Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Verksmiðja dauðans

Verksmiðja dauðans

Verksmiðja dauðans

Eftir fréttaritara Vaknið! í Þýskalandi

MITTELWERK var að mati sumra stærsta neðanjarðarverksmiðja í heimi. Hún var staðsett í Harzfjöllum í Þýskalandi um 260 kílómetra suðvestur af Berlín og samanstóð af mjög breiðum 20 kílómetra löngum göngum sem grafin voru inn í fjöllin. Frá árinu 1943 til 1945 unnu þúsundir fanga sem þrælar í þessum göngum. Þeir voru neyddir til að búa til vopn fyrir nasista við skelfilegar aðstæður.

Það sem fangarnir bjuggu til voru engin venjuleg vopn. Í verksmiðjunni voru framleidd V-1 og V-2 flugskeyti. Þau voru flutt frá Mittelwerk til þeirra staða þar sem þeim var skotið á loft en það var aðallega í Frakklandi og Hollandi. Þau flugu síðan ein síns liðs að skotmörkum í Belgíu, Bretlandi og Frakklandi þar sem þau féllu af himni ofan og sprungu við árekstur. Nasistar vonuðust jafnvel til að geta búið til flugskeyti sem væri svo öflugt að það gæti flogið með sprengju yfir Atlantshafið alla leið til New York. Við lok seinni heimstyrjaldarinnar höfðu mörg hundruð V-1 og V-2 flugskeyti lent á borgum í Evrópu. En það var aðeins lítið brot af þeim flugskeytum sem nasistar höfðu framleitt og vonuðust til að geta notað gegn óvinum sínum. Flugskeytin náðu þó aldrei til New York.

Sorgleg staðreynd

Eftir stríðið fluttu fjölmargir þýskir vísinda- og tæknimenn, sem höfðu hannað V-1 og V-2 flugskeytin, til annarra landa. Þeir tóku með sér sérfræðiþekkingu sína á eldflaugatækni og nýttu hana í þeim löndum sem þeir fluttu til. Einn af þessum eldflaugasérfræðingum var Wernher von Braun. Hann settist að í Bandaríkjunum og lagði hönd á plóginn við að hanna Saturnflaugina sem flutti menn til tunglsins.

Núna stendur minnismerki rétt við verksmiðjuna fyrrverandi í Mittelwerk til minnis um þá 60.000 manns sem voru þar í haldi. Margir fanganna unnu ekki aðeins í þessum köldu og röku göngum heldur bjuggu þar einnig. Það er því lítil furða að þar hafi allt að 20.000 fangar látið lífið að því er talið er. Safngestir geta farið í skipulagðar skoðunarferðir um göngin. Á gólfinu liggja enn flugskeytahlutar sem hafa legið óhreyfðir í 60 ár. Tímaritið After the Battle nefnir mjög sorglega staðreynd í sambandi við flugskeytin: „V-1 og V-2 flugskeytin hafa þá sérstöðu að framleiðsla þeirra kostaði fleiri mannslíf en féllu fyrir þeim.“

[Mynd á blaðsíðu 23]

Mynd frá árinu 1945 af V-1 flugskeytum á sporvagni.

[Neðanmáls]

Quelle: Dokumentationsstelle Mittelbau-Dora

[Mynd á blaðsíðu 23]

Gestir skoða göngin þar sem enn liggja flugskeytahlutar á víð og dreif.