Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Lágu allar leiðir til Rómar?

Lágu allar leiðir til Rómar?

Lágu allar leiðir til Rómar?

EFTIR FÉTTARITARA VAKNIÐ! Í AUSTURRÍKI

VEGIR RÓMAVELDIS héldu fjarlægum skattlöndum í nánum tengslum við höfuðborgina. Þeir tengdu þéttvaxna skóga Gallíu við grískar borgir og Efratfljótið við Ermarsund. Umfram allt áttu hersveitirnar greiðan aðgang að öllum kimum heimsveldisins til að tryggja völd Rómar. Út frá steinlögðum aðalvegunum kvísluðust aðrir vegir út í rómversku héruðin. Þannig varð málshátturinn til: „Allar leiðir liggja til Rómar.“

Vegirnir lágu um Rómaveldi þvert og endilangt. Samanlagt var vegakerfið yfir 80.000 kílómetrar. Hvernig er hægt að kynna sér vegakerfið og skilja hvaða þýðingu það hafði fyrir hinn forna heim? Ein leið til þess er að rannsaka kort frá 13. öld sem kennt er við Peutinger.

Sagnfræðingar telja að Peutinger-kortið sé afrit af korti sem upphaflega var gert þegar rómverskar hersveitir gengu enn á þessum frægu vegum. Árið 1508 komst þetta handgerða afrit í eigu Konrads Peutingers, borgarstjóra Ágsborgar í Suður-Þýskalandi, og festist nafn hans við það. Núna er það geymt í þjóðarbókasafni Austurríkis í Vínarborg undir latneska heitinu Tabula Peutingeriana.

Rómaveldi í rúllu

Skólanemar nú til dags eiga að venjast næstum ferningslaga landakortum uppi á vegg. Peutinger-kortið er hins vegar 34 sentímetra breið bókrolla og þegar henni er rúllað út er hún hátt í sjö metra löng. Upphaflega var hún gerð úr tólf skinnörkum sem límdar voru saman í endana. Ellefu af þeim hafa varðveist. Kortið sýnir Rómaveldi á blómaskeiði þess en það náði þá allt frá Bretlandi til Indlands. Hversu kunnugur sem þú ert þessu svæði á nútímakortum gætirðu ruglast í ríminu þegar þú skoðar Peutinger-kortið í fyrsta sinn. Hvernig stendur á því?

Peutinger-kortið var gert fyrir ferðalanga fortíðar en ekki landfræðinga okkar tíma. Upprúllað kort var auðvelt í meðförum á ferðalagi. En til að koma nauðsynlegum upplýsingum fyrir í bókrollu þurfti kortagerðarmaðurinn að þjappa Rómaveldi frá norðri til suðurs og teygja verulega á því frá austri til vesturs. Þetta bjagaði hlutföllin en hins vegar var auðvelt að opna kortið, skoða, taka saman og bera. Ferðalangur gat á fljótlegan hátt séð bestu leiðina frá einum stað til annars. Það skipti ferðalanga meira máli en lögun Ítalíu, stærð Svartahafs eða nákvæmar áttir. *

Litir voru notaðir til skýrleika á Peutinger-kortinu. Vegirnir eru rauðir, fjöllin brún og árnar grænar. Á kortinu eru nöfn á hundruðum bæja og eru þeir merktir með húsum, múrum og turnum. Svo virðist sem þessi tákn lýsi þeim byggingum sem voru á hverjum stað. Á kortinu eru einnig sýndar vegalengdir milli bæja, viðkomustaða og áningarstaða.

Á Peutinger-kortinu eru nefndir nokkrir biblíulegir atburðir og staðir. Á svæðinu umhverfis Sínaífjall eru tvær skýringar á latínu. Annar skýringartextinn segir: „Eyðimörkin þar sem Ísraelsmenn undir stjórn Móse reikuðu um í 40 ár.“ (Jósúabók 5:6) Hinn segir: „Hér fengu þeir lögmálið á Sínaífjalli.“ — 3. Mósebók 27:34.

Jerúsalem er merkt með yfirskrift þar sem nýtt nafn á borginni kemur fyrir, Aelía Capítólína. Það er dregið af nafni rómverska keisarans Públíusar Aelíusar Hadríanusar, einnig þekktur sem Hadrían, en hann nefndi borgina eftir sér á annarri öld. Latínuheiti Olíufjallsins kemur einnig fyrir. — Lúkas 21:37.

Lágu allar leiðir til Rómar?

Sumir vegir lágu til Akvileiu, borgar í norðausturhluta Ítalíu. Á kortinu er Akvileia merkt með sterkum borgarmúr og varðturnum. Þar sem hún réð yfir mikilvægum vegamótum og hafði mjög góða höfn var hún ein af mikilvægustu borgum Rómaveldis.

Vegurinn Vía Egnatía lá yfir Balkanskaga frá strönd Adríahafs til Býsans, síðar kölluð Konstantínópel en núna Istanbúl. Þessi borg er merkt á Peutinger-kortinu með gyðju í hásæti sem búin er til stríðs. Nokkrir vegir lágu til Antíokkíu í Sýrlandi sem nú er tyrkneska borgin Antakya. Antíokkía var þriðja stærsta borg Rómaveldis á eftir Róm og Alexandríu. Á kortinu er þar sitjandi gyðja með geislabaug.

Á Peutinger-kortinu sjást tólf vegir sem lágu til Rómar. Einn þeirra er Appíusarvegur. Postulasagan segir frá því að Páll postuli hafi farið þennan veg á fyrstu ferð sinni til Rómar. Þegar Páll var á leiðinni kom hópur kristinna manna Appíusarveginn frá Róm og hitti hann við Þríbúðir, sem koma einnig fyrir á kortinu. — Postulasagan 28:15.

Hvernig er Róm merkt á kortinu? Hún er táknuð með voldugri keisaraynju í purpurarauðri skikkju sem situr í hásæti. Hnötturinn og veldissprotinn í höndum hennar eru merki um heimsyfirráð Rómar.

Er rétt að segja að allir þessir vegir hafi legið til Rómar? Já, þegar hugsað er til allra umferðaræðanna sem kvísluðust út frá þjóðbrautunum. Peutinger-kortið sýnir hvernig vegir Rómaveldis útvíkkuðu keisaravaldið og gerðu Róm kleift að ráða yfir skattlöndunum í næstum 500 ár. Enn er hægt að ferðast um Rómaveldi á þessum fornu vegum, það er að segja með því að nota ímyndunaraflið og hafa Peutinger-kortið til hliðsjónar.

[Neðanmáls]

^ Þessi aðferð er notuð enn þann dag í dag. Neðanjarðarlestakort eru oft bjöguð en jafnframt auðveld í notkun.

[Kort á blaðsíðu 21-23]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)

Óvenjulegt vegakort — Peutinger-kortið.

SPÁNN

MAROKKÓ

BRETLAND

FRAKKLAND

ÞÝSKALAND

AUSTURRÍKI

Akvileia

Róm

Stækkað svæði á bls. 23.

ÍTALÍA

AFRÍKA

GRIKKLAND

Istanbúl

EGYPTALAND

TYRKLAND

Sínaífjall

Jerúsalem

SÝRLAND

Antakya

Kaspíhaf

ÍRAN

INDLAND

[Kort á blaðsíðu 23]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)

Stækkað svæði á Peutinger-kortinu sem sýnir Róm og umhverfi hennar.

Róm

Akvileia

Istanbúl

Jerúsalem

Antakya