Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Hundalíf

„Ástralar eyða meiru í gæludýr en hjálparstarf,“ segir í dagblaðinu The Sydney Morning Herald. „Demantsskart, andfýlueyðir og björgunarvesti fyrir hunda er meðal þess sem Ástralar kaupa fyrir gæludýrin sín og eyða um 2,2 milljörðum dollara [um 100 milljörðum íslenskra króna] í þess konar hluti á ári.“ Jason Gram, sem á gæludýrabúð, tók eftir þessari breyttu afstöðu til gæludýra á síðasta áratug. „Hundar voru yfirleitt hafðir í bakgarðinum, allir í lús og nöguðu bein,“ sagði hann. „Núna eru þeir innandyra, sitja á mjúku rúmi og hafa hálsól með gervidemöntum.“ Hann talaði hins vegar um að þessi breyting hefði verið til góðs fyrir fyrirtæki þar sem nú er farið með hunda eins og þeir séu hluti af fjölskyldunni og þeir fái alls konar dýra hluti. Í dagblaðinu kom fram að þó að farið sé með sum gæludýr „eins þau hafi mannlegar þarfir og langanir og séu næm fyrir fegurð“ er „ekkert sem bendir til að hundar taki leikfang, sem kostar 50 dollara [um 2500 íslenskar krónur], fram yfir leikfang sem kostar 5 dollara [um 250 íslenskar krónur]. Þetta dekur virðist hins vegar fullnægja þörf eigandans til að sýna ást.“

Að ala upp tvítyngd börn

„Þegar börn eru alin upp með þolinmæði og tillitsemi getur það reynst mikils virði fyrir þau, fjölskyldur þeirra og þjóðfélagið að tala fleiri en eitt tungumál,“ segir í dagblaðinu Milenio sem gefið er út í Mexíkóborg. Rannsóknir hafa sýnt að „börn, sem tala tvö tungumál, ná betri árangri í skóla en þau sem tala aðeins eitt tungumál“. Stundum hafa foreldrar áhyggjur af því þegar börnin blanda saman orðum úr báðum tungumálum í sömu setningunni eða beita reglum annars tungumálsins í hinu. „En þessar málfræðivillur skipta litlu máli og hverfa fljótt,“ segir Tony Cline, prófessor í sálfræði sem sérhæfir sig í málþroska barna. Börnin drekka auðveldlega í sig tungumál beggja foreldra ef þeim eru kennd þau frá fæðingu og með tímanum geta börnin talað bæði tungumálin hvort í sínu lagi.

Einelti á Netinu

Farsímar og Netið skipa mikilvægan sess í félagslífi margra unglinga. „Þetta tvennt getur einnig gert út af við félagslíf þeirra“ þar sem „netþrjótar“ geta notað tölvupóst, spjallrásir og SMS-skilaboð til að kvelja fórnarlömb sín. Þetta kemur fram í kanadíska tímaritinu Maclean’s. „Fjórðungur ungra netnotenda í Kanada segist hafa fengið sent efni sem innihélt hatursfull orð um aðra,“ sagði tímaritið. Vegna slíks eineltis á Netinu hefur lögreglan þurft að minna á að það er glæpur að senda skriflegar morðhótanir. Tímaritið ráðleggur foreldrum að tala við börnin sín um þær vefsíður sem þau fara á og það fólk sem þau hafa samband við á Netinu. Einnig var hvatt til þess að hafa tölvur á opnu svæði á heimilinu þar sem auðvelt er að fylgjast með því hvað börnin eru að lesa og senda. Í greininni voru börn hvött til að svara aldrei skilaboðum frá „netþrjótum“ og „láta engan hafa notendanafn eða lykilorð sín, jafnvel ekki bestu vini“, til þess að koma í veg fyrir að aðrir komist yfir persónuupplýsingar.

Byssur breyta þjóðfélögum

„Svo mikið er um vopn, og þá sérstaklega handvopn, að þau verða einum manni að aldurtila á hverri mínútu eða rúmlega 500.000 á ári [um allan heim].“ Þetta kemur fram í Lundúnarblaðinu The Independent. „Árið 2001 voru framleiddir 16 milljarðar skota fyrir heri en það er nóg til að skjóta alla jarðarbúa tvisvar.“ Næstum átta milljónir skotvopna eru framleiddar á hverju ári og er meirihlutinn ætlaður almenningi. Fram kom í könnun frá Amnesty International, Oxfam og International Action Network on Small Arms „að byssur hafa breytt þjóðfélögum sem voru eitt sinn frekar friðsæl og þar sem ágreiningur var áður útkljáður með hnefum eða hnífum“. Í landi nokkru eru hríðskotarifflar notaðir sem gjaldmiðill og í öðru landi var enskukennara, sem kenndi eldri konu, borgað með handsprengjum. Fram kom í könnuninni að í enn einu landi „væru börn nefnd ‚Uzi‘ og ‚AK‘ eftir uppáhaldshríðskotarifflum föðurins“.