Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er skilnaður besta lausnin?

Er skilnaður besta lausnin?

Sjónarmið Biblíunnar

Er skilnaður besta lausnin?

PRESTUR í Bretlandi býður velkomna þá sem viðstaddir eru helgiathöfn. Hjá honum standa hjón ásamt nánum vinum og börnum. Er þetta hjónavígsla? Alls ekki. Með þessari athöfn á að binda enda á hjónaband þeirra. Hjónaskilnaðir eru orðnir svo algengir að í nokkrum kirkjum hafa verið teknar upp hjónaskilnaðarathafnir.

Ert þú í skilnaðarhugleiðingum? Mun lífið verða hamingjusamara með því að slíta hjónabandinu? Er eitthvað sem þú getur gert til að njóta hamingju með maka þínum?

„Þau verði eitt hold“

Þegar fyrstu hjónin voru gefin saman sagði Guð að maðurinn ætti að ‚búa við eiginkonu sína svo að þau yrðu eitt hold‘. (1. Mósebók 2:24) Hjónabandið átti að tengja þau saman til frambúðar. Þess vegna sagði Jesús síðar að ‚hórdómur‘ væri eina biblíulega heimildin fyrir því að skilja og giftast öðrum.— Matteus 19:3-9. *

Þetta leggur áherslu á hve nauðsynlegt sé að hjón sýni tryggð í hjónabandi. En hvað er til ráða ef hjónabandsvandamál þín eru mjög alvarleg?

Er skilnaður skynsamlegasta leiðin?

Við getum metið verk okkar eftir meginreglunni sem Jesús gaf er hann sagði: „Spekin sannast af verkum sínum.“ (Matteus 11:19) Hvað sýna afleiðingarnar af því að mikill fjöldi hjóna ákveður að skilja af litlu tilefni nú á tímum?

„Kostirnir, sem fylgja hjónaskilnaði, hafa verið ofmetnir,“ segir Linda Waiter, prófessor í félagsfræði við Chicagoháskólann, en hún stjórnaði hópi sérfræðinga sem rannsakaði óhamingjusöm hjónabönd. Michael Argyle, prófessor í Oxford, komst að svipaðri niðurstöðu eftir að hafa unnið í ellefu ár við að greina svör þúsunda manna. „Hamingjusnauðasta fólkið í þjóðfélaginu er fráskilið fólk,“ segir hann. Hvers vegna skyldi það vera?

Þótt einhver vandamál verði úr sögunni við hjónaskilnað getur röð af sálrænum áföllum fylgt í kjölfarið. Oft er lítið hægt að ráða við þau. Rannsóknir sýna að hjónaskilnaður dregur venjulega ekki úr þunglyndiseinkennum eða bætir sjálfsmyndina.

Þó svo þú sért ekki í „fullkomnu hjónabandi“ getur það leitt til góðs að halda saman. Margir sem ákveða að gera það uppskera hamingju. Waite prófessor segir: „Fjöldi vandamála leysist með tímanum og hjón verða að jafnaði hamingjusamari.“ Niðurstöður rannsóknar sýna meira að segja að nærri átta af hverjum tíu, sem voru „mjög óhamingjusamir“ í hjónabandi en skildu ekki, lifðu í „hamingjusömu hjónabandi“ fimm árum síðar. Það er ekki hyggilegt að hjón skilji í flýti jafnvel þótt alvarleg vandamál séu á ferðinni.

Það sem hægt er að gera

Þeir sem hugleiða skilnað ættu að spyrja sig hvort væntingarnar til hjónabandsins séu raunsæjar. Fjölmiðlarnir hafa stuðlað að ímyndinni um rómantískt samband sem nær hámarki með íburðarmiklu brúðkaupi og endar eins og í ævintýri. Þegar hátindi eftirvæntinganna er ekki náð eftir brúðkaupið geta vonbrigðin ýtt undir ágreining. Spenna myndast og samfara henni þróast ástand þar sem sárindi stjórna tilfinningalífinu. Ástin fölnar og víkur um síðir fyrir reiði og hatri. Þegar svo er komið kynni einhverjum að finnast skilnaður vera eina lausnin. — Orðskviðirnir 13:12.

Í stað þess að láta óæskilegar tilfinningar hafa áhrif á skoðanir þínar skaltu umgangast fólk sem hlúir vel að hjónabandi sínu. Kristnir menn eru hvattir til að ‚áminna hver annan og uppbyggja hver annan‘. (1. Þessaloníkubréf 5:11) Þeir sem eiga í erfiðleikum í hjónabandinu þurfa vissulega á hvatningu frá trúsystkinum að halda.

Kristnir eiginleikar eru mikilvægir

„Íklæðist . . . hjartans meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi,“ segir Páll postuli. (Kólossubréfið 3:12) Kristnir eiginleikar geta verndað einingu hjónabandsins þegar vindar blása um það.

Páll skrifaði til dæmis: „Umberið hver annan og fyrirgefið hver öðrum, ef einhver hefur sök á hendur öðrum.“ (Kólossubréfið 3:13) Christopher Peterson, sálfræðingur við Michiganháskólann, segir: „Fyrirgefning er áhrifamesti þátturinn sem tengist hamingjunni.“

Góðvild, gæska og fyrirgefning leiða til kærleika „sem er band algjörleikans.“ (Kólossubréfið 3:14) Trúlega voruð þið mjög ástfangin í eina tíð. Getið þið endurheimt ástina sem einu sinni var? Missið ekki kjarkinn þótt á móti blási. Verið vongóð. Ef þið haldið saman og fylgið meginreglum Biblíunnar gæti ykkur hlotnast meiri hamingja en þið getið gert ykkur í hugarlund. Viðleitni ykkar að þessu leyti mun vissulega gleðja Jehóva Guð, höfund hjónabandsins. — Orðskviðirnir 15:20.

[Neðanmáls]

^ Söfnuður Votta Jehóva virðir rétt hins saklausa til að ákveða hvort hann skilji við ótrúan maka eða ekki. Sjá Vaknið! (enska útgáfu) 22. apríl 1999, bls. 5-9.