Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Hvítir drekar“ sem ógna

„Hvítir drekar“ sem ógna

„Hvítir drekar“ sem ógna

EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Í SVISS

Hvað flýgur vængjalaust, slær handalaust og sér augnalaust? — Gáta frá miðöldum um snjóflóð.

SNJÓFLÓÐ geta grafið göngugarpa á augabragði og jafnvel flætt yfir heilu þorpin. Þau hafa því í sumum tungumálum verið kölluð hvítir drekar eða hvítidauði. Hvað veldur þessum ógnvekjandi náttúrufyrirbærum? Þeir sem búa nálægt snæviþöktum fjöllum vita vel hvert svarið er. En þeir sem búa í hitabeltislöndum eða á láglendi hafa kannski ekki eins miklar áhyggjur þar sem þeir vita að þeim stafar engin hætta af þeim nema þeir hætti sér á snjóflóðasvæði.

Snjóflóðahætta myndast í háum fjöllum þar sem snjóar oft og mikið. Þegar snjóflóð fer af stað blandast saman gífurlegt magn af snjó, ís, jarðvegi, steinum og ýmsu öðru eins og trjádrumbum sem þeysist niður fjallshlíð eða fram af þverhnípi og eyðileggur iðulega allt sem fyrir verður. Það er ekki aðeins þyngdin og krafturinn í snjóflóðum sem veldur tjóni heldur getur loftbylgjan á undan þeim einnig jafnað þykka trjáþyrpingu við jörðu og skemmt annað sem verður á vegi hennar eins og brýr, vegi og lestarteina.

Eðlilegur hluti af náttúrunni

Þessi mikli hvíti massi, sem þýtur með ógnarhraða niður fjallshlíð, samanstendur aðallega af örsmáum snjókornum. Hvernig getur nokkuð jafnfallegt og flögrandi snjókorn orðið að banvænu og dynjandi snjóflóði? Svarið er að finna í lögun og gerð snjókorna. Þau geta verið kristalar, smákorn eða högl. Kristalslöguðu snjókornin eru alltaf sexarma stjörnur sem finna má í óendanlega mörgum myndum. Hvert einstakt snjókorn er undur í sjálfu sér. Eftir að kristalslöguðu snjókornin hafa fallið til jarðar geta þau breytt um lögun. Hitastigsmunur og þrýstingur frá samansöfnuðum snjó veldur því að kristalarnir smækka eftir að snjórinn hefur fallið til jarðar. Á aðeins einum sólarhring getur 30 sentímetra nýfallinn snjór þjappast saman í einungis tíu sentímetra.

Stöðugleiki snjóþekjunnar í fjallshlíðunum fer að miklu leyti eftir lögun snjókornanna. Sexarma kristalar læsast saman en fínkorna snjór og högl rúlla hvert yfir annað og mynda óstöðug snjólög. Þessi snjólög geta auðveldlega runnið yfir þéttara snjólag fyrir neðan. Það er því ýmislegt sem hefur áhrif á það hvort snjóflóð fer af stað eða ekki, til dæmis tegund snjóþekjunnar, snjókoman, brattinn á svæðinu, hitastigið og vindhraðinn. Maður eða dýr, sem fer um bratta fannbreiðu, getur líka óafvitandi komið af stað snjóflóði. En það eru líka til aðrar gerðir snjóflóða.

Kófhlaup fara af stað þegar sterkur vindur feykir upp blöndu af smákornum og nýföllnum kristalslaga snjókornum, en þetta er einmitt lausamjöllin sem skíðamenn eru svo hrifnir af. Þar sem snjórinn er léttur þyrlast hann upp í loftið og getur streymt niður dalinn á meira en 300 kílómetra hraða á klukkustund. Þegar þetta gerist myndast svo mikill loftþrýstingur á undan snjónum að höggbylgjan getur rifið þök af húsum og jafnvel eyðilagt heilu húsin á aðeins örfáum sekúndum.

Mannskæðustu snjóflóðin eru þurr flekahlaup. Þau verða til þegar gamall snjór þjappast saman og þéttist með tímanum og myndar harða snjóþekju. Þegar efsta lagið af snjónum brotnar frá geta feiknastórir ísflekar runnið niður fjallshlíð á 50 til 80 kílómetra hraða á klukkustund. Svona íshellur geta líka hangið fram af klettasyllu. Skíðamönnum getur stafað mikil hætta af þeim þar sem ekki þarf meira til en þyngd eins manns til að brjóta hana af og koma af stað snjóflóði sem gæti grafið hann á örfáum sekúndum.

Á vorin er jafnvel enn meiri hætta á snjóflóðum. Bæði rigning og sterkt sólskin gerir snjóinn linan og það veldur oft votum flekahlaupum. Þau fara ekki eins hratt en allur snjórinn í brekkunni getur verið á leiðinni niður. Snjórinn getur rifið með sér hnullunga, tré og jarðveg sem safnast saman í stóra moldarhauga þar sem snjórinn stoppar.

Skriðjöklum svipar að mörgu leyti til snjóflóða. Jöklar eru þykk breiða af harðfrosnum snjó sem myndast á hálendi eða á mjög köldum svæðum þar sem snjórinn bráðnar aldrei. En með tímanum frýs snjórinn og verður að gegnheilum ís. Skriðjöklar skríða mjög hægt. Þar sem auðvelt er að sjá fyrir hvernig þeir eiga eftir að hreyfast valda þeir sjaldan miklum skaða eða tjóni.

Hvar er hætta á snjóflóðum?

Það er ekki á öllum snæviþöktum fjallasvæðum á jörðinni sem hætta er á snjóflóðum. Snjóflóðahætta skapast einkum á svæðum þar sem há fjöll eru og loftslagið er nógu kalt til að það snjói. Tölur sýna að á hverju ári verði um það bil ein milljón snjóflóða í heiminum. Nefna má sum hættusvæði í Andesfjöllum í Suður-Ameríku, Klettafjöllum í Norður-Ameríku, Himalajafjöllum í Asíu og svo auðvitað Alpafjöllum í Evrópu sem liggja frá Frakklandi norðaustur yfir Sviss, Þýskaland og Austurríki. Á byggðum svæðum í þessum löndum farast um 200 manns á ári hverju í snjóflóðum, þar á meðal 26 í Sviss.

Tvö gríðarlega mannskæð snjóflóð hafa fallið í Andesfjöllum í Perú. Árið 1962 brotnaði kílómetra langur ísfleki af 50 metra þykkri jökulhettu á fjallinu Huascarán sem er 6768 metra hátt. Þetta fjögurra milljón tonna ísflikki var á stærð við fjórar Empire-State-byggingar! Það fór 18 kílómetra leið á 15 mínútum. Sjö þorp urðu undir snjónum og á milli 3000 og 4000 manns létust í snjóflóðinu en það var 13 metra djúpt og náði yfir tveggja kílómetra breitt svæði. Árið 1970 átti svipaður atburður sér stað á sama fjalli. En í þetta skipti losaði jarðskjálfti heila jökulhettu á norðlægum tindi. Stór hluti af fjallinu hrundi líka niður. Þúsundir tonna af snjó, stórgrýti og ís steyptust niður þröngt gljúfur á 300 kílómetra hraða á klukkustund og rifu með sér hús og hnullunga á leiðinni. Talið er að 25.000 manns hafi farist. Hvað er hægt að gera til að vernda þá sem búa á fjallendi svo að svona harmleikir endurtaki sig ekki?

Er hægt að hindra snjóflóð?

Hægt er að koma í veg fyrir sum snjóflóð en önnur ekki. Engin leið er að afstýra snjóflóðum af völdum veðurs. Þau eru jafneðlileg og rigningin sem fellur af húsþökum. Þau eru eðlilegur hluti af árstíðaskiptunum. En reynslan hefur kennt yfirvöldum að grafa jarðgöng eða reisa vegskála til að vernda umferðaræðar og leyfa ekki að ný hús séu byggð á hættusvæðum. Hins vegar er hægt að koma í veg fyrir snjóflóð af völdum gálausra manna eins og fífldjarfra skíðamanna sem hunsa viðvaranir og bönn.

Yfirvöld í Sviss hafa lært af reynslunni að gera varúðarráðstafanir. Árið 1931 var stofnuð svissnesk rannsóknarnefnd og árið 1936 tók fyrsti hópurinn af hugrökkum rannsóknarmönnum sér á hendur vísindarannsóknir í 2690 metra hæð á Weissfluhjoch-svæðinu fyrir ofan bæinn Davos. Árið 1942 var síðan Snjóflóða- og snjórannsóknarstofnun Sviss sett á laggirnar. Komið var á fót nokkrum öðrum athugunarstöðvum á ýmsum stöðum á fjöllunum. Þessar stofnanir auðvelda mönnum að spá fyrir um veðurbreytingar og þær veita reglulega viðvaranir um snjóflóðahættu í brekkum á bersvæði.

Engu að síður er ekki hægt að sjá allar veðurbreytingar fyrir og hættan er alltaf til staðar. Þess vegna verða allir sem búa á hættusvæði eða fara í frí á fjallaslóðum að vetrarlagi að gæta þess að valda ekki snjóflóði. Athyglisvert er að tilraunir, sem gerðar voru í Frakklandi, leiddu í ljós að hljóðbylgjur frá þotum geta ekki komið af stað snjóflóðum, og ólíkt því sem áður var talið getur mannsröddin það ekki heldur.

Varnaraðgerðir yfirvalda

Fljótlega eftir að fólk fór að setjast að í fjallahéruðum gerði það sér grein fyrir hættunni á snjóflóðum. Menn gróðursettu skóglendi í hlíðarnar fyrir ofan hús sín til að koma í veg fyrir að þau yrðu undir snjóflóðum. Í mörgum tilfellum virkuðu þessar varnir vel og því sjá yfirvöld enn þá um að viðhalda þessum friðlýstu skógum. Þeir eru besta náttúrulega vörnin gegn snjóflóðum. En reynslan hefur kennt mönnum að skógarnir verða að vera þéttir, með nokkur hundruð tré á hvern hektara og bæði eldri og yngri tré af ýmsum tegundum.

Á undanförnum árum hafa verkfræðingar búið til snjóflóðagirðingar úr málmi sem festar eru í steypu í jörðina. Þeim er komið fyrir á svæðum þar sem hætta er á að snjóflóð hefjist en það er fyrir ofan efsta trjábeltið. Þær geta verið allt að fjögurra metra háar en það væri of dýrt að setja þær í hverja brekku. Einnig hafa verið gerðir varnargarðar úr risastórum haugum af grjóti og jarðvegi neðst í hlíðunum til að koma í veg fyrir að hús lendi undir snjóflóði. Þessir varnargarðar geta beint snjóflóðunum í aðra átt og komið í veg fyrir að þau falli á þorp og hús í dalnum. Aðrir varnargarðar geta verið jarðvegsveggir sem eru tveggja metra breiðir og fimm metra háir. Þeir eru í laginu eins og vaff á hvolfi svo að þeir geta skipt snjóflóðinu í tvennt og ýtt snjónum til beggja hliða. Armarnir á varnargarðinum geta verið 90 til 120 metra langir og þeir geta verndað heilu bæina. En þegar mikilvægir þjóðvegir eða lestarspor í dölum eru í hættu er besta, og jafnframt dýrasta, vörnin sú að grafa göng eða reisa vegskála úr timbri, stáli eða steypu.

Önnur leið til að koma í veg fyrir snjóflóð er að brjóta upp snjóþekjur. Kanadíski herinn fer til dæmis milli bæja á hverjum vetri og skýtur sprengiefnum í snjóinn. Þannig verndar hann Trans-Kanada-þjóðveginn með því að brjóta upp snjóþekjuna áður en snjóflóð getur skollið á veginn. Þessi aðferð er einnig notuð í vissum mæli í Sviss þar sem sprengiefnum er skotið eða varpað úr þyrlum á hættulegar brekkur til að losa snjóinn.

Björgun úr snjóflóðum

Skíðamenn og göngugarpar eiga að bíða þangað til að búið er að kanna hvort brekkurnar séu öruggar. Aldrei ætti að hunsa viðvörunarmerki. Hafa ber hugfast að snjóflóð geta hrifið með sér jafnvel hina reyndustu skíðamenn. Ef maður lendir í snjóflóði er mikilvægt að missa ekki stjórn á sér. Sérfræðingar ráðleggja mönnum að hreyfa sig eins og þeir væru að synda því að þá eru meiri líkur á að þeir haldi sér nálægt yfirborðinu. Einnig getur verið gott að hafa aðra höndina eins hátt yfir höfðinu og hægt er. Þá gætu björgunarmenn átt auðveldara með að finna mann. Ráðlagt er að nota hina höndina til að halda fyrir munninn og nefið. Tölur sýna að aðeins helmingur þeirra sem lenda í snjóflóði lifir lengur en hálftíma í snjónum. Nú á dögum bera sumir skíðamenn á sér neyðarsenda. Þar sem hættan á snjóflóði er stöðugt til staðar nálægt háum fjöllum er nauðsynlegt að hafa hraðar hendur til að bjarga þeim sem lenda í þeim.

Öldum saman ræktuðu munkar í Ágústínusarreglunni hina þekktu Sánkti Bernarðshunda í svissnesku Ölpunum. Þessir hundar höfðu bæði þrek og þol til að ganga í djúpum snjó og standast frosthörkuna og kaldan vindinn. Þeir voru einnig ratvísir og gátu skynjað hljóð og hreyfingu sem maðurinn gat ekki. Þannig björguðu þeir hundruðum mannslífa jafnvel þótt þeir hafi ekki haft koníakspela um hálsinn í björgunarleiðöngrum eins og ætla mætti af mörgum myndum. Núna eru oftast notaðir þýskir fjárhundar í björgunarleiðangra en nokkrar aðrar tegundir hafa einnig verið þjálfaðar. Auk þess hafa rafeindatæki reynst góð hjálp og glöggir leitarmenn geta bjargað mannslífum. Það jafnast samt ekkert á við vel þjálfaða leitarhunda.

Eins og við höfum séð er það sem „flýgur vængjalaust, slær handalaust og sér augnalaust“ ljóslifandi dæmi um þann gríðarlega kraft sem finna má í náttúruöflunum. Við þurfum að vera á verði gagnvart „hvítum drekum“.

[Innskot á blaðsíðu 19]

Ef þú lendir í snjóflóði skaltu hreyfa þig eins og þú værir að synda.

[Mynd á blaðsíðu 18]

Myndir sýna oft Sánkti Bernarðshunda með koníakskút um hálsinn þó að þeir hafi raunverulega ekki haft þá með sér í björgunarleiðangrum.

[Mynd credit line á blaðsíðu 17]

AP Photo/Matt Hage