Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þú getur náð tökum á streitu

Þú getur náð tökum á streitu

Þú getur náð tökum á streitu

„Á UNDANFÖRNUM árum hefur orðið æ erfiðara að halda jafnvægi milli vinnu, fjölskyldu og annarra skuldbindinga.“ Þetta segir í nýlegri bók um fjölskyldulíf. Já, við lifum á tímum sem einkennast af streitu. Þetta kemur biblíunemendum ekki á óvart vegna þess að því var spáð í Biblíunni að koma myndu „örðugar tíðir“. — 2. Tímóteusarbréf 3:1-5.

„Streita er eðlileg,“ segir Jesús, þriggja barna faðir. „Þess vegna verður maður að kunna að hafa stjórn á henni.“ Það er að vísu hægara sagt en gert. En raunhæfar tillögur og meginreglur Biblíunnar geta hjálpað þér.

Að ná tökum á vinnustreitu

Átt þú við streitu að glíma, kannski vegna aðstæðna í vinnunni? Að þjást þegjandi og hljóðalaust getur valdið enn meira álagi. Í Orðskviðunum 15:22 er bent á nauðsyn þess að ræða málin.

Þeir sem stunda rannsóknir á vinnustreitu mæla með því að „maður tali við vinnuveitandann. Ef hann veit ekki af vandamálinu getur hann ekki hjálpað.“ Það er ekki þar með sagt að maður eigi að gefa reiði og gremju lausan tauminn. „Stilling afstýrir stórum glappaskotum,“ segir Prédikarinn 10:4. Vertu fagmannlegur í fasi og forðastu að stilla vinnuveitandanum upp við vegg. Ef til vill geturðu komið honum í skilning um að minna álag hafi meiri afköst í för með sér.

Hið sama er að segja um önnur vinnutengd vandamál eins og ósætti og deilur milli vinnufélaga. Reyndu að finna árangursríkar leiðir til að taka á slíkum vandamálum, ef til vill með því að leita upplýsinga um hvernig þú getur farið að því. Margar greinar hafa verið birtar í þessu tímariti sem geta reynst gagnlegar. * Ef ekki virðist unnt að ráða fram úr vandamálinu gæti verið best að huga að því að skipta um vinnu.

Að draga úr fjárhagsáhyggjum

Biblían hefur líka að geyma ráðleggingar sem geta hjálpað þér að greiða úr fjárhagserfiðleikum. Jesús Kristur sagði: „Verið ekki áhyggjufullir um líf yðar, hvað þér eigið að eta eða drekka, né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast.“ (Matteus 6:25) Hvernig er þetta hægt? Með því að læra að treysta að Jehóva Guð sjái þér fyrir því sem þú þarft nauðsynlega á að halda. (Matteus 6:33) Þetta loforð Guðs er ekki orðin tóm. Milljónir kristinna manna sækja styrk í það.

Auðvitað þurfum við líka „visku og gætni“ þegar fjármál eru annars vegar. (Orðskviðirnir 3:21; Prédikarinn 7:12) Biblían segir: „Ekkert höfum vér inn í heiminn flutt og ekki getum vér heldur flutt neitt út þaðan. Ef vér höfum fæði og klæði, þá látum oss það nægja.“ (1. Tímóteusarbréf 6:7, 8) Það er raunhæft og hagkvæmt að læra að láta sér nægja það sem maður hefur. Leandro og konan hans gerðu ráðstafanir til að fara sparlega með peninga en eins og við munum lenti hann í slysi og var eftir það bundinn við hjólastól. Leandro segir: „Við reynum að vera sparsöm. Við slökkvum til dæmis á þeim ljósum sem ekki er verið að nota til að minnka rafmagnskostnað. Þegar við notum bílinn skipuleggjum við og sameinum ferðir til að spara eldsneyti.“

Foreldrar geta hjálpað börnunum að hafa rétt viðhorf. Carmen, dóttir Leandros, segir: „Ég á það til að kaupa hluti í fljótfærni en foreldrar mínir hafa hjálpað mér að skilja hvað er í raun nauðsynlegt og hvað ekki. Það var erfitt að venjast breytingunum fyrst um sinn en ég lærði að greina á milli þess að langa í eitthvað og að þurfa raunverulega á því að halda.“

Tjáskipti draga úr streitu

Heimilið ætti að vera skjól fyrir streitu en oft á tíðum er það mesti streituvaldurinn. Hver er ástæðan? Bókin Survival Strategies for Couples segir: „Hjón . . . , sem eru ergileg hvort út í annað eða hvort öðru fjandsamleg, segja léleg tjáskipti vera algengustu orsök ágreinings.“

Meginreglur Biblíunnar geta hjálpað hjónum að bæta tjáskiptin. Þar er okkur sagt að það ,hafi sinn tíma að þegja og sinn tíma að tala‘ og að ,orð í tíma talað sé fagurt‘. (Prédikarinn 3:1, 7; Orðskviðirnir 15:23) Með því að hafa þetta í huga geturðu forðast að bera upp viðkvæm mál þegar maki þinn er þreyttur eða undir miklu álagi. Er ekki betra að bíða eftir rétta augnablikinu, þegar makinn er líklegri til að hlusta?

Það getur vissulega verið erfitt að vera þolinnmóður og halda stillingu sinni eftir erfiðan vinnudag. En hvað getur gerst ef við gefum gremjunni lausan tauminn með því að tala óblíðlega við maka okkar? Í Biblíunni erum við minnt á að ,meiðandi orð veki reiði‘. (Orðskviðirnir 15:1) Á hinn bóginn eru ,vingjarnleg orð hunangsseimur, sæt fyrir sálina, lækning fyrir beinin‘. (Orðskviðirnir 16:24) Hjón geta þurft að leggja mikið á sig til að ræða saman án ,beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæla‘. (Efesusbréfið 4:31) En það er þess virði. Hjón, sem hafa góð tjáskipti sín á milli, geta verið hvort öðru til huggunnar og styrktar. „Hjá ráðþægnum mönnum er viska,“ segja Orðskviðirnir 13:10. *

Samskipti foreldra og barna

Það er vandasamt að eiga samskipti við börn, sérstaklega þegar tími er af skornum skammti. Biblían hvetur foreldra til að nota hvert tækifæri til að tala við börnin, til dæmis ,þegar þau eru heima eða á ferðalagi‘. (5. Mósebók 6:6-8) „Maður verður að leita að tækifærum til að tala saman,“ segir Leandro. „Ég nota tækifærið til að tala við son minn þegar við erum saman í bílnum.“

Það finnst auðvitað ekki öllum foreldrum auðvelt að tala við börnin sín. Alejandra á þrjú börn og hún segir: „Ég kunni ekki að hlusta. Ég fann til reiði og sektarkenndar vegna þess að tjáskiptin voru léleg.“ Hvernig getur foreldri bætt sig á þessu sviði? Lærðu fyrst að vera „fljótur til að heyra“. (Jakobsbréfið 1:19) „Áhrifarík aðferð til að losa um streitu er að hlusta með athygli á aðra,“ segir dr. Bettie B. Youngs. Hugaðu að því hvernig þú hlustar. Náðu augnasambandi. Gerðu ekki lítið úr vandamálum barna þinna. Hvettu þau til að tjá tilfinningar sínar. Spyrðu viðeigandi spurninga. Tjáðu ást þína örlátlega og láttu þau finna að þú treystir að þau muni gera rétt. (2. Þessaloníkubréf 3:4) Biddu með börnunum.

Góð tjáskipti koma ekki af sjálfu sér. En með því að leggja sig fram er hægt að draga úr streitu í fjölskyldunni. Tjáskipti geta hjálpað þér að koma auga á streitu hjá börnunum. Þú átt auðveldara með að gefa þeim viturlegar ráðleggingar ef þú skilur tilfinningar þeirra og aðstæður. Og ef ungt fólk fær hvatningu til að tala út um streituna er síður hætta á að hún komi fram í slæmri hegðun.

Samvinna auðveldar heimilisstörfin

Þegar bæði hjónin vinna úti geta húsverkin orðið enn einn streituvaldurinn. Sumar útivinnandi mæður draga úr streitu með því að einfalda heimilisstörfin. Þær hugsa kannski sem svo að það sé hvorki mögulegt né hentugt að hafa máltíðirnar margbrotnar. Mundu að Jesús ráðlagði konu, sem var að útbúa stóra máltíð, að einfalda hlutina. (Lúkas 10:42) Þú getur farið að ráðum hans. Bókin The Single-Parent Family ráðleggur eftirfarandi: „Eldaðu kjötkássur eða aðra pottrétti til að minnka uppþvott.“ Já, með því að einfalda húsverkin geturðu dregið úr streitu.

En þó að þú gerir það getur samt verið í mörg horn að líta. Útivinnandi móðir viðurkennir: „Þegar ég var ung var mér ekkert um megn. Núna þegar ég er orðin eldri er róðurinn þyngri. Ég hef lifað erilsömu lífi og það er farið að taka sinn toll. Þegar allir í fjölskyldunni sýna tillitssemi með því að hjálpast að auðveldar það mér að forðast alvarlega streitu.“ Ef allir í fjölskyldunni leggja hönd á plóginn er hægt að vinna húsverkin án þess að nokkur sé undir of miklu álagi. Sagt er í bók um uppeldi: „Ein besta leiðin til að kenna börnum . . . að þau geti orðið að liði er að fela þeim heimilisstörf. Þegar þau fá reglulega verk að vinna á heimilinu stuðlar það að góðum venjum og réttu viðhorfi til vinnu.“ Með því að vinna heimilisstörfin saman færðu einnig tækifæri til að eiga stund með börnunum.

Stúlka að nafni Julieta segir: „Ég sé að mömmu líður betur þegar ég létti undir með henni. Það veitir mér ánægju og það vekur með mér ábyrgðartilfinningu. Það hjálpar mér að meta heimilið mikils. Ég hef fengið gott veganesti fyrir lífið með því að læra að sinna heimilisstörfum.“ Mary Carmen tekur í sama streng: „Allt frá því við vorum lítil kenndu foreldrar mínir okkur börnunum að spjara okkur. Þetta hefur gagnast okkur mikið.“

Heilnæmar leiðir til að vinna á streitu

Streita er staðreynd í nútímasamfélagi; þú getur ekki komist hjá henni. En þú getur hins vegar lært að hafa stjórn á streitu. (Sjá bls. 10.) Það er mikil hjálp í því að fara eftir ráðleggingum Biblíunnar. Ef þér finnst til dæmis að ákveðnar aðstæður séu þér ofviða skaltu muna að „til er ástvinur, sem er tryggari en bróðir“. (Orðskviðirnir 18:24) Talaðu um málið við þroskaðan vin eða maka þinn. „Byrgðu ekki tilfinningarnar inni,“ segir félagsfræðingurinn Ronald L. Pitzer. „Trúðu yfirveguðum einstaklingi fyrir tilfinningum þínum sem er líklegur til að skilja þig og bera umhyggju fyrir þér.“

Biblían talar einnig um að ,gera sálu sinni gott‘. (Orðskviðirnir 11:17) Já, það er af hinu góða að hugsa um þarfir sínar. Biblían segir: „Betri er hnefafylli af ró en báðar hendur fullar af striti og eftirsókn eftir vindi.“ (Prédikarinn 4:6) Það getur haft einstaklega góð áhrif að taka frá svolítinn tíma fyrir sjálfan sig, þó að ekki séu nema fimm mínútur snemma á morgnana þannig að maður geti fengið næði til að fá sér tebolla, lesa, fara með bæn eða hugleiða.

Hæfileg hreyfing og heilnæmt mataræði hjálpa einnig til. Í bók um uppeldi segir: „Þegar þú notar svolítið af dýrmætum tíma þínum fyrir sjálfan þig er eins og þú sért að leggja inn í banka. . . . Ef þú ert stöðugt að gefa af þér þarftu að ganga úr skugga um að eitthvað komi í staðinn ella getur svo farið að þú verðir tilfinningalega blankur, ef ekki gjaldþrota.“

Biblían hjálpar okkur auk þess að þroska með okkur þá eiginleika sem þarf til að takast á við streitu. Þetta eru eiginleikar eins og „hógværð“, þolinmæði og góðvild. (Galatabréfið 5:22, 23; 1. Tímóteusarbréf 6:11) Biblían veitir okkur líka von. Okkur er lofað að nýr heimur gangi í garð og að allt sem veldur mönnum vanlíðan muni hverfa. (Opinberunarbókin 21:1-4) Það er því skynsamlegt að temja sér daglegan biblíulestur. Ef þig langar til að fá hjálp til að koma á slíkri dagskrá eru vottar Jehóva fúsir til að aðstoða þig án endurgjalds.

Það er ekki þar með sagt að kristinn maður lifi streitulausu lífi. En Jesús sagði að það væri hægt að forðast að láta ,áhyggjur lífsins‘ íþyngja sér. (Lúkas 21:34, 35) Og ef þú kynnist Jehóva Guði og eignast vináttusamband við hann getur hann orðið þér öruggt athvarf. (Sálmur 62:9) Hann getur hjálpað þér að takast á við álag lífsins.

[Neðanmáls]

^ Sjá greinaröðina „Einelti á vinnustað — hvað er til ráða?“, í Vaknið!, júlí-september 2004.

^ Frekari upplýsingar er að finna í 3. kafla bókarinnar The Secret of Family Happiness, gefin út af Vottum Jehóva.

[Innskot á blaðsíðu 11]

„Þegar ég var ung var mér ekkert um megn. Núna þegar ég er orðin eldri er róðurinn þyngri. Ég hef lifað erilsömu lífi og það er farið að taka sinn toll.“

[Rammi/myndir á blaðsíðu 10]

Hvernig geturðu dregið úr streitu?

◼ Hvíldu þig nægilega á hverjum degi.

◼ Borðaðu hollan mat. Gættu þess að borða ekki of mikið.

◼ Stundaðu hæfilega líkamsrækt reglulega, eins og til dæmis að ganga rösklega.

◼ Ef eitthvað veldur þér áhyggjum skaltu tala um það við vin.

◼ Vertu meira með fjölskyldunni.

◼ Fáðu aðra til að hjálpa til við húsverkin.

◼ Lærðu inn á líkamleg og tilfinningaleg takmörk þín.

◼ Settu þér raunhæf markmið en ætlastu ekki til fullkomnunar.

◼ Vertu skipulagður og hafðu stundaskrá sem þú getur með góðu móti fylgt.

◼ Þroskaðu með þér kristna eiginleika eins og hógværð og þolinmæði.

◼ Taktu frá tíma fyrir sjálfan þig.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Þú getur dregið úr vinnustreitu með því að tala háttvíslega við vinnuveitanda um vandamál sem koma upp.

[Mynd á blaðsíðu 8]

Unglingar, talið um streitu ykkar við einhvern sem getur hjálpað.

[Mynd á blaðsíðu 8]

Foreldrar geta rætt við börnin sín um leiðir til að spara peninga.

[Mynd á blaðsíðu 9]

Allir geta hjálpast að við heimilisstörfin.