Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Nýtt heimili fyrir særðan spörfugl

Nýtt heimili fyrir særðan spörfugl

Nýtt heimili fyrir særðan spörfugl

„HÖFUM við ekki nóg að gera nú þegar?“ Þannig brást ég fyrst við þegar konan mín kom heim með lítinn gráspör sem hafði fallið úr hreiðri sínu. Þegar ég leit betur á þennan skjálfandi fugl bræddi hann hjarta mitt. Ég velti því samt fyrir mér hvort þessi veikburða fugl gæti lifað af. *

Í fyrstu þurftum við að hafa svolítið fyrir því að fá fuglinn til að éta pínulítið af mauki. En strax næsta dag var litli spörfuglinn farinn að skríkja reglulega til að fá mat. Það var meira að segja hægt að heyra í honum alla leið inn á stigaganginn í gegnum tvöfaldar hurðir á íbúðinni!

Af fjaðraskrauti fuglsins var ljóst að þetta var kvenfugl. Með tímanum náði hann að safna kröftum og gat flogið. Þó að við reyndum að fá hann til að fara aftur út í náttúruna tókst það ekki. Við hugsuðum með okkur að hann væri kannski ekki nógu hugrakkur til að yfirgefa heimilið. Við keyptum því fuglabúr og gerðum hann að gæludýrinu okkar. Við nefndum hann „Spatzi“ en það er gæluorð fyrir „spörfugl“ á þýsku.

Dag einn suðum við hrísgrjón fyrir Spatzi en það virðist vera einn af uppáhaldsmatnum hennar. Þar sem hrísgrjónin voru enn þá frekar heit setti konan mín þau til hliðar og dreifði nokkrum fræjum fyrir framan Spatzi í staðinn. Hvað gerði litli fuglinn? Hann hallaði höfðinu og notaði síðan gogginn til að ýta fræjunum fram af borðbrúninni. Við hjónin urðum hissa, horfðum hvort á annað og hlógum. Við settum snarlega lítið eitt af hrísgrjónum, sem höfðu kólnað, fyrir framan Spatzi og hún virtist nokkuð ánægð með það.

Þegar við önnumst þennan indæla litla fugl hugsum við um það sem Jesús sagði við lærsveina sína: „Eru ekki tveir spörvar seldir fyrir smápening? Og ekki fellur einn þeirra til jarðar án vitundar föður yðar.“ Síðan sagði hann við þá: „Verið því óhræddir, þér eruð meira verðir en margir spörvar.“ — Matteus 10:29-31.

Það er mjög hughreystandi að vita til þess að Jehóva tekur eftir því þegar við glímum við erfiðleika og hann man eftir þolgæði okkar. (Jesaja 63:9; Hebreabréfið 6:10) Já, umhyggjan, sem við berum til lítils fugls, er aðeins brot af þeim kærleika sem Jehóva Guð ber til þjóna sinna. — Aðsent.

[Neðanmáls]

^ Í sumum tilfellum getur heilsu manna stafað hætta af því að taka veikan eða slasaðan fugl inn á heimilið eða það getur stangast á við reglugerðir.