Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Hvaða orð er erfiðast að þýða?

Fréttastofan BBC News segir að „það orð í heiminum, sem erfiðast sé að þýða, sé orðið ‚ilunga‘ á tungumálinu tsílúba“. Þetta tungumál er talað í Alþýðulýðveldinu Kongó. Í könnun, sem gerð var meðal þúsund málvísindamanna, var ilunga talið erfiðasta orðið í þýðingu. Orðið merkir „sá sem er fús til að fyrirgefa hvað sem er í fyrsta skipti, umbera það í annað skipti en aldrei í það þriðja“. Annað orð, sem fékk mörg atkvæði, var japanska orðið naa. Orðið er notað „til að leggja áherslu á það sem er sagt eða taka undir með einhverjum og er aðeins notað á Kansaisvæðinu í Japan.“ Jurga Zilinskiene, formaður þýðingar- og túlkunarþjónustunnar sem hafði umsjón með könnuninni, segir: „Fólk gleymir því stundum að túlkur . . . þarf ekki aðeins að þýða frá einu tungumáli yfir á annað heldur einnig frá einu menningarsamfélagi til annars [og] stundum er samsvarandi hugmynd einfaldlega ekki til í báðum menningarsamfélögunum.“

Blóðgjafir hækka dánartíðni

Í niðurstöðum rannsóknar, sem birt var í JAMA (tímariti Bandaríska læknafélagsins), kemur fram að dánartíðni sjúklinga með brátt kransæðaheilkenni var hærri hjá þeim sem fengu blóðgjöf en þeim sem fengu ekki blóðgjöf. „Dánartíðni sjúklinga, sem fengu blóðgjöf, reyndist hærri þótt tekið hefði verið tillit til lýðfræðilegra þátta og spítalaatvika, svo sem blæðinga og inngripsaðgerða,“ segir í greininni. Læknarnir, sem gerðu rannsóknina, drógu niðurstöðurnar saman í eftirfarandi: „Við vörum við því að blóð sé gefið að staðaldri til að viðhalda fyrir fram gefnum blóðkornaskilum hjá sjúklingum sem eru með hjartasjúkdóm af völdum blóð­þurrðar ef ástand þeirra er stöðugt.“

Tóbak skaðar allan líkamann

„Reykingafólk skaðar ekki aðeins lungun og slagæðarnar heldur einnig alla vefi líkamans,“ segir í tímaritinu New Scientist. Í skýrslu landlæknis Bandaríkjanna, Richards H. Carmona, eru nefndir margir sjúkdómar sem rekja má til reykinga, meðal annars lungnabólga, hvítblæði, starblinda, tannholdssjúkdómar og krabbamein í nýrum, leghálsi, maga og brisi. „Við höfum lengi vitað að reykingar eru skaðlegar en þessi skýrsla sýnir að þær eru jafnvel enn verri en við héldum,“ segir Carmona. „Eiturefni í tóbaksreyknum berast út um allt með blóðinu.“ Sumir halda að þeir geti dregið úr skaðanum með því að nota sígarettur sem innihalda minni tjöru og nikótín. En Carmona segir: „Það er ekki til skaðlaus sígaretta, hvort sem hún er kölluð ‚light‘, ‚ultra light‘ eða eitthvað annað.“ Hann bendir á að reykingamenn deyi yfirleitt 13 til 14 árum fyrr en þeir sem ekki reykja. „Reykingar valda sjúkdómum í nánast öllum líffærum hvenær sem er á ævinni,“ segir Carmona í frétt í dagblaðinu The New York Times.

Að smíða leiktæki úr vopnum

Í Brasilíu hefur verið gert átak til að fækka vopnum í eigu landsmanna. Greiddar voru bætur á bilinu 2000 til 6500 krónur fyrir hvert vopn sem skilað var inn. Fréttavefurinn Folha Online skýrði frá því að safnað hefði verið meira en 200.000 vopnum í landinu frá júlí til desember árið 2004. Vopnin, sem söfnuðust í São Paulo, voru pressuð, brædd og þeim síðan breytt í leiktæki sem komið var fyrir í almenningsgarði í borginni. Í garðinum eru núna vegasalt, rólur og rennibraut, allt gert úr endurunnum vopnum. Dómsmálaráðherrann Márcio Thomaz Bastos harmar það að fólk skuli drepa hvert annað vegna smávægilegra mála og segir: „Ein meginástæðan fyrir átakinu er sú að innleiða friðarmenningu.“