Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ég þjónaði Guði þrátt fyrir erfiðleika

Ég þjónaði Guði þrátt fyrir erfiðleika

Ég þjónaði Guði þrátt fyrir erfiðleika

IVAN MIKITKOV SEGIR FRÁ

„Ef þú verður hér áfram í borginni verðurðu sendur aftur í fangelsi,“ sagði yfirmaður í leyniþjónustu Sovétríkjanna (KGB) við mig í viðvörunartón. Rétt áður hafði mér verið sleppt úr fangelsi eftir að hafa afplánað 12 ára dóm. Foreldrar mínir voru alvarlega veikir og þurftu á mér að halda. Hvað átti ég að gera?

ÉG FÆDDIST 1928 í þorpinu T̩aul í Moldóvu. * Þegar ég var ársgamall fór Alexander, faðir minn, í heimsókn til Ias̩i í Rúmeníu þar sem hann hitti Biblíunemendurna eins og Vottar Jehóva voru þá kallaðir. Er hann sneri aftur til T̩aul sagði hann fjölskyldu sinni og nágrönnum frá því sem hann hafði lært hjá þeim. Innan tíðar myndaðist lítill hópur biblíunemenda í T̩aul.

Þar sem ég var yngstur í hópi fjögurra barna, sem allt voru drengir, var ég frá barnæsku umkringdur andlega sinnuðu fólki sem setti mér gott fordæmi. Er fram liðu stundir var mér ljóst að þjónustan við Jehóva myndi mæta andstöðu og hafa erfiðleika í för með sér. Mér er það mjög minnisstætt þegar lögreglan gerði ítrekað húsleit hjá okkur og reyndi að finna biblíurit sem við höfðum falið. Ég var ekkert hræddur þegar það gerðist. Ég lærði í biblíunáminu að sonur Guðs, Jesús Kristur, svo og lærisveinar hans, höfðu verið ofsóttir. Á samkomum vorum við oft minnt á að fylgjendur Jesú mættu búast við ofsóknum. — Jóhannes 15:20.

Ég fékk styrk til að standast ofsóknir

Árið 1934, þegar ég var aðeins sex ára, var lesið upp bréf í söfnuðinum í T̩aul um þjáningar trúsystkina okkar í Þýskalandi sem var undir stjórn nasista. Við vorum hvött til að biðja fyrir þeim. Ég gleymdi aldrei þessu bréfi þótt ungur væri.

Fjórum árum síðar reyndi í fyrsta skipti á ráðvendni mína. Í trúfræðslutímum í skólanum skipaði rétttrúnaðarpresturinn mér hvað eftir annað að vera með kross um hálsinn. Þegar ég neitaði því bað hann öll börnin í bekknum að láta á sig krossana til merkis um að þau væru trúrækin börn. Presturinn benti á mig og spurði bekkinn: „Viljið þið hafa svona dreng í bekknum? Þeir sem vilja það ekki rétti upp hönd.“

Nemendurnir réttu allir upp höndina þar sem þeir óttuðust prestinn. Hann sneri sér að mér og sagði: „Þarna sérðu, engan langar til að hafa nokkuð saman við þig að sælda. Burt með þig úr skólanum á stundinni.“ Nokkrum dögum síðar kom skólastjórinn heim til okkar. Þegar hann hafði talað við foreldra mína spurði hann hvort mig langaði til að halda áfram í skólanum. Ég sagði svo vera. „Á meðan ég er skólastjóri,“ sagði hann „ferð þú í skólann og presturinn mun ekki geta hindrað þig í því.“ Hann stóð við orð sín og meðan hann var skólastjóri lét presturinn mig í friði.

Ofsóknir magnast

Árið 1940 varð Bessarabía, svæðið sem við bjuggum á, hluti af Sovétríkjunum. Allir sem voru viðriðnir stjórnmál eða voru áberandi í þjóðfélaginu voru fluttir í útlegð til Síberíu 13. og 14. júní árið 1941. Vottar Jehóva lentu ekki í þessum brottflutningum. En eftir þetta létum við samt minna á okkur bera þegar við héldum samkomur eða fórum í boðunarstarfið.

Síðla í júní 1941 gerðu nasistar skyndilega innrás í Sovétríkin en fram að þeim tíma höfðu þeir verið bandamenn þeirra. Innan skamms endurheimtu rúmensku herliðin Bessarabíu. Þar með komumst við aftur undir stjórn Rúmena.

Vottar í nálægum þorpum, sem neituðu að ganga í rúmenska herinn, voru handteknir og flestir dæmdir í 20 ára nauðungarvinnu. Föður mínum var stefnt á lögreglustöðina þar sem hann sætti grimmilegum barsmíðum vegna þess að hann var vottur. Og ég var tekinn með valdi úr skólanum til að vera við guðþjónustu.

Um þetta leyti urðu þáttaskil í heimsstyrjöldinni síðari. Í mars 1944 lögðu Sovétmenn snögglega undir sig norðurhluta Bessarabíu. Þegar komið var fram í ágúst höfðu þeir lagt undir sig allt landið. Ég var þá aðeins unglingur.

Ekki leið á löngu þar til allir heilbrigðir menn í þorpinu voru kallaðir í sovéska herinn. En vottarnir hvikuðu ekki frá hlutleysi sínu. Þeir voru því dæmdir til tíu ára fangelsisvistar. Heimsstyrjöldinni síðari lauk í Evrópu með uppgjöf Þjóðverja í maí 1945. Margir vottar í Moldóvu voru samt hafðir áfram í haldi þar til 1949.

Eftirstríðshörmungar

Eftir að stríðinu lauk árið 1945 komu hræðilegir þurrkar í Moldóvu. Sovéska stjórnin hélt samt áfram að krefja bændur um stóran hluta framleiðslunnar í skatt. Þetta leiddi til skelfilegrar hungursneyðar. Fram til ársins 1947 hafði ég séð mörg lík á strætum T̩aul. Bróðir minn Yefim dó og vikum saman var ég svo máttfarinn af hungri að ég gat varla hreyft mig. En hungursneyðin leið hjá og við vottarnir, sem vorum enn á lífi, héldum boðunarstarfinu áfram. Ég starfaði í þorpinu okkar en Vasile, bróðir minn, sem var sjö árum eldri en ég, prédikaði í nálægum þorpum.

Eftir því sem boðunarstarf vottanna varð umfangsmeira fóru yfirvöldin að gefa okkur nánari gætur. Sökum boðunarstarfsins og þar sem við neituðum að taka þátt í stjórnmálum og herþjónustu fór sovéska stjórnin að leita á heimilum okkar að biblíuritum og hóf að handtaka okkur. Árið 1949 voru nokkrir vottar í nærliggjandi söfnuðum fluttir til Síberíu. Við sem urðum eftir reyndum því enn sem fyrr að sýna meiri varkárni í boðunarstarfinu.

Í millitíðinni veiktist ég alvarlega og mér fór smám saman versnandi. Læknar sögðu að lokum að ég væri með berkla í beinum og 1950 voru gifsumbúðir settar um hægri fótlegginn.

Fluttur til Síberíu

Ég var enn með gifsumbúðir um fótinn þegar fjölskylda mín og ég vorum handtekin 1. apríl 1951 og flutt ásamt öðrum vottum til Síberíu. * Þar sem við höfðum nauman tíma til undirbúnings gátum við aðeins tekið með okkur smávegis mat. Hann gekk fljótt til þurrðar.

Eftir um það bil hálfs mánaðar lestarferð komum við loks til Asino í Tomskhéraði. Þar var okkur skipað upp eins og nautgripum. Þótt ískalt væri í veðri var dásamlegt að anda að sér frísku lofti. Í maímánuði, þegar ísa leysti af ám, vorum við flutt 100 kílómetra með skipi til Torba en þar voru skógarhöggsbúðir í barrskógabelti Síberíu, rétt sunnan við norðurheimskautsbauginn. Refsidómurinn hófst þarna með nauðungarvinnu sem okkur var sagt að myndi aldrei taka enda.

Við vorum stöðugt undir eftirliti þótt erfiðisvinna í skógarhöggsbúðum væri ekki það sama og fangelsisvist. Á næturnar svaf fjölskyldan saman í járnbrautarvagni. Um sumarið komum við okkur upp húsaskjóli til varnar komandi vetri. Þetta voru einföld skýli sem voru að hluta til niðurgrafin og að hluta til ofanjarðar.

Þar sem fóturinn var í gifsi var mér hlíft við skógarhöggsvinnu en var látinn gera nagla í staðinn. Þetta starf veitti mér tækifæri til að hjálpa til við að afrita með leynd Varðturninn og önnur biblíutengd rit. Einhvern veginn var þeim smyglað reglulega inn á svæðið til okkar frá Vestur-Evrópu um mörg þúsund kílómetra veg.

Handtekinn og fangelsaður

Gifsumbúðirnar voru fjarlægðar 1953. Þótt ég hafi reynt að fara að öllu með gát hafði starf mitt að andlegum málefnum, meðal annars afritun biblíutengdra rita, vakið athygli KGB. Það varð til þess að ég, ásamt öðrum vottum, var að lokum dæmdur í tólf ára fangabúðavist. Meðan á réttarhöldunum stóð gátum við öll vitnað um Jehóva, Guð okkar, og kærleiksríkar fyrirætlanir hans með mannkynið.

Er fram liðu stundir vorum við fangarnir sendir til ýmissa búða í nágrenni Irkutsk, hundruð kílómetra í austurátt. Þessar hegningarbúðir höfðu verið reistar fyrir þá sem álitnir voru óvinir Sovétríkjanna. Ég var fangi í tólf af þessum vinnubúðum frá 8. apríl 1954 og til snemma árs 1960. Seinna var ég fluttur meira en 3000 kílómetra leið vestur í hina gríðarstóru fangabúðaþyrpingu í Mordovíju, um 400 kílómetra suðvestur af Moskvu. Þar fékk ég tækifæri til að vera í félagsskap trúfastra votta víða að úr Sovétríkjunum.

Sovétmenn áttuðu sig á því að þegar vottunum var leyft að umgangast aðra fanga frjálslega urðu sumir þeirra líka vottar. Í fangabúðunum í Mordovíju, sem voru samsettar úr mörgum vinnubúðum og teygðu sig eina 30 kílómetra eða meira, var reynt að koma í veg fyrir að við ættum náinn félagsskap við aðra fanga. Yfir 400 vottar voru látnir vera saman í búðunum okkar. Í nokkurra kílómetra fjarlægð, í öðrum búðum í þessari fangabúðalengju, voru að minnsta kosti hundrað trúsystur okkar.

Í búðunum hjálpaði ég mikið til við að skipuleggja kristnar samkomur og afrita biblíutengd rit sem hafði verið smyglað inn í búðirnar. Þessi starfsemi vakti greinilega athygli starfsmanna búðanna. Stuttu síðar, í ágúst 1961, var ég dæmdur til eins árs vistar í hinu illræmda Vladimirfangelsi frá einræðistímanum, um 200 kílómetrum norðaustur af Moskvu. Þar til í febrúar 1962 var bandaríski flugmaðurinn Francis Gary Powers einnig fangi þar en hann hafði verið skotinn niður 1. maí 1960 á njósnaflugi yfir Rússlandi.

Á meðan ég var í Vladimirfangelsinu fékk ég ekki meiri mat en svo að ég rétt skrimti. Mér tókst vel að lifa af sultinn eftir það sem ég hafði reynt á unglingsárunum en það var erfitt fyrir mig að þola hinn gífurlega kulda veturinn 1961-62. Hitalagnirnar gáfu sig og hitastigið í klefanum féll talsvert niður fyrir frostmark. Læknir sá hve alvarlegt ástand mitt var og sá til þess að ég var fluttur í skárri fangaklefa verstu vikur þessa kuldatímabils.

Ég fékk styrk í erfiðleikum

Neikvæðar hugsanir geta dregið úr manni kjark eftir margra mánaða innilokun en það vona fangelsisyfirvöld að gerist. Ég bað stöðugt til Jehóva og fékk styrk frá anda hans og þeim ritningarstöðum sem ég mundi eftir.

Sérstaklega meðan ég var í Vladimirfangelsinu setti ég mig í spor Páls postula þegar hann talaði um að hann ‚væri aðþrengdur, en þó ekki ofþrengdur‘ og að hann væri ‚efablandinn, en örvænti þó ekki‘. (2. Korintubréf 4:8-10) Að ári liðnu var farið með mig aftur í fangabúðaþyrpinguna í Mordovíju. Í þessum búðum lauk ég 12 ára afplánunardómi 8. ágúst 1966. Þegar mér var sleppt úr haldi fékk ég einkunnina „óforbetranlegur“. Ég tók það sem opinbera sönnun þess að ég hefði verið Jehóva trúfastur.

Ég hef oft verið spurður að því hvernig við gátum fengið biblíutengd rit á meðan við vorum í sovéskum búðum og fangelsum og síðan afritað þau þrátt fyrir að reynt væri að koma í veg fyrir það. Það er leyndarmál sem fáir búa yfir eins og pólitískur kvenfangi frá Lettlandi lét í ljós, en hún hafði verið fjögur ár í kvennafangelsinu í Potma. „Einhvern veginn héldu vottarnir áfram að fá nóg af ritum,“ skrifaði hún eftir að henni var sleppt úr haldi árið 1966. „Það var eins og englar flygju yfir á næturnar og létu þau falla niður,“ sagði hún að lokum. Já, við gátum ekki starfað nema með hjálp Guðs.

Tiltölulega frjáls um hríð

Eftir að ég var látinn laus báðu þeir sem höfðu forystuna í boðunarstarfinu mig um að fara til Vestur-Úkraínu, nálægt Moldóvu, til að aðstoða moldóvsku bræðurna. Sem fyrrverandi fangi og undir smásjá KGB var mér samt þröngur stakkur skorinn. Þegar mér hafði verið hótað í tvö ár að vera sendur í fangelsi fór ég til sovéska lýðveldisins Kasakstan en þar litu yfirvöld sjaldan á persónuskilríki. Þegar foreldrar mínir veiktust alvarlega árið 1969 fór ég til Úkraínu til að annast þá. Í borginni Artyomosk, norðan við stórborgina Donetsk, hótaði KGB-foringi að senda mig aftur í fangelsi eins og sagt var frá í upphafi þessarar greinar.

Það kom á daginn að foringinn var aðeins að reyna að hræða mig. Sönnunargögn voru ekki nægileg til lögsóknar. Þar sem ég var ákveðinn í að sinna boðunarstarfinu áfram og KGB-menn yrðu á hælunum á mér næstum hvert sem ég færi hélt ég áfram að hugsa um foreldra mína. Þeir voru báðir trúfastir Jehóva til dauðadags. Faðir minn lést í nóvember 1969 en móðir mín lifði þar til í febrúar 1976.

Ég var fertugur þegar ég sneri aftur til Úkraínu. Meðan ég annaðist foreldra mína þar var ég í söfnuði með ungri konu sem hét Maria. Hún var aðeins átta ára þegar hún og foreldrar hennar, líkt og fjölskylda mín, voru flutt í útlegð frá Moldóvu til Síberíu snemma í apríl 1951. Mariu fannst ég syngja vel. Það var upphaf vináttu okkar og þó að við værum bæði mjög upptekin í boðunarstarfinu gátum við fundið tíma til að rækta vináttuna. Árið 1970 hafði ég talið hana á að giftast mér.

Það leið ekki á löngu þar til Lidia, dóttir okkar, fæddist. En 1983, þegar hún var tíu ára, sveik fyrrverandi vottur mig í hendur KGB-leynilögreglunnar. Þá var ég búinn að starfa næstum tíu ár sem farandumsjónarmaður um allan austurhluta Úkraínu. Þeim sem höfðu andúð á starfsemi vottanna tókst að fá einhverja til að bera falskan vitnisburð við réttarhöldin og ég fékk fimm ára dóm.

Í fangelsinu var ég einangraður frá öðrum vottum. Þrátt fyrir áralanga einangrun gat samt enginn mannlegur máttur hindrað aðgang minn að Jehóva og hann veitti mér ávallt styrk. Mér gafst auk þess tækifæri til að vitna fyrir öðrum föngum. Þegar ég hafði afplánað fjögur ár af dómnum var mér loks sleppt lausum og ég gat sameinast konu minni og dóttur sem báðar höfðu verið trúfastar Jehóva.

Aftur til Moldóvu

Við dvöldum annað ár í Úkraníu og snerum síðan aftur til Moldóvu fyrir fullt og allt þar sem þörf var á aðstoð frá þroskuðum og reyndum bræðrum. Á þessum tíma veittu sovésk yfirvöld rýmra ferðafrelsi. Við komum til Bălţi 1988 þar sem Maria hafði átt heima áður en hún var flutt í útlegð 37 árum fyrr. Árið 1988 voru um 375 vottar í þessari næststærstu borg Moldóvu en nú eru þeir orðnir töluvert yfir 1500. Ég þjónaði enn sem farandumsjónarmaður í Úkraínu þótt við ættum heima í Moldóvu.

Um það leyti sem starfsemi okkar var lögheimiluð í Sovétríkjunum í mars 1991 höfðu þúsundir manna orðið vonsviknar yfir því að kommúnisminn brást. Margir voru ráðvilltir og höfðu enga framtíðarvon. Þegar Moldóva varð sjálfstætt fullvalda lýðveldi reyndust því nágrannar okkar — og jafnvel sumir sem áður höfðu ofsótt okkur — vera móttækilegir fyrir fagnaðarerindinu. Eftir að við vorum flutt í útlegð 1951 voru tiltölulega fáir vottar eftir í Moldóvu en núna eru þeir talsvert yfir 18.000 í þessu litla landi þar sem búa aðeins um 4.200.000. Allt það dásamlega, sem við höfum upplifað, hefur þurrkað út þjáningar fortíðarinnar.

Um miðjan tíunda áratug síðustu aldar hætti ég að þjóna sem farandumsjónarmaður vegna vanheilsu. Það koma tímar þegar heilsuleysið dregur úr mér kjark. En ég hef komist að raun um að Jehóva veit hvað þarf til að uppörva okkur. Hann veitir okkur þá hvatningu sem við þurfum á réttum tíma. Myndi ég kjósa annan lífsveg ef ég hefði tækifæri til að lifa ævi mína upp á nýtt? Nei, ég kysi öllu heldur að hafa verið kjarkaðri, athafnasamari og kröftugri í þjónustu minni.

Mér finnst Jehóva hafa blessað mig og að allir þjónar hans njóti blessunar án tillits til kringumstæðna. Við höfum bjarta von, lifandi trú og fullvissu um að bráðlega muni allir búa við fullkomna heilsu í nýjum heimi Jehóva.

[Neðanmáls]

^ Núverandi nafn á landinu, Moldóva, verður notað í þessari grein í stað fyrri nafnanna Moldavía eða Sovétlýðveldið Moldavía.

^ Fyrstu tvær helgarnar í apríl 1951 unnu Sovétmenn samkvæmt vel skipulagðri áætlun. Þeir smöluðu saman yfir 7000 vottum Jehóva og fjölskyldum þeirra, sem áttu heima í vesturhluta Sovétríkjanna, og fluttu með lest þúsundir kílómetra austur á bóginn í útlegð til Síberíu.

[Mynd á blaðsíðu 21]

Heimili okkar í útlegðinni í Torba í Siberíu 1953. Foreldrar mínir (til vinstri). Vasile bróðir minn og sonur hans (til hægri).

[Mynd á blaðsíðu 21]

Í fangabúðum árið 1955.

[Mynd á blaðsíðu 23]

Trúsystur í Síberíu þegar Maria (neðst til vinstri) var um tvítugt.

[Mynd á blaðsíðu 23]

Með dóttur okkar Lidiu.

[Mynd á blaðsíðu 23]

Brúðkaupið okkar árið 1970.

[Mynd á blaðsíðu 23]

Maria og ég.