Að metta milljarð manna
Að metta milljarð manna
DAGLEGA nær milljarður manna ekki að seðja hungur sitt. Þetta er skelfilegt tilhugsunarefni og ætti ekki að þekkjast, að sögn Sameinuðu þjóðanna.
„Þið hafið sagt að það sé forgangsmál hjá ykkur að útrýma örbirgð.“ Þetta sagði Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna á fundi sem valdamestu karlar og konur heims héldu hinn 8. september árið 2000. Þjóðarleiðtogar voru samankomnir á svokallaða árþúsundamótaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna þar sem allmargir þeirra tjáðu sig tæpitungulaust um erfiðleika hinna fátæku í heiminum. „Örbirgð er lítilsvirðing gagnvart mannkyninu,“ sagði varaforseti Brasilíu. Forsætisráðherra Bretlands gekk skrefinu lengra og sagði: „Það er bæði hneykslanlegt og siðmenningunni til skammar hve þróuðu ríkin í heiminum hafa staðið sig ömurlega í Afríku.“
Þessir tveir mælendur sögðu berum orðum að þjóðir heims hefðu orðið sér til skammar með því að gera ekki það sem þær geta til að næra hina hungruðu í heiminum. Þjóðarleiðtogar lýstu yfir vilja sínum til að bæta lífsskilyrði allra jarðarbúa og skuldbundu sig til að láta verkin tala. Þeir samþykktu ályktun í átta liðum þar að lútandi þar sem segir meðal annars: „Við munum leggja allt kapp á að frelsa meðbræður okkar, karla, konur og börn, úr ánauð örbirgðar sem hneppt hefur meira en milljarð þeirra í fjötra sína. . . . Við ályktum enn fremur: Að minnka um helming það hlutfall jarðarbúa sem hefur innan við einn dollara á dag í tekjur og hlutfall þeirra sem búa við hungur. Þessu markmiði skal náð árið 2015.“
Hvernig hefur miðað í átt að þessu göfuga markmiði síðan í september árið 2000?
Verkin segja meira en orðin
Árið 2003 hóf Alþjóðaefnahagsráðið (World Economic Forum) úttekt á því hvað gert hefði verið til að ná þeim markmiðum sem sett voru fram í árþúsundamótayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Í skýrslu ráðsins, sem birt var 15. janúar 2004, segir: „Þjóðir heims sýna alls ekki þá viðleitni sem þarf til að ná neinum af mikilvægustu markmiðum sínum.“ Um hungrið í heiminum segir í skýrslunni: „Vandinn er ekki sá að það skorti matvæli í heiminum. Það er nóg til handa öllum.
Vandinn er sá að þeir sem eiga ekki peninga fá ekki tiltæk matvæli og fullnægjandi næringu.“Um fátækt almennt segir í skýrslunni: „Ábyrgðin á slakri frammistöðu liggur fyrst og fremst hjá stjórnvöldum, bæði ríkum og fátækum. En hagkerfi heimsins, sem er hannað af hinum ríku, er of oft sett þannig upp að það er hinum fátækustu í óhag. Þótt ríku þjóðirnar tali fjálglega sýna þær lítinn áhuga á að betrumbæta þetta kerfi eða auka svo um munar þróunaraðstoð við hina fátækustu.“ Þrátt fyrir þessar ákúrur halda stjórnmálamenn áfram að deila í stað þess að framkvæma, og ríkisstjórnir halda áfram að skara eld að sinni köku. Og hinir fátæku í heiminum svelta á meðan.
Alþjóðaefnahagsráðið hefur gefið út upplýsingablað með yfirskriftinni „Frá væntingum til verka“. Þar er varað við því að „hungur eigi eftir að vaxa á stórum svæðum jarðar nema stefnan í alþjóðaviðskiptum breytist, þjóðir setji það á stefnuskrá að berjast gegn hungri og aðgerðir, sem hafa reynst árangursríkar á hungursvæðunum, verði stórauknar“. Og hverjir þurfa að ‚stórauka aðgerðir sem hafa reynst árangursríkar á hungursvæðum‘? Sömu ríkisstjórnir og lýstu opinberlega yfir þeim ásetningi árið 2000 að bæta hlutskipti alls mannkyns.
Eitt svikið loforð getur valdið vonbrigðum en nokkur svikin loforð eru ávísun á vantraust. Með því að standa ekki við orð sín um að annast fátæka hafa ríkisstjórnir heims uppskorið vantraust. Fimm barna móðir í fátæku ríki í Karíbahafi getur gefið fjölskyldunni að borða einu sinni á dag. Hún segir: „Ég hugsa bara um það hvort við fáum að borða. Mér er alveg sama hver er við völd. Við höfum aldrei fengið eitt né neitt frá ráðamönnum.“
Biblíuritarinn Jeremía sagði: „Ég veit, Drottinn, að örlög mannsins eru ekki á hans valdi, né það heldur á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.“ (Jeremía 10:23) Getuleysi mannlegra stjórnvalda til að leysa vandamál fátækra í heiminum staðfestir þessi orð Biblíunnar.
Sá valdhafi er þó til sem bæði getur og vill leysa vandamál mannkynsins og Biblían segir hver hann er. Þegar hann tekur við völdum þarf enginn að svelta framar.
Grundvöllur vonar
„Allra augu vona á þig, og þú gefur þeim fæðu þeirra á réttum tíma.“ (Sálmur 145:15) Hver er það sem gefur gaum að fæðuþörf mannsins? Það er skaparinn, Jehóva Guð. Þó að mannkynið hafi mátt þola hungursneyðir og aðrar þrautir um þúsundir ára hefur Jehóva alltaf látið sér annt um mennina. Hann hefur horft upp á mistök og getuleysi mannlegra stjórna og segir í óskeikulu orði sínu, Biblíunni, að hann ætli bráðlega að víkja þeim frá og setja sína eigin stjórn á laggirnar.
Jehóva segir: „Ég hefi skipað konung minn á Síon, fjallið mitt helga.“ (Sálmur 2:6) Þessi yfirlýsing æðsta yfirvalds í alheimi gefur tilefni til vonar. Mennskir valdhafar hafa þráfaldlega brugðist þegnum sínum en Jesús Kristur, konungurinn sem Guð hefur skipað til valda, mun hins vegar veita fátækustu jarðarbúum gæði sem þeir hafa aldrei áður séð.
Fyrir atbeina þessa konungs mun Jehóva metta alla hungraða í heiminum. „Drottinn allsherjar mun á þessu fjalli búa öllum þjóðum veislu með krásum,“ segir í Jesaja 25:6. Fólk mun aldrei skorta mat undir stjórn Guðsríkis og gildir þá einu hvar í heiminum það býr. Biblían segir um Jehóva: „Þú lýkur upp hendi þinni og seður allt sem lifir með blessun.“ — Sálmur 145:16.
[Innskot á blaðsíðu 29]
„Það er bæði hneykslanlegt og siðmenningunni til skammar hve þróuðu ríkin í heiminum hafa staðið sig ömurlega í Afríku.“ — Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands.
[Mynd á blaðsíðu 28]
EÞÍÓPÍA: Um 13 milljónir manna eru háðar matvælaaðstoð. Barnið á myndinni fyrir ofan er í þeim hópi.
[Mynd á blaðsíðu 28]
INDLAND: Þessir nemendur fá mat í skólanum.
[Mynd credit line á blaðsíðu 28]
Að ofan: © Sven Torfinn/Panos Pictures; að neðan: © Sean Sprague/Panos Pictures