Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Ætti ég að nota Netið til að leita mér að maka?“

„Ætti ég að nota Netið til að leita mér að maka?“

Ungt fólk spyr . . .

„Ætti ég að nota Netið til að leita mér að maka?“

„Við skrifuðumst á með tölvupósti daglega. Við lögðum drög að því hvar við ætluðum að búa og starfa. Ég átti að útvega trúlofunarhringana. Við vorum ekki einu sinni búin að þekkjast í mánuð og höfðum aldrei hist.“ — Monika, Austurríki. *

ÞIG dauðlangar til að hitta einhvern — manneskju sem þú getur kynnst nánar og gætir hugsað þér að giftast. En fram til þessa hefur hvorki gengið né rekið. Tilraunir velviljaðra vina og ættingja til að koma þér í kynni við einhvern hafa bara endað með vandræðagangi og gert þig vondaufari. Er kannski kominn tími til að leita á náðir tækninnar?

Ætla má að á tölvuöld þurfi lítið annað en fáeina smelli með músinni til að finna sér maka. Sumir segja að það sé nóg að skrá sig inn á vefsíðu, spjallrás eða upplýsingatöflu sem er sérstaklega ætluð einhleypum. Dagblaðið The New York Times segir að á einum mánuði hafi 45 milljónir manna heimsótt stefnumótavefsíður í Bandaríkjunum. Talsmenn eins stefnumótavefjar segjast eiga meira en níu milljónir viðskiptavina í 240 löndum.

Af hverju virðist þægilegt að kynnast á Netinu?

Ertu feiminn og finnst þér erfitt að blanda geði við fólk? Óttastu höfnun? Eða finnst þér kannski bara vera lítið úrval af fólki á lausu á þínum heimaslóðum? Þá getur virst þægilegt að nota Netið til að reyna að kynnast einhverjum. Stefnumótavefir lofa fólki nefnilega að maður hafi stjórn á því hvers konar fólki maður kynnist. Boðið er upp á leitarglugga sem sýna aldurshópa, dvalarlönd, persónulýsingar, myndir og gælunöfn. Með valfrelsið að vopni gæti manni virst sem stefnumót á Netinu séu árangursríkari en að hittast augliti til auglitis og valdi minni spennu.

Hver er raunin? Eru stefnumót í netheimum uppskrift að varanlegri hamingju? Lítum nánar á málið. Stefnumótavefur nokkur var með 11 milljónir áskrifenda á sex ára tímabili. Hjónaböndin urðu samt ekki nema 1475. Önnur stefnumótaþjónusta, sem var með meira en milljón áskrifendur, tiltók aðeins 75 hjónabönd sem vitað var um með vissu. Hvað er bogið við þessa aðferð?

Fáið þið rétta mynd hvort af öðru?

„Á Netinu eru allir aðlaðandi, heiðarlegir og á framabraut,“ segir í blaðagrein. En hversu áreiðanlegar upplýsingar gefur fólk um sjálft sig? Í annarri frétt í dagblaði segir: „Fólk reiknar með að allir segi pínulítið ósatt.“ Ritstjóri unglingatímarits ákvað að kanna þetta mál svolítið nánar. Hún skráði sig hjá þrem vinsælustu stefnumótaþjónustunum á Netinu og fékk fljótlega nokkur svör. Í framhaldi af því átti hún stefnumót við nokkra karlmenn. En þeir reyndust engir draumaprinsar. Í ljós kom að þeir höfðu logið blákalt til um sjálfa sig. Niðurstaða hennar var þessi: „Samkvæmt minni reynslu ljúga þeir.“

Það virðist kannski ekki stórmál að fara svolítið frjálslega með hæð sína og þyngd. „Útlitið er nú ekki aðalatriðið,“ segja sumir. Biblían tekur reyndar undir það. „Yndisþokkinn er svikull og fríðleikinn hverfull,“ segir hún. (Orðskviðirnir 31:30) En er það góður grunnur að sambandi að byrja á því að segja ósatt um eitthvað sem virðist ekki skipta miklu máli? (Lúkas 16:10) Er þá hægt að treysta öðru sem manneskjan segir um stærri og alvarlegri mál, svo sem um markmið sín? „Talið sannleika hver við annan,“ hvetur Biblían. (Sakaría 8:16) Já, heiðarleiki er góður grunnur til að byggja á samband sem endist.

En óraunhæfir draumórar eru oft fylgifiskur stefnumóta í netheimum. Fréttatímaritið Newsweek sagði: „Notendur geta vandað orðaval tölvuskeytanna til að gefa sem besta mynd af sjálfum sér. . . . Fallegt skeyti kallar fram jákvæð viðbrögð — skrifarar virðast indælir og sýna manni áhuga þannig að maður er indæll og sýnir þeim áhuga.“ Prófessor við Rensselaer Polytechnic Institute í New York, sem rannsakar samskipti fólks á Netinu, bendir á að sterkar tilfinningar geti auðveldlega kviknað við slíkar aðstæður. En eins og oft hefur verið bent á er ekki hægt að treysta að út úr því komi farsælt hjónaband. Maður nokkur segir um reynslu sína af stefnumótum á Netinu: „Þetta er gildra. Maður notar ímyndunaraflið og fyllir í eyðurnar að vild sinni.“

Augliti til auglitis

Sumir halda kannski að það hafi ákveðna kosti að hittast ekki í eigin persónu. Þeir hugsa ef til vill sem svo að með því að kynnast á Netinu geti fólk einbeitt sér að innri manni væntanlegs maka án þess að láta útlitið villa um fyrir sér. Biblían hvetur vissulega til þess að fólk leggi áherslu á hinn innri mann. (1. Pétursbréf 3:4) Vandinn er bara sá að tölvusamskipti gefa okkur ekki kost á að fylgjast með látbragði og svipbrigðum annarrar manneskju. Maður sér ekki hvernig hún kemur fram við aðra eða hegðar sér undir álagi en það er einmitt mikilvægt til að ganga úr skugga um hvort maður getur treyst henni og elskað hana. Lestu lýsingu Biblíunnar á kærleika í 1. Korintubréfi 13:4, 5. Þú tekur eftir að kærleikur lýsir sér í hegðun en ekki orðum. Þú þarft þess vegna að gefa þér tíma til að fylgjast með atferli viðkomanda til að kanna hvort orðin og verkin fara saman.

Þó að þessa mikilvægu vitneskju vanti fer fólk oft að segja hvort öðru frá innstu tilfinningum og hugleiðingum eftir stutt kynni. Sumir láta alla fyrirhyggju lönd og leið og gefa stór loforð í fljótræði þó að þeir þekki varla hinn aðilann. Í grein, sem nefnist „Á Netinu er ástin staurblind“, segir frá karli og konu sem kynntust á Netinu en 13.000 kílómetrar aðskildu þau. Þau hittust þrem vikum síðar. „Hún var með mikinn maskara,“ sagði maðurinn. „Ég fer ekki út með konum sem nota maskara.“ Þau slitu sambandinu snarlega. Sagt er frá öðru tilfelli þar sem fólk hittist eftir kynni á Netinu og maðurinn, sem hafði greitt flugfarið fyrir konuna, varð fyrir svo miklum vonbrigðum að hann neitaði að borga fyrir heimferð hennar!

Ung kona, sem heitir Edda, hefur sína sögu að segja af kynnum á Netinu. „Samband okkar var of gott til að geta verið satt. Við ætluðum að giftast.“ En þegar þau hittust augliti til auglitis fór allt í vaskinn. „Hann var ekki eins og ég bjóst við heldur gagnrýninn og nöldursamur. Þetta hefði aldrei gengið.“ Viku seinna slitu þau sambandinu. Edda var miður sín.

Í draumaveröld netstefnumóta er hætta á að fólk gefi tilfinningunum lausan tauminn löngu áður en það er tímabært. Þá má búast við miklu áfalli ef sambandið gengur ekki upp — og sú er oft raunin. „Sá sem treystir eigin hyggjuviti, er heimskingi,“ segja Orðskviðirnir 28:26. Það er ekki skynsamlegt að taka stórar ákvarðanir á grundvelli draumóra og tilfinninga. Því segir orðskviðurinn í framhaldinu: „Sá sem breytir viturlega, mun undan komast.“

Flýttu þér hægt

Það er ekki skynsamlegt flana út í samband við manneskju sem maður þekkir varla. Enska skáldið Shakespeare sagði: „Þó boðar skyndi-brullaup sjaldan heill.“ * Ábending Biblíunnar er enn beinskeyttari: „Öll flasfærni lendir í fjárskorti.“ — Orðskviðirnir 21:5.

Margir sem hafa kynnst á Netinu hafa því miður sannreynt þetta. Monika, sem vitnað var til í upphafi greinarinnar, hafði skrifast á við mann í tæpan mánuð. Hún vonaði að nú hefði hún fundið sér lífsförunaut eins og hún þráði. Þau voru farin að ræða um giftingu og hún ætlaði að útvega trúlofunarhringana. En þetta fljótfærnislega samband entist stutt og hún sat eftir í „mikilli ástarsorg“.

Þú getur komist hjá sorg og sársauka með því að fylgja ráði Biblíunnar: „Vitur maður sér ógæfuna og felur sig, en einfeldningarnir halda áfram og fá að kenna á því.“ (Orðskviðirnir 22:3) En vonbrigði og særðar tilfinningar eru ekki einu hætturnar sem fylgja stefnumótum á Netinu. Við fjöllum um fleira af því tagi síðar.

[Neðanmáls]

^ gr. 3 Sumum nöfnum er breytt.

^ gr. 19 Þýðing Helga Hálfdanasonar.

[Mynd á blaðsíðu 25]

Á Netinu er algengt að fólk ljúgi og fegri sjálft sig.

[Mynd á blaðsíðu 26]

Fólk verður oft fyrir vonbrigðum þegar það hittist augliti til auglitis eftir rómantísk kynni á Netinu.