Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Streita — orsakir og afleiðingar

Streita — orsakir og afleiðingar

Streita — orsakir og afleiðingar

HVAÐ er streita? Að sögn sérfræðings nokkurs er hægt að skilgreina streitu sem „alla líkamlega, efnafræðilega eða tilfinningalega þætti sem valda líkamlegri eða andlegri spennu“. Þetta merkir hins vegar ekki að streita sé í eðli sínu skaðleg. Læknirinn Melissa C. Stöppler segir að „hæfileg streita og spenna geti stundum verið gagnleg. Svolítil streita, þegar við leysum af hendi verkefni, hvetur okkur oft til að vinna vel og rösklega.“

Hvenær er streita orðin að vandamáli? Stöppler segir: „Neikvæð áhrif streitu koma fyrst í ljós þegar hún er orðin yfirþyrmandi eða stjórnlaus.“ Skoðum nokkra algenga streituvalda.

Að sjá sér farborða

Salómon konungur sagði: „Það er ekkert betra til með mönnum en að eta og drekka og láta sálu sína njóta fagnaðar af striti sínu.“ (Prédikarinn 2:24) En hjá mörgum er vinnustaðurinn eins og suðupottur.

Í skýrslu frá Vinnuverndarstofnun Evrópusambandsins segir að launþegar finni oft fyrir vinnustreitu, meðal annars vegna þess að samskipti milli stjórnenda og starfsmanna eru lítil, starfsmenn fá litlu ráðið um ákvarðanir sem varði þá, ágreinings gætir milli starfsmanna eða að vinnan er ótrygg og/eða launin lág. Hver svo sem ástæðan kann að vera getur svo farið að útivinnandi foreldrar hafi litla orku til að sinna þörfum fjölskyldunnar sökum álags í vinnunni. Og þessar þarfir geta verið mjög miklar. Í Bandaríkjunum, svo dæmi sé tekið, önnuðust um 50 milljónir manna veikan eða aldraðan ættingja á eins árs tímabili. Fjárhagserfiðleikar geta einnig verið mikill streituvaldur innan fjölskyldunnar. Rita, sem á tvö börn, sá fram á fjárhagsörðugleika þegar Leandro, eiginmaður hennar, lenti í bílslysi og var eftir það bundinn við hjólastól. Hún viðurkennir: „Fjárhagsörðugleikar valda spennu. Það hefur áhrif á skapið þegar maður á ekki fyrir öllum útgjöldum heimilisins.“

Einstæðir foreldrar undir álagi

Einstæðir foreldrar finna líka fyrir mikilli streitu þegar þeir reyna að sinna þörfum fjölskyldunnar. Einstæð móðir er ef til vill úrvinda, bæði líkamlega og tilfinningalega, eftir annasaman dag. Hún þarf kannski að vakna snemma til að útbúa morgunmat, klæða börnin og keyra þau í skólann, flýta sér í vinnu og síðan að reyna að uppfylla kröfurnar sem gerðar eru til hennar á vinnustaðnum. Þegar vinnudeginum lýkur heldur álagið áfram þar sem hún þarf að hraða sér að sækja börnin í skólann, elda kvöldmatinn og sinna ýmsum heimilisstörfum. María, sem er einstæð móðir með fjórar stúlkur á táningsaldri, líkir lífi sínu við hraðsuðupott: „Álagið getur orðið svo mikið að mér finnst eins og ég sé að springa.“

Streita hjá börnum

„Margt ungt fólk finnur fyrir mikilli streitu,“ segir félagsfræðingurinn Ronald L. Pitzer. Það þarf að takast á við líkamlegar og tilfinningalegar breytingar unglingsáranna. Skólinn veldur einnig álagi. Í bókinni Childstress! kemur fram að venjulegur skóladagur sé „uppfullur af vandamálum og álagi sem valda streitu, hvort sem það tengist bóklega náminu, íþróttum eða samskiptum við jafnaldra og kennara“.

Á sumum svæðum er hætta á ofbeldi í skólum og eykur það á kvíðann — svo ekki sé minnst á hryðjuverk og aðrar hörmungar sem unglingar hræðast núorðið. Unglingsstúlka skrifar: „Við verðum hrædd ef foreldrar tala sífellt um það hve ógnvænlegur heimurinn er.“

Foreldrar ættu að vera börnum sínum til styrktar. Pitzer segir hins vegar: „Þegar börn og unglingar reyna að tjá djúpstæðar tilfinningar gera foreldrar allt of oft lítið úr viðleitni þeirra, vísa þeim á bug, hunsa þau eða taka þau ekki alvarlega. Í sumum tilfellum eru foreldrar ófærir um að sinna þörfum barnanna sökum spennu í hjónabandinu. „Það er eins og foreldrar mínir hafi alltaf verið að rífast,“ segir ungur strákur að nafni Tito en foreldrar hans skildu á endanum. En eins og segir í bókinni Childstress! „eru slagsmál og rifrildi ekki einu orsakirnar fyrir sálrænu tjóni. Gremja, sem kraumar undir niðri, kemur börnum líka í uppnám, jafnvel þegar hún er falin bak við falleg orð.“

Streita kostar sitt

Hvort sem við erum ung eða á efri árum og hvort sem streitan er vegna álags í vinnu eða skóla getur langvarandi streita komið harkalega niður á heilsunni. Rithöfundur einn, sem skrifar um læknisfræði, segir: „Streituviðbrögð líkamans minna um margt á flugvél sem er að undirbúa flugtak.“ Já, þegar þú finnur fyrir streitu eykst hjartslátturinn og blóðþrýstingurinn verulega. Blóðsykurstigið hækkar. Hormónar spýtast út í blóðið. „Ef streita varir í langan tíma,“ segir sami höfundur, „verða allir líkamshlutar, sem streitan hefur áhrif á (heilinn, hjartað, lungun, æðar og vöðvar), stöðugt fyrir of mikilli eða of lítilli örvun. Þetta getur með tímanum haft í för með sér líkamlegan eða andlegan skaða.“ Það er ógnvekjandi hvað streita getur átt þátt í mörgum sjúkdómum, svo sem heilablóðfalli, hjartasjúkdómum, ónæmisröskunum, krabbameini, stoðkerfiskvillum og sykursýki, svo fátt eitt sé nefnt.

Það er sérstakt áhyggjuefni að margir, einkum ungt fólk, fara óheppilegar leiðir til að reyna að ráða fram úr streitunni. Dr. Bettie B. Youngs segir: „Það er mjög dapurlegt að sjá að unglingar reyna að draga úr sársauka með því að neyta áfengis og fíkniefna, skrópa í skóla, brjóta af sér, stunda kynferðislegt lauslæti, verða árásar- og ofbeldishneigðir og hlaupast að heiman. Þetta leiðir þá út í alvarlegri vandamál en þeir voru að reyna að flýja.“

Streita er hluti af lífinu nú á dögum. Við getum ekki forðast hana með öllu. En eins og næsta grein bendir á er margt sem við getum gert til að stjórna henni.

[Rammi á blaðsíðu 6]

„Álagið getur orðið svo mikið að mér finnst eins og ég sé að springa.“

[Mynd á blaðsíðu 5]

Einstæðir foreldrar finna oft fyrir mikilli streitu.

[Mynd á blaðsíðu 6]

Unglingar upplifa oft mikla streitu í skólanum.