Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Lúmskir laumufarþegar

„Oft er sjór notaður sem kjölfesta í skipum til að gera þau stöðugri. Þar geta leynst þúsundir sjávarlífvera sem gera sig heimakomnar í nýju umhverfi þegar sjónum er dælt úr skipum við hafnir,“ segir Alþjóðanáttúruverndarsjóðurinn. Óboðnu gestirnir, sem eru allt frá marglyttum til þörunga, ógna vistkerfum og „gætu verið jafnskaðlegir og olíuslys“, segir fréttastofa Reuters. „Þær lífverur, sem lifa ferðina af, geta þrifist á nýjum dvalarstöðum þar sem rándýr og sníkjudýr hrjá þær ekki. Dæmi um það eru sebrakræklingar sem komu frá Evrópu og tóku sér bólfestu í Vötnunum miklu í Norður-Ameríku, asískur þari sem komst til Ástralíu og marglyttur frá Norður-Ameríku sem fluttust til Svartahafs. Talið er að skip losi tíu milljarða tonna af sjó úr kjölfestutönkum um allan heim á ári hverju. „Enn á eftir að finna góða og hagkvæma lausn á því hvernig meðhöndla eigi sjó í kjölfestutönkum,“ sagði Andreas Tveteraas, talsmaður Alþjóðanáttúruverndarsjóðsins.

Giftingar og skilnaðir á Bretlandi

„Þriðjungur ógiftra einstaklinga [á Bretlandi] segir það ‚mjög ólíklegt‘ að þeir muni giftast“, samkvæmt Lundúnablaðinu Daily Telegraph. Jenny Catlin, starfsmaður hjá markaðsmálafyrirtækinu Mintel International Group, segir: „Þetta sýnir greinilega að breytingar hafa orðið á viðhorfi til giftinga.“ Hún bætir við: „Nú á dögum virðist mun ásættanlegra að vera í óvígðri sambúð og eiga börn án þess að ganga í hjónaband.“ Þeir sem kjósa að gifta sig hafa í æ fleiri tilfellum leitað erlendis þar sem það kostar svo mikið að halda athöfnina innanlands eða að meðaltali um tvær milljónir íslenskra króna. Rúmlega 10 prósent breskra para velja nú að gifta sig erlendis. Færri gestir og ódýrari veitingar lækka kostnaðinn niður í þriðjung þess sem hann væri heima. Um leið og giftingum fækkar fer skilnuðum ört fjölgandi. „Skilnaðir meðal eldra fólks eru fimmfalt fleiri núna en fyrir 30 árum og óttast er að þeim eigi enn eftir að fjölga,“ segir í dagblaðinu.

Mest þýdda bókin

Biblían heldur áfram að vera mest þýdda bókin í heiminum. Af um það bil 6500 tungumálum, sem töluð eru í heiminum, er Biblían til að hluta eða í heild á 2355 tungumálum. Biblían er nú fáanleg á 665 tungumálum í Afríku, 585 í Asíu, 414 í Eyjaálfu, 404 í Rómönsku Ameríku og á eyjum Karíbahafs, 209 í Evrópu og 75 í Norður-Ameríku. Sameinuðu biblíufélögin (The United Bible Societies) aðstoða nú við biblíuþýðingar á um 600 tungumál.

Plöntur finna jarðsprengjur

„Danskt líftæknifyrirtæki hefur framleitt plöntu sem ber rautt lauf ef hún vex þar sem sprengiefni liggur grafið.“ Þetta kemur fram í spænska dagblaðinu El País. Plantan, sem nefnist gæsamatur (Arabidopsis thaliana), breytir um lit þegar hún kemst í snertingu við köfnunarefnisdíoxíð en það er lofttegund sem lekur úr jarðsprengjum þar sem þær liggja niðurgrafnar. „Þegar ræturnar draga efnið í sig fer af stað lífefnafræðileg keðjuverkun sem hefur þær afleiðingar að plantan myndar náttúrlegt litarefni sem kallast antósýanín“, segir blaðið. Simon Oostergaard, sem er forstjóri líftæknifyrirtækis, segir að hugmyndin sé sú að „strá fræi plöntunnar yfir jarðsprengjusvæði, bíða í fimm vikur og gera sprengjurnar síðan óvirkar“. Haft er eftir Oostergaard að hægt væri að bjarga þúsundum mannslífa á hverju ári ef plantan væri notuð í ríkum mæli við leit að jarðsprengjum. Eftir styrjaldir 20. aldar liggja um 100 milljónir jarðsprengna huldar í jörð í einum 75 löndum.