig vinir — ánægð en ekki gagnrýnin.

Til að eignast vin þarftu að vera vinur

Það sem skiptir mestu máli í samskiptum við vini er óeigingjarn kærleikur. Fyrir næstum 2000 árum benti Jesús á að slíkur kærleikur væri nauðsynlegur i öllum mannlegum samskiptum. Hann sagði: „Svo sem þér viljið, að aðrir menn gjöri við yður, svo skuluð þér og þeim gjöra.“ (Lúkas 6:31) Þessi orð eru þekkt sem gullna reglan. Já, eina leiðin til að eignast sannan vin er að vera sjálfur óeigingjarn og örlátur vinur. Með öðrum orðum þarftu að vera vinur til að eignast vin. Góð vinátta snýst frekar um að gefa en þiggja. Við verðum að vera fús til að setja þarfir vina okkar framar okkar eigin hagsmunum.

Manuela, sem vitnað var í hér á undan, segir: „Eins og Jesús sagði veitir það sanna hamingju að gefa af sér. Þiggjandinn verður ánægður en gefandinn enn ánægðari. Við getum gefið af okkur með því að spyrja vini okkar í einlægni hvernig þeir hafi það, reyna að skilja vandamál þeirra og gera allt sem við getum til að hjálpa þeim án þess að þeir þurfi að biðja um það.“ Sýndu öðrum áhuga, líka þeim sem eru vinir þínir nú þegar. Styrktu vináttuböndin. Fórnaðu ekki vináttu fyrir annað sem hefur ekki eins mikið gildi. Vinir eiga skilið að fá tíma okkar og athygli. Ruben, frá Ítalíu, segir: „Til að eignast vini og viðhalda vinskapnum er nauðsynlegt að gefa af tíma sínum. Það tekur tíma að hlusta af athygli. Við getum öll tekið framförum í að hlusta og sýna áhuga á því sem aðrir segja með því að grípa ekki fram í fyrir þeim.“

Sýndu öðrum virðingu

Annað sem er nauðsynlegt til að eiga góða vini til langs tíma er gagnkvæm virðing. Það felur í sér að virða tilfinningar annarra. Við viljum að vinir okkar sýni háttvísi og tillitsemi hafi þeir ekki sama smekk eða skoðanir og við. Ættum við þá ekki að koma eins fram við þá? — Rómverjabréfið 12:10.

Önnur leið til að sýna vinum okkar virðingu er að ganga ekki of nærri þeim. Sannir vinir eru hvorki öfundsjúkir né eigingjarnir á aðra. Í 1. Korintubréfi 13:4 segir Biblían: „Kærleikurinn öfundar ekki.“ Ekki reyna að hafa vini þína út af fyrir þig. Ef þeir leita til annarra skaltu ekki móðgast eða hætta að tala við þá. Við ættum öll að reyna að breikka vinahóp okkar. Leyfðu vinum þínum að eignast aðra vini.

Taktu einnig tillit til einkalífs vina þinna. Bæði einstaklingar og hjón þurfa tíma út af fyrir sig. Þótt þú eigir ekki að hika við að leita til annarra skaltu gæta jafnvægis og sýna tillitssemi. Vertu ekki uppáþrengjandi. Biblían ráðleggur: „Stíg sjaldan fæti þínum í hús náunga þíns, svo að hann verði ekki leiður á þér.“ — Orðskviðirnir 25:17.

Krefstu ekki fullkomleika

Þegar fólk kynnist öðrum kemur það auðvitað ekki aðeins auga á styrkleika þeirra heldur einnig veikleika. En við ættum ekki að láta það koma í veg fyrir að við eignumst vini. „Sumir ætlast til aðeins of mikils af vinum sínum,“ segir Pacôme frá Frakklandi. „Þeir vilja að þeir hafi aðeins góða eiginleika, en það er ekki hægt.“ Ekkert okkar er fullkomið og við höfum ekki rétt á að ætlast til þess að aðrir séu það. Við vonum að vinir okkar taki okkur eins og við erum og umberi ófullkomleika okkar. Ættum við ekki einnig að líta fram hjá mistökum þeirra með því að gera ekki of mikið úr þeim eða ætla þeim ímynduð mistök? Rithöfundurinn Dennis Prager bendir á: „Fullkomnir vinir (þ.e. þeir sem kvarta aldrei, eru alltaf elskulegir, aldrei í vondu skapi, gefa okkur óskipta athygli og bregðast okkur aldrei) kallast gæludýr.“ Ef við viljum ekki að bestu vinir okkar séu gæludýr ættum við að fylgja ráðum Péturs postula og láta ‚kærleikann hylja fjölda synda‘. — 1. Pétursbréf 4:8.

Sagt er að vinátta auki gleði okkar og dragi úr sorgum. En við verðum líka að vera raunsæ og gera okkur grein fyrir því að vinirnir geta ekki uppfyllt allar þarfir okkar eða leyst öll vandamál okkar. Það er eigingjarnt viðhorf til vináttu.

Traustir vinir í gegnum súrt og sætt

Þegar við höfum eignast vin ættum við aldrei að líta á vináttu hans sem sjálfsagðan hlut. Vinir hugsa hver um annan og biðja hver fyrir öðrum þegar tími eða fjarlægðir skilja þá að. Jafnvel þótt þeir hittist aðeins sjaldan er vináttan fljót að styrkjast aftur. Sérstaklega mikilvægt er að styðja vini sína á erfiðum tímum. Það er sjaldan ástæða til að draga sig í hlé þegar vinir okkar eiga við vandamál að stríða. Þá gætu þeir þurft mest á okkur að halda. „Vinur elskar ætíð og í nauðum er hann sem bróðir.“ (Orðskviðirnir 17:17) Og þegar góða vini greinir á eru þeir fljótir að bæta úr því og fyrirgefa hver öðrum. Sannir vinir yfirgefa ekki hver annan þótt upp komi erfiðleikar.

Ef við sýnum óeigingirni og höfum jákvætt viðhorf til annarra getum við eignast vini. En það skiptir líka máli hvers konar vini við eignumst. Hvernig getum við valið okkur góða vini? Um það verður fjallað í næstu grein.

[Neðanmáls]

^ Sjá greinina „Smile—It’s Good for You!“ í Vaknið! á ensku, 8. júlí 2000.

[Rammagrein/myndir á blaðsíðu 6, 7]

Geta karlar og konur verið „bara vinir“?

Geta karl og kona, sem eru ekki gift, verið vinir? Það fer eftir því hvað er átt við með orðinu „vinur“. Jesús var náinn vinur Maríu og Mörtu frá Betaníu en þær voru báðar einhleypar. (Jóhannes 11:1, 5) Páll postuli var vinur Priskillu og Akvílasar, eiginmanns hennar. (Postulasagan 18:2, 3) Við getum verið viss um að þeim þótti öllum innilega vænt hverju um annað. En samt sem áður getum við ekki ímyndað okkur að Jesús eða Páll hafi nokkurn tíma leyft þessum vináttuböndum að verða rómantísk.

Í nútímaþjóðfélagi þurfa karlar og konur að hafa nánari samskipti en nokkru sinni áður. Þess vegna er sífellt mikilvægara að bæði kynin viti hvernig þau geti átt viðeigandi en vinsamleg samskipti. Hjón njóta líka góðs af heilnæmum vinskap við önnur hjón og einhleypt fólk.

„Það getur hins vegar verið mjög erfitt að gera greinarmun á vináttu, rómantík og kynferðislegum tilfinningum,“ segir í tímaritinu Psychology Today. „Staðreyndin er sú að kynferðislegt aðdráttarafl getur alltaf skotið upp kollinum milli karls og konu þótt það hafi ekki verið ætlunin. Einfalt faðmlag milli vina gæti skyndilega orðið rómantískt.“

Það er sérstaklega mikilvægt að hjón séu raunsæ og skynsöm. „Náið samband við aðra, af hvaða tagi sem er, getur ógnað hjónabandinu,“ segir rithöfundurinn Dennis Prager í bókinni Happiness Is a Serious Problem. „Kynlíf er ekki það eina sem telst vera náið samband og maki þinn hefur rétt á að vera nánasti vinur þinn af hinu kyninu.“ Jesús benti á að það tengdist hjartanu að halda sér siðferðilega hreinum. (Matteus 5:28) Vertu því vingjarnlegur en varðveittu hjarta þitt og forðastu aðstæður sem gætu ýtt undir óviðeigandi hugsanir, tilfinningar eða hegðun gagnvart hinu kyninu.

[Myndir á blaðsíðu 7]

Við verðum meira aðlaðandi ef við hugsum vel um líkama okkar og huga.

[Mynd á blaðsíðu 8]

Vinir segja hver öðrum hvað þeim býr í brjósti.