Getur stjörnuspeki varpað ljósi á framtíð þína?
Sjónarmið Biblíunnar
Getur stjörnuspeki varpað ljósi á framtíð þína?
HVERNIG geturðu bætt líf þitt og aukið velgengni þína í peninga- og ástarmálum? Margir leita svara í stjörnuspekinni. Á hverjum degi lesa milljónir manna stjörnuspár dagblaðanna í von um betri framtíð. Þess eru jafnvel dæmi að þjóðarleiðtogar hafi tekið ákvarðanir með hliðsjón af stjörnuspám.
Er hægt að treysta stjörnuspekinni? Hvernig búa stjörnuspáfræðingar til spár sínar? Ætti kristið fólk að láta himintunglin ráða því hvernig það lifir lífinu?
Hvað er stjörnuspeki?
Samkvæmt Íslensku alfræðiorðabókinni er stjörnuspeki „fræði þar sem leitast er við að finna samræmi á milli stöðu reikistjarna og persónuleika manns með hjálp stjörnukorts“. Stjörnuspekingar telja að innbyrðis afstaða stjarnanna og stjörnumerkja dýrahringsins við fæðingu manns geti haft áhrif á líf hans. * Staða stjarnanna á hverjum tíma er kölluð stjörnuspákort.
Stjörnuspekin er ævaforn. Babýloníumenn byrjuðu fyrir um 4000 árum að spá fyrir um framtíðina með hliðsjón af stöðu sólarinnar, tunglsins og þeirra fimm reikistjarna sem voru sýnilegastar. Þeir héldu því fram að himintunglin gæfu frá sér ákveðna orku sem hefði áhrif á hegðun mannsins. Seinna bættu þeir stjörnumerkjum dýrahringsins við spár sínar.
Rangar spár fyrr og nú
Biblían bendir á tengslin milli stjörnuspeki og Babýlonar og nefnir stjörnuspekinga hennar nokkrum sinnum. (Daníel 4:7; 5:7, 11) Á dögum Daníels spámanns var stjörnuspeki svo útbreidd í Kaldeu (Babýlon) að heitið Kaldear var nánast notað sem samheiti yfir stjörnuspekinga.
Daníel 2:27) Taktu eftir hvað Jesaja spámaður sagði tveimur öldum áður. „Lát því himinfræðingana og stjörnuskoðarana koma og hjálpa þér, þá er á mánuði hverjum boða þér, hvað yfir þig á að koma,“ skrifaði hann með fyrirlitningu. „Þeir geta ekki bjargað lífi sjálfra sín.“ — Jesaja 47:13, 14.
Daníel varð ekki aðeins vitni að áhrifum stjörnuspekinnar í Babýlon heldur líka að því hvernig stjörnuspekingum mistókst að spá falli borgarinnar. (Babýlonsku stjörnuspekingarnir gátu ekki einu sinni séð fyrir fall borgarinnar með nokkurra klukkustunda fyrirvara. Og þegar dómur Guðs birtist á veggjum hallar Belsasars konungs voru stjörnuspekingarnir ófærir um að þýða hið dularfulla letur. — Daníel 5:7, 8.
Stjörnuspekingar nútímans hafa ekki staðið sig betur í að spá fyrir um mikilvæga atburði. Eftir að hafa rannsakað yfir 3000 slíkar stjörnuspár komust vísindamennirnir R. Culver og Phillip Ianna að þeirri niðurstöðu að einungis 10 prósent þeirra hefðu staðist. Vel upplýstur sérfræðingur hefði getað gert betur.
Í mótsögn við kenningar Biblíunnar
Hebresku spámennirnir höfnuðu stjörnuspeki ekki aðeins vegna þess hve illa henni tókst að spá fyrir um framtíðina. Lögmálið, sem Guð gaf Móse, varaði Ísraelsmenn sérstaklega við því að leita fyrirboða og stunda spásagnir. Í lögmálinu sagði: „Eigi skal nokkur finnast hjá þér . . . sá er fari með galdur eða spár eða fjölkynngi . . . Því að hver sá, er slíkt gjörir, er Drottni andstyggilegur.“ — 5. Mósebók 18:10, 12.
Þó að stjörnuspeki sé ekki nefnd beint í þessum versum fellur hún samt augljóslega undir þessi bönn. Íslenska alfræðiorðabókin segir að stjörnuspáfræði séu „fræði sem felast í því að reyna að segja fyrir um framtíðina eftir afstöðu reikistjarna, fastastjarna og stjörnumerkja“. Allar slíkar spár, hvort sem þær eru byggðar á stjörnunum eða öðru, ganga í berhögg við meginreglur Guðs. Hvers vegna? Það er góð og gild ástæða fyrir því.
Við ættum hvorki að þakka stjörnunum velgengni okkar né kenna þeim um ófarir okkar því að Biblían segir skýrum stöfum: „Það sem maður sáir, það mun hann og uppskera.“ (Galatabréfið 6:7) Við höfum frjálsan vilja þannig að Guð ætlast til að við séum ábyrg gerða okkar. (5. Mósebók 30:19, 20; Rómverjabréfið 14:12) Auðvitað getum við lent í slysi eða orðið veik án þess að fá nokkru um það ráðið. En það er ekki stjörnuspánni að kenna heldur vegna þess „að tími og tilviljun mætir [okkur] öllum“ eins og Biblían bendir á. — Prédikarinn 9:11.
Biblían hvetur okkur til að íklæðast meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð, langlyndi og elsku í öllum samskiptum við aðra menn. (Kólossubréfið 3:12-14) Slíkir eiginleikar eru lykillinn að varanlegri vináttu og sterku hjónabandi. Það er ekki örugg aðferð að velja sér maka eftir því hvort stjörnumerkin séu talin eiga vel saman. Sálfræðingurinn Bernard Silverman rannsakaði stjörnuspákort 3500 hjóna, en 17% þeirra höfðu sótt um skilnað. Hann komst að því að skilnaðartíðni hjá fólki, sem átti að eiga vel saman miðað við stjörnuspákortin, var ekki lægri en hjá öðrum.
Það er augljóst að stjörnuspeki er bæði óáreiðanleg og blekkjandi. Ef við trúum á hana gætum við leyft okkur að skella skuldinni á stjörnurnar þegar við gerum mistök í stað þess að taka ábyrgð á gerðum okkar. En mestu máli skiptir að stjörnuspeki er greinilega fordæmd í orði Guðs.
[Neðanmáls]
^ gr. 6 Dýrahringurinn samanstendur af 12 stjörnumerkjum sem notuð eru í stjörnuspekinni.