Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Streita sækir á

Streita sækir á

Streita sækir á

„ALGENGASTA heilbrigðisvandamál í Bandaríkjunum.“ Þannig hljóðar fyrirsögn greinar sem gefin er út af bandarískri stofnun sem safnar upplýsingum um streitu. (American Institute of Stress) Í greininni er því haldið fram að nú á dögum sé hvorki krabbamein né alnæmi stærsta heilsufarsógnin. Þar segir: „Áætlað er að 75-90 prósent allra vitjana til heimilislækna séu vegna streitutengdra kvilla.“

Það eru engar ýkjur að segja að streita sæki á fólk. Að sögn neytendasamtaka í Bandaríkjunum (National Consumers League) er „vinnan helsta orsök streitu hjá fullorðnum sem glíma við vandamál og streitu í lífinu (39%) og þar á eftir kemur fjölskyldan (30%). Aðrar orsakir eru meðal annars heilsufar (10%), fjárahagsáhyggjur (9%) og áhyggjur af hernaðarátökum og hryðjuverkum í heiminum (4%).“

En streita er ekki aðeins vandamál í Bandaríkjunum. Gerð var könnun í Bretlandi sem náði til áranna 2001-2002. Í henni kom fram að „yfir hálf milljón manna í Bretlandi taldi sig hafa glímt við vinnutengda streitu á svo háu stigi að þeir urðu veikir“. „Áætlað er að þrettán og hálf milljón vinnudaga tapist árlega í Bretlandi“ sökum „vinnutengdrar streitu, þunglyndis eða kvíða“.

Ástandið er ekki betra á meginlandi Evrópu. Að sögn Vinnuverndarstofnunar Evrópusambandsins „hefur verið sýnt fram á að vinnustreita hafi áhrif á milljónir starfsmanna í Evrópu í öllum starfsstéttum“. Í könnun einni kom í ljós að „um 41 milljón starfsmanna innan [Evrópusambandsins] finni fyrir vinnutengdri streitu á ári hverju“.

Hvað um Asíu? Í niðurlagsorðum skýrslu, sem gefin var út í tengslum við ráðstefnu í Tókýó, sagði: „Vinnustreita er algengt áhyggjuefni í mörgum löndum, bæði í þróunarlöndunum og þeim iðnvæddu.“ Í skýrslunni sagði að „nokkur lönd í Austur-Asíu, þar á meðal Kína, Kórea og Taívan, hafi á skömmum tíma iðnvæðst og vaxið efnahagslega. Nú er vinnustreita og þær skaðlegu afleiðingar, sem hún hefur á heilsu starfsmanna, mikið áhyggjuefni í þessum löndum.“

Við þurfum hins vegar engar kannanir til að segja okkur að fólk eigi við streitu að glíma. Það eru miklar líkur á því að streita taki sinn toll í lífi þínu. Hvaða skaðlegu áhrif getur streita haft á þig og ástvini þína? Hvernig geta fjölskyldur lært að takast á við streitu? Þetta er til umfjöllunar í næstu greinum.

[Mynd á blaðsíðu 3]

Vinnan er helsti streituvaldurinn í lífi margra.