Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Vektu áhuga barna þinna á lestri

„Það hefur sýnt sig að börn þeirra sem lesa mikið fylgja fordæmi foreldra sinna.“ Þetta er haft eftir Beatriz González Ortuño, sem er sérfræðingur í taugamálfræði, í mexíkóska dagblaðinu Reforma. Þar sem börn eru fljót að læra er gott að vekja áhuga þeirra á lestri jafnvel áður en þau geta gert greinarmun á samhljóðum og sérhljóðum. Það er til dæmis hægt að lesa fyrir þau sögur sem þroska ímyndunaraflið. Í dagblaðinu voru foreldrum gefin eftirfarandi ráð til að vekja áhuga barna sinna á lestri: „Setjist niður með þeim. . . . Leyfið þeim að fletta blaðsíðunum, grípa fram í fyrir ykkur þegar þau vilja og spyrja spurninga. . . . Biðjið þau að segja ykkur frá persónum og öðru sem fram kemur í sögunni. Svarið öllum spurningum þeirra. . . . Tengið efni bókarinnar við líf barnsins.“

Hvernig synda fiskar á móti straumi?

Samkvæmt rannsókn, sem birt var í tímaritinu Science, nýta lækjableikjur og aðrar fiskitegundir sér hringiður í kringum kyrrstæða hluti í ám sem ýta þeim áfram á móti straumi. Þeir spara sér þannig orku og minnka áreynslu. Tímaritið New Scientist segir að silungar spari svo mikla orku á því að laga stellingu og hreyfingar að hringiðustraumum að þeir þurfi ekki að nota helstu sundvöðvana. „Með þessum hætti fer mjög lítil orka í að synda upp ólgandi ár,“ segir George Lauder, líftæknifræðingur við Harvardháskóla, en hann var einn af þeim sem stóðu fyrir rannsókninni. New Scientist segir að „fiskarnir sveigi bolinn í vænglaga stellingu til að nýta hringiðustrauma eins og seglskúta sem siglir skáhallt upp í vindinn“.

Bílar og reiðhjól í Kína

Með vaxandi velmegun í Kína velja fleiri að keyra bíl í stað þess að hjóla. Sem dæmi má nefna að núna ferðast eingöngu 25 prósent íbúa Peking mestmegnis á hjóli en fyrir aðeins tíu árum var sú tala 60 prósent. „Í Peking einni saman fjölgar bílum í umferðinni um rúmlega 400.000 á hverju ári,“ segir kanadíska dagblaðið Toronto Star. Þar af leiðandi er „meðalumferðahraði aðeins 12 kílómetrar á klukkustund“ í borginni. Í tímaritinu National Geographic kemur fram að árið 2003 „hafi fagmenntað fólk í Kína, sem komið er í betri efni, keypt yfir tvær milljónir bíla en það er 70 prósent meira en árið 2002“. Tímaritið bætir við að þar sem ferðalangar reiði sig sífellt meira á bíla í stað hjóla „hafi Kína jafnvel nú þegar skotist fram fyrir Japan og orðið annar stærsti eldsneytisnotandi heimsins“. Engu að síður er talið að til séu 470 milljónir reiðhjóla í Kína.

Aldurstakmörk kvikmynda fara lækkandi

„Að meðaltali er orðið töluvert meira um ofbeldi, kynlífsatriði og ljótt orðbragð en var í kvikmyndum með sama aldurstakmarki fyrir tíu árum.“ Rannsakendur við læknaskólann Harvard School of Public Health í Bandaríkjunum komust að þessari niðurstöðu eftir að hafa kannað aldurstakmörk kvikmynda. Í könnuninni var athugað sambandið milli aldurstakamarka og innihalds kvikmynda sem gerðar voru á árunum 1992 til 2003. Niðurstöðurnar gefa til kynna að aldurstakmörk fari sífellt lækkandi. Rannsakendurnir sögðu að „foreldrar yrðu að gera sér grein fyrir því að þeir bera ábyrgð á að velja viðeigandi kvikmyndir fyrir börnin sín og ræða við þau um boðskap myndanna til að draga úr slæmum áhrifum og ýta undir jákvæð áhrif“.