Misnotkun áfengis — að losna úr ánauðinni
Misnotkun áfengis — að losna úr ánauðinni
„Pabbi var alkóhólisti og ég fetaði í fótspor hans. Ég var farinn að drekka þegar ég var 12 ára og drakk orðið daglega um það leyti sem ég gifti mig. Ég varð ofbeldishneigður og oft þurfti lögreglan að koma fjölskyldunni til hjálpar. Heilsunni hrakaði. Ég fékk blæðandi magasár af völdum drykkjunnar og rétt lifði það af. Síðan fékk ég skorpulifur og þjáðist af blóðleysi. Ég gekk í sjálfshjálparhóp til að reyna að hætta en allt kom fyrir ekki. Mér fannst ég sitja fastur í gildru sem ég gat ekki losnað úr.“ — VÍCTOR, * ARGENTÍNU.
MARGAR sögur af svipuðu tagi hafa verið sagðar af fólki sem hefur lent í ánauð áfengis. Því finnst, rétt eins og Víctor, að það sitji fast í gildru og eigi sér ekki undankomu auðið. Er hægt að sigrast á áfengisvandamáli eða jafnvel fyrirbyggja það? Hvernig þá?
Að viðurkenna vandann
Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að sá sem á við áfengisvandamál að stríða og þeir sem standa næstir honum viðurkenni vandann. Sjálf áfengisfíknin er aðeins lítill hluti af margþættu vandamáli sem hefur þróast á löngum tíma, hugsanlega upp úr hófdrykkju. Þótt ótrúlegt kunni að virðast eru það ekki forfallnir drykkjumenn sem valda flestum slysum, ofbeldisverkum og félagslegum vandamálum sem stafa af áfengisneyslu. Í bæklingi frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni segir: „Besta leiðin til að draga úr öllum þeim þjóðfélagsvandamálum, sem rekja má til áfengis, er að draga úr neyslu þeirra sem nota áfengi í meðallagi í stað þess að einblína á ofdrykkjumenn.“ (Leturbreyting okkar.) Drekkurðu meira en heilbrigðisyfirvöld mæla með? Drekkurðu við aðstæður þar sem þú þarft að sýna fulla árvekni og skjót viðbrögð? Veldur áfengisneysla þín erfiðleikum í fjölskyldunni eða vinnunni? „Besta leiðin“ til að afstýra alvarlegum erfiðleikum síðar meir er sú að viðurkenna að áfengisneysla manns geti verið hættuleg og draga úr henni. Það er miklu erfiðara að gera breytingar eftir að maður er orðinn háður áfengi.
Afneitun er algeng meðal þeirra sem nota áfengi í óhófi. „Ég drekk svipað og allir aðrir,“ eða: „Ég get hætt þegar ég vil,“ segja þeir. „Þó að áfengið kostaði mig næstum lífið leit ég aldrei á mig sem fíkil þannig að ég gerði aldrei ráðstafanir til að hætta,“ segir Konstantin sem býr í Rússlandi. „Ég reyndi margsinnis
að hætta,“ segir Marek sem er búsettur í Póllandi, „en ég viðurkenndi bara ekki fyrir sjálfum mér að ég væri alkóhólisti. Ég gerði lítið úr áfengisvandamálinu.“Hvernig er hægt að fá mann til að viðurkenna að hann eigi við áfengisvandamál að stríða og fá hann til að gera ráðstafanir til að sigrast á því? Hann þarf í fyrsta lagi að horfast í augu við að erfiðleikar hans stafa af ofnotkun áfengis og átta sig á því að hann bætir lífsgæðin með því að hætta. Eins og segir í frönsku riti þarf hann að hætta að hugsa: „Ég drekk af því að konan fór frá mér og ég missti vinnuna,“ og hugsa í staðinn: „Konan fór frá mér og ég missti vinnuna af því að ég drekk.“ — La Revue du Praticien — Médecine Générale.
Ef þú ætlar að hjálpa einhverjum, sem er háður áfengi, að breyta hugsunarhætti sínum gætirðu reynt eftirfarandi: Hlustaðu vel og spyrðu einlægra spurninga sem hvetja hann til að tjá skoðanir sínar og tilfinningar opinskátt. Sýndu hluttekningu sem segir honum að þú skiljir hann, og hrósaðu honum fyrir minnstu framfarir sem hann sýnir. Vertu ekki dómharður og láttu ekkert í ljós sem gæti hindrað hann í að tjá sig opinskátt eða leita hjálpar. Það getur líka verið gagnlegt að fá hann til að skrifa niður tvo lista þar sem hann svarar spurningunum: Hvað gerist ef ég held áfram að drekka? Hvað gerist ef ég hætti?
Að leita hjálpar
Enginn er vonlaus eða glataður þótt hann fari að nota áfengi í óhófi. Sumum tekst jafnvel að losna úr ánauð áfengis af eigin rammleik en aðrir þurfa að fá aðstoð fagfólks til að hætta að drekka. * Sumum nægir að sækja göngudeild en aðrir þurfa að fara inn á meðferðarstofnun eða leggjast inn á spítala ef fráhvarfseinkennin eru alvarleg. Fyrstu líkamlegu fráhvarfseinkennin líða hjá á tveim til fimm dögum. Eftir það eru stundum gefin lyf til að draga úr lönguninni og hjálpa manneskjunni að halda áfengisbindindið.
Áfengismeðferð er þó engin trygging fyrir því að maður nái tökum á vandanum. Fólk læknast ekki af áfengisfíkn við það eitt að taka lyf og þau duga aðeins til skamms tíma. Alain, sem er búsettur í Frakklandi, fór nokkrum sinnum í áfengismeðferð. „Ég var ekki fyrr kominn af spítalanum en ég byrjaði að drekka á ný vegna þess að ég umgekkst gömlu drykkjufélagana. Sannleikurinn er sá að mig vantaði rétta tilefnið til að hætta að drekka,“ segir hann.
Að fylla upp í tómarúmið
Margir falla á ný vegna þess að það myndast tómarúm hjá þeim þegar þeir hætta að drekka, rétt eins og þeir hafi misst náinn vin. „Ég hugsaði ekki um annað en að drekka,“ segir Vasilíj sem er búsettur í Rússlandi. „Dagurinn var ónýtur ef hann leið án þess að ég drykki.“ Hjá þeim sem er háður áfengi er löngunin í áfengið öllu öðru yfirsterkari. „Ég hafði það eina markmið í lífinu að drekka og verða mér úti um peninga til að geta drukkið,“ segir Jerzy en hann er búsettur í Póllandi. Ljóst er að alkóhólisti, sem vill hætta að drekka, þarf að finna sér nýjan tilgang í lífinu til að geta verið bindindismaður.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur gefið út handbók handa þeim sem eru að reyna að breyta drykkjuvenjum sínum. Þar kemur fram að nauðsynlegt sé að gera eitthvað jákvætt og markvisst til að falla ekki aftur í sama farið. Trúariðkanir eru nefndar sem dæmi.
Trúariðkanir geta hjálpað fólki að losa sig úr þeim fjötrum sem áfengið hefur hneppt það í. Alain fór að kynna sér Biblíuna með hjálp votta Jehóva eftir að hafa setið í fangelsi í þriðja
sinn fyrir afbrot sem hann framdi undir áhrifum áfengis. „Biblíunámið gaf mér tilgang í lífinu og kraft til að standast löngunina,“ segir hann. „Málið snerist ekki aðeins um það að hætta heldur að þóknast Jehóva.“Afturkippur
Áfengisráðgjafar benda á að alkóhólisti á batavegi þurfi á stuðningi og hvatningu að halda. Margir hafa glatað bæði fjölskyldu og vinum vegna drykkjunnar. Einsemdin getur valdið þunglyndi og jafnvel leitt til sjálfsvígs. Áðurnefnd handbók ráðleggur þeim sem ætla að hjálpa manneskju að takast á við áfengisvandamál: „Reyndu að gagnrýna ekki þann sem þú ert að hjálpa, jafnvel þótt þú sért vonsvikinn yfir framkomu hans og þér gremjist hún. Mundu að það er ekki auðvelt að breyta venjum sínum. Það er óhjákvæmilegt að sumar vikur séu góðar og aðrar slæmar. Þú þarft að vera hvetjandi og uppörvandi, hvetja til hófdrykkju eða bindindis og hafa góðar hugmyndir á reiðum höndum.“
Hilario var búinn að drekka í næstum 30 ár. „Það var kærleikur og umhyggja vinanna í söfnuði Votta Jehóva sem hjálpaði mér,“ segir hann. „Ég féll margsinnis en þeir voru alltaf nærtækir til að hvetja mig og gefa mér tímabær biblíuleg ráð.“
Ef þú ert að berjast við að losna úr ánauð áfengis skaltu hafa hugfast að þú fellur líklega oftar en einu sinni. Líttu á það sem þátt í bataferlinu. Gefstu ekki upp. Skoðaðu hvað leiddi til þess að þú féllst og nýttu þér það síðan til að koma í veg fyrir að þú fallir á ný. Reyndu að koma auga á ákveðnar tilfinningar eða aðstæður sem kveiktu hjá þér löngun í áfengi. Var það leiði, depurð, einmanaleiki, rifrildi, álag eða þá viðburðir eða staðir þar sem aðrir drekka? Reyndu þá að forðast slíkt. „Mér lærðist að koma auga á og skilja tilfinningar sem gátu leitt til þess að ég drakk,“ segir Jerzy en það tók hann tvö ár að verða alger bindindismaður. „Núna forðast ég þær aðstæður sem vekja löngun hjá mér í áfengi. Ég forðast staði þar sem fólk hefur áfengi um hönd. Ég borða ekkert sem inniheldur alkóhól og ég forðast meira að segja snyrtivörur og lyf sem innihalda alkóhól. Ég horfi ekki á áfengisauglýsingar.“ Margir hafa komist að raun um að bænin getur veitt þeim „ofurmagn kraftarins“ og er lykilatriði til að sigrast á lönguninni í áfengi. — 2. Korintubréf 4:7; Filippíbréfið 4:6, 7.
Frelsi!
Það getur kostað stöðuga baráttu að losna úr ánauð áfengisfíknar en það er hægt. Öllum sem nefndir eru í þessari grein hefur tekist það. Heilsan hefur batnað hjá þeim, fjölskyldulífið er betra og þeim gengur betur á vinnumarkaðinum. „Nú hef ég það frelsi að drekka ekki,“ segir Alain. „Það bjargaði fjölskyldunni að ég skyldi kynnast Jehóva,“ segir Konstantin. „Núna hef ég markmið í lífinu. Hamingja mín er ekki háð áfengi.“ Victor segir: „Mér finnst ég frjáls maður. Ég hef endurheimt sæmd mína og hef jákvæða sjálfsmynd.“
Allir geta breytt sér til betri vegar, hvort sem notkunin er á því stigi að hún skapar slysahættu, neyslan er orðin skaðleg eða menn eru orðnir háðir áfengi. Hikaðu ekki við að gera nauðsynlegar breytingar ef þú ert farinn að ógna heilsu þinni og hamingju með áfengisneyslu. Það verður sjálfum þér til góðs og ástvinum þínum til heilla.
[Neðanmáls]
^ gr. 2 Sumum nöfnum er breytt.
^ gr. 10 Ýmsar meðferðarstofnanir og spítalar bjóða upp á áfengismeðferð. Vottar Jehóva mæla ekki sérstaklega með ákveðinni meðferð umfram aðra. Sá sem fer í meðferð þarf að gæta þess að dragast ekki inn í neitt sem stangast á við meginreglur Biblíunnar. En hver og einn verður að ákveða sjálfur hvers konar meðferð hann velur.
[Mynd á blaðsíðu 10]
Fyrsta skrefið er að viðurkenna vandann.
[Mynd á blaðsíðu 11]
Margir þurfa hjálp fagfólks til að losna úr ánauð áfengis.
[Mynd á blaðsíðu 12]
Bænin getur hjálpað.
[Mynd á blaðsíðu 12]
Þú getur öðlast styrk til að halda þig frá áfengi.