Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Frá handriti til kvikmyndar

Frá handriti til kvikmyndar

Frá handriti til kvikmyndar

Á UNDANFÖRNUM áratugum hefur Hollywood orðið afkastamikill framleiðandi á mjög vinsælum og gróðavænlegum myndum. Þetta hefur haft áhrif um allan heim þar sem margar bandarískar myndir eru sýndar í öðrum löndum aðeins vikum eða jafnvel nokkrum dögum eftir frumsýninguna í Bandaríkjunum. Sumar myndir hafa meira að segja verið frumsýndar á sama degi um allan heim. „Sala kvikmynda er lífleg atvinnugrein sem er í örum vexti um víða veröld, þannig að þegar við framleiðum kvikmyndir höfum við allan heimsmarkaðinn í huga,“ segir Dan Fellman, yfirmaður dreifingarmála innan Bandaríkjanna hjá Warner Brothers Pictures. Aldrei fyrr hefur það sem gerist í Hollywood haft jafnmikil áhrif á skemmtanaiðnaðinn um allan heim. *

En það er ekki eins auðvelt og ætla mætti að hagnast á kvikmyndagerð. Margar myndir verða að hala inn meira en 6 milljarða íslenskra króna til að nægja fyrir kostnaði við framleiðslu og markaðssetningu. Hvort það tekst er algerlega háð óútreiknanlegum almenningi. „Maður veit aldrei hvað fólki á eftir að finnast spennandi eða heillandi,“ segir David Cook, prófessor í kvikmyndafræði við Emoryháskólann. En hvernig auka kvikmyndaframleiðendur líkurnar á velgengni? Til að svara því þurfum við fyrst að fræðast aðeins um kvikmyndagerð. *

Undirbúningsvinnan — grunnurinn lagður

Undirbúningsvinnan er oft lengsta og eitt mikilvægasta ferlið í framleiðslu kvikmynda. Eins og með önnur stór verkefni er góður undirbúningur lykilatriði. Vonast er til að hver króna, sem lögð er í undirbúningsvinnuna, spari peninga þegar tökur hefjast.

Grunnurinn að hverri kvikmynd er söguþráðurinn og hann getur annaðhvort verið skáldaður eða sannsögulegur. Handritshöfundur býr síðan til handrit eftir söguþræðinum. Oft er handritið endurskoðað aftur og aftur áður en lokaútgáfan er tilbúin en hún kallast tökuhandrit. Í tökuhandritinu er að finna samtölin í myndinni og stutta lýsingu á því sem mun eiga sér stað. Í því eru einnig gefnar leiðbeiningar um tæknileg mál eins og sjónarhorn myndatökuvélarinnar og skiptingar milli atriða.

Það er á þessu frumstigi sem framleiðanda er boðið að kaupa handritið. * Hvers konar handrit gæti framleiðandi haft áhuga á? Algengt er að kvikmyndir sumarsins séu ætlaðar unglingum og ungu fólki — „poppkornskynslóðinni“ eins og einn kvikmyndagagnrýnandi kallar þennan aldurshóp. Framleiðandi gæti því haft sérstakan áhuga á handriti sem höfðar til ungs fólks.

Það þykir enn betra ef handritið höfðar til allra aldurshópa. Tökum dæmi. Mynd, sem fjallar um hetju úr teiknimyndasögu, dregur örugglega til sín börn sem þekkja sögupersónuna og eflaust fara foreldrarnir með á myndina. En hvernig vekja kvikmyndaframleiðendur áhuga unglinga og unga fólksins? „Svæsið efni“ er lykilatriði, segir Liza Mundy í tímaritinu The Washington Post. Þegar ljótu málfari, grófu ofbeldi og miklu kynlífi er bætti inn í myndina „aukast líkurnar á hagnaði því að enginn aldurshópur verður út undan“.

Ef framleiðandi hefur mikla trú á ákveðnu handriti má vera að hann kaupi það og reyni að semja við virtan leikstjóra og fræga leikara. Þegar myndin kemur til sýningar er hún líklegri til vinsælda ef hún skartar stórstjörnum og þekktum leikstjóra. Jafnvel á þessu frumstigi geta þekkt nöfn laðað að fjárfesta sem þarf til að fjármagna myndina.

Á undirbúningsstiginu er líka teiknað myndhandrit. Myndhandrit er röð teikninga sem lýsa ýmsum atriðum í myndinni, sérstaklega miklum hasaratriðum. Myndhandritið er „vinnuteikning“ tökustjórans og sparar mikinn tíma meðan á tökum stendur. Leikstjórinn og handritshöfundurinn Frank Darabont segir: „Það er ekkert verra en að standa á tökustað og eyða öllum deginum í að reyna að ákveða hvar eigi að hafa myndatökuvélina.“

Margt annað þarf að ákveða á undirbúningsstiginu. Hvar á til dæmis að taka upp myndina? Eru ferðalög nauðsynleg? Hvernig verður leikmyndin hönnuð og byggð? Þarf að hanna búninga? Hver á að sjá um lýsingu, förðun og hárgreiðslu? Hvað um hljóð, tæknibrellur og áhættuatriði? Þetta er aðeins brot af því sem þarf að hugleiða áður en upptökur geta hafist. Ef þú fylgist með „kreditlistanum“ á eftir stórri mynd sérðu að hundruð manna tóku þátt í gerð hennar bak við tjöldin. „Það þarf heila borg af fólki til að gera kvikmynd í fullri lengd,“ segir tæknimaður sem hefur unnið við gerð margra kvikmynda.

Tökur — myndin fest á filmu

Það getur verið mjög tímafrekt, þreytandi og kostnaðarsamt að taka upp mynd. Hver mínúta, sem fer til spillis, getur kostað hundruð þúsunda króna. Stundum þarf að flytja leikara, starfsfólk og tækjabúnað á afskekkta staði í heiminum. En hvar sem upptökurnar eiga sér stað kostar hver tökudagur stórfé.

Ljósamenn, hárgreiðslufólk og förðunarfræðingar eru með þeim fyrstu sem mæta á tökustað. Á hverjum degi getur tekið margar klukkustundir að hafa stjörnurnar til fyrir myndavélina. Síðan hefst langur tökudagur.

Leikstjórinn fylgist vandlega með upptöku hvers atriðis. Það getur jafnvel tekið heilan dag að taka upp frekar einfalt atriði. Flest atriði í kvikmynd eru tekin með einni myndatökuvél og þess vegna þarf að taka atriðið upp aftur og aftur frá öllum sjónarhornum. Þar að auki gæti þurft að taka hvert atriði upp margoft til að fá bestu útkomuna eða til að leiðrétta tæknileg mistök. Stærri atriði getur þurft að taka 50 sinnum eða oftar. Seinna, oftast í lok dagsins, horfir leikstjórinn á allar tökurnar og ákveður hverjum á að halda eftir. Allt í allt geta tökurnar staðið yfir í vikur eða jafnvel mánuði.

Úrvinnslan — bútunum raðað saman

Á úrvinnslustigi eru myndskeiðin klippt svo úr verði samfelld kvikmynd. Fyrst er myndin hljóðsett. Síðan er óklipptum myndskeiðum safnað saman og klipparinn býr til bráðabirgðaútgáfu.

Hljóð- og tæknibrellum er einnig bætt við á þessu stigi. Einn flóknasti þáttur kvikmyndagerðar er að setja inn tæknibrellur og það er oft gert með tölvugrafík. Árangurinn getur verið einstaklega tilkomumikill og raunverulegur.

Tónlist er einnig bætt við á úrvinnslustiginu og hún er orðin mjög stór þáttur í kvikmyndum nú á dögum. „Í kvikmyndaiðnaðinum eru gerðar meiri kröfur um frumsamda tónlist en nokkurn tíma áður. Núna er ekki nóg að hafa aðeins tuttugu mínútur af tónlist eða nokkur tónlistarstef á dramatískum augnablikum heldur er oft farið fram á meira en klukkustund af tónlist,“ segir Edwin Black hjá tímaritinu Film Score Monthly.

Stundum er útvöldum hópi sýnd nýlega klippt mynd. Þetta geta verið vinir leikstjórans eða samstarfsmenn sem komu ekki að gerð myndarinnar. Hópurinn segir leikstjóranum síðan skoðun sína og í kjölfarið gæti hann ákveðið að taka sum atriði upp aftur eða klippa þau úr myndinni. Í sumum tilfellum hefur enda myndarinnar verið breytt vegna þess að upprunalegi endirinn féll ekki í kramið hjá hópnum.

Að síðustu er lokaútgáfa myndarinnar tekin til sýningar í kvikmyndahúsum. Það er ekki fyrr en á þessu stigi sem ljóst verður hvort hún slær í gegn, veldur vonbrigðum eða eitthvað þar á milli. En þetta er ekki bara spurning um að hagnast á miðasölunni. Nokkrar slæmar myndir geta eyðilagt mannorð leikstjóra eða orðið til þess að leikarar fái ekki hlutverk. „Ég sá nokkra samtímamenn mína heltast úr lestinni eftir nokkrar slæmar myndir,“ segir leikstjórinn John Boorman þegar hann hugsar til fyrstu ára sinna í kvikmyndagerð. „Blákaldur veruleikinn í kvikmyndaheiminum er sá að ef maður halar ekki inn peninga fyrir húsbónda sinn er maður dæmdur í útlegð.“

En þegar fólk horfir á auglýsingarskiltin í bíóhúsunum eru sennilega fæstir að hugsa um atvinnumöguleika kvikmyndagerðamanna. Líklega eru flestir aðallega að hugsa: „Ætli þetta sé skemmtileg mynd? Er hún peninganna virði? Á mér eftir að finnast hún hneykslandi? Er hún viðeigandi fyrir börnin mín?“ Hvernig geturðu svarað slíkum spurningum þegar þú ákveður hvaða myndir þú ætlar að sjá?

[Neðanmáls]

^ gr. 2 Anita Elberse, prófessor við viðskiptadeild Harvardháskóla, segir: „Þótt algengt sé orðið að myndir skili hærri sölutekjum á erlendum markaði hefur gengi þeirra í Bandaríkjunum mjög mikil áhrif á viðtökurnar í öðrum löndum.“

^ gr. 3 Þótt sumir þættir í framleiðslu kvikmynda geti verið mismunandi eftir myndum er það sem hér er lýst ein möguleg aðferð.

^ gr. 7 Stundum er framleiðanda boðið að kaupa uppkast af sögu en ekki handrit. Ef hann hefur áhuga á sögunni getur hann keypt kvikmyndaréttinn og látið gera handrit eftir uppkastinu.

[Innskot á blaðsíðu 6]

„Maður veit aldrei hvað fólki á eftir að finnast spennandieða heillandi.“ — David Cook, prófessor í kvikmyndafræði.

[Rammagrein/myndir á blaðsíðu 6, 7]

Að Markaðssetja Stórmynd

Myndin er fullgerð og tilbúin til sýningar. Ætli hún verði vinsæl? Við skulum skoða nokkrar aðferðir sem kvikmyndaframleiðendur nota til að markaðssetja myndir og gera þær vinsælar.

UMTAL: Ein áhrifaríkasta leiðin til að vekja eftirvæntingu eftir mynd er að skapa umtal um hana. Stundum fer fólk að tala um myndir mörgum mánuðum áður en þær eru teknar til sýningar. Kannski er tilkynnt að gert verði framhald af vinsælli mynd. Verða aðalhlutverkin í höndum sömu leikara? Verður myndin jafngóð (eða jafnslæm) og sú fyrri?

Stundum skapast umtal um myndina út af umdeildu atriði — til dæmis kynlífssenu sem er óvenjudjörf fyrir mynd ætlaða almennum áhorfendum. Er atriðið virkilega svo slæmt? Var farið yfir strikið? Í augum kvikmyndaframleiðenda eru svona umræður og skoðanaskipti kærkomin auglýsing. Stundum tryggir ágreiningur um myndina að margir komi á frumsýninguna.

AUGLÝSINGAMIÐLAR: Hefðbundnari markaðssetning er auglýsingaskilti, auglýsingar í dagblöðum, sjónvarpsauglýsingar, sýnishorn úr myndum og viðtöl við kvikmyndastjörnur þar sem þær koma nýjustu myndunum sínum á framfæri. Núna er Netið líka orðið ein helsta leiðin til að auglýsa kvikmyndir. Kvikmyndagagnrýnandinn Steve Persall segir: „Ef Dórótea [í Galdrakarlinum í Oz] hefði smellt músarhnappinum en ekki hælunum hefði hún fundið fjöldann allan af kvikmyndasíðum þar sem hún hefði getað lesið slúður um leikara, séð sýnishorn úr nýjustu myndunum, athugað sýningartíma og keypt bíómiða.“

SÖLUVARNINGUR: Vörur, sem seldar eru í auglýsingaskyni, geta vakið aukna eftirvæntingu eftir kvikmynd. Bíómynd um ákveðna myndasöguhetju var til dæmis auglýst með nestisboxum, drykkjarkönnum, skartgripum, fötum, lyklakippum, armbandsúrum, lömpum, borðspilum og fleiru. „Yfirleitt seljast 40 prósent söluvarningsins áður en myndin er tekin til sýningar,“ skrifar Joe Sisto í tímariti sem er gefið út af Amerísku lögmannasamtökunum.

MYNDBÖND: Mynd, sem skilar ekki hagnaði í bíóhúsunum, getur bætt upp fyrir tapið á myndbandamarkaðinum. Bruce Nash skráir tekjur af kvikmyndum og hann segir að „um 40 til 50 prósent af tekjunum komi af sölu myndbanda“.

ALDURSTAKMÖRK: Kvikmyndaframleiðendur hafa lært að snúa aldurstakmörkum sér í hag. Til dæmis bæta þeir stundum ákveðnu efni inn í myndina svo að aldurstakmarkið verði hærra og myndin virðist meira spennandi. Á hinn bóginn er líka hægt að klippa nógu mikið úr myndinni til að lækka aldurstakmarkið og markaðssetja hana fyrir unglinga. Liza Mundy hjá tímaritinu The Washington Post Magazine skrifar að lægri aldurstakmörkin „séu orðin nokkurs konar auglýsing. Kvikmyndaverin nota þau til að segja unglingum — og krökkum sem þrá að vera unglingar — að myndin sé töff.“ Þessi aldurstakmörk skapa vissa „spennu milli foreldra og barna,“ segir Liza Mundy, „því að þau vara foreldrana við en freista barnanna“.

[Myndir á blaðsíðu 8, 9]

GERÐ KVIKMYNDAR

HANDRIT

MYNDHANDRIT

Á TÖKUSTAÐ

BÚNINGAR

FÖRÐUN

KLIPPING

TÆKNIBRELLUR

TÓNLISTARUPPTÖKUR

HLJÓÐBLÖNDUN

TÖLVUGRAFÍK