Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Leikskóli án leikfanga

Leikskóli án leikfanga

Leikskóli án leikfanga

Eftir fréttaritara Vaknið! í Þýskalandi

Dag nokkurn þegar börnin mættu í leikskólann komust þau að því að ekkert var í herbergjunum nema húsgögn. Þau leituðu að dúkkum, spilum og tuskudýrum, en án árangurs. Þar voru hvorki bækur né kubbar. Meira að segja var búið að fjarlægja pappír og skæri. Öll leikföng höfðu verið tekin og þeim yrði ekki skilað næstu þrjá mánuðina. Hvað hafði gerst?

Þessi leikskóli er einn af vaxandi fjölda leikskóla í Austurríki, Þýskalandi og Sviss sem taka þátt í athyglisverðu frumherjaverkefni sem kallast Leikskóli án leikfanga. Þótt undarlegt megi virðast er markmiðið með þessu verkefni að koma í veg fyrir að börn ánetjist hvers kyns fíkn. Sérfræðingar á sviði heilbrigðismála í Evrópusambandinu hafa farið lofsamlegum orðum um verkefnið. Á undanförnum árum hafa rannsakendur gert sér grein fyrir að fólk á síður á hættu að ánetjast hvers konar fíkn ef það þroskar með sér félagsfærni snemma á lífsleiðinni. Samkvæmt frétt í dagblaði felur félagsfærni í sér „hæfileika til tjáskipta og að eiga auðvelt með að mynda tengsl við fólk, leysa ágreiningsmál, axla ábyrgð á gerðum sínum, setja sér markmið, koma auga á vandamál, leita hjálpar og finna lausnir“. Málsvarar þessa verkefnis segja að þessa hæfileika ætti að þroska eins snemma á lífsleiðinni og mögulegt er. Tímabil án leikfanga eiga að þjóna þeim tilgangi og hvetja til sköpunargleði og sjálfstrausts.

Þessir þrír mánuðir án leikfanga voru vel undirbúnir og rætt var bæði við foreldra og börn. Í fyrstu vita sum börn ekki hvað þau eiga af sér að gera án leikfanganna. „Á sumum leikskólum verða börnin óstýrilát fyrstu fjórar vikurnar,“ og skipuleggjendurnir vita ekki sitt rjúkandi ráð, segir í fréttinni. En börnin aðlagast breytingunni og læra að nota sköpunargáfuna. Þar sem börnin hafa engin leikföng ræða þau saman, skipuleggja hlutina og leika sér meira hvert við annað. Þannig þroska þau félagsfærni sína og málhæfileika. Sum barnanna, sem voru vön að fela sig bakvið leikföngin, eignast nú vini. Foreldrar hafa einnig tekið eftir jákvæðum breytingum. Að sögn þeirra haga börnin sér betur í leik og hafa meiri sköpunargleði en áður.