Hvað ef hann segir nei?
Ungt fólk spyr . . .
Hvað ef hann segir nei?
ÞÚ LEIST á hann sem vin. Síðan sástu eitthvað í fari hans sem laðaði þig að honum. Kannski var það framkoma hans eða hvernig hann brosti til þín þegar hann talaði. En tíminn leið og hann lét ekki í ljós meiri áhuga á þér. Þú ákvaðst því að spyrja hann hvort hann vildi að þið yrðuð meira en aðeins vinir. Þér til mikilla vonbrigða sagði hann nei á mjög vingjarnlegan en ákveðinn hátt. *
Auðvitað sárnar þér. En gerðu ekki of mikið úr þessu. Reyndu að sjá málin í réttu ljósi. Þótt ungur maður hafi sagt að hann hafi ekki áhuga á að kynnast þér betur hefur ákvörðun hans engin áhrif á manngildi þitt og breytir því ekki að aðrir elska þig enn og virða. Það gæti meira að segja verið að ákvörðunin tengist frekar markmiðum hans og framtíðaráformum en þér.
Ef þú ert kristin manstu kannski líka að „Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki yðar og kærleikanum, sem þér auðsýnduð nafni hans.“ (Hebreabréfið 6:10) Sonja * orðar þetta þannig: „Maður er eftir sem áður mikils virði og getur komið að miklu gagni í þjónustunni við Jehóva sem einhleyp manneskja.“ Þar sem Jehóva Guð og aðrir meta þig enn að verðleikum hefurðu enga ástæðu til að glata sjálfsvirðingunni.
Þér gæti samt fundist þú misheppnuð eða verið hrædd um að þú eigir aldrei eftir að ganga út. En þó að þessi ungi maður virðist ekki hafa áhuga á þér á þessari stundu þýðir það ekki að enginn eigi eftir að sýna þér áhuga. (Dómarabókin 14:3) Í stað þess að líta svo á að leit þín að ákjósanlegum maka hafi mistekist skaltu gera þér grein fyrir því að þetta hafði að minnsta kosti eitt gott í för með sér. Núna veistu að þessi ungi maður hæfir þér ekki. Af hverju segjum við það?
Hefðuð þið passað saman?
Biblían segir eiginmönnum að ‚elska konur sínar eins og eigin líkama‘. (Efesusbréfið 5:28) Hún segir eiginmönnum líka að veita eiginkonum sínum virðingu. (1. Pétursbréf 3:7) Með því að segja nei hefur ungi maðurinn sýnt að þó að hann kunni að meta vinskap þinn er hann ekki tilbúinn á þessari stundu til að elska þig og virða sem eiginkonu sína. Hann hafði rétt á að taka þessa ákvörðun. En hugsaðu málið. Yrði hann þér góður eiginmaður ef honum er þannig innanbrjósts? Ímyndaðu þér hve óhamingjusöm þú yrðir ef þú værir gift manni sem hvorki elskaði þig né annaðist eins og Biblían mælir fyrir um.
Það gæti líka verið gott að virða unga manninn fyrir sér aftur núna þegar öll von er úti um að eitthvað verði á milli ykkar. Stundum getur hrifning blindað fólk fyrir vísbendingum um að einstaklingurinn sé ekki þroskaður í trúnni eða göllum sem aðrir sjá greinilega. Tökum dæmi: Tók hann ekki eftir því að þú varst farin að hafa meiri áhuga á honum eða ýtti hann vísvitandi undir þessar tilfinningar með því að eiga mikinn félagsskap við þig? Ef hið síðara er rétt gæti það gefið til kynna að hann sé ekki tilbúinn til að vera hugulsamur og nærgætinn eiginmaður. Þá er gott að þú komst að því jafnvel þótt það hafi verið sárt.
Marcia varð hrifin af ungum manni þegar hann fór að sýna henni sérstaka athygli. Þegar hún spurði hann út í þetta sagðist hann ekki hafa áhuga á að nokkuð yrði á milli þeirra. Hvernig tókst hún á við vonbrigðin? Hún segir: „Það sem hjálpaði mér að takast á við tilfinningar mínar var að hugsa skýrt í stað þess að láta hjartað ráða ferðinni.“ Þegar hún rifjaði upp kröfur Biblíunnar til eiginmanna gerði hún sér grein fyrir því að hann stóðst þær einfaldlega ekki. Það hjálpaði henni að vinna bug á sorginni.
Andrea hafði svipaða reynslu af ungum manni. Með tímanum gerði hún sér grein fyrir því að hegðun hans bar merki um vanþroska. Hún skildi að hann var ekki tilbúinn til að ganga í hjónaband og hún er Jehóva þakklát fyrir að hafa opnað augu sín fyrir þeirri staðreynd. Hún segir: „Ég trúi því að Jehóva veiti okkur vernd gegn því sem getur sært okkur, en við verðum að treysta honum.“ Á hinn bóginn er það oft þannig að ungur maður hefur komið vel fram og hefur góðar ástæður fyrir því að segja nei. En hvernig geturðu tekist á við þær tilfinningar sem upp koma?
Hvernig geturðu tekist á við tilfinningar þínar?
Þú getur þurft tíma til að sætta þig við það að hann sagði nei. Tilfinningar þínar til hans hafa vaxið með tímanum og því getur líka tekið tíma fyrir þær að dofna. Sjaldnast er hægt að slökkva á hrifningu eins og ljósaperu. Suma daga geta þessar tilfinningar meira að segja virst yfirþyrmandi. En sýndu þolinmæði. Þær munu dofna smám saman. Ef þú vilt að tilfinningar þínar hverfi fyrr skaltu forðast allt sem kyndir undir þeim.
Gættu þess til dæmis að fara ekki að efast um allt sem þú gerðir og rifja upp það sem þú sagðir og hvernig þú komst fram þegar þú tjáðir honum tilfinningar þínar. Ef þú hefur ekki hemil á slíkum hugsunum gætirðu að lokum talið sjálfri þér trú um að hann hafi í rauninni ekki meint það sem hann sagði og að önnur aðferð gæti virkað betur. Sættu þig við að þú getur ekki breytt tilfinningum hans. Svar hans hefði líklega ekkert breyst sama hvað þú hefðir sagt eða gert.
Dagdraumar geta líka verið varasamir. Þú dregur upp í hugann mynd af ykkur þar sem þið eruð hamingjusöm til æviloka. Slíkir dagdraumar gætu virst eins konar huggun en þeir eru ekki raunverulegir. Þegar þeim lýkur tekur við tómleiki og sársaukinn sem honum fylgir. Þessi vítahringur gæti haldið áfram í langan tíma ef þú leggur þig ekki fram um að hætta að láta hugann reika.
Leggðu hart að þér að hætta dagdraumunum. Þegar þeir gera vart við sig skaltu standa upp og fara í göngutúr. Gerðu eitthvað sem beinir huganum inn á aðra braut. Einbeittu þér að því sem byggir upp en ekki því sem brýtur niður. (Filippíbréfið 4:8) Þetta getur verið erfitt í fyrstu en með tímanum geturðu sigrast á vandanum og fundið frið.
Stuðningur góðra vina getur líka verið gagnlegur. (Orðskviðirnir 17:17) Sonja varar samt við: „Það er ekki gott ef allir vinir þínir eru einhleypir, á sama aldri og þú og vilja allir gifta sig. Þú þarft líka að eiga eldri vini sem geta hjálpað þér að sjá málin í réttu ljósi.“ Og ekki gleyma þeim sem getur hjálpað þér enn frekar að sigrast á sorginni.
Jehóva er traustur vinur
Þegar trúfastur maður til forna varð fyrir vonbrigðum bað hann Jehóva um aðstoð. Hver var árangurinn? Hann skrifaði: „Þegar miklar áhyggjur lögðust á hjarta mitt, hressti huggun þín sálu mína.“ (Sálmur 94:19) Jehóva hughreystir þig líka og styrkir ef þú biður til hans í trú. Það gerði Andrea. Hún segir: „Bænin er mjög mikilvæg til að hjálpa manni að sigrast á sorginni og einbeita sér að öðru.“ Sonja segir líka um bænina: „Hún hjálpar manni að hafa sjálfsvirðingu sem er ekki háð því hvort öðrum líkar vel við mann eða hvort þeir hafna manni.“
Enginn nema Jehóva getur skilið tilfinningar þínar til fulls. Hann skapaði mennina með löngun til að búa í ástríku hjónabandi. Hann veit hversu sterkt aðdráttarafl getur verið milli kynjanna og hann veit hvernig hægt er að hafa stjórn á slíkum tilfinningum. Hann getur hjálpað þér að vinna bug á hjartasorg því að í 1. Jóhannesarbréfi 3:20 segir: „Guð er meiri en hjarta vort og þekkir alla hluti.“
Hafðu rétt hugarfar
Hjónaband getur veitt mikla gleði en það er ekki það eina sem stuðlar að hamingju. Allir sem þjóna Jehóva geta verið hamingjusamir, ekki aðeins þeir sem eru giftir. Einhleypir hafa auk þess vissa möguleika sem gift fólk hefur ekki. Þeir ganga ekki í gegnum þá þrengingu sem talað er um í 1. Korintubréfi 7:28. Þessi þrenging er álagið og streitan sem öll hjón upplifa af og til. Einhleypt fólk hefur líka meira frelsi og á auðveldara með að nota líf sitt í þjónustu Jehóva. Þess vegna segir Biblían: „Þannig gjöra þá báðir vel, sá sem kvænist mey sinni, og hinn, sem kvænist henni ekki, hann gjörir betur.“ (1. Korintubréf 7:38) Jafnvel þótt þig langi mikið til að gifta þig getur verið gott að hugleiða þessi biblíusannindi til að hafa öfgalaust viðhorf og nýta núverandi aðstæður þínar sem best.
Vinir, sem vilja þér vel, gætu sagt: „Hafðu ekki áhyggjur, þú átt eftir að finna góðan eiginmann.“ Já, það er rétt að þótt þér hafi verið hafnað einu sinni þýðir það alls ekki að þú verðir alltaf ein. En ung kristin kona, sem heitir Candace, segir samt: „Ég treysti Jehóva. Ég ætlast ekki endilega til þess að hann gefi mér eiginmann svo að ég verði hamingjusöm. En ég veit að hann gefur mér það sem ég þarf til að fylla þetta tómarúm.“ Þetta jákvæða hugarfar hefur hjálpað henni að takast á við höfnunartilfinninguna.
Leit að lífsförunaut gengur ekki alltaf upp í þessum heimi en mörg hjónabönd enda líka illa. Ef þú reiðir þig á Jehóva og fylgir leiðbeiningum hans getur hann hjálpað þér að finna gleði og komast yfir vonbrigðin. Þá geturðu tekið undir orð Davíðs konungs sem skrifaði: „Drottinn, öll mín þrá er þér kunn og andvörp mín eru eigi hulin þér. Því að á þig, Drottinn, vona ég, þú munt svara mér, Drottinn minn og Guð minn.“ — Sálmur 38:10, 16.
[Neðanmáls]
^ gr. 3 Í greininni „Young People Ask . . . How Can I Tell Him How I Feel?“ (Ungt fólk spyr . . . Hvernig get ég sagt honum hvernig mér líður?) (22. október 2004 á ensku) var bent á að í sumum löndum er ekki talið viðeigandi að kona spyrji karlmann hvort hann hafi áhuga á að þau kynnist hvort öðru betur. Þó að Biblían mæli ekki á móti því hvetur hún kristna menn til að hneyksla ekki aðra. Þeir sem vilja njóta blessunar Guðs ættu að taka þessar leiðbeiningar Biblíunnar með í reikninginn þegar þeir ákveða hvað þeir ætla að gera. — Rómverjabréfið 14:13; 1. Korintubréf 8:13.
^ gr. 5 Sumum nöfnum hefur verið breytt.
[Myndir á blaðsíðu 14]
Nýttu þér hjálpina sem Guð veitir.