Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Eru þetta villiblóm eða illgresi?

Eru þetta villiblóm eða illgresi?

Eru þetta villiblóm eða illgresi?

Eftir fréttaritara Vaknið! í Kanada

Villiblómin eru heillandi. Gefðu þér svolitla stund til að virða fyrir þér margbrotið sköpulag þeirra. Horfðu á heillandi litadýrðina og teygaðu unaðslega angan þeirra. Það er freistandi að rétta út höndina, snerta fínleg krónublöðin og finna hve mjúk þau eru viðkomu. Fegurð þeirra og glæsileiki höfða sterkt til skilningarvitanna, svo sterkt að þau hreyfa jafnvel við tilfinningum okkar. Já, villiblómin eru yndislegur þáttur í fagurri heildarmynd náttúrunnar. Þau hjálpa okkur á sinn sérstæða hátt til að njóta lífsins. Við stöndum sannarlega í þakkarskuld við hönnuð þeirra og skapara.

Þó að við dáumst að blómum fyrir fegurð þeirra, lögun, sterka liti og sérstæða angan er meginhlutverk þeirra að mynda fræ til að viðhalda stofninum. Blómin eru því hönnuð með það fyrir augum að laða að sér skordýr, fugla og jafnvel leðurblökur sem bera frjó milli þeirra. Söngfuglar og fiðrildi sækja sérstaklega í villiblóm. „Þau eru matarkista þessara fljúgandi vera, ólíkt ræktuðum blómum,“ segir garðyrkjufræðingur og rithöfundur að nafni Jim Wilson. Það er athyglisvert að hugsa til þess að „öll blóm voru upphaflega villiblóm“, eins og fram kemur í The World Book Encyclopedia.

Þær plöntutegundir í heiminum, sem bera blóm, skipta þúsundum. Hvernig má þá þekkja villiblómin úr? Hvað eru villiblóm? Í stuttu máli eru villiblóm öll þau blóm sem vaxa án þess að maðurinn komi þar nærri. Í Norður-Ameríku eru þekktar meira en 10.000 tegundir villtra blóma. „Orðið er yfirleitt notað um jurtir með mjúkum stöngli og skrautlegum blómum en í bókum um villiblóm eru jurtir með trékenndum stöngli einnig taldar með. Þetta misræmi gerir að verkum að það er nánast ógerningur að gefa heildstæða skilgreiningu á öllum þeim jurtategundum sem við köllum villiblóm.“ Þetta segir náttúrufræðingurinn Michael Runtz en hann er höfundur bókarinnar Beauty and the Beasts — The Hidden World of Wildflowers.

Fræ eru miklir ferðalangar. Sum geta borist langar leiðir fyrir vatni og vindum. Flestum eru þó takmörk sett af náttúrunnar hendi því að þau eru gerð til að henta búsvæði af ákveðnu tagi. Sum fræ eru svo fíngerð að þau eru nánast eins og ryk og geta borist marga kílómetra fyrir vindi. Fræ, sem eru búin svifkransi líkt og biðukollan, berast hins vegar ekki nema stuttan veg.

Mörg villt blóm í Norður-Ameríku, sem eru löngu orðin búföst á vissum svæðum, eru erlend að ætt og uppruna. Með skipaferðum og landnámi á nýjum svæðum báru menn með sér fjölda jurta og fræja frá heimalöndum þeirra. Margar þessara jurta eru ættaðar frá Evrópu eða Asíu. Sumar voru teknar með af ásettu ráði en aðrar komu sem „laumufarþegar“. Margar jurtir, sem vaxa villtar í Norður-Ameríku núna, bárust upphaflega þangað „sem illgresi með sáðkorni en aðrar bárust með neyslukorni, hálmi eða heyi sem notað var í umbúðir, [eða] í ballest skipa . . . Aðrar voru fluttar inn til að nota sem bragðauka, til litunar, sem ilmefni og til lækninga,“ að sögn bókarinnar Wildflowers Across America. En af hverju eru þessi blóm og ótal önnur þá stundum kölluð illgresi?

Þegar villiblóm verður að illgresi

Almennt séð má kalla allar jurtir illgresi ef þær vaxa í miklum mæli þar sem maður vill ekki hafa þær, hvort heldur það er á grasflötinni fyrir framan húsið, í blómabeðunum, matjurtagarðinum eða á túninu. „Margar jurtir, sem eru kallaðar illgresi, myndu ekki lifa . . . ef þetta tilbúna búsvæði væri ekki fyrir hendi,“ að sögn handbókarinnar Weeds of Canada. Þar segir enn fremur: „Það er að miklu leyti sjálfum okkur að kenna að skapa kjörlendi fyrir þær jurtir sem við viljum allra helst losna við.“ Sum aðflutt villiblóm leggja undir sig búsvæði jurta sem fyrir eru og gerbreyta því. Jurt getur þannig breyst úr aðfluttu villiblómi í aðgangsfrekt illgresi.

Ef þú hefur einhvern tíma reynt að rækta örlítinn garðskika veistu hvað átt er við þegar talað er um ágengar aðkomujurtir. Óvarinn jarðvegur getur verið fljótur að fjúka eða skolast burt fyrir veðri og vindum. Milljónir fræja liggja öllum stundum í dvala í þrem efstu sentímetrum jarðvegarins. Þau eru þannig úr garði gerð að þau vakna úr dvala þegar moldin verður ber, fylla auða svæðið í snatri og binda jarðveginn. Það er gott að gera sér grein fyrir þessu hlutverki villtra blóma og illgresis þótt óneitanlega skapi það endalausa vinnu fyrir garðyrkjumanninn.

Njóttu þessara fögru sköpunarverka

Það er ekki hægt annað en að dást að því hvernig skógarliljur klæða skógivaxnar brekkur hvítum búningi að vori alveg af sjálfsdáðum, eða hvernig himinblár kaffifífill blómgast að morgni, snýr blóminu í átt til sólar en leggur saman krónublöðin á hádegi á björtum degi. Þetta er aðeins upphafið að skrúðgöngu blómanna sem hefst á vori hverju ár eftir ár, prýðir umheiminn náttúrlegri fegurð allt sumarið og hrópar á athygli manns. Sum blómin eru ósköp skammlíf, til dæmis hádegisliljan. Önnur, svo sem frúarhatturinn, skarta blómum sínum á sólríkum engjum og með fram vegum frá því síðla vors og út allt sumarið.

Villtu blómin eru óneitanlega heillandi og hrífandi þáttur í sköpunarverki Guðs. Þegar þau skjóta upp kollinum í garðinum hjá þér eða þú kemur auga á þau við vegarbrúnina eða úti í móa skaltu gefa þér tíma til að dást að margbrotinni lögun þeirra, skærum litum og ljúfri angan. Og sjáðu þau í réttu ljósi — sem gjöf frá hönnuði sínum, hinum örláta skapara okkar.

[Rammi/myndir á blaðsíðu 18]

Vissir þú?

Túnfífillinn var einu sinni óþekktur í Norður-Ameríku en vex núna víðast hvar í heiminum. Sumir telja hann vera upprunninn í Litlu-Asíu. Evrópubúar voru vanir að nota hann til matar og fluttu hann því með sér þegar þeir námu land vestanhafs. Rót fífilsins hefur verið notuð í mörg lyf en blöðin, hrafnablöðkurnar svonefndu, hafa verið notuð í salöt.

Freyjubrá er eitt algengasta blómið sem vex með fram vegum vestanhafs. Blómið er evrópskt að ætt og uppruna. Víðast hvar er freyjubráin til prýði. Á hverjum stilk er karfa úr gulum og hvítum blómum. Miðjan er samsett úr hundruðum örsmárra pípublóma sem eru frjó en í kring er hvítur kragi með 20 til 30 ílöngum krónublöðum. Þau blóm eru ófrjó en ágætis lendingarstaður fyrir skordýr.

Hádegisliljan er talin ættuð frá Asíu en var flutt þaðan til Englands og síðan vestur um haf til Norður-Ameríku. Hver stöngull ber mörg blóm en hvert blóm stendur aðeins daginn. Þau springa út að morgni en lokast að eilífu áður en dagur er úti.

Brennisóleyin var einnig flutt vestur um haf frá Evrópu. Vestanhafs vex hún yfirleitt í votu graslendi og með fram vegum og getur náð tveggja metra hæð. Fáir vita að mönnum getur stafað hætta af henni. Nálega öll afbrigði hennar gefa frá sér ertandi efni í mismiklum mæli. Þekkt hefur verið um aldir að sumar sóleyjar geta valdið brunablöðrum. Breskur rithöfundur á 19. öld, Anne Pratt að nafni, skrifaði: „Oft hefur ferðalangur lagst til svefns með nokkur af þessum blómum sér við hlið og vaknað með sára og svíðandi vanga eftir að hafa legið hjá þessum ertandi blómum.“

[Credit line]

Túnfífill: Walter Knight © California Academy of Sciences; brennisóley: © John Crellin/www.floralimages.co.uk

[Myndir á blaðsíðu 16]

Kaffifífill

[Mynd á blaðsíðu 16]

Hádegislilja

[Myndir á blaðsíðu 16, 17]

Skógarlilja

[Myndir á blaðsíðu 17]

Frúarhattur

[Mynd credit line á blaðsíðu 16]

Efst til vinstri: www.aborea.se; efst til hægri: Með góðfúslegu leyfi Johns Somervilles/www.british-wild-flowers.co.uk; hádegislilja: Dan Tenaglia, www.missouriplants.com, www.ipmimages.org